Formannskjör hjá sjúkraliðum

Senn verður fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands haldið, en það fer með æðsta vald í málefnum félagsins, líkt og aðalfundir margra annarra félaga. Búast má við misklíð, enda hafa undanfarið staðið yfir heitar deilur um námsleið þá sem nefnd er sjúkraliðabrú. Gefur Kristín Á. Guðmundsdóttir, sitjandi formaður, kost á sér til endurkjörs, en hún sætt hvað harðastri gagnrýni vegna brúarinnar. Ekki liggur fyrir hvernig fylkingar skipast í þeim efnum meðal almennra félagsmanna, né heldur meðal fulltrúanna sem munu sækja þingið, en öllum sem með málinu fylgjast má vera ljóst að þar hlýtur að draga til tíðinda. Framboðsfrestur er til 26. apríl, póstkosning fer fram 21.-23. maí og fulltrúaþingið sjálft verður 31. maí.

Hér á eftir fer frétt um málið, sem er tekin orðrétt af heimasíðu Sjúkraliðafélags Íslands:

———————————————————

Kosning formanns

Í nýútkomnu fagblaði félagsins SJÚKRALIÐANUM er auglýst kosning formanns. Samkvæmt ákvæðum 22., 29., og 30. gr. félagslaga Sjúkraliðafélags Íslands skal formaður félagsins kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Á kjörskrá og með kosningarétt eru allir félagsmenn SLFÍ, enda séu þeir skuldlausir við félagið sbr. ákvæði 5. málsgreinar 27. gr. laga félagsins sem er svohljóðandi:

“Hafi félagsmaður ekki greitt gjöld sín til félagsins í 2 ár missir hann öll félagsleg réttindi þar til skuldin er greidd eða um hana samið.”

Kjörstjórn félagsins hefur ákveðið að framboðsfrestur til embættis formanns Sjúkraliðafélags Íslands verði til kl. 17:00 fimmtudaginn 26. apríl 2007. Tillögum um formannsefni skal komið til formanns uppstillingarnefndar Jóhönnu Garðarsdóttur á netfangi johgard@landspitali.is eða johannag@hive.is eða skriflega til skrifstofu félagsins að Grensásvegi 16, 108 Reykjavík merkt Jóhönnu Garðarsdóttur.

Atkvæðagreiðsla um kjör formanns fer fram með allsherjarakvæðagreiðslu (póstkosningu) dagana 21.-23. maí nk. enda komi fram tillögur um fleirri en eitt formannsefni.

Kjöri formanns skal lýst á fulltrúaþingi félagsins sem verður haldið fimmtudaginn 31. maí nk.

Sól í Straumi óskar eftir sjálfboðaliðum

Sól í Straumi sendir út beiðni um sjálfboðaliða í hamagangi morgundagsins:

Nú er komið að lokasprettinum.  Stórsóknin hefst á morgun og okkur vantar margar hendur til að vinna létt verk. Hér eru verkefnin fram að kosningum og ábyrgðaraðilar. Endilega talið eða sendið SMS beint á þá sem þið viljið leggja lið:

Dreifing / Útburður:
Sigurður Pétur, 8646766

Úthringingar (engin tölvuvinnsla), Vantar 20 manns í þetta verkefni daglega 16:00-21:30):
Ágúst Eiríksson, 8936447. Nýir úthringjarar fá þjálfun í byrjun.

Verslanir 16:00-18:00 alla daga fram að kosningum (vantar fólk!!!)
Svala Heiðberg, 8642277

Kynningarbás í Firðinum með bolasölu
Margrét Pétursdóttir, 6910038

Bæklingur “Hafnfirðingar”
María Kristín Gylfadóttir & Dagur Hilmarsson

Bréf að austan
Pétur Óskarsson

Skrifstofa 13:00 – 18:00 má – fö
Þröstur Sverrisson, 8928550

Umboðsmaður hópsins (samskipti við kjörnefnd)
Kolbrún Benediktsdóttir

Fjármálastjórn og sparsemi
Haukur Agnarsson

Undirbúningur að lokafundi með Capacent:
Pétur Óskarsson

Kjördagsnefnd (skipulag, partý o.s.frv.)
Valgerður Halldórsdóttir og fl.

Eins og sést vantar fyrst og fremst mannauð í þessi verkefni.

Nú er síðasti séns til að gera sitt besta. Líka fyrir þá sem búa utan Hafnarfjarðar og vilja leggja okkur lið.

Með bestu kveðju,

Sól í Straumi

Red Scare

Við upphaf 20. aldar döfnuðu líflegar hreyfingar almennings í Bandaríkjunum sem börðust fyrir hagsmunum launþega og annarra hópa sem nutu ekki góðs af vestrænum kapítalisma, sem og angar alþjóðlegra hreyfinga kommúnista, sósíalista og anarkista.  Líkt og annarsstaðar á Vesturlöndum myndaði verkafólk um öll Bandaríkin samstöðuhópa um að berjast fyrir bættum kjörum og félagslegu- og pólitísku valdi.  Tugir þúsunda verkafólks í kolanámum og stáliðnaði fór í verkfall við lok 2. áratugarins og um tíma virist sem þessar hreyfingar; Communist League of Workers, Industrial Workers of the World (IWW) o.fl, myndu verða verulegt afl í mótun samfélagsins.  Mikil átökt ríktu milli starfsmanna og eigenda framleiðslutækja.

En stríð braust út í Evrópu 1914, sem átti eftir að gjörbreyta pólitísku landslagi í Bandaríkjunum og um heim allan

War Propaganda Bureau í Bretlandi
Fljótlega eftir stríð fékk breska ríkisstjórnin David Lloyd George, þáverandi fjármálaráðherra, til að mynda áróðursstofnun.  Hann stofnaði svo hina bresku War Propaganda Bureau (WPB) og réð Charles Masterman til að stjórna henni (*).  Masterman réð fjölda breska rithöfunda og blaðamanna í stofnunina.  Þeir fengu margir það verkefni að hanna og þróa hentuga áróðurstækni og samþykktu að halda starfi sínu leyndu.  Þeir hófu að skrifa bæklinga og bækur í áróðursskyni fyrir málsstað Breta í styrjöldinni og notuðu einkafyrirtæki eins og Hodder & Stoughton, T. Fisher Unwin, Oxford University Press, Macmillan og fleiri til að gefa efnið út í stað þess að gefa áróðurinn út beint frá breska ríkinu.  Þetta gerði áróðurinn líklega mun áhrifaríkari þar sem lesendur tengdu hann síður beint við ríkisstjórnina og voru ef til vill ekki jafnmeðvitaðir og ella um að um áróður væri að ræða.

Stofnunin sendi frá sér 1160 bæklinga á meðan stríðinu stóð og með hverjum þeirra náði tæknin nýjum hæðum.  Einn bæklinganna, „Report on Alleged German Outrages“ lýsti því þannig hvernig Þjóðverjar, sem í stríðinu voru gjarnan kallaðir Húnar, pyntuðu belgíska borgara kerfisbundið og samviskulaust. Um myndskreytingu á bæklingnum sá hollenski listmálarinn Louis Raemaker, sem hafði aldrei farið til Belgíu og í raun var bæklingurinn uppspuni (*).

Stofnunin réð fleiri listmálara til að búa til áróðursmyndir sem sýndu breska herinn sem öflugan og göfugan en Þjóðverja sem veiklunda og illa.  Listmálararnir; Muirhead Bone (sem hannaði sjálfur um 150 slíkar myndir), Eric Kennington, Willian Orpen og William Rotherstein, unnu undir vökulu auga ritskoðunarnefndar stofnunarinnar.  Ritskoðunardeildin fylgdist einnig grant með því hvaða ljósmyndir bárust fyrir augu almennings og hverjar ekki.  Kvikmyndir voru gerðar fyrir hönd WPB og 1916 var kvikmyndanefnd stofnunarinnar, War Office Cinematograph Committee (WOCC), sett á laggirnar.  Sú nefnd stóð fyrir því að mynda og velja úr efni til að senda sem fréttamyndir í kvikmyndahús, svokallaðar newsreels.  1917 hóf WOCC samstarf við Topical Film Company kvikmyndafélagið sem framleiddi fréttamyndir og kvikmyndir í áróðursskyni fyrir almenning (*).  WPB stóð einnig fyrir hönnun og dreifingu fjölda bæklinga sem dreift var á vígstöðvarnar og ætlaðar voru hermönnum óvinarins.  Þau voru af þremur gerðum:  Í „hvítum“ dreifiritum var rétt greint frá því hver gaf ritið út og stóð fyrir því; í „gráum“ var ekki getið hvaðan dreifiritið kom og í „svörtum“ dreifiritum var ranglega greint frá því hver samdi ritið.  Þannig var jafnvel látið sem ritið kæmi frá þýsku stjórninni.  (Frekari upplýsingar má t.a.m. finna hér og dæmi um áróðursbæklinga hér).  Starfsmenn nefndarinnar beittu sér einna helst að því að hafa áhrif á valdamikla menn í Bandaríkjunum í þeirri von að Bandaríkin tæku þátt í stríðinu sem bandamenn þeirra.  Það ætlunarverk virðist hafa virkað.  Eitthvað var það sem breytti afstöðu Wilsons Bandaríkjaforseta sem náði endurkjöri 1916 með slagorðinu „he kept us out of war“ því 1917, ár rússnesku byltinganna, hófu Bandaríkin formlega þátttöku í stríðinu.

Um WPB segir í alfræðiriti Helicon:

War Propaganda Bureau
The UK government produced its own propaganda pamphlets, posters, and paintings using the War Propaganda Bureau. Well-known authors and artists were recruited, such as Rudyard Kipling, author of The Jungle Book (1894–95), and Sir Arthur Conan Doyle, creator of the Sherlock Holmes detective series. These authors were used to instil positive feelings about the war.

Throughout the war the British government and the armed forces used propaganda techniques to produce posters for recruitment, playing on the emotions and patriotism of the nation. As early as 1914 posters showed Kitchener pointing out towards the viewer with the message ‘Join Your Country’s Army’. In 1915 another image showed a woman watching her husband marching off to war under the caption ‘Women of Britain say GO!’ Men would be shamed and threatened into joining the army by poster images of their future children asking them what they did in the war. The power of persuasion based on appeal to social pressures was very strong and provided good results for the war effort. Messages of unity and the inevitability of victory made those who had doubts about the war less likely to spread their negative feelings for fear of being branded as unpatriotic and anti-British.

Stríðsáróður í Bandaríkjunum
Til að fá Bandaríkjamenn almennt til fylgis við stríðsbröltið hóf sérstök stofnun um dreifingu og myndun áróðurs störf í Bandaríkjunum 6. apríl 1917.  The committee on public information, sem oft er nefnd Creel nefndin eftir formanni hennar George Creel, olli byltingu í áróðurstækni.  Creel var persónulegur vinur forsetans og nefndin hafði mikil fjárráð, nánast frjálsar hendur um að gera hvað sem þeim lysti.  Hún starfaði bæði innanlands og utan við að auka hróður stefnu Bandaríkjanna í stríðinu og minnka að sama skapi hróður andstæðinga (Friedman, H. A.  2002.  Allied Psyop of WWI.  Tekið af psywarrior.com).

Árangur stofnunarinnar var mikill og langvarandi.  Wilson, sem hafði náð endurkjöri sem andstæðingur stríðs, var fagnað sem hetju í París við lok stríðs og á undraskömmum tíma virðist almenningsálitið í Bandaríkjunum hafa snúist að stríði frá friði.  Auk starfa Creel nefndarinnar starfaði reyndar önnur stofnun við sama geira, sú hét hinu þjála nafni Propaganda Section, G2D, General Headquarters, American Expeditionary Forces A.E.F.  Innan árs, frá stofnun hennar í janúar 1918 til stríðsloka, hafði hún dreift um þrem milljónum dreifirita í Þýskaladi.  Innihald bréfanna var oftast á þá veru að þýskum hermönnum var lofað góðum aðbúnaði ef þeir gæfu sig fram til andstæðingsins, en mættu eiga von á dauða og hörmungum ef ekki; að þeir berðust í tilgangslausu stríði fyrir spillt ríki, hermenn voru minnir á frelsið utan vígvallarins og að þeir hefðu ekki stjórn á persónulegu lífi sínu („Hverjum sefur kona þín hjá núna?“) o.s.frv.

Friðarsinnar verða föðurlandssvikarar
18. maí 1917 voru lög samþykkt í Bandaríkjunum sem kváðu á um að til þess að getað neitað að taka þátt í hernaði vegna samviskuástæðna yrði viðkomandi að tilheyra „viðurkenndri“ trúarhreyfingu sem bannaði meðlimum að taka þátt í stríði.  Vegna þessarra laga voru margir sem vildu ekki taka þátt í eyðileggingu stríðs þvingaðir til að ganga í herinn. Um 20.000 slíkir fóru til Evrópu og reyndu að finna stöður sem tengdust ekki beinum stríðsrekstri en fjöldi þeirra lenti í herdómsstólum vegna þess.  170 þúsundir flúðu undan herskyldu.  Eftir stríð voru þessir menn úthrópaðir af yfirvöldum sem heiglar og skuldinni við þessi „svik“ var skellt á þá sem voru kallaðir „rauðir“ eða „róttæklingar“.  Þeir voru sakaðir um að dreifa áróðri og grafa undan Bandaríkjunum með slóttugleika.  („Analysis of the Red Scare“).

Ríkið og viðskiptalífið, sem höfðu tekið höndum saman við að æsa upp stríðsvilja Bandaríkjamanna í hatri á Þjóðverjum og evrópskum sósíalistum beittu nú tækni sinni og getu til áróðurs gegn samvisku-liðhlaupum og róttæklingum, ekki síst meðlimum Industrial Workers of the World (IWW) og sósíalistum.  Lög voru samþykkt, sem gáfu vinnumálaráðherranum vald til að handtaka eða vísa úr landi hverjum þeim erlenda ríkisborgara sem hvatti til eða kenndi „eyðileggingu eigna“ eða „byltingu gegn stjórninni“.  Hugtök sem notuð voru í lögunum voru óskýr og því var hægt að nota þau gegn hverjum þeim sem stjórninni fannst óþægilegur.

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, A. Mitchell Palmer, nýtti sér þessi lög óspart árin 1919 til 1921 (*).  1918 svoru lögin Espionage Act samþykkt á þinginu.  Þau gerðu það refsivert að hindra starfsemi hersins, að vera „óhlýðinn“ (insubordinate) hernum og að sýna hernum ekki hollustu.  Fyrir brot á þessum óskýru lögum voru um 1000 manns, mestmegnis róttæklingar, handteknir.  Í október sama árs voru svo önnur lög gegn róttæklingum samþykkt, Alien Act, en þau gáfu vinnumálaráðherra vald til að vísa úr landi hverjum erlenda ríkisborgara sem hefði nokkurntíman verið meðlimur í samtökum anarkista.  Ekki þurfti að veita formlega ákæru til að framfylgja þessum lögum.  Með þessi og fleiri lög að vopni hófust brátt ofsóknir gegn hreyfingum anarkista og annarra and-kapítalískra hópa.

Í febrúar 1919 fóru um 60.000 kolanámuverkamenn í verkfall og hið sama gerðu stálverkamenn í september sama árs.  Þessi verkföll var iðnjöfrum mikið áfall og þeim var svarað með mikilli hörku, ekki síst á sviði áróðurs.  Hreyfingu kommúnista var kennt um að standa að baki verkföllunum til að koma af stað bolsévískri byltingu.  Á þessum tíma hófust einnig dularfullar sprengjuárásir víða um land.  Ekki var ljóst hverjir stóðu á bakvið þessar árásir en skuldinni var samt sem áður skellt á sósíalista og aðra róttæklinga.  Mikil örvænting og reiði virtist grípa Bandaríkjamenn gagnvart þessum róttæklingum enda birtu dagblöð ótal greinar og fréttir af voðaverkunum.  A. Mitchell Palmer bað þingið í kjölfar sprenginganna um auknar fjárveitingar, sem hann fékk, í ráðuneyti sitt til að sporna við þessarri hættu.  Á sama þingi var samþykkt að vísa öllum erlendum róttæklingum úr landi.

Bandarískir róttæklingar urðu fyrir annarskonar árásum.  Í New York var ný nefnd, „Lusk Committee“, stofnuð til að berjast gegn róttæklingum.  Í júní 1919 réðust lögreglumenn að beiðni hennar til atlögu gegn Rand School of Social Science í New York og handtóku róttæklinga þar.  Svipaðar nefndir og þessi spurttu upp um öll Bandaríkin og ráðist var í höfuðstöðvar hinna svokölluðu Wobblies (hluti af IWW), sósíalista og fleiri samtaka.  Palmer stofnaði einnig leyniþjónustudeild sem átti sérstaklega að berjast gegn anarkistum og tengdum hópum.  Hann fékk upprennandi stjörnu, J. Edgar Hoover, til að sjá um deildina og hann hóf þegar að safna allskyns gögnum sem nota mætti gegn vandræðagemsum.  Eitt fyrsta verkefni deildarinnar var t.d. að ráðast í höfuðstöðvar stéttafélags rússneskra verkamanna.

27. desember 1919 voru 250 róttæklingar, af erlendu bergi brotnir, færðir í skip og siglt með þá til Rússlands, og viku síðar hófust stórfelldar aðgerðir dómsmálaráðuneytisins gegn kommúnistum.  2. janúar 1920 réðust lögreglumenn í höfustöðvar kommúnistaflokksins og um öll Bandaríkin voru þekktir kommúnistar handteknir; um 5000 á einungis 2 dögum.  Handtökurnar voru án ákæru og ekki var réttað yfir föngunum. (Um ofsóknir á „rauðum“ má m.a. lesa hér og hér.)

Á tiltölulega skömmum tíma tókst stjórn Bandaríkjanna að berja niður öflugustu andspyrnuhópa ríkisins í kjölfar stríðs sem þeir tóku þátt í.  Hreyfingum launþega tókst hægt og sígandi að byggja upp starfsemi og vísir að stéttafélögum varð til.  Þeim tókst að ná fram lögum sem heimiluðu verkafólki að mynda stéttafélög og fara í verkföll (Wagner lögin) og um hríð virtist sem launþegar fengju æ meiri byr undir seglin.  En sagan endurtók sig er Bandaríkin hófu þátttöku í nýju og enn skelfilegra heimsstríði.  McCarthy árin sem komu í kjölfarið tættu burt allar leifar af anarkisma og marxisma í Bandaríkjunum.

Síðustu ár hafa róttæklingar látið meira til sín taka í vestrænni þjóðfélagsumræðu og virðist sem svo haldi áfram.  En stjórnendur Bandaríkjanna hafa nú skapað sína eigin heimsstyrjöld, „stríðið gegn hryðjuverkum“ svokallaða.  Í kjölfarið hafa þingmenn samþykkt lög sem heimila hleranir, gæsluvarðhald án dómsúrskurðar og réttarhalda, aukna fjárveitingu í stríð og áróður og fleiri mannréttindabrot. Þeir hafa virt lög um friðhelgi einkalífs að vettugi, brotið Nürnbergsáttmálan og mannréttindayfirlýsingu SÞ.  Ráðamenn hér á landi hafa að jafnaði fylgt skipunum frá Bandaríkjunum eins og hræddir rakkar. Ef sagan mun endurtaka sig með nýjum ofurofsóknum á hendur róttæklingum, er hægt að búast við öðru en að Ísland fari sömu leið?

Fyrirmyndir og íþróttir – til umhugsunar

„Áhugakona um fyrirmyndir“ sendi formönnum allra hestamannafélaga, Landssambands hestamanna og æskulýðsnefnd LH, vefsíðunum 847.is og hestar.is, ÍSÍ og fleirum er málið varðar, bréf um nektardans á karlakvöldum hjá ónefndu hestamannafélagi. Bréfið fer hér á eftir:

Fyrirmyndir og íþróttir – til umhugsunar
Undanfarið hefur nokkuð verið að veltast í huga mér sem ég held að þurfi að fá að flögra um í fleiri kollum og þarfnist almennrar umræðu.

Þannig er að ég er félagi í íþróttafélagi, nánar tiltekið hestamannafélagi, á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar er öll fjölskyldan í þessu félagi enda er hestamennskan frábært fjölskyldusport. Það sem að veldur áðurnefndum vangaveltum er sá siður sem haldinn er í heiðri í mínu félagi, og sjálfsagt fleirum, að á árlegum karlakvöldum félagsins er haft til skemmtunar að horfa á nektardans. Ekki var undantekning á þessari hefð í ár og voru konur keyptar til að skemmta körlunum með því að dansa erótískan dans og hátta sig um leið. Ég hef hugsað mikið um þennan dularfulla sið og skil hann alls ekki? Í hverju liggur skemmtunin? Er tilgangurinn kynörvun? Og þá fjölda karla saman??? Minn skilningur á tilgangi slíkrar skemmtunar er reyndar aukaatriði. Annað er það að eiginmanni mínum, sem þarna var, fannst nektarsýningin ekki mikil skemmtun frekar fannst honum hún óþægilegt áreiti og því er væntanlega eins farið með fjölda karlmanna sem þurfa að sitja undir slíkri niðurlægingu á ungum stúlkum.

Það sem er þó mjög athugavert er að slíkar “stripp” sýningar séu taldar sjálfsagðir viðburðir á skemmtunum sem haldnar eru á vegum íþróttafélags og í félagsheimili þess. Það félag sem hér um ræðir er að vinna að því að fá gæðastimpilinn “Fyrirmyndarfélag ÍSÍ” og því vil ég beina þeirri spurningu til ÍSÍ hvernig slíkar skemmtanir falla að jafnréttismarkmiðum ÍSÍ? Ég veit að Fyrirmyndarverkefnið snýr að barna- og unglingastarfi en þeir sem skipuleggja það starf þurfa þó væntanlega að sýna samkvæmni í störfum sínum og vera til fyrirmyndar, líka eftir klukkan átta á kvöldin.

Svona uppákomur eru allavega afleit fyrirmynd fyrir börnin í félaginu og niðurlægjandi fyrir konurnar.

Ég veit að ég tala fyrir hönd margra kvenna og karla og óska eftir umræðu um þá staðreynd að slík kvenfyrirlitning þrífist á opinberum skemmtunum innan íþróttahreyfingarinnar. Ég óska líka eftir viðbrögðum frá Landsambandi hestamanna og ÍSÍ.

Bréfið er sent á formenn allra hestamannafélaga, LH og alla í æskulýðsnefnd þar, 847.is, hestar.is, ÍSÍ og fleiri er málið varðar.

Áhugakona um fyrirmyndir

——————————————
Þetta bréf er fengið orðrétt af 847.is.

Sól í Straumi óskar eftir aðstoð

Á laugardaginn kemur kjósa Hafnfirðingar um hvort stækkun álversins í Straumsvík verður heimiluð eða ekki. Skiljanlega er handagangur í öskjunni hjá umhverfisverndarsinnum og stóriðjusinnum, og hafa samtökin Sól í Straumi sent frá sér beiðni um aðstoð sjálfboðaliða:

Nú er lokaátakið eftir og mikil þörf á sjálfboðaliðum í margvísleg verkefni.
Stóra verkefnið er úthringingar og við bjóðum öllum sem vilja taka þátt í því skemmtilega verkefni uppá þjálfun og aðstoð við að komast af stað. Úthringitíminn er frá 16:00 til 21:30 alla vikuna og hringt er út frá kynningarmiðstöðinni. Hvert símtal sem við náum getur skipt sköpum um afstöðu og ekki síst um það hvort viðkomandi mætir á kjörstað. Af gefnu tilefni er rétt að við notum ekki tölvutækni í tengslum við þessi símtöl.
Endilega sendið tölvupóst á
postur@solistraumi.org og skráið ykkur í baráttuliðið.

VG vill lýðræði og góða grunnþjónustu

Ég er algerlega sannfærð um að Íslendingar hallist í raun til vinstri-miðju Norðurlandasamfélags sem tryggir góða grunnþjónustu jafnframt því að tryggja öflugt efnahagskerfi og framtak einstaklinga í atvinnulífinu. Það er einmitt það sem við Vinstri græn viljum. Flestir Íslendingar vilja nefnilega að mínu mati trygga grunnþjónustu – en ekki einkavæðingu í öllum hornum samfélagsins sem kemur til með að auka gjaldtöku og mismuna í þjónustu. Að lækka skatta og einkavæða allt er nefnilega ekki að fara að færa okkur meiri peninga í vasann, það er blekking að halda það. Vissulega mun launaseðillinn líta öðruvísi út með minni prósentutölu í skatt, en meira fer á endanum úr vasanum, því þjónustan verður dýrari með einkavæðingu – það sýna mýmörg dæmi. Í krónum og aurum talið verður dæmið dýrara fyrir okkur sem notum þjónustuna. Skattalækkanir þessarar ríkisstjórnar hafa vissulega komið sér vel fyrir þá ríkustu í samfélaginu, en skattbyrðin aukist á hina milli, og lægri launuðu. Skrítin skattastefna það. Við í VG viljum mun frekar færa skattbyrðina af þeim sem eru með lægst launin sem standa nú hvað verst í núverandi skattaumhverfi.

Okkur ber síðan að líta til þess að þegar við greiðum skatta að þá erum við að fá þjónustu fyrir peningana okkar og í raun tel ég að ríkisstjórn hafi það hlutverk að reka þessa grunnþjónustu með sem bestum hætti, en eigi ekki að vera í því að einkavæða allt og selja eigur landsmanna. Stefna VG gengur til dæmis út á það að auðlindir landsins verði þjóðareign, en ekki einkavæddar eins og fór með kvótakerfið til dæmis. Í dag held ég að flestir íslendingar séu farnir að gera sér grein fyrir hversu mikil mistök einkavæðing kvótakerfisins var.

Grunnþjónustuna viljum við einnig tryggja innan íslenska mennta- og heilbrigðiskerfisins án gjaldtöku. Innan menntakerfisins viljum við að rúmist hinar ýmsu hugmyndafræðilegu stefnur sem hér þekkjast, eins og Hjallastefnan og Waldorf og fleiri, án þess þó að það sé einungis fyrir börn efnaðra foreldra. Við viljum rúma slíka fjölbreytni innan menntakerfisins án skólagjalda.

Einnig má þess geta að VG er ekki með á sinni stefnuskrá að ráðast í ríkisframkvæmdir eins og stóriðjustefnan gengur út á, heldur treystum við á frumkvæði fólksins og viljum mun frekar efla það, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt er mögulegt með öflugum nýsköpunarsjóð til dæmis.

Þannig er betur tryggt að ekki verði hér slík þensla að lánin okkar allra hækki stöðugt og einnig að fjármagnið haldist innan íslenska hagkerfisins. Með slíkri þenslu eins og verið hefur vegna stóriðjuframkvæmda hefur höfuðstóll húsnæðislána okkar nefnilega hækkað verulega. Þær 8 milljónir sem ég tók til að kaupa húsnæði árið 2003 eru núna komnar yfir 9 milljónir, þeas. höfuðstóll lánsins hefur hækkað verulega og ég skulda mun meira. Deila má um hvort afnema á verðtrygginguna eða draga úr þenslu til að koma í veg fyrir að heimilin verði skuldsett enn frekar vegna hækkunar vísitölutryggðra lána.

Þá erum við hlynnt því að fólkið í landinu eigi að hafa sitt að segja um það ef ráðast á í stórframkvæmdir á við stóriðju og virkjanir – sem setja hagkerfið úr jafnvægi eins og raun ber vitni. Þar er um að ræða mikla óskynsemi, orkusölu á lágu verði sem hagfræðingar hafa reiknað sig fram til að sé mjög óarðbær fjárfesting og sem hefur í för með sér mikil náttúruspjöll. Í því sambandi hefur VG lagt fram tillögur á þingi um að þjóðin fái að kjósa um svo stórt og umdeilt mál VG er lýðræðisflokkur – við viljum færa meira ákvarðanavald til fólksins – og því getum við komið í verk þegar við förum í stjórn í vor. Þá vonast ég til að það verði með fyrstu verkefnum á dagskrá að koma upp eins konar þjóðaratkvæðagreiðslu-tölvukerfi.

Skiptum út í stjórnarráðinu – stöðvum þenslu
Ef við viljum vera með fremstu og ríkustu þjóðum heims með góða grunnþjónustu á við Norðurlöndin, þá ætti að teljast eðlilegt að skipta út fólkinu í stjórnarráðinu og mynda vinstri-miðjustjórn sem getur lagt línurnar með slíkum áherslum. Öflug grunnþjónusta fyrir fólkið í landinu getur vel gengið við hlið öflugs atvinnulífs og hagkerfis. Það má vel skapa fyrirtækjum góðan grunn til að vaxa hérlendis samhliða því að tryggja fólkinu sem byggir landið þjónustu í heilbrigðis- mennta og vegakerfi eins og hlutkverk kjörinna fulltrúa er. En til þess að fyrirtækin geti vaxið hérlendis og fólkið í landinu þurfi ekki að vera skuldsett upp fyrir haus vegna vísitölutryggðra lána, þá þarf fyrst og fremst að draga úr þenslu – og það ætlar VG að gera með því meðal annars að stöðva allar stóriðjuframkvæmdir.

Pólitíkin er margslungnari en bara hægri vinstri. Ríkisframkvæmdir stjórnarflokkanna eiga mun meira skylt við vinstri stefnu fortíðarinnar í anda Stalíns, en efling einkaframtaksins eins og VG vill mun frekar styðja er meira í anda hægri. Svo hvað er hægri og hvað er vinstri?  Ég er viss um að fleiri en grunar lenda með mér í reit í þessu fjórskipta pólitíska prófi sem sjá má á http://www.politicalcompass.org og hvet ég ykkur landsmenn til þess að taka það. Þar kemur einmitt í ljós hversu lítið lýðræðisleg vinstristefna nútímans er og reyndar kemur líka í ljós við í VG erum í anda vinstri-lýðræðishyggju og erum skoðanasystkin Gandhi, Dalai Lama og Mandela.

Andrea Ólafsdóttir
Höfundur er á lista VG í SV-kjördæmi

Friðsöm utanríkisstefna

Hér er hvatningarbréf sem Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði og friðarsinni, hefur afhent fjölda alþingismanna að undanförnu, og birtist nú í fyrsta sinn opinberlega. Vonandi verða alþingismenn Íslands við þeirri áskorun að tileinka sér friðsama utanríkisstefnu.

Friðsöm utanríkisstefna
Hvatning til þingmanna, ráðherra og annarra valdhafa á tímum ófriðar og manngerðra hörmunga

Orsakir stríðs.
Í gegnum söguna hafa menn réttlætt stríðsátök á ótal vegu.  Hvert stríð kallar á útskýringar ráðamanna um ástæður þess að taka upp vopnaða baráttu gegn öðrum manneskjum.  Ástæðunum fjölgar í jöfnu hlutfalli við stríðin og þegar sagan er skoðuð virðast ástæðurnar nær óþrjótandi.  Trúarbrögð, landvinningar, siðferðisbarátta, gereyðingavopn, hryðjuverk, harðstjórar og jafnvel friður hefur verið notað sem réttlæting á stríðsrekstri og svona mætti lengi telja.

En þetta eru ekki hinar raunverulegu ástæður stríðs heldur afsökunin, réttlætingin sem ráðamenn telja fólki trú um að séu réttar og sannar.  Hinar raunverulegur ástæður stríðsátaka eru ótti, hatur, græðgi og skortur á kærleika og umburðarlyndi.  Hinar raunverulegu ástæður eru því ekki hinar ytri aðstæður eða pólitískt landslag heldur þær tilfinningar sem búa innra með okkur.  Á þessum tilfinningum nærast stríðsæsingamenn.

Það eru mikil sannindi þegar sagt er að fyrsta fórnarlamb stríðsátaka sé sannleikurinn.  Með markvissum áróðri er hægt að vekja upp ótta almennings gegn öðrum þjóðum.  Í hlutverkaspili stjórnmálamanna eru það iðulega þeir sem eru hinir réttsýnu boðberar sannleikans og hinir sem ekki eru á sama máli settir í hlutverk óvinarins.  Þegar hræðsla og hatur almennings við “óvininn” er orðin fullþroska geta ráðamennirnir fengið sínu fram og beitt “óvinin” miskunarlausu ofbeldi í skjóli ótta og þagnar almennings.  Þannig eru styrjaldir ekki einkamál stjórnmálamanna heldur sameiginlegt mein allra manna sem láta hjá líða að sporna við þeim.

Af hverju friður?
Að fá að lifa í friði er mannréttindamál sem allir ættu að láta sig varða.  Friður er ástand sem flestir menn sækjast eftir og það er réttur okkar fá að lifa í friði.  Sá sem fer í stríð gegn náunga sínum brýtur þannig á rétti hans til að lifa í friði og sviptir um leið sjálfan sig þeim sama rétti.  Þannig tapa allir stríðandi aðilar mikilvægum mannréttindum sem felast í því að fá að lifa í friði.

En það eru ekki bara hinir stríðandi aðilar sem tapa mikilvægum mannréttindum.  Saklausir borgarar, menn, konur og börn eru svipt réttinum til að lifa í friði að þeim forspurðum.  Lang stærstur hluti þeirra sem falla eða særast í styrjöldum eru almennir borgarar.  Þeir fá engu ráðið um það hvort farið sé í stríð eða ekki. Stríðandi aðilar vanvirða rétt þessa fólks til að fá að lifa í friði og sá sem slíkt gerir fremur mannréttindabrot.

Ef sannfæring manna segir þeim að þeir hafi rétt á að lifa í friði, án ótta við yfirvofandi ofbeldisverk stríðsvéla, þá ber þeim að auðsýna öðrum manneskjum sömu virðingu.  Okkur ber skylda til að koma fram við náungann af sömu virðingu og við viljum láta koma fram við okkur.  Friðarbaráttan snýst ekki um pólitísk ágreiningsefni heldur siðferði og mannréttindi.  Friðarbaráttan er ekki átök á milli hægri og vinstri heldur er hún barátta á milli góðs og ills, þess sem er rétt og þess sem er rangt.

Friðsöm utanríkisstefna.
Ævarandi hlutleysi var eitt sinn hugtak sem íslenska þjóðin kaus að fara eftir.  Í orðunum fólst sú hugsjón að standa utan við hvers kyns milliríkjadeilur þar sem ofbeldi og vopnuð átök einkenndu samskiptin.  Í dag er staðan því miður önnur og verri.  Íslendingar eru aðilar að hernaðarbandalagi sem valdið hefur þjáningu og angist milljóna manna, kvenna og barna.  Við höfum stutt ólögmætan stríðsrekstur þar sem stríðsglæpir og mannréttindabrot eru framin daglega af bandamönnum okkar.  Íslenskir piltar ganga um í herbúningum með alvæpni í fjarlægum löndum undir yfirskyni friðargæslu.

En friður kemst ekki á með vopnavaldi og stríðsrekstri.  Hugtökin stríð og friður eru það miklar andstæður að annað þrífst ekki þar sem hitt er til staðar.  Þannig getur stríð ekki verið til staðar þar sem friður ríkir og friður er ekki þar sem stríð geysa.  Það er bara um eitt hugtak að velja, annaðhvort stríð eða frið.

Hvort hugtakið viljum við Íslendingar tileinka okkur í utanríkismálum?

Viljum við tilheyra þeim þjóðum sem halda opnum þeim möguleika að ráðast á önnur ríki með vopnavaldi ef óleysanlegur ágreiningur kemur upp eða viljum við tileinka okkur friðsama utanríkisstefnu þar sem allar þjóðir geta áhyggjulaust átt í viðræðum við okkur án ótta við ofbeldisaðgerðir af okkar hálfu ef viðræður renna út í sandinn?

Hagur okkar af friðsamri utanríkisstefnu verður ekki reiknaður í peningum því ávinningurinn er mun meiri en allur auður heimsins.  Með friðsamri utanríkisstefnu leggjum við grunninn að betri heimi og verðum brautryðjendur í heimsmynd friðar og kærleika þar sem stríð og vopnuð átök heyra sögunni til.  Með friðsamri utanríkisstefnu verðum við fyrirmynd annarra þjóða í milliríkjasamskiptum og með því að hafna alfarið ofbeldi og stríðsrekstri sem ásættanlegu samskiptamunstri þjóðanna ávinnum við okkur ævarandi virðingu friðelskandi fólks um heim allan.

Það eina sem stendur í vegi fyrir því að svona muni verða er aðgerðarleysi þeirra sem völdin hafa.  Á meðan enginn gerir neitt þá breytist ekkert.  Það er á valdi ráðamanna að koma málefnum að og kynna góðar hugmyndir þjóðunum til heilla því ekki er það á valdi einmanna andófsmanns á Austurvelli, það get ég vottað.

Hvar stendur þú?
Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins stendur skrifað:

48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.”

Sé það sannfæring þingmanna að ofbeldi og vopnuð átök sé óásættanleg aðferðafræði í samskiptum manna og þjóða þá ber honum að standa við þá sannfæringu sína á þingi.

Samkvæmt þessum lögum er þingmaður ekki skyldugur til að fylgja stefnu flokks síns ef stefna hans er andstæð siðferði hans og sannfæringu.

Á Alþingi starfa 63 þingmenn.  Vissulega getur verið erfitt að sannfæra 63 þingmenn um að friðsöm utanríkisstefna sé landi og þjóð til heilla.  En þökk sé lýðræðishefðum sem kveða á um að meirihlutinn skuli ráða þá þarf ekki að sannfæra nema 32 þingmenn til að friðsöm utanríkisstefna verði að veruleika.

Ef þú ert einn af þeim sem telur stríð ásættanlegt samskiptaform við erlend ríki þá hvet ég þig til að endurskoða hug þinn í ljósi þeirra mannréttindabrota sem slíkar aðgerðir kalla á.

Sért þú hinsvegar einn af þeim sem hafnar ofbeldi sem réttmætri aðferðafræði í samskiptum þjóðanna og virðir rétt fólks til að lifa í friði þá bið ég þig að leita allra leiða til að sannfæra starfssystkini þín um réttmæti og skynsemi slíkrar stefnu í utanríkismálum.

Engin þjóð á skilið meiri virðingu en hún sýnir öðrum.

Engin þjóð á skilið meiri frið en hún veitir öðrum.

Með friðsamri utanríkisstefnu getum við Íslendingar skipað okkur fremst í flokk þeirra þjóða sem hafna stríðsrekstri og ofbeldisverkum í nafni pólitískra ágreiningsefna.  Sem friðsöm þjóð munum við öðlast virðingu og vegsemd annarra ríkja og verða fyrirmynd þjóðanna í samskiptum okkar við ólíka bræður okkar og systur sem byggja þessa Jörð.

Ég hvet þig kæri þingmaður að standa vörð um þau gildi sem við Íslendingar höfum tileinkað okkur í mörg hundruð ár, gildi friðar og kærleika, virðingar og vinsemdar.

Virðingarfyllst
Lárus Páll Birgisson

sjúkraliði

Víglína tjáningarfrelsisins færð til

Nú í vikunni hefur Lárus Páll Birgisson, friðarsinni með meiru, staðið á Austurvelli við upphaf þingfundar og afhent alþingismönnum áskorun um að tileinka sér friðsama utanríkisstefnu. Út af fyrir sig væri það ekki ýkja fréttnæmt, en nokkuð dró til tíðinda í gær, miðvikudag. Hér á eftir fylgir dálítil greinargerð um atburði síðustu daga og þann áfangasigur sem vannst.

Á mánudaginn var stóð Lárus fyrir framan Alþingishúsið, þegar lögreglumaður hafði afskipti af honum og hugðist taka mótmælaspjöld af honum. Sá hvarf frá eftir að Lárus mótmælti ástæðulausri og ólöglegri eignaupptöku, en nokkru seinna komu tveir lögregluþjónar til viðbótar og sögðu að hann væri beðinn að víkja af lóð þingsins. Lárus taldi sig ekki þurfa þess, enda hefði hann stjórnarskrárbundinn rétt til að standa þar og tjá skoðarnir sínar. Var honum tjáð að þingverðir hefðu amast við veru hans þar, en hann kvaðst ekki skilja að geðþótti þeirra vægi þyngra en tjáningarfrelsi hans, og að ef hann ætti að víkja, hlyti að þurfa að loka gangstéttinni fyrir almenningi á meðan. Eftir nokkur orðaskipti kom myndatökumaður frá Sjónvarpinu á vettvang. Lárus endurtók það sem hann hafði sagt, að hann teldi sér frjálst að standa á almenningsgangstétt og tjá skoðanir sínar friðsamlega. Afréðu lögregluþjónarnir að láta málið niður falla að sinni, og hurfu frá.

Í fyrradag mætti Lárus aftur á Austurvöll, sömu erinda, við annan mann. Þar sem þeir stóðu á gangstéttinni fyrir framan Alþingishúsið með spjöld sín, komu tveir lögregluþjónar og ræddu við þá. Lárus, sem hafði orð fyrir þeim, sagði þeim að hann teldi sig vera í fullum rétti, og vísaði í stjórnarskrá. Sá sem hafði orð fyrir lögregluþjónunum sagði honum þá að hann hefði fyrirmæli um að fá þá af lóð þingsins. Lárus og félagi hans viku af lóðinni og norður fyrir Kirkjustræti þegar þeir fengu ákveðna en vingjarnlega fyrirskipun þess efnis frá lögreglumanninum. Lét hann það fylgja, að ef þeir væru ósáttir gætu þeir haft samband við yfirboðara sína og leitað réttar síns.

Það gerði Lárus. Hann fór á lögreglustöðina á Hverfisgötu og átti fund við Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjón. Ræddu þeir rétt mótmælenda til að standa fyrir framan Alþingishúsið. Féllst Geir Jón á að friðsamleg mótmæli gætu hvorki talist röskun á almannaró né friði og frelsi Alþingis, og því gæti það ekki verið ólöglegt að dreifa flugritum fyrir framan Alþingishúsið. Taldi hann þó best að hafa ekki skilti fyrir framan það, en þau mættu áfram vera norðan Kirkjustrætis. Geir Jón og Lárus komu sér síðan saman um að hittast fyrir framan Alþingishúsið morguninn eftir. Það gekk eftir.

Í gærmorgun, miðvikudag, mætti Lárus enn, nú við fjórða mann. Höfðu þeir mótmælaskilti og dreifimiða og, sem fyrr, prentaða áskorun til að dreifa til alþingismanna. Auk þess myndavélar og kort sem sýndi lóðarmörk Alþingis. Geir Jón kom, við annan mann, og ræddust þeir við. Viðræðurnar voru teknar upp á myndband. Niðurstaðan var þessi:

Mótmælendum er heimilt að mótmæla fyrir sunnan Kirkjustræti, það er að segja, beint fyrir framan Alþingishúsið. Það er heimilt að dreifa miðum og bera skilti. Augljóslega er ekki heimilt að trufla eða hindra för fólks, eða raska starfsfriði þingsins eða raska almannareglu.

Þessi niðurstaða er framför. Hingað til hefur lögreglan dregið víglínuna um Kirkjustræti; mótmælendum verið heimilt að standa norðan þess, en ekki sunnan. Þessi víglína hefur nú færst til.

Rétt er að taka fram, að þingverðir gerðu athugasemd við að skilti væru látin standa upp við stöpla þar sem þau gátu talist í gangveginum, eða upp við húsvegg í eigu Alþingis. Þá athugasemd tóku lögreglumenn til greina, og þarf hún ekki að teljast óréttmæt. Var það mál manna að niðurstaðan í þessu máli væri framför fyrir íslenska mótmælendur og tímabært að tjáningarfrelsi fengist staðfest með þessum hætti.

Félagshyggjuverðlaun Ungra jafnaðarmanna veitt í fyrsta sinn

Fræðimönnunum Stefáni Ólafssyni og Þorvaldi Gylfasyni ásamt Mæðrastyrksnefnd voru veitt félagshyggjuverðlaun Ungra jafnaðarmanna við hátíðlega athöfn á afmæli hreyfingarinnar á laugardaginn.  Verðlaunin verða héðan í frá veitt árlega þeim sem að mati hreyfingarinnar hefur með verkum sínum stuðlað að betra samfélagi.

Mæðrastyrksnefnd fékk verðlaunin fyrir óeigingjörn störf í þágu þess að bæta kjör fátækra á Íslandi. Ragnhildur Guðmundsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Aðalheiður Frantzdóttir framkvæmdastjóri tóku við viðurkenningunni fyrir hönd nefndarinnar. Stefán og Þorvaldur hlutu viðurkenningar sínar fyrir að hafa verið óþreytandi í að fjalla um aukna misskiptingu í þjóðfélaginu undanfarin 12 ár. Með umfjöllun sinni í ræðu og riti hafa prófessorarnir vakið þarfa athygli á verkum núverandi ríkisstjórnar, sem hefur á markvissan og meðvitaðan hátt aukið ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Ungir jafnaðarmenn færa Mæðrastyrksnefndinni, Stefáni Ólafssyni og Þorvaldi sýnar bestu baráttukveðjur og hvetur þau til að halda góðu starfi sínu áfram, hér eftir sem hingað til.

Á myndinni gefur að líta þau Þorvald Gylfason, Aðalheiði Frantzdóttur, Ragnhildi Guðmundsdóttur og Magnús Már Guðmundsson, formann UJ. Stefán Ólafsson átti ekki kost á að veita viðurkenningunni viðtöku.

Fjölmenni var á afmælishátíðinni sem fór fram á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, og skemmtu ungliðar sér fram eftir nóttu.

——————————————————-

Þessi frétt er tekin orðrétt af vef Samfylkingarinnar.

Sérframboð eldri borgara og öryrkja hættir við framboð

Undirbúningshópur um sérframboð eldri borgara og öryrkja hefur gefið út eftirfarandi tilkynningu:
—————————————————

ÁRÍÐANDI TILKYNNING – HÆTT VIÐ FRAMBOÐ

Fundi um framboðsmál eldri borgara og öryrkja sem boðaður var n.k. sunnudag, 11. mars, á Hótel Sögu er aflýst.

Vinsamlegast lestu alla tilkynninguna.

Eins og þú e.t.v. veist var haldinn opinn fjölsóttur fundur þ. 14. desember sl. í félagsheimili FEB í Reykjavík til að ræða framboðsmál. Þar var borin undir atkvæði tillaga Baldurs Ágústssonar fv. forstj. um framboð eldri borgara til Alþingis til að ná fram leiðréttingu á kjörum þeirra. Tillaga Baldurs var samþykkt með miklum meirihluta.

Eftir það gerðist eftirfarandi:

undirbúningshópur, sem myndaður var af sjálfboðaliðum, hóf vinnu við gerð stefnuskrár og undirbúning að stofnun stjórnmálaflokks til að vinna að almennum þörfum og sérstökum velferðarmálum eldri borgara.

fréttir af þessu ýttu við stjórnmálaflokkunum sem fóru að leggja meiri áherslu á mál eldri borgara og hnika þeim upp eftir forgangslistum sínum.

annar hópur, leiddur af Sveini Guðmundssyni verkfr., hélt fund þrem dögum síðar (17. des.) og ákvað einnig að stofna stjórnmálaflokk til að vinna að málum eldri borgara.
Við í fyrri hópnum töldum að ef tveir hópar væru að vinna að framboðum um sama mál gæti það aðeins spillt fyrir hagsmunum eldri borgara, t.d. með dreifingu atkvæða. Það væri heilbrigð skynsemi að sameina hópana og það var reynt. Það reyndist því miður ekki gerlegt.

Við, fyrri hópurinn, stóðum því frammi fyrir ákveðnum valkostum. Annars vegar að fara í framboð, þrátt fyrir að þá yrði um tvö framboð um málefnið að ræða og hins vegar að draga okkar framboð til baka.

Hugmyndin um framboð hefur fengið mjög góðar undirtektir í skoðanakönnunum og fjölmargir hafa skráð sig á stuðningslista hjá okkur. Frá því að við fórum af stað hafa stjórnmálaflokkarnir beint sjónum sínum meira að málefnum eldri borgara og þegar kynnt a.m.k. sumar af nauðsynlegum breytingum. Forsætisráðherra kynnti t.d. í vikunni breytingar sem leyfa munu öryrkjum að vinna að því marki sem þeir eru ekki öryrkjar – án þess að örorkubætur þeirra skerðist. Það getur aðeins verið spursmál um stuttan tíma þar til hliðstæðar tilslakanir verða gerðar fyrir eldri borgara, enda sjálfsagt. Framsóknarflokkurinn hefur nýlega ályktað :”Auka ber heimahjúkrun í heilsugæslunni svo aldraðir geti búið heima sem lengst, með áherslu á kvöld-, nætur- og helgarþjónustu. Jafnframt þarf að stórefla félagslega heimaþjónustu hjá sveitarfélögum“.  Allar slíkar breytingar gleðja að sjálfsögðu okkur sem berum hag eldri borgara fyrir brjósti.

Að öllum þessum kringumstæðum vandlega athuguðum, teljum við undirritaðir, meðlimir hins upphaflega undirbúningshóps, það þjóna eldri borgurum best að við drögum okkur í hlé og hættum við að stofna stjórnmálaflokk og bjóða fram til Alþingis í vor.

Fundinum sem boðaður var að Hótel Sögu sunnudaginn 11.mars er því aflýst.

Stuðningur þinn og annarra – sem við þökkum –  svo og vinna okkar, hefur samt engan veginn verið til einskis. Án hvort tveggja er mjög ólíklegt  að stjórnmálaflokkarnir hefðu aukið áherslur sínar á mál eldri borgara svo sem raun ber vitni.

Þó að við höfum ákveðið að sleppa framboði í þetta sinn, er áhugi okkar á velferð aldraðra óbreyttur. Mikið verk er óunnið í málum lífeyrissjóða, skattamálum, launatengingum, lífeyrismálum, hjúkrunarheimilum, kjörum umönnunaraðila og mörgu öðru svo öldruðum sé með sanni búið “áhyggjulaust ævikvöld”.

Sú hugmynd hefur því komið upp að stofna ópólitískan þrýstihóp til að fylgjast með hvernig málum eldri borgara miðar, hvar skórinn kreppir og hvort kosningaloforð eru haldin. Hópurinn myndi láta heyra í sér opinberlega eftir þörfum og halda athygli ráðamanna og almennings vakandi. Einnig, þegar líður á kjörtímabilið, endurmeta þörfina fyrir nýtt stjórmálaafl, hafi væntingar kjósenda og loforð stjórnmálaflokka ekki gengið eftir.

Hafir þú áhuga á að taka þátt í starfi svona hóps biðjum við þig að láta okkur vita með því að smella hér

Að lokum  fullvissum þig um að stuðningur þinn við framtak okkar hefur verið mikil hvatning og hefur þegar haft mikil áhrif – og mun hafa það áfram.

Við hlökkum til að heyra frá þér

Bestu kveðjur,

F.h. Áhugafólks um málefni eldri borgara og öryrkja
www.framboð.is

Baldur Ágústsson verslunarmaður,
Guðbjörn Jónsson ráðgjafi,
Baldur Ágústsson fv. forstj.

——————————————

Þessi tilkynning er tekin orðrétt af vef Áhugafólks um málefni eldri borgara og öryrkja, framboð.is.