Byltingin er eina leiðin

Á dögunum birtist hér svargrein félaga Hrafns við grein minni um byltingu og ríki sósíalismans. Hér er svar við henni, eða réttara sagt, viðbrögð við nokkrum punktum í henni og hugleiðingar út frá þeim. Það er rétt að taka fram, að þótt heimsvaldastefnan sé ekki til umfjöllunar hér, þá er hún geymd en ekki gleymd, og verður efni síðari skrifa.

Byrjum á völdum og lýðræðislegri ákvarðanatöku. Ákvarðanataka verður ekki bara réttlátari og skynsamlegri við að breytan „vald“ hverfi úr henni, heldur getur hún hæglega orðið flóknari og tímafrekari líka, og eins og Hrafn bendir líka á, eru þar keldur sem þarf að varast til þess að lýðræðið sé eins ekta og það lítur út fyrir. Til að ákvörðun geti talist fyllilega lýðræðisleg, þarf hún að vera upplýst, tekin af þeim sem hún snertir, og vægi atkvæða jafnt eftir atvikum. „Fyllilega“ lýðræðisleg, segi ég, því ég held að spurningin sé ekki bara hvort það sé lýðræði eða ekki, heldur fremur hvað lýðræðið sé mikið. Og „eftir atvikum“ segi ég vegna þess að ef ákvörðunin varðar suma mjög mikið en aðra minna en þó eitthvað, þá má víst teljast eðlilegt að þeir sem hún varðar meira hafi meira um hana að segja. Þá má ekki gleyma því, að vald er ekki bara valdið til að skipa öðrum fyrir, heldur er það líka vald að hafa yfir sjálfum sér að segja, hvort sem er einstaklingur eða hópur. Það getur nefnilega þurft vald til þess að fylgja ákvörðunum eftir; annars er vitanlega lítið gagn í því að ákvörðunin sé lýðræðislega tekin. Eðli málsins samkvæmt þarf það vald að hafa lýðræðislegt inntak og lúta lýðræðislegu aðhaldi.

Stjórnarskráin
Samkvæmt stjórnarskránni er einkaeignarrétturinn friðhelgur og bylting sem beinist gegn honum brýtur því í bága við stjórnarskrána, eða beinist í það minnsta gegn henni. Varla rekur marga byltingarsinna í rogastans við að heyra þetta. Stjórnarskráin er jú mannasetning, borgaraleg ríki hafa eðli málsins samkvæmt borgaralega stjórnarskrá og frumhagsmunir borgarastéttarinnar hverfast jú um einkaeignarréttinn. Sú bylting ein er lögleg, sem heppnast. Í vel heppnaðri byltingu skipta völdin um hendur og nýir valdhafar endurskipuleggja þjóðfélagið eftir sínum hagsmunum. Þegar alþýðan gerir sína byltingu, þá mun hún ekki halda í aðra frumþætti gamla ríkisins, en þá sem gagnast henni. Þegar sigursæl alþýðan skipuleggur síðan sitt eigið, sósíalíska ríkisvald, þá setur hún sér væntanlega um leið nýja stjórnarskrá. Hér á Íslandi verður haldið stjórnlagaþing á komandi ári. Það getur vel orðið fróðlegt, og hver veit nema það verði einhverjar merkilegar framfarir miðað við það sem nú er. En sú leið sem mér finnst trúverðugust til að setja nýja stjórnarskrá er ekki að gera það með samningum við ríkjandi máttarvöld heldur í kjölfar byltingar gegn þeim og án tillits til gamalla forréttinda. Var það ekki einhvern veginn þannig sem t.d. stjórnarskrár Bandaríkjanna og Frakklands komu til?

Þjóðnýting
Meðal þess sem Hrafn bendir á í sinni grein, er að það er margt að forðast í þjóðnýtingu. Eða réttara sagt: Við stórfellda þjóðnýtingu er auðvelt að gera dýrkeypt mistök. Það eru orð að sönnu, og eru víst næg dæmi um að gagnbyltingarsinnar hafi gert byltingarstjórnum alvarlegar skráveifur til þess að, eða með því að, spilla þjóðnýtingaráformum. Eins og Hrafn orðar það, geta að byltingarsinnar „ekki kippt teppinu undan fótum borgarastéttarinnar og ætlast til þess að allt verði í sómanum.“ Og það ætlast heldur enginn til þess að það verði allt í sómanum, að borgarastéttin þekki sinn vitjunartíma og gefist upp af fúsum og frjálsum vilja, þótt það væri auðvitað óskastaðan. En það verður bara að hafa það, þótt menn séu ósáttir við að missa forréttindi sín og verða með tímanum hluti af alþýðunni. Þannig að ef menn vilja framkvæma þjóðnýtingu án þess að allt fari í vaskinn, þarf góðan pólitískan undirbúning og leggja svo til atlögu með rögg og ákveðni þegar menn eru tilbúnir til að fylgja áætluninni eftir. Og byltingarstjórn hefur ýmsar leiðir til þess að gera eignir upptækar eða þjóðnýta þær, hvort sem er á einu bretti eða smám saman. Í Venezuela hefur stjórn Chavez til dæmis þjóðnýtt öruggan meirihluta í olíuiðnaðinum, en boðið erlendu olíufélögunum að halda eftir minnihluta gegn því að samþykkja verknaðinn. Sum þeirra samþykktu það með semingi; betra sé að missa mikið en halda þó sumu heldur en að missa allt. Önnur neituðu og þá voru umsvif þeirra bara tekin yfir. Af hernum. Það má til gamans nefna aðra leið: Segjum að byltingarstjórnin gefi út yfirlýsingu til allra landsmanna, um að einkaeignarrétturinn sé afnuminn í nafni byltingarinnar, fólk skuli halda áfram að vinna vinnuna sína og taka yfir vinnustaðinn á meðan hagkerfinu er ráðstafað upp á nýtt, og það verði litið á það sem alvarlegan glæp ef fyrri eigendur vinni spjöll á eignunum. Ég tel nægja að koma með þessi tvö dæmi um leiðir sem ættu að virka án þess að ringulreið grípi um sig, en það mætti hugsa sér ýmsar aðrar aðferðir ef menn vilja.

Lítil og meðalstór fyrirtæki
En hvað með lítil og meðalstór fyrirtæki, eins og til dæmis gamla vinnustaðinn hans Hrafns, Ísbúð Vesturbæjar? Þótt sú ágæta búð sé ekki ofarlega á forgangslistanum við þjóðnýtingu, frekar en aðrar búðir sem teljast ekki til helstu framleiðslutækja þjóðfélagsins, er spurningin eftir sem áður góð og gild. Fyrst vil ég nefna að hringamyndun kapítalismans sér fyrir flestum smáfyrirtækjum löngu áður en bylting er gerð. Tökum skó sem dæmi.: Hvað ætli skósmíðaverkstæðum hafi fækkað mikið á Íslandi undanfarna hálfa öld? Ef „skóvinnustofum“ er flett upp á gulu síðunum í Símaskránni má þar sjá tólf fyrirtæki, þar af níu á höfuðborgarsvæðinu. Það er nefnd ein í Reykjanesbæ, ein á Höfn og ein í Vestmannaeyjum. Lágt vöruverð og fjöldaframleiðsla eru aðferðir kapítalismans til þess að útrýma samkeppni. Í stað þess að tugir eða hundruð skósmiða starfi í Reykjavík, þá hendir fólk ódýru skónum sínum og kaupir nýja ódýra skó í stórri verslun. Í stað mikils fjölda persónulegra smáfyrirtækja koma ópersónuleg, þróuð og skilvirk fyrirtæki sem eru stór og fá talsins, og eigandinn líkast til fjarlægur. En í sósíalismanum? Svo fremi að landslögum sé fylgt (þar með talið banni við arðráni og skilyrðum um að starfsfólkið hafi undirtökin í rekstrinum), þá kannast ég ekki við að neinn amist við litlum og meðalsmáum fyrirtækjum sem starfa án afskipta áætlunarbúskaparins.

Af holdi og blóð
Auðmenn eru af holdi og blóði og geta látið undan fortölum, hótunum eða auðmjúkum bænaskrám eins og annað fólk. En byltingin hefur aðeins áhuga á stéttarstöðu þeirra, ekki holdi og hvað þá blóði. Þótt hægriöflin útmáli „uppgjör við auðvaldið“ þannig, að borgarastéttinni sé raðað upp við vegg og skotin í hnakkann, er það hræðsluáróður. Afnám einkaeignarréttarins og upptaka lýðræðislegra og sósíalískra þjóðfélagshátta eru það sem byltingin snýst um. Hvað sem líður mannlegu eðli einstakra auðmanna, er auðmagnið sjálft auðvitað ekki af holdi og blóði, og það á sér einn og aðeins einn tilgang: að vaxa. Eins mikið og eins hratt og unnt er. Það getur því hagað segli eftir vindum ef það þarf þess og samþykkt tímabundið taktískt undanhald ef tilveru þess er ógnað, en á meðan það er til sem virkt afl í hagkerfinu, sækir það stöðugt á. Þannig að svo lengi sem því er leyft að viðgangast, þá þarf stöðugt – ég endurtek: stöðugt – að berjast gegn því. Og hvers vegna ætti sigursæl bylting svo sem að þola að lögmál arðráns og okurs ríki áfram, þótt í litlum mæli sé, ef hún getur á annað borð afnumið það?

Til fróðleiks vil ég benda á gamalt myndband um teknókratískt hagskipulag sem reiknar ekki út frá gróða heldur mannlegum þörfum og orku- og auðlindabókhaldi. Það er nokkuð langt og skipt í marga hluta, en vel þess virði að horfa á það. (Það er víst eðlilegt að slá þann varnagla að þótt ég sé hrifinn af prinsippinu, þá boða ég ekki endilega allt það sem kemur fram í þessu myndbandi.)

Þjóðfélagsumbætur eða bylting?
Það er ekkert grín að gera byltingu, kollsteypa valdastéttinni, endurskipuleggja hagkerfið og þjóðfélagið eftir nýjum og misjafnlega mikið reyndum viðmiðum, og fella í leiðinni að velli andstæðinga sem sýnast ósigrandi og vel skipulagðir, með liði sem í dag er of værukært til að detta einu sinni í hug að reyna byltingu. Ég trúi því ekki að byltingin eigi ekki séns, þvert á móti tel ég að hún sé hreinlega nauðsynleg. Ekki bara á Íslandi heldur líka annars staðar í veröldinni. Nauðsynleg fyrir heill og öryggi mannkynsins og jarðarinnar.

En frá því að gagnrýni á kapítalismann fyrst kom fram, og frá því að mönnum varð það fyrst ljóst að það dygði ekkert minna en bylting, þá hafa áhrifamikil öfl á vinstrivængnum stöðugt reynt að grafa undan byltingunni með því að sá efa. Þessi öfl, sem sjálf óttast byltinguna hafa alla tíð boðað hugmyndir sem hljóma eins og þær geti skilað svipaðri niðurstöðu án jafnmikillar áhættu eða fyrirhafnar. Það er að segja, bægt frá stærstu aukaverkunum auðvaldsskipulagsins án þess að til þurfi heila byltingu með allri vinnunni og fórnunum sem henni tilheyra. Er skrítið að fólk trúi á lausnir sem það þráir? Er hægt að áfellast fólk fyrir að falla fyrir falsspámönnum umbótastefnu og tækifærisstefnu, sem þykjast geta stytt sér leið til réttláts þjóðfélags? Það getur verið freistandi að trúa þeim þegar þeir láta baráttuna hljóma auðveldari en hún er, en það gera þeir vegna þess að þeir ætla sér ekki í baráttuna heldur láta sér nægja sýndarsigra. En arðránið er ekki tálsýn eða aukaverkun, heldur sjálft inntak kapítalismans, og sá sem ekki leggur í það, leggur ekki í kapítalismann sjálfan. Vinstrimenn sem óttast byltinguna og hlaupast undan henni, hlaupa til hægri og vinna auðvaldsskipulaginu ómælt gagn með því að skýla því og þyrma, sem aldrei hefur skýlt eða þyrmt nokkrum fátækum manni. En byltingin er samt sem áður leiðin. Eina leiðin, meira að segja, eða í það minnsta eina leiðin sem getur skilað okkur og afkomendum okkar til samfélags sem er réttlátt, skynsamlegt, friðsamt og siðmenntað í alvörunni en ekki í þykjustunni.

Já, og gleðileg jól.

Var „Keltneski tígurinn“ tálsýn?

Sunnudaginn 21. nóvember sótti ríkisstjórn Lýðveldisins Írlands formlega um björgunaraðgerðir frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Með beiðninni staðfesti hún formlega gjaldþrot írska auðmagnskerfisins með því að biðla til stofnana alþjóðaauðmagnsins um aðstoð, sem miðar í reynd fyrst og fremst að innheimtu skulda við erlenda stórbanka og tryggja stöðugleika evrunnar. Þann 27. nóvember síðastliðinn mótmæltu um 70.000 manns í Dublin aðkomu AGS og fyrirhuguðum efnahagsaðgerðum. Þingkosningar eiga að fara fram í byrjun næsta árs og þrátt fyrir að stjórnarandstöðuflokkarnir á þinginu hafi gagnrýnt aðgerðir ríkisstjórnarinnar, gangast þeir að mestu inn á samstarf við AGS og niðurskurð.

Írska efnahagshrunið

Segja má að efnahagskreppa Evrusvæðisins hafi hafist á Írlandi, þar sem efnahagur Írska Lýðveldisins var sá fyrsti á svæðinu til að verða fyrir samdrætti. Efnahagur landsins hefur dregist hratt saman í yfirstandandi efnahagskreppu, sem er fyrsta alvarlega efnahagskreppan sem hrjáir landið síðan á níunda áratugnum. Fjárlagahalli landsins stendur nú í 32 prósentum.

Upphaf efnahagshrunsins á Írlandi er gjarnan rakið til hruns þeirrar fasteignabólu sem byggst hafði upp og verið sumpart drifkraftur efnahagsþenslu undanfarinna ára, en húsnæðisverð hefur nú hrapað um rúmlega 30% frá árinu 2006. Verðfallið á fasteignum olli hruni í byggingariðnaðinum sem ekki aðeins leiddi til atvinnuleysis þúsunda manna heldur setti af stað keðjuverkun sem leiddi til þess að ríkisstjórnin fann sig knúna til að ráðast í björgunaraðgerðir og endurfjármögnun þriggja írskra banka, Anglo Irish, Allied Irish og Bank of Ireland. Þær aðgerðir kostuðu ríkið í heildina 45 milljarða evra. Bankarnir höfðu lánað háar fjárhæðir til byggingarfyrirtækja og fengu þungan skell við hrun byggingariðnaðarins. Eftir að samdrátturinn tók að dýpka fluttu ýmis fjölþjóðleg stórfyrirtæki starfsemi sýna úr landi, eins og bandaríski tölvurisinn Dell, sem nú er fluttur til Póllands.

Írska efnahagsundrið

Það sem gjarnan var kallað „Írska efnahagsundrið“ eða „Keltneski tígurinn“ var skilgetið afkvæmi fjármála- og hnattvæðingarinnar. Þrátt fyrir viðleitni ríkisstjórna til að láta hið opna hagkerfi vera drifkraft hagvaxtar, hrjáði há verðbólga, mikið atvinnuleysi og lítill hagvöxtur landið allan 9. áratuginn, auk þess sem brottflutningur fólks var mikill. Á 10. áratugnum hófst aftur á móti viðsnúningur, þar sem Írland fór úr því að vera háð útflutningi á landbúnaðarafurðum yfir í að byggja hagvöxt sinn á iðnaðarframleiðslu til útflutnings og erlendri fjárfestingu. Sá iðnaður sem náði fótfestu á Írlandi á 10. áratugnum byggðist á erlendum fyrirtækjum sem færðu framleiðslu sína til Írlands og fólust  þessar breytingar að miklu leyti í minnkandi vægi bresks auðmagns og innreið bandarísks og þýsks auðmagns. Írland hafði á umræddum þensluárum hæsta fjárfestingarhlutfall bandarísks fjármagns, á hvern verkamann í framleiðslu, í allri Evrópu.

Írland varð ein vinsælasta staðsetning fjölþjóðlegra stórfyrirtækja í Evrópu; fyrirtækja í símaþjónustu, fjármálafyrirtækja, raftækjaframleiðenda, hugbúnaðarframleiðenda o.s.frv. Ástæðurnar voru helst skattaafslættir og önnur fríðindi sem írska ríkið veitti fyrirtækjum til að laða að fjárfestingu, auk þess að með því að staðsetja sig á Írlandi fengu fyrirtæki opinn aðgang að mörkuðum ESB án tolla. Einnig fólst aðdráttaraflið í vel menntuðu og enskumælandi vinnuafli Írlands sem var hlutfallslega ódýrara en gekk og gerðist á Vesturlöndum. Bjartsýni ríkti gagnvart þessu góðæri írsks kapítalisma, sem um margt var fordæmislaust í írsku samhengi. Meira framboð var á störfum en nokkurn tímann áður í landinu og lífskjör mikils hluta vinnandi fólks bötnuðu. Brottflutningur frá landinu plagaði það ekki lengur, heldur hafði sú þráláta tilhneiging í írskum kapítalisma í fyrsta sinn snúist við, þar sem hið mikla framboð á störfum laðaði til sín farandverkamenn sem að mestu komu frá löndum Austur- Evrópu. Sú gríðarlega og stöðuga hækkun á verðgildi eigna í Írlandi var sömuleiðis mikið tilefni til bjartsýni. Aftur á móti jókst framfærslukostnaður í landinu mikið á þessum góðæristímum, og hann varð einn sá hæsti í Evrópu. Það þýddi að stór hluti vinnandi fólks átti erfiðara með að ná endum saman og þurfti að hafa meira fyrir almennum heimilisrekstri, þrátt fyrir batnandi lífskjör. Ójöfnuður jókst sömuleiðis hratt á Írlandi og var samkvæmt Sameinuðu þjóðunum orðin með því mesta á Vesturlöndum árið 2004. Markvisst var haldið aftur af launahækkunum til að mæta vaxandi framfærslukostnaði, en það var ekki síst nauðsynlegt til að viðhalda þeirri stefnu að laða til landsins fjölþjóðleg stórfyrirtæki og erlenda fjárfestingu.

„Aðstoð“ AGS og ESB

Helsta markmiðið með björgunaraðgerðum AGS og ESB á Írlandi er að bjarga fjárhagslegum skuldbindingum lykilbanka Evrópusambandsríkja eins Þýskalands, Bretlands og Frakklands og einnig að koma böndum yfir þann óstöðugleika sem þjakar nú evruna vegna stöðu landa eins og Portúgals og Spánar. Með öðrum orðum miða björgunaraðgerðirnar að því að róa fjármarkaði á evrusvæðinu og á alþjóðavettvangi. Írsku bankarnir hafa enga greiðslugetu og eru komnir úr tengslum við hið alþjóðlega fjármálakerfi, en yrðu þeir endanlega gjaldþrota mun það þýða gríðarlegt tap fyrir evrópska stórbanka sem hafa lánað þeim háar fjárhæðir.

Fjárlögin sem samþykkt voru á írska þinginu þann 7. desember gera ráð fyrir niðurskurði í opinberum útgjöldum upp á 6 milljarða evra á næsta ári, auk þess sem niðurskurður upp á aðra 9 milljarða evra er áætlaður á næstu 3 árum, en markmiðið er að opinber útgjöld ársins 2014 verði helmingur þess sem þau voru árið 2007. Nú þegar hafa ríkisútgjöld verið skorin niður um 15 milljarða evra og hefur sá niðurskurður orðið til að veikja hið kreppuhrjáða hagkerfi enn frekar. Opinberi geirinn á Írlandi var smærri og veikari en almennt var í Evrópu á góðæristímanum, og mun sá gríðarlegi niðurskurður sem fyrirhugaður er því hafa hrikalegar afleiðingar fyrir efnahag landsins og lífskjör vinnandi fólks. Vinnuafl landsins, eða vinnufærir einstaklingar, telja um tvær milljónir og af þeim eru nú um 450.000 manns skráðir atvinnulausir, en inn í þessa tölu vantar dulið atvinnuleysi eins og það fólk sem flutt hefur á brott frá því kreppan skall á. Niðurskurðurinn mun að sjálfsögðu auka atvinnuleysið, sem líklega mun skila sér í auknum brottflutningi frá landinu. Nú er talað um að niðurskurðurinn sem fyrirhugaður er muni skila sér í samdrætti á 20.000 störfum í opinbera geiranum.

Lánsupphæðin til Írlands frá AGS og ESB er í kring um 90 milljarða evra og bendir margt til þess að stór hluti upphæðarinnar fari beint til írsku bankanna, sem síðan muni fara í að borga upp skuldir þeirra við Evrópska seðlabankann. Vextirnir af láninu munu líklega vera í kring um 5-6%, en lán írsku bankanna frá Evrópska seðlabankanum voru á 1,5% vöxtum. Hér er lagður grundvöllur að þrávirkri skuldakreppu Írlands, þar sem landið mun sitja fast í skuldafeni gagnvart alþjóðaauðmagninu, fast í vítahring samdráttar og sligandi afborgana erlendra skulda. Ekki þarf að rýna lengi í stöðu Írlands og áætlun stofnana alþjóðaauðmagnsins fyrir landið til að sjá hverjir muni bera fórnarkostnaðinn af björgunaraðgerðunum. Þegar hefur verið tilkynnt að lágmarkslaun á Írlandi verði lækkuð og atvinnuleysisbætur verða líklega lækkaðar einnig, en við bætist frekari niðurskurður á almannatryggingakerfi og almannaþjónustu. Sú stefna að ráðast á lífskjör vinnandi fólks og atvinnulausra, auk þess að skera opinbera þjónustu niður jafn mikið og stefnt er að mun að öllum líkindum leiða af sér vítahring verðhjöðnunar og samdráttar. Spár um 2% hagvöxt á næstu árum eru hæpnar þar sem hrun hefur orðið í fjárfestingu í landinu og niðurskurðurinn mun draga enn frekar úr hagvexti.

Írland sem eftirlenda

Þegar hér er varpað fram spurningunni hvort Írland sé eftirlenda (e. neo-colony) er tekin útgangspunktur í greiningu Leníns á heimsvaldastefnunni. Það hefur lengi verið mín skoðun að það sem við í dag tölum um sem hnattvæðingu sé aðeins nýtt þróunarstig þeirrar heimsvaldastefnu sem Lenín útskýrði á 2. áratug síðustu aldar. Hugtakið „heimsvaldastefna“ er sumpart villandi, þar sem hvorki er um að ræða meðvitaða stefnu stjórnmálamanna um útþenslu ríkja né eintóma beitingu hernaðar til að tryggja efnahagslega og/eða pólitíska hagsmuni, heldur er sú heimsvaldastefna sem gengið er út frá fyrst og fremst efnahagslegt fyrirbæri. Grundvöllur heimsvaldastefnunnar er einokunarþróun auðmagnsins, þar sem einokunarsamsteypur hafa lagt undir sig meirihluta efnahagslífsins, mettað markaði sína heima fyrir og þurfa að sækja í fjárfestingartækifæri utan landsteinanna, gjarnan til vanþróaðri ríkja. Fjármagnsútflutningur verður þar með þýðingarmeira atriði en vöruútflutningur og hangir þetta saman við breytt hlutverk bankakerfisins úr einföldum miðlara lánsfjár yfir í valdamikil einokunarfyrirtæki sem gegna ráðandi hlutverki í fjármálakerfi heimsins. Þegar spurt er hvort Írland sé eftirlenda er ekki tekinn útgangspunktur í nýlenduarfleið landsins heldur í núverandi stöðu þess innan hins alþjóðlega hagkerfis. Mælikvarðinn til að úrskurða, hvort um heimsvaldaríki eða eftirlendu er að ræða, er að skoða hvort hagkerfið sem um ræðir sé háð erlendri fjárfestingu og starfsemi fjölþjóðlegra stórfyrirtækja innan landamæra þess, eða hvort þau byggi hagvöxt sinn á arðsemi fjárfestinga utan landsteinanna og útþenslu eigin einokunarauðhringa á heimsmarkaðinum.

Taka ber fram að hér er ekki gengið út frá svarthvítri heimsmynd sem skiptist í drottnandi heimsvaldaríki og kúgaðar eftirlendur eftir hreinum línum. Margar þróaðri eftirlendur hafa einkenni heimsvaldaríkja og vanþróaðri heimsvaldaríki (vanþróaðri miðað við þau þróuðustu) hafa gjarnan einkenni eftirlendu, en mörg ríki eru bæði háð erlendri fjárfestingu og útþenslu eigin auðhringa erlendis. Varpar það til dæmis skýru ljósi á stöðu Íslands sem ríkis sem fellur þarna á milli, að í kjölfar þess að útrás fjármálafáveldisins floppaði með þeim afleiðingum sem við þekkjum öll vel, þykir mörgum stjórnmálamönnum sem þann vanda beri að leysa með því að opna fyrir innrás alþjóðaauðmagnsins. Reynsla Íra af slíkri innrás ætti aftur á móti að vera okkur víti til varnaðar því afleiðingar innrásar alþjóðaauðmagnsins þar í landi eru jafnvel ömurlegri en af hinni klúðurslegu útrás íslenska fjármálafáveldisins.

Þrátt fyrir að Írland eigi örfá stórfyrirtæki sem hagnist á starfsemi erlendis, eins og Cement Roadstone Holdings, Ryanair og Smurfit, er þáttur hins alþjóðlega auðmagns í efnahag landsins ríkjandi. Eins og áður var komið inn á, byggðist góðæri írsks kapítalisma á innreið alþjóðaauðmagnsins annars vegar og eignabólu hins vegar, en það er í því samhengi sem skoða ber aðkomu AGS og ESB inn í efnahag landsins sem innheimtumenn þýskra og breskra banka. Eðli björgunaraðgerðanna ákvarðast af stöðu landsins innan hins alþjóðlega auðmagnskerfis.

— — — — —

Við ritun þessarar greinar var stuðst við greinarnar „The death of the Celtic Tiger“ og „Oppose the IMF/EU backed attacks“.

Umsátrið um Pyongyang og baráttan gegn alþjóðlegum byltingarhreyfingum

Meðal elstu herkænskubragða er að umkringja borgir sem ætlunin er að sigra, loka öllum leiðum og svelta íbúana þar til þeir gefast upp. Í verstu tilfellum eru íbúarnir svo sallaðir niður er þeir reyna að flýja.

Í nútíma kapítalisma notast auðvaldið við ekki ósvipaðar aðferðir til að sigrast á ríkjum sem hafa fallið til hugmyndafræði sem eru á einhvern hátt fjandsamleg handhöfum alþjóðafjármagnsins. Auðvaldið tekur því ekki létt þegar það missir ríki í hendur byltingaröflum. Þeir sem dirfast að leggja til aðra þjóðfélagsskipan en hentar því, mega vænta þess að fjármagnseigendur snúi bökum saman og refsi þeim með öllum tiltækum aðferðum. Sagan geymir mörg dæmi um þetta.

Rússland

Fall Rússlands til byltingarsinna árið 1917 var stærsta prófraun alþjóðakapítalisma þess tíma auðvaldið um allan heim neyddist til að snúa bökum saman til að finna leiðir til að knésetja hina nýju byltingarstjórn. Bæði auðvaldssinnuð ríki á borð við England og Bandaríkin, og einstakir kapítalistar og alþjóðlegar fjármagsstofnanir þróuðu fljótt aðferðir til að sigrast á þessum óvini. Þegar pólitískt umrót ógnar stöðu kerfisins á einhvern hátt hefur verið notast við einhverjar af þessum aðferðum til að lágmarka skaðann sem alþjóðakapítalisminn verður fyrir af ástandinu.

Fyrsta aðferðin fólst í beinni nýtingu á fjármagni. Fjármagnseigendur kostuðu svokölluð gagnbyltingaröfl, eða hvítliða, til að grafa undan hinni nýju stjórn. Hvíti herinn kom af stað borgarastyrjöld sem eyddi bæði fjármagni og mannafla byltingarstjórnarinnar. Í borgarastyrjöldinni í Rússlandi, sem varði frá árinu 1917 til 1923, féllu meira en milljón hermenn rauða hersins og á annan tug milljóna almennra borgara. Stríðið brenndi um leið það fjármagn sem sósíalistarnir höfðu úr að moða, rústuðu innviðum samfélagsins, sem svo þurfti að byggja upp á nýtt, og kom á sundrungu milli ólíkra fylkinga byltingarsinna (anarkistar og bolsévíkar misstu til dæmis samstöðu sína árið 1920 og sú sundrung sem myndaðist þá hefur aldrei gróið; trotskíistar og stalínistar tvístruðust svo í kjölfar borgarastyrjaldarinnar). Það má svo velta því fyrir sér hvort hið mikla stríðsástand sem ríkti þessi ár hafi fest í sessi leiðtoga í kommúnistaflokknum sem hentuðu fyrir stríðstíma; harðsvíraða og kaldlynda harðstjóra. Það hugarástand sem myndast í baráttu við fjandsamlega hermenn, njósnara hvítliða og morðingja, getur varla verið holt fyrir lýðræðið. Það er einnig erfitt að ímynda sér hvaða áhrif það hefur haft fyrir fólk að upplifa þann hrylling sem ríkti vegna tveggja stórra styrjalda. Borgir sem lentu í umsátri voru helvíti á jörðu og þær mörgu milljónir sem féllu áttu sér fjölskyldumeðlimi sem þurftu sjálfir að syrgja. Þetta var engin óskabyrjun fyrir byltingarsinna.

Næsta skref var að loka fyrir fjármagnsflutning inn í rauðu ríkin og koma á viðskiptaþvingunum. Þetta kom í veg fyrir að rauðu ríkin gætu á nokkurn hátt keppt við vesturveldin á sviði viðskiptanna, enda réðu vestrænir kapítalistar yfir mestöllu því fjármagni sem var í boði í hagkerfi heimsins. Innlendir kapítalistar flúðu land og tóku allt það fjármagn sem þeir gátu með sér. Með þessu var tryggt að almenningur í rauðu ríkjunum yrðu að búa við fátækt og vinnuþrældóm. Til að byggja upp landið, sem var gjörsamlega í rúst eftir bæði heimsstyrjöld og borgarastyrjaldir, þurfti almenningur að vinna nærri því launalaust svo byggja mætti upp iðnað og aðrar eðlilegar samfélagsstofnanir á ný. Þessi þáttur var almenningi gríðarlega þungur í skauti, enda voru fyrstu ár byltingarinnar mörkuð gríðarleg mannfalli, mikilli vinnu og fátækt. Þetta hlýtur að hafa dregið úr vonarneista almenningsins fyrir betra lífi og um leið fékk almenningur í öðrum ríkjum að vita að þeir sem vildu rífa sig frá kerfinu yrðu að sætta sig við fátækt.

Viðskiptabönn- og þvinganir eru vanmetin fyrirbæri, en líklega skiljum við örlítið betur nú en fyrir nokkrum árum hversu mikil áhrif þau geta haft. Margir Íslendingar urðu óttaslegnir þegar Bretar beittu eitt einasta íslenskt fyrirtæki viðskiptaþvingunum, og þegar lánalínur til Íslands virtust ætla að lokast. Þegar stríðshrjáð ríki sem þarf að byggja upp samfélagið alveg frá grunni, lendir í því að lánalínur lokast, og það lokast einnig fyrir möguleikann á að afla landinu tekna með útflutningi til annarra ríkja, geta hreinar hörmungar átt sér stað. Til að halda starfsemi nútímaríkis gangandi þarf að flytja inn vörur sem ekki er hægt að framleiða heima fyrir. Ríki sem neydd eru í einangrun með viðskiptaþvingunum eiga því erfitt með að halda eðlilegri starfsemi.

Næsta skref var, auðvitað, áróðursstríð. Þessi þáttur er kafli út af fyrir sig. Áróðurinn beindist bæði gegn íbúum hinna nýbyltu ríkja og gegn almenningi á Vesturlöndum. Fyrstu árin var þó mestu púðri eytt í áróður sem beindist að almenningi í bláu ríkjunum í vestri. Tímabilið strax í kjölfar byltingarinnar er einmitt gjarnan kennt við rauða óttann, en um það hefur verið fjallað áður (sjá hér).

Spánn

Svipuðum aðferðum var beitt gagnvart öðrum ríkjum sem lentu í klóm félagslegra byltinga. Reyndar voru það fasistarnir á Spáni sem hófu byltinguna þar í landi, en þegar anarkistar og kommúnistar risu gegn þeim og reyndu að skilja norðurhéröðin frá þeim syðri, brugðust vesturveldin fljótt við og þreifuðu í verkfærakassann eftir viðbrögðum. Stóru kapítalísku ríkin og fyrirtækin studdu strax frá upphafi dyggilega við fasistaher Frankós og reyndu að loka fyrir samskipti við anarkista. Uppreisnarher anarkista og kommúnista átti við ofurefli að etja, enda naut Frankó stuðnings erlendra herja, t.d. frá Þýskalandi og Ítalíu, og þeim tókst ekki að halda út jafn lengi og rússnesku byltingarsinnunum. Ástæðan fyrir því að hin frjálsu ríki á Norður-Spáni náðu að halda út í tæp tvö ár, var að þau fengu stuðning frá sjálfboðaliðum frá öllum heimshornum sem sýndu fádæma samstöðu og lögðu líf sitt að veði til að styðja lýðveldið, þrátt fyrir að áróðursstríðið gegn þeim hafi verið í fullum gangi heiman fyrir.

Sundrung, í kjölfar skilyrða Sovétmanna um að miðstýrðir, Moskvu-tengdir kommúnistar tækju forystuna í byltingunni á Spáni ef þeir ættu að halda áfram að senda hergögn, var kannski stærsta ástæðan fyrir því að byltingarsinnar töpuðu algerlega að lokum. Hreinsanir stalínista voru í hámarki á þessum tíma og æ fleirum var að verða ljóst að byltingin hafði lent í klóm geðsjúklinga. En það væri fáránlegt að gefa Vesturveldunum upp sakir í sögu spænsku byltingarinnar vegna þess. Beinn her- og fjárstuðningur við fasista, viðskiptaþvinganir gegn byltingarsinnum og andstyggilegur áróður voru það sem kramdi byltinguna í raun og veru. Sundrungin veikti andstöðumáttinn, en sóknarþunginn lá í verkum fasistanna og stuðningsmanna þeirra í Evrópu og Norður Ameríku.

Fasismi

Fasisminn var hugmyndafræði sem beindist beinlínis gegn sósíalisma í Evrópu. Fyrstu og síðustu fórnarlömb fasista í Ítalíu, Portúgal, Spáni, Þýskalandi o.s.frv. voru andstæðingar borgarastéttarinnar svokölluðu. Nasistaflokkur Þýskalands var fyrst og fremst flokkur þýsku millistéttarinnar, sem óttaðist meira en allt annað þá sem tilheyrðu fátækari þjóðfélagsþrepum eða ríkjum. Stærsti óvinurinn var „bolsévisminn“ og „alþjóðlegt samsæri gyðinga“. Þrátt fyrir að fasistar hafi ekki beinlínis verið flokkar auðvaldsins, heldur þessarar millistéttar, studdu auðvaldsríkin og kapítalistar um allan heim þessar hreyfingar dyggilega, allt þar til ljóst var að nasistar höfðu snúist gegn auðvaldinu og þegar mönnum var ljóst að Sovétríkin myndu í raun sigra stríðið.

Tímabil fasismans gerði næstum því út af við alla byltingarhreyfingar Evrópu. Svo margir anarkistar, kommúnistar, sósíalistar o.s.frv. féllu á árunum 1922 til 1945 að erfitt er að gera sér það í hugarlund. Svo dæmi sé tekið lifðu einungis um 800 af hartnær 20 þúsund meðlimum júgóslavneska kommúnistaflokksins stríðið af.

Öllum aðferðum gagnbyltingarsinna var einnig beitt gegn Kúbu þegar byltingin sigraði þar. Reynt var að fjármagna og styðja gagnbyltingarsinna á Kúbu, innrás andstæðinga byltingarinnar var skipulögð og fjármögnuð af bandarískum stjórnvöldum, áróðursstríð hófst strax og heppnaðist vel á heimavettvangi. Castró er enn álitinn illskan uppmáluð meðal vestrænna auðvaldssinna. Það sem hefur skaðað Kúbverja mest til lengri tíma litið er þó viðskiptabannið sem Bandaríkin hafa haldið í gangi frá því að byltingin var orðin ljós. Svo lítið land sem Kúba er er miklum mun háðari viðskiptum við umheiminn en risaríki eins og Rússland sem getur framleitt flest það sem það vantar. Það er í raun með ólíkindum hversu vel hefur gengið fyrir Kúbverja að halda uppi samfélaginu þrátt fyrir þessar skaðlegu viðskiptakúganir. Hversu lengi þeir halda út er þó önnur saga.

Norður Kórea sem víti til varnaðar

Lengi væri hægt að telja upp svipaðar sögur, en það dæmi sem mest er í deiglunni nú er tilfelli Norður-Kóreu. Það er erfitt að ræða um Norður-Kóreu á gagnrýnan hátt. Stjórnin þar er augljóslega eitthvað veik og ríkinu er stýrt eins og fangelsi. Almenningur í Norður-Kóreu býr við ömurlegt lögregluríki, í stöðugum ótta við yfirvöld. En sé það ætlun Vesturveldanna að koma þeim til hjálpar eru aðferðirnar sem beitt er í meira lagi rangar. Norður-Kórea hóf sjálfstætt líf sitt með því að vera sprengd og brennd til ösku af loftárásum Vesturveldanna og leppstjórn þeirra í Suður-Kóreu. Stríðið stendur formlega ennþá, enda hefur aldrei verið skrifað undir friðarsamninga. Ef Vesturveldin vildu virkilega koma Norður-Kóreumönnum til aðstoðar, væri besta leiðin örugglega sú að semja um frið við ríkið, enda myndi það sennilega draga úr ofsóknaræði flokksforystunnar og liðka fyrir eðlilegum samskiptum hennar við nágrannaríkin. Fjársveltið sem Norður-Kóreumenn búa við er í sjálfu sér bein árás á almenning sem má ekki við meiri áföllum, hvorki líkamlega né andlega. En tilgangur aðgerðanna gegn Norður-Kóreu er ekki að koma almenningi, hvorki þar né annarsstaðar, til aðstoðar. Tilgangurinn er einmitt að láta almenning þjást og kremja baráttuþrek hans þar til Norður-Kórea gefst upp. Norður-Kórea á að vera víti til varnaðar, ævarandi áminning um það hvernig fer fyrir þeim sem dirfast að fara gegn auðvaldinu. Því meira sem fólk þjáist, því betra.

Norður Kórea er eins og borgríki undir umsátri. Umsátur er aðferð sterkari andstæðings gagnvart veikari sem reynir að skýla sér bakvið borgarmúra. Það sem einkennir umsátursstríð er að árásarherinn lokar öllum inn- og útgönguleiðum og leggur gríðarlegan herafla við dyrastafn óvinarins. Ógnarástandið, örvæntingin og hungrið sem grípur um sig inni í borginni veldur upplausn meðal óvinarins og annað hvort deyja íbúarnir eða gefast upp, eða freista þess að opna borgarmúrana og ráðast á óvinaherinn, þrátt fyrir að eiga enga möguleika gegn honum. Íbúar Norður-Kóreu eru við það að svelta til bana og vel má túlka síðustu fréttir frá þessum skaga út frá þeim forsendum. Norður-Kóreumenn eru við hungurmörk og stjórnin er örvæntingarfull og biluð á taugum. Fyrr eða síðar reyna þeir að brjótast út, ef þeir gefast ekki upp. Þeir verða svældir út.

Jólaboð Ásdísar Ránar: Piparkökur, Playboy og vændi

Fyrirsögn þessarar fréttar er ein af þeim smekklegu fyrirsögnum sem birtast á Vísi.is. Heimur versnandi fer. Fyrsta lína fréttarinnar er „Ég kem ekki nálægt þessu. Ég get ekkert tjáð mig um þetta. Ég er bara ráðin þarna og mér er borgað fyrir að vera þarna“. Þarna er Ásdís að svara spurningu blaðakonunnar um það hvort Ásdísi finnist viðeigandi að kynna nýja snyrtivörulínu sína í jólaboði á skemmtistaðnum RePlay þar sem saga vændiskonu er einnig á dagskránni. Í svari Ásdísar kristallast hugmyndafræði frjálshyggjunnar, þótt hún verði seint álitinn talsmaður hennar: að varpa siðferðislegri ábyrgð yfir á markaðinn. Sú trú að markaðurinn leiðrétti sjálfan sig réttlætir ósæmilega eða ósiðlega hegðun. Til dæmis að taka út arð þótt að fyrirtæki sé rekið með tapi eða ljá sögu hórmangara spennandi dulúð. Í auglýsingunni fyrir atburðinn segir: „Þá verður lesið upp úr hinni umdeildu og forboðnu bók, Hið dökka man – saga Catalinu. Þetta er sjóðheit lesning um samskipti Miðbaugsmaddömunar Catalinu, sem fólk krossar sig í bak og fyrir eftir að hafa nefnt á nafn.“

Á heimasíðu annars höfunda Hið dökka man, Jakobs Bjarnar Grétarssonar, fyrrverandi blaðamanns DV, er að finna grein um bann við nektardansstöðum – sem einkennist af þráhyggjukenndri áherslu á mjög stuttar setningar. Hann virðist hafa lítið málefnalegt að segja, fer eins og köttur í kringum heitan graut, um þann einfalda punkt sinn að honum finnist þetta óþarfa forsjárhyggja að banna nektardans. Ég hvet lesendur Eggjanna til þess að kaupa ekki bókina.

Löglegt en siðlaust?

Í prýðilegri grein sinni um Byltinguna og ríki fólksins gerir Vésteinn skýran greinarmun á umbótasinnuðum krötum, aumum þjónum auðvaldsins, og byltingarsinnuðum frelsishetjum, öreiga sameinaða í hnattrænu bræðralagi samstöðu og friðar. Fyrir honum táknar annar hópurinn eftirsóknarverða en óljósa framtíðarsýn en hinn áframhaldandi kúgun. Þetta er skýr tvíhyggja.

„Kratískar umbætur [ganga] út á það, leynt og ljóst, að betrumbæta kapítalismann“ með því „að hemja verstu hliðar hans“ segir hann. Alexander Solzhenitsyn sagði frá því í grein hvernig Lenín lýsti þessari sömu staðreynd í öðru samhengi:

Taumlaus græðgi Vesturlandamanna er mannshuganum næstum því óskiljanleg. Vonin um hagnað og gróða er handan við alla skynsemi, öll takmörk, alla samvizku. Ég verð að játa, að Lenín sá þetta allt fyrir, Lenín, sem dvaldi mestan hluta ævi sinnar á Vesturlöndum og þekkti þau betur en Rússaveldi, sagði alltaf, að vestrænir auðmenn gerðu allt sem þeir gætu til að fullnægja þörfum Kremlverja. „Þeir munu berjast hver við annan um að selja okkur sem fljótast sem ódýrastar vörur. Þeir munu færa okkur allt, án þess að hugsa um framtíðina.“ Hann sagði einnig á róstusömum flokksfundi í Moskvu: „Félagar, örvæntið ekki þótt illa gangi. Þegar við erum í vanda, gefum við borgarastéttinni kaðalspotta, og hún mun hengja sig í honum.“ Þá spurði háðfuglinn Karl Radek: „En Vladimir Iljits, hvernig eigum við að fá nægilegt tóg til að hengja alla borgarastéttina?“ Lenín svaraði þegar: „Hún mun selja okkur það.“1

Í hnattrænum efnahag sjáum við mýmörg dæmi um slæmar hliðar kapítalisma og sinnuleysi borgarastéttarinnar gagnvart þeim sömu hliðum. Tökum dæmi: eitt stærsta raftækja-framleiðslufyrirtæki heimsins, tævanska risann Foxconn sem Apple útvistar framleiðslu á iPod og iPhone til. Á undanförnum mánuðum hafa borist fréttir um sjálfsmorð starfsmanna vegna ómannúðlegra vinnuaðstæðna og síðast, fyrir tæpum mánuði fóru a.m.k. sjö þúsund starfsmenn í verkfall til að krefjast betri launa.2

Af mörgu er að taka, ef þið viljið velta fyrir ykkur nærtæku dæmi bendi ég á nýlega grein mína um smálánafyrirtæki. Ef menn vilja kafa dýpra er t.d. vert að velta fyrir sér félagslegum og efnahagslegum áhrifum nýlendutímabilsins á þriðja heiminn, t.d. í Kamerún eða tengsl utanríkisstefnu Bandaríkjanna í Mið-Ameríku (sér í lagi Gúatemala) og hagsmuna United Fruit Company á sjöunda áratugnum.3

Spyrja má hvort að arðrán kapítalista, sem í ofangreindum dæmum annars vegar þýska og hins vegar bandaríska ríkisvaldið greiddi fyrir með ofbeldi og valdbeitingu, hafi ekki haft mjög slæm áhrif á félagslegra og efnahagslegra þróun viðkomandi ríkja og hafi því bakað þýska og bandaríska ríkinu skaðabótaskyldu?

Það eru sjálfsagt skiptar skoðanir á því. Það er erfitt að meta með hlutlægum hætti spurningar um réttlæti. Því lengur sem líður frá verður það erfiðara. Þó fyrnast þessar spurningar aldrei því skaðinn sem skeði er óbærilegur; morð, limlestingar, pyntingar, þrælahald, nauðganir og vosbúð. Sagan mun með tímanum leiða sannleikann betur í ljós. Það verður ekki falleg sjón.

Hvað felst í byltingunni?

Þar sem við höfum gert skilmerkilega grein fyrir þeirri staðreynd að til er á þessu jarðríki valdastétt manna sem arðrænir pöpulinn. Þá má spyrja, að hversu miklu leyti þurfum við að sætta okkur við það að heiminum sé að upplagi stjórnað af gráðugum, hvítum körlum sem svífast einskis?

Svar Vésteins er ALLS EKKI, við þurfum byltingu, ekki umbætur. Í íslenskri orðabók er bylting skilgreind sem „mikil breyting“. Maðurinn hefur ekki ímyndunarafl til þess að sjá fyrir sér stórfelldar breytingar á jafn flóknu fyrirbæri. Þar af leiðandi hefur hugmyndafræði vinstrimanna þangað til nýlega átt undir högg að sækja. Um byltinguna og ríki framtíðarinnar segir Vésteinn:

Í sósíalísku lýðræði, þar sem lýðurinn ræður, eru það hagsmunir alþýðunnar: Í fyrsta lagi, að passað sé upp á að allir fái það sem þeir þurfa. Í öðru lagi, að auðlindum og öðrum verðmætum, og þá ekki síst mannauðnum, sé ekki sóað. Í þriðja lagi, að ekki komi upp nýir húsbændur í stað þeirra gömlu.

Þetta eru fögur fyrirheit. Í grein sinni útlistar hann nánar hvernig beita þurfi hyggjuvitinu og valddreifingu til þess að fyrstu tvö atriðin geti gengið upp. Beita eins konar nálægðarreglu fyrir samvinnuhreyfingar. Nokkrar spurningar skjóta upp kollinum. Meðal annars sömu spurningar og herja á okkur í dag, í kapítalísku samfélagi okkar, varðandi lýðræðislegt stjórnarfar – svo sem þversögn Condorcets – sem verða enn áleitnari þar sem meiri óvissa ríkir um virkni framtíðarsamfélagsins eftir byltingu. Hvernig er slíku samfélagi stjórnað lýðræðislega svo vel sé? Alkunna er að í ófullkomnum heimi nútímans spilar auðvald sterkt inn í ákvarðanir lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Hvað gerist þegar sú breyta hverfur? Batna hlutirnir endilega? Verður ekki flókið að fá lýðræðislega niðurstöðu án valdbeitingar?

Þriðja atriði Vésteins tæpir á því hvernig koma eigi í veg fyrir að nýir húsbændur seilist til valda í stað þeirra gömlu: „til að byrja með eru helstu framleiðslutækin þjóðnýtt, og síðan er arðrán einfaldlega bannað með lögum. Hver sem er getur notið ávaxtanna af vinnu sinni, en það er bannað að sölsa undir sig ávextina af vinnu annarra.“ „Til að byrja með“ segir Vésteinn vegna þess að hann telur byltinguna vera ferli margslungra (byltingarsinnaðra) umbóta sem í það minnsta spanni mörg ár eða áratugi.

Hversu mikið mál skyldi það reynast að þjóðnýta framleiðslutæki landsins? Og hvað felst í því? Samkvæmt skilgreingu felur þjóðnýting það í sér að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er brotið. 72. gr. stjórnarskrárinnar segir: Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Væntanlega felst þjóðnýting í því að því er lýst yfir með formlegum og lögmætum hætti, til dæmis með lagasetningu og jafnvel breytingu á stjórnarskrá, að tiltekin eign sé hér með eign þjóðarinnar.

Æfing í skapandi skrifum

Spyrja má hvort að Ísbúð Vesturbæjar sé framleiðslutæki, svarið er sjálfsagt já. Þá mætti þjóðnýta hana og reka á grundvelli samfélagsins. Spyrja má hvort að bíll nágranna míns sé framleiðslutæki og svarið yrði þá kannski nei, nema að hann sé nýttur í atvinnutilgangi. Þannig mætti smám saman ná samstöðu um nýja aðgreiningu á séreignarréttinum og ríkiseignaréttinum. Látum gráu svæðin liggja á milli hluta.

Þegar hér er komið sögu er gervöll þjóðin sammála um að fyrrverandi eigendur hafi rekið ísbúðina með ósiðlegum og beinlínis skaðlegum hætti. Nú þarf að ráðstafa eignunum. Það þarf einhver að reka Ísbúð Vesturbæjar. Hver skyldi það nú vera?4 Samfélagið er statt á byrjunarpunkti, líkt og Palli sem var einn í heiminum.

Þetta er í raun absúrd staða. Gerist byltingin þannig að stórfelld eignaupptaka eigi sér stað á einni nóttu svo að segja mun ekkert nema ringulreið og óstjórn fylgja. Undir slíkum kringumstæðum mun hver sá sem tekur sér einn eða í hópi dagskrárvald, vald til þess að setja ramma þess sem rætt/kosið er um, ráða.

Það er hjómið eitt að eitthvað sé þjóðareign nema að eigandinn, þjóðin, geti ráðstafað eigninni með skynsamlegum hætti. Eignarrétturinn tryggir eigandanum í krafti fjármagns óumdeildan og stjórnarskrárvarinn rétt til ráðstöfunar á eign sinni. Byltingarsinnar geta ekki kippt teppinu undan fótum borgarastéttarinnar og ætlast til þess að allt verði í sómanum.

Hægfara bylting

Hvernig er hægt að ráðast að rótum auðmagnsins? Hvaða leyndarmál skyldu leynast í bankahvelfingum Sviss? Lætur auðmagnið undan þrýstingi? Borgarastéttin og aðall samtímans sömuleiðis – þeir sem eru á lista Forbes yfir ríkustu menn heimsins – eru að sjálfsögðu ekkert annað en menn úr holdi og blóði. Lítið á Björgólfsfeðgana og hversu breyskir þeir eru. Öll störfum við í dag af mismiklum heilindum eftir brenglaðri lógík kapítalismans sem ekki finnur til.

Í Frakklandi gripu örvæntingarfullir starfsmenn Michelin-verksmiðju sem sagt hafði verið upp störfum snemma árs 2008 til þess ráðs að taka stjórnendur verksmiðjunnar til fanga.5 Þeir fengu út úr þessu mikla athygli fjölmiðla og hærri greiðslur í starfslokasamningi. Þessir menn selja hjólbarða ekki kaðal. Kaðallinn er sjálfsagt fluttur inn og tolllagður í landi byltinganna.

Svo virðist sem umbóta sé þörf. Á 121. (1996-1997), 122. (1997-1998) og 126. (2000-2001) löggjafarþingi flutti Ágúst Einarsson, seinna rektor Háskólans á Bifröst, þá þingmaður Alþýðuflokksins frumvarp um breytingu á lögum um hlutafélög nr. 2/1995. Breytingin laut að því sem nefnt var atvinnulýðræði og hljómaði svona:

Á eftir 63. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
Starfsmenn hlutafélags sem hefur að meðaltali haft 35 starfsmenn eða fleiri síðustu þrjú
ár hafa rétt til að kjósa ákveðinn fjölda stjórnarmanna sem svarar til helmings þess fjölda
stjórnarmanna sem valdir eru á annan hátt. Svo fremi sem fjöldi stjórnarmanna, sem er
heimilt að kjósa af hálfu starfsmanna skv. 1. málsl., er ekki heil tala skal hækkað upp í næstu
heila tölu.
Kosning fulltrúa starfsmanna í stjórn félags skv. 1 mgr. fer fram á almennum fundi starfsmanna
félagsins sem skal haldinn a.m.k. einni viku fyrir aðalfund félagsins, sbr. 84. gr. Allir
starfsmenn hlutafélagsins, sem eru fastráðnir á fundardegi, eru kjörgengir og eiga rétt til setu
á þessum almenna fundi starfsmanna. Við kosningu stjórnarmanna og varamanna á slíkum
fundi ræður afl atkvæða og hefur hver fastráðinn starfsmaður eitt atkvæði eða hlut úr atkvæði,
sé um hlutastarf að ræða.
Um stjórnarmann sem kosinn er skv. 1. og 2. mgr. gilda ákvæði þessara laga.16

Að fyrirmynd kerfis sem er við lýð í Evrópu; Noregi, Þýskalandi, Danmörku og víðar átti að koma á laggirnar kerfi þannig að starfsmenn meðalstórra eða stærri fyrirtækja gætu haft eitthvað um það að segja hvernig þeim væri stjórnað. Frumvarpið var svæft í nefnd í þau þrjú skipti sem það var lagt fram. Á þessum árum var það ekki vinsælt að hafa „óeðlileg“ áhrif á markaðinn.

Jóhanna Sigurðardóttir, þá þingkona Samfylkingarinnar, flutti þingsályktunartillögu á 130. löggjafarþingi (2003-2004) þar sem lagt var til að skipuð yrði nefnd til þess að athuga kosti þess að taka upp meira atvinnulýðræði. Sú tillaga sofnaði værum svefn í félagsmálanefnd.

Þegar ofangreind umræða fór fram var atvinnulýðræði ekki í þeim hugmyndapakka sem Sjálfstæðisflokkurinn kynnti sem Nýskipan í ríkisrekstri. Fækka átti ríkisstarfsmönnum, ekki veita þeim tangarhald á starf sitt. Í dag er annað uppi á teningunum. Er þetta ekki álitlegt skref í átt að afnámi arðráns auðvaldsins? Endurvekjum kröfuna um atvinnulýðræði!

Heimildir

Endurbætur á íslenskri stjórnsýslu

Íslensk stjórnsýsla tekur hægfara breytingum. Eftir hrun er auðsýnilegt að breyta þarf verulega til batnaðar. Tvö mál liggja nú fyrir hjá Alþingi, annað er setning almennra laga um rannsóknarnefndir. Hitt er spánýtt og er á vinnslustigi hjá menntamálaráðuneytinu og er drög að frumvarpi að lögum um Þjóðskjalasafn Íslands.

Ágætt er að settur sé rammi um rannsóknarnefndir, það bendir til þess að þær verði notaðar í meiri mæli og styrkir stjórnsýslulega stöðu rannsóknarnefnda. Þróunin úti í heimi er almennt á þann veg að þingskipaðar rannsóknarnefndir eru notaðar í auknum mæli. Í skýrslu sem unnin var fyrir Alþingi um eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu var mælt með því að minnihluta á Alþingi yrði gert kleyft að skipa slíka nefnd, til dæmis þriðjungi þingmanna. Það er ekki þannig í frumvarpinu heldur þarf meirihluta. Þannig verður meirihlutaræðið áfram mjög áberandi á þinginu. Meirihlutinn mun kæf a það sem hann ekki vill kannast við eftir sem áður. Athyglisvert er að frumvarpið gerir ráð fyrir nýrri fastanefnd stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (sem mælt var fyrir um í frumvarpi til breytinga á þingskaparlögum í júní á þessu ári, en það hefur ekki komið í 1. umræðu).

Varðandi skjalastjórn hjá opinberum aðilum er ljóst að víða er pottur brotinn. Í 5. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis, kafla 16.8 nánar tiltekið, er sérstaklega fjallað um annmarka á skjalaskráningarkerfi Fjármálaeftirlitsins. Meðal annars er fjallað um skort á faglegum vinnubrögðum í íslenskri stjórnsýslu  í 8. bindi rannsóknarskýrslunnar, þá segir á bls 145 „lítið er um að gögn séu skráð og skjalfest. Bæði er að lítið er af gögnum til þess að skrá vegna þess að þeirra er ekki aflað en einnig virðist það vera plagsiður í íslenskri stjórnsýslu, að minnsta kosti í því efsta lagi hennar sem hér hefur komið til skoðunar, að halda gögnum illa til haga. Þegar atburðarásin verður sem þéttust í hruninu má síðan skrifa skort á gagnafærslu að einhverju leyti á tímaskort og þreytu hjá starfsfólki stjórnsýslunnar. Áður hefur verið minnst á tortryggni embættismanna gagnvart því að ráðherrar gætu þagað yfir trúnaðarupplýsingum. Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins segir til dæmis að aldrei hafi verið á vegum samráðsnefndarinnar útbúin gögn fyrir ríkisstjórnina, meðal annars vegna þess að „menn vildu ekki láta þessa umræðu fara víðar“. Menn óttuðust að þetta læki úr ríkisstjórninni.

Samkvæmt drögum að frumvarpi til nýrra laga um Þjóðskjalasafn Íslands verður kveðið skýrar á um ábyrgð á skjalastjórn opinberra stofnana. Það er framför.