Stórfyrirtæki, lýðræði og beinar aðgerðir

1

Hlutverk stórfyrirtækja er alltaf að færa eigendum sínum aukinn auð og völd. Því stærri og umsvifameiri sem fyrirtæki verða því meiri áhersla verður á þetta. Sama á við um öll kerfi og stofnanir manna sem ætlað er að stýra samfélagi, því stærri sem þau verða, því meira snúast þau um að viðhalda sjálfum sér. Má vera að til séu stór fyrirtæki sem þetta á ekki við um en þau eru svo fá að þau ná ekki að hafa áhrif á valdaskipulag markaðarins.

2

Fyrsti stóri bílaframleiðandi heims, Henry Ford, vildi lækka bílaverð til neytenda og bæta kjör verkamanna þegar fyrirtæki hans fór að skila verulegum hagnaði. Meðeigendur hans drógu hann fyrir lög og dóm og rétturinn dæmdi þannig að hlutverk fyrirtækisins væri ekki að skila batnandi gengi til neytenda heldur til eigenda.

3

Fyrirtæki sem ætlað er að starfa sem þjónustufyrirtæki lenda í svipuðu ferli eftir því sem þau festa sig í sessi og stækka valdsvið sitt. Hér má nefna sem dæmi Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkuveitu Suðurnesja. Stjórnendur þeirra hafa átt allan sinn feril innan valdapýramída þar sem allt má gera til að komast hærra. Því nær sem maður kemst þeim sem ofar sitja því betra. Þessvegna gera stjórnendur orkufyrirtækjanna hvað sem er til að hafa yfirmenn í áliðnaði góða. Völd álkónganna í heimsmarkaðnum eru meiri, þeim ber að lúta. Að fá að vera undir þeim stærstu finnst íslenskum smákóngum vera heiður.

4

Lýðræðiskerfið ræður ekki við valdapýramída efnahagskerfisins. Kjörnir fulltrúar eiga stöðu sína undir góðri markaðssetningu sem er kostuð af aðilum sem eru sterkir innan efnahagskerfisins. Stór verktakafyrirtæki eru dæmi um þrýstihóp sem er með fólk í áhrifastöðum í rekstri. Stjórnmálaflokkum á Íslandi ber engin skylda til að gefa upp hvaðan fjárstyrkur þeirra kemur og virðing sumra þeirra fyrir lýðræðinu er ekki meiri en svo að þeir gera það ekki heldur.
Ef lýðræðið var einhvern tímann einhvers virði þá eru framabrautir (careers) innan stjórnmála mesta mein þess.

5

Sá menningarhópur sem byggir Ísland lifði í 600 ár sem nýlenda undir erlendum konungi. Nú í rúm 60 ár við fulltrúalýðræði. Sá hugsunarháttur að það sé hlutverk einhverra annara að sjá um að hlutirnir gangi vel fyrir sig hefur náð að festa sig í sessi, rétt eins og meðal ákveðinna kynslóða innan þeirra menningarhópa sem lifðu í áratugi undir alræðisstjórn „kommúnista“. Því er sú hugsun ósjálfráð að einhverjir taki að sér félagslega þjónustu, pólitík og jafnvel mótmæli.
Þau sem gagnrýna kerfið, beina rökum sínum og tilfinningum að ríkisstjórnum og alþingi en gagnrýnin skilar engu því þessar stofnanir eru hluti af spilltu lýðræðiskerfinu og þar með umkomulausar gagnvart efnahagslegum öflum. Fyrir hugsjónafólk er bæði þreytandi og  niðurlægjandi að þurfa að biðja alþingi og ríkisstjórn að láta af stefnum sem reknar eru af efnahagslega sterkum þrýstihópum. En völd þeirra sem biðlað er til liggja í raun annarsstaðar.
Þær lagabreytingar sem lýðræðislegar stofnanir koma í gegn eru aðeins þær sem trufla ekki valdajafnvægið og þær sem koma sér betur fyrir ýmsan rekstur. Þannig verða til lög sem draga úr réttindum launþega og lög sem breyta friðlýstum svæðum í iðnaðarhverfi.

Þar sem lýðræðið hættir að virka þarf beinar aðgerðir til að koma málefnum áfram.

6

Þeir einstaklingar og hópar sem ekki vilja gefast upp við þær vonlausu aðstæður sem nútímalýðræði getur boðið uppá, grípa til ýmissa aðgerða sem flokkast undir mótmæli, borgaralega óhlýðni og beinar aðgerðir. Í gegnum pólitíska sögu mannkyns hefur þetta þrennt verið virkt verkfæri þeirra sem barist hafa gegn óréttlæti en hafa ekki haft verkfæri valdhafa á hendi sér. Bætt kjör verkamanna og minnihlutahópa, réttindi kvenna, kosningaréttur og lýðræðisfyrirkomulagið sjálft komust á með þessum verkfærum fólksins; mótmælum, borgaralegri óhlýðni og beinum aðgerðum af ýmsum toga.

Andspyrnuhreyfingar ýmissa landa gegn hernámi nasista á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar beittu sér með beinum aðgerðum. Ghandi og fylgismenn hans frelsuðu allt Indland undan yfirráðum Breta með borgaralegri óhlýðni. Þegar 60 bændur tóku sig saman og eyðilögðu stíflu í Laxá árið 1970 var það dæmi um vel heppnaða beina aðgerð. Eins atvikið þegar þrír anarkistar ruddust inn á ráðstefnu álframleiðenda á Hótel Nordica og slettu grænu skyri yfir ráðstefnugesti. Aðgerðin gaf skýr skilaboð um að álframleiðendur væru búnir að ganga fram af gestrisni hins almenna Íslendings og að þeir hefðu engan rétt til að djöflast í náttúru og efnahag landsins. Um leið vakti hún aftur upp spurninguna um réttmæti stóriðjustefnu valdhafa.

Mótmælaaðgerðir geta því verið af ýmsum toga. Stundum löglegar, stundum ekki. Þær geta falið í sér að vekja athygli á ákveðnu málefni sem búið er að svæfa, þær geta truflað framgang mála og verkefna eða stöðvað þau með skemmdarverkum.

Beinar aðgerðir skyldi því aldrei leggja í nema að vandlega íhuguðu máli og einungis að allir þátttakendur séu reiðubúnir að taka afleiðingunum.

Þessi texti er hluti af bók sem unnið er að undir vinnuheitinu „Borgaraleg óhlýðni og beinar aðgerðir“

Sigurður Harðarson (punknursester (at) gmail.com)

Metum starfsreynslu að verðleikum

Kæru lesendur.

Er ekki komin tími á að meta starfsreynslu að verðleikum, sama á hvaða vettvangi sem er.

Hvað erum við sjúkraliðar hræddir við?  Hættum þessum leiðindaskrifum og tökum vel á móti fólki sem vill mennta sig.  Allir “brúarnemar” hafa áralanga starfsreynslu að baki, það er útilokað að þeir verði verri starfskraftar en aðrir sem mæta til leiks með aðeins sitt skólagengna vinnustaðanám að baki.  Við starfandi sjúkraliðar sem kláruðum okkar nám á mjög svo mislöngum tíma eigum að taka vel á móti nýjum starfsfélögum.

Mikið hefði ég samt þegið að mín starfsreynsla hefði verið metin þegar ég fór í sjúkraliðanám á sínum tíma. En það var ekki þá, en það er í dag – og ekkert er frá mér tekið.

Það að meta starfsreynslu, sama á hvaða vettvangi það er, finnst mér frábær menntastefna. Ég get ekki annað en treyst menntamálaráðherrum hverju sinni til að vera starfi sínu vaxnir.

Hvað með konuna sem er búinn að vinna í 10-15 ár í leikskóla, fer svo í nám í leikskólakennarann væri ekki rétt að meta hennar starfsreynslu sem vinnustaðanám?

Hvernig væri ef sjúkraliðinn með a.m.k. 7 ára starfsreynslu vildi fara í hjúkrunarnám. Væri ekki frábært ef sú reynsla yrði metin til eininga?  Við sjúkraliðar eigum að berjast fyrir því að okkar reynsla eftir nám sé metin að verðleikum, frekar en að berjast gegn því að starfsreynsla annarra sé metin í dag, þó það hafi ekki verið þegar við kláruðum okkar nám.

Fögnum framförum og hvetjum fólk til náms.  Það skyldi þó aldrei verða að Sjúkraliðafélag Íslands yrði einn af þeim frumkvöðlum sem styddu það, að loksins yrði verkleg reynsla og hagnýt fagtengd námskeið metin að verðleikum?

Með vinsemd og virðingu

Kristín Aradóttir sjúkraliði.

Rangar trúfélagaskráningar

Eftirfarandi fréttatilkynning barst frá Vantrú í gær.

Á morgun 1. des mun tölvukerfi Þjóðskrár fara yfir trúfélagaskráningar Íslendinga og út frá þeim niðurstöðum verður sóknargjöldum landsmanna skipt milli trúfélaga og Háskólasjóðs næsta árið.

Á þessu ári hefur félagið Vantrú aðstoðað þrjúhundruð þrjátíu og einn einstakling við að leiðrétta trúfélagsskráningu sína. Að minnsta kosti þrjúhundruð þeirra hafa skráð sig utan trúfélaga. Þannig hefur Vantrú aukið ráðstöfunartekjur Háskólasjóðs, sem eru mikilvægar fyrir Háskóla Íslands, um rúmlega tvær milljónir.

Síðustu vikur hafa margir haft samband við okkur og sagt að þeir hafi verið ranglega skráðir í Þjóðkirkjuna. Annað hvort voru þeir alla tíð skráðir utan trúfélaga eða höfðu sjálfir skráð sig úr Þjóðkirkjunni á síðustu árum. Villan í skráningarkerfinu hjá Þjóðskrá virðist vera einu trúfélagi afskaplega hagstæð. Það hlýtur að vera mjög alvarlegt mál þegar gölluð gögn eru notuð við úthlutun hárra fjárhæða frá skattborgurum. Við minnum á að í 64. grein Stjórnarskrárinnar segir: “Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.”

Upplýsingar um skráningu einstaklinga í trúfélag eru ekki aðgengilegar. Einstaklingar þurfa að hafa samband við Þjóðskrá og varla er hægt að ætlast til þess að fólk geri það einu sinni á ári. Vantrú leggur til að þessar upplýsingar komi fram á skattframtali eins og eðlilegt er þar sem þessar upplýsingar hafa áhrif á hvernig tekjuskatti er úthlutað. Einnig væri að okkar mati sjálfsagt að einstaklingar geti breytt þessari skráningu á skattframtali.

Vantrú getur komið fjölmiðlum í samband við einstaklinga sem hafa uppgötvað síðustu daga að skráning þeirra er röng. Við teljum að þetta sé mikilvægt mál og hvetjum fjölmiðla til að gefa því gaum.

Vantrú var stofnað árið 2003. Félagið berst gegn hindurvitnum af hverju tagi og rekur vefinn http://www.vantru.is.

F.h. Vantrúar
Matthías Ásgeirsson

Sjónarmið frá sjúkraliða

Egginni hefur borist aðsend grein frá sjúkraliða sem telur réttu máli hallað og vill taka upp hanskann fyrir Sjúkraliðafélag Íslands.

Ég er svo ósátt að það sé talað um að sjúkraliðanámið hafi verið stytt úr 120 einingum í 60 einingar með brúnni.  Því inn í þessum 120 einingum er 25 eininga almennt bóknám framhaldsskóla.  Sjálft fagnám sjúkraliðabrautar er því 95 einingar.

Sjúkraliðabrúin er búin að vera í mörg ár í farvatninu.  En þegar hún verður að veruleika, finnst sjúkraliðum að sér vegið og hafa þeir talað hæst sem tóku námið “í den” á nokkrum mánuðum.

Það er enn mikill misskilningur í gangi varðandi “brúna” en sem betur fer virðast öldurnar vera að lægja eftir að Sjúkraliðafélagið hélt góða kynningu fyrir sína félagsmenn og þeir gátu fengið aðra sýn á málið.  Eins og kemur fram á heimasíðu Sjúkraliðafélagsins spurðu margir fundarmenn hvar þeir gætu strokað sig út af umræddum undirskriftarlistum.   En þessir mótmælalistar mættu “brúarnemum” í vinnustaðanámi og var það mjög siðlaust og ekki glæsilegar móttökur hjá fagfólki.

Vegna þess hve mjög margir skilja ekki mismun milli brúar og brautar, en heyra bara talað um að námið hafi verið stytt um helming, langar mig ef hægt er að fá meðfylgjandi töflu ásamt útskýringum birta, ef hægt er.

Sjúkraliðabraut Sjúkraliðabrú
Inntökuskilyrði Skyldunám grunnskóla
  • 23 ára lágmarksaldur.
  • Vera starfandi við umönnun og hafa jafnframt að lágmarki 5 ára (260 vikna) starfsreynslu við umönnun sjúkra, aldraðra eða fatlaðra.
  • Starfstengd námskeið sem jafngilda 12 einingum.
  • Meðmæli frá vinnuveitanda.
  • Vinnustaðanám á stofnunum 15 vikur (15 einingar) 8 vikur (8 einingar) + mat
    Verknám 3 einingar 3 einingar
    Starfsþjálfun 16 vikur (16 einingar) Mat vegna 260 vikna fyrri starfsþjálfunar, auk þess að vera starfandi samhliða námi.
    Bóklegar faggreinar 61 eining 49 ein. + 12 ein. inntökuskilyrði = 61 ein.
    Alm. bókl. greinar 25 einingar 0 einingar
    Samtals 120 einingar 72 einingar

    Niðurstaða:

    Sjúkraliði af “brúnni” kemur til starfa með 61 eininga sérgreinanám að baki.
    Sjúkraliði af “brautinni” kemur til starfa með 61 eininga sérgreinanám að baki.

    Sjúkraliði af “brúnni” mun hafa að námi loknu lágmark 364 vikna vinnustaða/starfsþjálfun.
    Sjúkraliði af “brautinni” mun hafa að námi loknu 31 vikna vinnustaða/starfsþjálfun.

    Samkvæmt þessari niðurstöðu er ekki hægt að segja að verið sé að létta og/eða stytta sjálft sjúkraliðanámið með “brúnni”.

    Allt  það fjaðrafok sem verið hefur að undanförnu snýst því líklega mest um það að nemar á “brúnni” þurfa ekki að taka 25 einingar í almennum greinum (stærðfræði, tungumál, íþróttir, lífsleikni).   Það virðist alveg hafa gleymst í öllu skrifræðinu um brúna, að margir brúarnemar eru með stúdentspróf eða aðra ágætis menntun að baki.

    Með vinsemd

    (nafni haldið leyndu að ósk sendanda)

    Sjúkraliðar: Línur að skýrast – eða ekki?

    Eins og fram kom í gær, þá virðist Sjúkraliðafélag Íslands vera á öðrum endanum af deilum vegna sjúkraliðabrúarinnar svokölluðu. Stjórn Sjúkraliðafélagsins reynir að lægja öldurnar með vinnustaðafundum, og skýra sín sjónarmið, en ósáttir sjúkraliðar halda úti heimasíðunni afl.blog.is og tjá þungan hug sinn. Á þeirri síðu segir í færslu frá gærdeginum að þeir sem safna undirskriftum gegn sjúkraliðabrúnni hafi fengið talsverðan fjölda undirskrifta jafnvel þar sem nýbúið var að halda vinnustaðafundi.

    Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir ósættið vera ástæðulaust, enda hafi sjúkraliðabrúin verið til umræðu lengi — umræðuna megi rekja ein 12 ár aftur í tímann. Enn fremur sé það misskilningur að verið sé að gjaldfella námið um helming, eiginleg sjúkraliðabraut í framhaldsskóla sé í raun 70 einingar, annað sé grunnur að stúdentsprófi. Skerðingin sé því um 10 einingar en ekki 60. Að metinni verklegri reynslu og hagnýtum námskeiðum, sé skerðingin óveruleg.

    Á heimasíðu Sjúkraliðafélags Íslands má sjá glærur þar sem málin eru skýrð nánar: „Kynning og ályktanir um að gefa ófaglærðu stafsfólki kost á réttindanámi“ og „Sjúkraliðabrautin“ — sjálfsagt er að skoða þessar glærur, vilji fólk verða nokkurs vísari. Þar er einnig frétt, „Fundað með sjúkraliðum“ — þar sem sagt er m.a. að sjúkraliðar hafi „komið að máli við forystuna með áhyggjur um að verið sé að ganga að samstöðu stéttarinnar dauðri, með þeim skemmdaverkum sem verið er að vinna. Þeir líkja því helst við trúarofstæki. Hringt er á skrifstofuna og kvartað undan því að ofstopinn sé svo mikill að sjúkraliðar séu truflaðir við vinnu sína þegar ruðst sé inn á vinnustaði með umræðuna og undirskriftarlista.“

    Þau sem skrifa á afl.blog.is svara þessum ásökunum og segjast höfð fyrir rangri sök. „Hvergi var gengið eftir fólki með lista og sagt skrifið undir, hins vegar sögðum við okkar meiningu og hvað okkur fannst“ skrifar nafnlaus, og kveðst ekki harma „óupplýsta umræðu“ þar sem hún verði örugglega til góðs á endanum. Undirskriftalistar hafi legið frammi að jafnaði í 2 vikur, og undirskriftir geti því varla talist vanhugsaðar.“

    Eggin.is mun áfram fylgja þessu máli eftir, og sem fyrr bjóðum við fólki að senda okkur greinar eða aðsend bréf til birtingar. Netfangið er Eggin.ritstjorn@gmail.com og við gætum nafnleyndar ef þess er óskað.

    Fréttatilkynning vegna komu Ziad Amro til Íslands

    – Opinn fundur á Hótel Borg miðvikudaginn 29. nóvember kl. 20.00

    Ziad Amro, félagsráðgjafi og frumkvöðull í réttindabaráttu fatlaðra í Palestínu, er staddur hér á landi í boði Félagsins Ísland-Palestína, Blindrafélagsins og Öryrkjabandlags Íslands. Hann verður aðalræðumaður á opnum fundi sem Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir á alþjóðlegum samstöðudegi Sameinuðu þjóðanna með réttindum palestínsku þjóðarinnar á Hótel Borg miðvikudaginn 29. nóvember. Þar mun Ziad fjalla um áhrif hernáms á líf þjóðar, með sérstakri áherslu á fólk með fötlun.

    Ziad Amro er 41 árs félagsráðgjafi að mennt, fæddur í Hebron en búsettur í Ramallah á Vesturbakkanum. Hann er helsti frumkvöðull í málefnum fatlaðra í Palestínu; stofnandi, fyrrum framkvæmdastjóri og síðar formaður Öryrkjabandalags Palestínu og hefur lengi verið virkur lengi í mannréttindabaráttu fatlaðra á herteknu svæðunum. Hann er sjálfur blindur og er forystumaður í samtökum blindra. Ziad hefur verið fulltrúi Palestínu í nefnd Sameinuðu þjóðanna í undirbúningi Sáttmálans um réttindi og reisn fatlaðra, sem samþykktur var í september síðastliðnum. Hann er hér á landi til að hitta að máli vini og stuðningsfólk fatlaðra í Palestínu og til að greina frá ástandinu í sínu heimalandi. Þá hittir hann hér að máli samstarfsfólk í sviði félagsráðgjafar og fötlunarfræða.

    Ziad Amro heldur þrenna fyrirlestra meðan á dvöl hans stendur. Sá fyrsti er á málþingi í Háskóla Íslands þriðjudaginn 28. nóvember kl 17:30, á vegum Félagráðgjafaskorar HÍ og Rannsóknarseturs um barna- og fjölskylduvernd þar sem Ziad mun fjalla um starf félagsráðgjafa með fötluðum í Palestínu og starf hans sem formanns Öryrkjabandalagsins þar í landi. Þá mun Ziad vera aðalræðumaður á opnum fundi á Hótel Borg miðvikudagskvöld 29. nóvember, sem er alþjóðlegur samstöðudagur með palestínsku þjóðinni. Þriðji fyrirlesturinn er á vegum Blindrafélagsins og Öryrkjabandlags Íslands og er haldinn í Hamrahlíð 17 á fimmtudag kl 17:30. Þar mun hann fjalla um endurhæfingu og heilbrigðisþjónustu í Palestínu og stöðu fólks með fötlun.

    Samstaða með Palestínu – Opinn fundur á Hótel Borg
    Ziad Amro er aðalræðumaður á opnum fundi sem Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir miðvikudaginn 29. nóvember á Hótel Borg. Fundurinn er haldin á árlegum alþjóðlegum samstöðudegi Sameinðu þjóðanna með réttindum palestínsku þjóðarinnar, sem jafnframt er afmælisdegur félagsins sem stofnað var á þessum degi árið 1987. Þar mun Ziad fjalla um áhrif hernáms á líf þjóðar, með sérstakri áherslu á fólk með fötlun. Balzamersveitin Bardukha mun þar einnig leika nokkur lög af nýútkominni plötu.

    Balzamertónlist Bardukha á rætur sínar að rekja til austur-evrópskrar, arabískrar og persneskrar þjóðlagahefðar auk sígaunatónlistar. Sveitin hefur haldið nokkra tónleika síðustu misserin og komið fram bæði í sjónvarpi og útvarpi. Sveitin er skipuð Hjörleifi Valssyni, harmonikkuleikaranum Ástvaldi Traustasyni, kontrabassaleikaranum Birgi Bragasyni og arabíska handtrommuleikaranum S.G. (Steingrímur Guðmundsson). Húsið opnar klukkan 20:00. Allir velkomnir!

    Félagið Ísland-Palestína

    Sjúkraliðafélag Íslands skelfur

    Það er skortur á sjúkraliðum. Stéttin hefur háan meðalaldur, það eru margir á leið á eftirlaun og endurnýjunin er hæg. Til þess að fjölga faglærðum sjúkraliðum ákvað menntamálaráðuneytið að bjóða upp á svokallaða sjúkraliðabrú (sjá frétt á heimasíðu SLFÍ 9. maí sl.). Námið er 60 einingar, fer fram í Fjölbrautaskólanum í Ármúla, og ófaglærðu heilbrigðisstarfsfólki til boða ef það uppfyllir ákveðin skilyrði.

    Ekki var öllum jafnskemmt. Það tók að bera á undirskriftasöfnunum gegn þessari nýju tilhögun. Þann 9. nóvember sl. sá Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður félagsins, ástæðu til að senda trúnaðarmönnum ábendingu um að ef þeir söfnuðu undirskriftum, þá skyldu þeir gera það sem einstaklingar en ekki sem trúnaðarmenn. Stjórn félagsins samþykkti ennfremur ályktun þann 17. nóvember sl. þar sem m.a. segir:

    „Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands harmar þá óupplýstu umræðu og undirskriftir sem gengið hafa á vinnustöðum sjúkraliða síðustu vikur um nám á sjúkraliðabrú, sem hófst á haustönninni“ — og einnig segir í ályktuninni: „Ein þeirra leiða sem þeim er málið varðar: menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og síðast en ekki síst fulltrúaþingi félagsins, fannst áhugaverð, var að gefa starfsmönnum sem um árabil hafa unnið við aðhlynningu og hjúkrun kost á að afla sér starfsréttinda með aukinni menntun. Menntun sem byggði á reynslu þeirra, þroska og fyrri störfum.“

    Í ályktuninni segir: „Námsskrá menntamálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að í engu sé slakað á kröfum í faggreinum.“ En hvernig er hægt að kalla það annað en að slakað sé á kröfum, að minnka námið úr 120 einingum í 60 einingar? Er það ekki tilslökun, að lækka kröfurnar um helming? Það virðist enginn vera ósammála því að það vanti fleiri sjúkraliða til starfa, en að aðsókn ungs vinnandi fólks í stéttina sé lítil. Augljóslega er þetta vandamál. Hvernig verður fleira fólk laðað til þess að læra til sjúkraliða með bestum hætti? Með því að gera námið auðveldara? Eða kannski með því að hækka launin? Nú spyr ég: Hvor þeirra kosta hentar hverjum best? Gagnast það vinnuveitandanum að hækka launin? Gagnast það starfandi sjúkraliðum að minnka kröfurnar sem gerðar eru til nýrra sjúkraliða? Er nema von að sumir sjúkraliðar spyrji í hvaða liði stjórn félagsins er?

    Ekki er öllum skemmt. Sá sem kallar sig einfaldlega „sjúkraliða“ hefur stofnað vefinn afl.blog.is, þar sem sjúkraliðar rekja raunir sínar, flestir í skjóli nafnleyndar. Ég hvet fólk til að skoða þessi skrif, fólki er heitt í hamsi og ekki að ástæðulausu. Þar segir meðal annars:

    „Kristín formaður hefur sagt að fyrirmynd að brúarnámi sé til staðar á hinum norðurlöndunum þar sem þær hafi jafnframt aukið starfsvið þrátt fyrir brúarnámið. Það sem þarf að nefna í sömu andrá er að á hinum norðurlöndunum eru sjúkraliðar almennt mun meira metnir en hér á landi sem kemur fram í því að á hinum norðurlöndunum framkvæma sjúkraliðar sum þau verk sem hjúkrunarfræðingar eru að sinna hér á landi. Á Íslandi höfum við aðra sögu að segja því barátta okkar fyrir viðurkenningu á því að nám okkar sé fullgilt hefur tekið sinn tíma og er ekki lokið enn. Ef við værum í þeirri sterku stöðu sem kollegar okkar á norðurlöndum eru í þá væru þessi rök félagsins trúverðugri. Eins og staðan er í dag eru félagsmenn sjúkraliðafélagsins langt frá því að komst á þann stað m.t.t. ábyrgðar og verksviðs sem þeir sjúkraliðar eru á sem starfa á hinum norðurlöndunum.  Staða okkar sjúkraliða í dag er þannig að árið 2003 gaf þáverandi formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga Herdís Sveinsdóttir út opinbera yfirlýsingu þess efnis að við sjúkraliðar værum ekki nógu menntuð stétt til geta talist í hóp fagmenntaðra heilbrigðisstétta og skilgreindir sem slíkir. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga birti þetta álit á heimasíðu félagsins þann 11.04.2003 ásamt því að senda það til heilbrigðis og tryggingamálaráðuneytisins. Einnig hefur Landlæknisembættið staðið og stendur enn í vegi fyrir því að sjúkraliðar með sértækt framhaldsnám í hjúkrun aldraðra fái að vinna þau verk sem þeir eiga að hafa menntun til samkvæmt námskrá menntamálaráðuneytisins. Félagið þarf að vinna að því að styrkja okkar stöðu og breyta þessu en ekki að minnka kröfurnar svo líkurnar á því að breyta þessu minnki enn frekar.“

    Ekki verður séð að það sé stétt sjúkraliða á neinn hátt til framdráttar að hún veiki vígstöðu sína með því að fallast á minni kröfur. Í ályktun stjórnar félagsins segir að „Það er sannfæring félagsstjórnar Sjúkraliðafélags Íslands að með þeim liðsauka sem liggur í brúarförunum eigi sjúkraliðastéttin eftir að eflast.“ Enginn held ég að efist um heilindi þeirra sem öðlast sjúkraliðaréttindi í gegn um sjúkraliðabrú. Það er ekki við þá að sakast. En hvernig skyldi Sjúkraliðafélag Íslands ætla að haga kröfum sínum í næstu kjarasamningum ef minni kröfur eru gerðar en áður?

    Heilbrigðiskerfið stríðir við þráláta manneklu. Ástæðan fyrir henni er ekki sú að fólk vilji ekki sinna störfum í heilbrigðiskerfinu í sjálfu sér, heldur að þau störf eru einfaldlega of lítils metin í samfélaginu, launin eru of lág. Ef launin væru hækkuð yrði manneklan fljót að leysast. Ef laun sjúkraliða væru hærri mundu fleiri sjá ástæðu til að fara í sjúkraliðanám með óbreyttum kröfum.

    Sjúkraliðum býðst að leggja orð í belg á afl.blog.is og segja hvað þeim býr í brjósti með því að senda tölvupóst á sjukralidi@hotmail.com. Eggin.is mun fylgja málinu eftir, báðum hliðum þess, og birta aðsendar greinar um það ef því er að skipta. Netfang ritstjórnar er Eggin.ritstjorn@gmail.com og þeir sem þess æskja njóta nafnleyndar.

    Formenn BSRB, BHM og KÍ óska eftir viðræðum við fjármálaráðherra um lífeyrismál

    Formenn allra heildarsamtaka opinberra starfsmanna, BSRB, BHM og KÍ, hafa ritað fjármálaráðherra bréf og óskað eftir viðræðum um lífeyrisréttindi starfsfólks í stofnunum sem gerðar eru að hlutafélögum. Nýráðnu starfsfólki hefur jafnan verið meinaður aðgangur að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins enda þótt lög og samþykktir heimili annað eigi viðkomandi starfsmenn aðild að heildarsamtökum opinberra starfsmanna.

    Þessi frétt er orðrétt af heimasíðu BSRB.

    Unnið til fátæktar

    Stolt er merkilegt fyrirbrigði. Það getur verið alls ótengt því hvort tilefni þess sé Dæmigerður Íslendingureitthvað sem einhver getur verið hreykinn af. Stolt getur verið til góðs, en það getur um leið valdið virðingarleysi gagnvart öðrum, búið til órökrétt dramb og, það sem e.t.v. er alvarlegast, það getur komið í veg fyrir að menn taki framförum með því að vinna í málum sem eru ekki í réttum farvegi.

    Þeir eru til dæmis margir sem eru stoltir af því að þeir vinna mikið.

    Continue reading

    Heilsulindin Ísland EÐA Állandið Ísland?

    Á síðustu misserum hafa Íslendingar verið að færa í kvíarnar og skapa sér alþjóðlegt orðspor. Núna frekar en nokkurn tíma áður er því vert að landinn spyrji sig hvernig Ísland við viljum vera gagnvart umheiminum og hvað við viljum að sé okkar aðalsmerki. Staðreyndin er sú að um 95% ferðamanna koma hingað til að sjá og upplifa náttúruna og Ísland hefur á sér orð fyrir að vera hreint, fagurt, stórbrotið og einstakt land.

    Nú hafa nokkrir listamenn farið utan og gert garðinn frægan, sem einnig hefur skapað okkur það orðspor að héðan komi mikið hæfileikafólk á listasviðinu. Aðrir hafa fjárfest all verulega í erlendum fyrirtækjum og verslunarkeðjum og hefur það skapað bæði gott og líka misjafnt orðspor. Það sem ríkisstjórnin hefur hins vegar lagt áherslu á síðari ár, er að auglýsa landið okkar erlendis sem orkuauðlind. Auglýst er að hér búi fólk með hátt menntunarstig sem sé sjaldan frá vinnu og er ódýrara vinnuafl en gengur og gerist í nágrannalöndunum (sjá bæklinginn „Cheap energy prices“). Ríkisstjórnin hefur lagt sérstaka áherslu á að kynna þessa mynd af Íslandi fyrir álfyrirtækjum út í hinum stóra heimi.

    Að mínu mati væri hægt að standa að landkynningu á mun uppbyggilegri hátt en ríkisstjórnin hefur gert, sem þarf ekki að ganga út á að fórna náttúrunni okkar sem við höfum fengið að láni hjá afkomendum okkar. Ef haldið verður áfram á álbrautinni verður landið einfaldlega ekki eins hreint og það áður var og verðum við að gera okkur grein fyrir fórnarkostnaði sem í því felst.

    Markaðsetning – landkynning
    Ég tel að hægt sé að markaðsetja Ísland sem hreina og fagra Heilsulind. Það er vel hægt að afla þjóðinni tekna og starfa á annan hátt en með áli. Þannig myndu miklu meiri tekjur haldast innan íslenska hagkerfisins ef sérfræðingar á sviði líf- og heilsuvísinda myndu taka sig saman og hér yrði stuðlað að Heilsulindum víða um landið. Heilsulindin Ísland gengur í mínum huga út á það að hingað streymi fólk í stríðum straumum til að efla heilsu sína eða koma í einhvers konar endurhæfingu. Það gæti átt við fólk sem er að berjast við krabbamein, offitu, ýmsa sjúkdóma eða fíknir, nú eða bara jafna sig eftir veikindi í snertingu við náttúruna, hreint loft og heilnæmt lífrænt ræktað fæði. Í snertingu við náttúruna með útsýni upp í stjörnubjartan himinn með norðurljósum á veturna. Einnig væri hægt að bjóða upp á sundlaugaræfingar og afslöppun í heitum pottum, sem þekkjast varla erlendis, nudd, jóga og heilsutengd námskeið ýmis konar, til dæmis reiðnámskeið, skíðanámskeið, hollustu-matreiðslunámskeið, næringarfræði, berjatínslu og fjallgöngur á sumrin. Allt náttúrulegt og heilnæmt.

    Stór markaður
    Á síðustu árum og áratugum hafa vísindamenn verið að komast að því að breytingar á fæðu og mataræði í hinum vestræna heimi eru farnar að valda veikindum og heilsumissi. Mikið hefur breyst til hins verra í átt að óhollustu og ofunnum óheilnæmum matvælum fullum af litar- rotvarnar- og aukefnum alls konar sem gerir það að verkum að fólk verður í æ meiri mæli fyrir heilsumissi tengdum mataræði og venjum. Einnig ver fólk alltof miklum tíma innanhúss og oft í óheilnæmu og jafnvel eitruðu andrúmslofti sem líka veikir það. Að ekki sé minnst á þær fíknir sem fólk er að etja við um allan heim á sviði reykinga, áfengis- og vímuefnamisnotkunar og ofáts. Á meðan lyfjanotkun eykst mjög mikið ár frá ári og kostar ríkissjóð stórar peningaupphæðir eru ýmsir vísindamenn úti í heimi að komast að því að ofnotkun lyfja er ekki vænleg leið til varanlegs árangurs. Dr. Randolph er einn af þeim sem áratugum saman safnaði upplýsingum um sjúklinga sína og komst að þeirri niðurstöðu að yfirleitt var um að ræða áunna sjúkdóma tilkomna vegna mataræðis og lífsvenja. Dr. Mercola og Dr. Shoemaker eru bandarískir læknar sem hafa báðir talað um að inniloft í híbýlum og á vinnustöðum orsaki um helming heilsutengdra vandamála hjá fólki. Dr. Breggin er annar sem hefur rannsakað notkun þunglyndis- og ofvirknilyfja og hefur varað við ofnotkun þeirra í mörg ár. Bandaríska heilbrigðisstofnunin FDA hefur nú loksins gefið út aðvaranir við ofnotkun slíkra lyfja. Æ fleiri læknar tala fyrir því að nota náttúrulegar leiðir til lækninga og telja það skila mun betri árangri til lengdar fyrir flest fólk að breyta mataræði og hreyfingu en að stuðla að meiri lyfjanotkun.

    Mennta- og heilbrigðiskerfið tekur þátt í uppbyggingunni
    Ég sé fyrir mér að hægt væri að leggja ríka áherslu á heilsutengd fræði innan Háskóla Íslands og því væri hægt að mynda þverfaglegt teymi sérfræðinga sem tækju á heildrænni heilsu fólks. Þar væru líffræðingar, lífefnafræðingar, næringarfræðingar, náttúrulækningar ýmis konar, sálfræðingar og hefðbundnir læknar í samvinnu ýmis önnur heilsutengd meðferðarúrræði. Heilsulindirnar yrðu síðan ávallt staðsettar þannig að þær gætu verið með tengingu við náttúruna og útiveru þannig að fólkið hefði aðgang að heilnæmri náttúru. Reyndar sé ég líka fyrir mér allt heilbrigðiskerfi okkar íslendinga á þennan hátt. Heildrænt heilbrigðiskerfi þar sem fólk hefur aðgang að sérþekkingu á sviði heilsu og lífvísinda samhliða hinni ungu, en ekki svo mjög hefðbundnu leið, sem farin hefur verið á sviði læknavísinda og lyfjagjafar. Ég tel að fólk eigi að hafa val um annars konar ráðgjöf á sviði heilsuvísinda en eingöngu læknavísindin.

    Það hljómar meira að segja ofboðslega vel og miklu betur en „Állandið Ísland“  eða „Orkulindin Ísland“ að segja „Heilsulindin Ísland“. Með þessari leið þarf heldur ekki að fórna náttúrunni okkar, heldur getum við og afkomendur okkar notið hennar og virt um komandi framtíð.

    Andrea Ólafsdóttir býður sig fram í 2.-4. sæti í prófkjöri VG á höfuðborgarsvæðinu.
    Kynnið ykkur stefnumálin á heimasíðu
    www.andreaolafs.blog.is