Kynþættir og stéttir

500 ára saga hnattrænnar auðhyggju er hefur getið af sér kerfisbundna kynþáttamismunun. Fólkið sem sigraði heiminn hafði tilhneigingu til að vera hvítt og fólkið sem tapaði hafði gjarnan annan litarhátt. Þetta auðveldaði þeim stéttum sem sigruðu að stimpla hina sigruðu sem „hina“ og réttlæta þannig ofbeldi sitt með ýmsum hugmyndafræðilegum vangaveltum: Hin sigruðu voru villimenn; þau voru óæðri og áttu ekki skilið mannúðlega meðferð; kristin trú var innleidd í menningu þeirra og því fékk það tækifæri til þess að frelsast; og margar fleiri.

Aldalöng réttlæting á hinni ofbeldisfullu endurdreifingu auðs á heimsvísu (frá Afríku, Asíu, Miðausturlöndum og Rómönsku-Ameríku til Evrópu og Norður Ameríku), gat af sér risavaxna og skipulega mismunun milli kynþátta. Ómögulegt er að ráðast að rótum þessarar arfteknu kynþáttahyggju án þess að horfast í augu við hið kerfisbundna misrétti sem þróaðist samhliða hugmyndafræðinni um æðri/óæðri kynþætti. Til þess að innleiða hugmyndafræðina um að enginn hópur fólks sé frá fæðingu æðri eða óæðri en annar verður að breyta hinu gífurlega ójafnrétti sem nú ríkir hjá mannkyni. Sú mikla endurdreifing auðs á heimsvísu næst ekki fram með bankastofnunum sem setja hagnað ofar en fólk og sérhæfa sig í að færa fé frá þeim mörgu til hinna fáu.

Líka í þínu umhverfi

Ójafnrétti er einnig mikið og versnar innan Bandaríkjanna. Ríkustu 5 prósent Bandaríkjamanna eiga 81,9 prósent hlutabréfa og stjórna 57,4 prósent af lausu fé allra í Bandaríkjunum. Augsýnilega gerir slík samþjöppun auðs raunverulegt lýðræði – jafnan rétt til valda – ómögulegt.

Hið íhaldssama tímarit Economist skýrði frá því 16. janúar 1999 að „á sama tíma og tekjur efsta fimmtungs [bandarískra] karlmanna hækkaði um 4 prósent á milli 1979 og 1996, lækkuðu tekjur þeirra í neðsta fimmtungnum um 44 prósent.“

Á níunda áratugnum þénaði framkvæmdastjóri stórs bandarísks fyrirtækis 42 sinnum meira en meðal bandarískur verkamaður. Þegar komið var til ársins 1999 hafði markaðsdrifinn vöxtur aukið það ójafnræði að því stigi að meðal framkvæmdastjórinn þénaði 475 sinnum meira en það sem meðal verkamaður þénaði.  Þetta vefengir meira en lítið þann málaflutning að efnahagslegur „vöxtur“ lyfti öllum (eða jafnvel flestum) bátum hærra.

Ástæðan fyrir auknu ójafnrétti hér og annars staðar í heiminum er einföld. Markaðir henta þeim sem eiga fé og gefa þeim tækifæri til að eignast meira fé með því að taka það frá þeim sem eiga minna af því og hafa takmarkaðri aðgang að þeim sem taka ákvarðanir í stjórnkerfinu. Reglan „Hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari” er meira en klisja, hún er staðreynd. Eignarhald hefur þjappast meira og meira saman.

Þegar fólk segir „látum markaðina ráða“ er það í raun að segja „látum peningana ráða“ eða, nákvæmara, „látum þá sem eiga mest fé ráða“. Ef dreifing gleði og þjáninga er stjórnað af markaðsöflunum verður aukið ójafnrétti einfaldlega vegna þess að markaðir dreifa vörum að þeim sem eiga meiri peninga og frá þeim sem hafa minni.

Heimildir

  1. United Nations Development Program, World Development Report, 1998 (New York: Oxford University Press, 1998), On the reproduction of global poverty, see Belinda Coote, The Trade Trap: Poverty and the Global Commodity Markets (Oxford, UK: Oxfam, 1996).  Fyrir ítarleg gögn um ójöfnuð í Bandaríkjunum, sjá Lawrence Mishel o.fl., The state of Working America, 200/2001 (New York: Economic Policy Institute, 2001).
  2. Christopher Columbus, The Journals of the First Voyage, edited and translated by B.W.Ife (Warminster, England: Aris and Phillips, 1990), October entry.

Erindi Cynthiu Enloe frá 25. október

Í síðustu viku hélt Cynthia Enloe, rannsóknaprófessor við Clark háskóla, erindi um karlmennsku og bandarísku forsetakosningarnar fyrir fullum sal í Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirlesturinn, „What if Masculinity Were an Election Issue? Feminism, the Ecomony and Voting in the Up-coming US Elections“, var haldinn í samstarfi við Alþjóðlega jafnréttisskólann við HÍ. Spegillinn ræddi líka við Cynthiu um erindið og má hlusta á viðtalið við hana hér, og erindið allt er hægt að sjá á heimasíðu RIKK.

Af öðrum miðlum

Á blogginu Vegið úr launsátri er veist harkalega að vefmiðlinum bleikt.is. Það helsta sem setja má út á er að skrifað sé nafnlaust. Undirritaður hefur aldrei skilið hvers vegna fólk er feimið við að gangast við skoðunum sínum.

Á vef Samtaka hernaðarandstæðinga er réttilega fundið að aðför norska hersisns að saklausum íslenskum unglingum.

Hjálmar Sveinsson setur fram áhugaverða kenningu um ástæður þess að betri stemmning myndast á Hinsegin dögum en 17. júní.

Hafsteinn Þór Hauksson lektor í almennri lögfræði og réttarheimspeki við HÍ setur landsdóm og sýndarréttarhöldin í Sovétríkjunum í raunsætt samhengi.

Jussanam fær að vera

Undirritaður gleðst sérstaklega að innanríkisráðuneytið skuli hafa tekið til endurskoðunar stjórnsýsluákvörðun Vinnumálastofnunar að neita Jussanam Da Silva um framlengingu á atvinnuleyfi sínu. Jussanam er brasílísk kona sem unnið hafði á Íslandi í tvö undangengin ár, þar til hún var svipt leyfinu í september síðastliðnum. Þetta var heilmikill skrifræðisgrautur þ.e. Jussanam skildi við eiginmann sinn og þá fór ákveðin atburðarrás í gang. Allt í einu stóð hún slypp og snauð þrátt fyrir að mannesjan sé harðduglegur starfskraftur og barngóð (undirritaður er samstarfsmaður). Hún hefur því verið að miklu leyti upp á vini og vandamenn komin undanfarna mánuði. En nú birtir til. Það er ánægjulegt að svona góðar fréttir berist endrum og nær.

Eftir sem áður virðist einangrunarstefna Íslendinga í mannúðar- og þróunarmálum vera til háborinnar skammar. Það er grátlegt að ekki sé hægt að gera meir fyrir nauðstatt fólk.

Yfirlýsing Alþjóðaþings félagslegra fjöldahreyfinga

Við erum saman komin á World Social Forum í Dakar 2011 sem Alþjóðaþing félagslegra fjöldahreyfinga í þeim tilgangi að viðurkenna grundvallar framlag íbúa og þjóða Afríku til uppgangs og þróunar siðmenningarinnar. Allt mannkyn háir nú stórkostlega baráttu gegn drottnunartilburðum auðmagnsins sem felur sig bakvið óljós og innihaldslaus loforð um efnahagslegar framfarir og pólitískan stöðugleika. Algjört sjálfstæði og frelsi undan nýlendukúgun til handa undirokuðum almenningi er mikilvægasta áskorunin sem fjöldahreyfingar veraldarinnar standa frammi fyrir.

Við áréttum og staðfestum stuðning okkar og virka samstöðu með almenningi í Túnis, Egyptalandi og annars staðar í Arabaheiminum, sem hefur risið upp til þess að krefjast raunverulegs lýðræðis og uppbyggingar á valdi fólksins. Barátta þeirra lýsir leiðina til annarar veraldar, frjálsrar undan kúgun, arðráni og misnotkun.

Við staðfestum eindreginn stuðning okkar við baráttu íbúa Fílabeinsstrandarinnar, þjóða Afríku og allrar alþýðu veraldarinnar fyrir staðbundnu og virku lýðræði. Við verjum sjálfsákvörðunarrétt allra þjóða.

Vettvangur World Social Forum er sá staður þar sem Alþjóðaþing félagslegra fjöldahreyfinga sameinast í fjölbreytileika sínum, í því skyni að sameina markmið og baráttuna gegn auðmagninu, feðraveldinu, gegn kynþáttafordómum og allri annarri mismunun.

Porto Alegro 2001Porto Alegro 2001Við fögnum 10 ára afmæli Social Forum, sem var fyrst haldið í Porto Alegre árið 2001. Í því starfi sem unnið hefur verið síðan hafa skapast ríkar hefðir samvinnu, og hefur það leitt af sér nokkrar framfarir, sérstaklega í Rómönsku-Ameríku, þar sem við höfum náð að grípa inn í og hafa áhrif á bandalög nýfrjálshyggjuaflanna, og skapa valkosti réttlátra framfara sem raunverulega heiðra náttúruna.

Á þessum tíu árum höfum við einnig orðið vitni að því að alvarleg kerfiskreppa hefur skollið á. Hún hefur birst í krísum vegna matvælaskorts, umhverfisvá, og efnahags-og fjármagnskreppum, og hefur leitt til aukinna búferlaflutninga og þvingaðra fólksflutninga, arðráns, skuldsetningar og félagslegs ójafnaðar.

Við fordæmum hegðun helstu leikenda kerfisins (banka, fjölþjóðlegra fyrirtækja, fjölmiðla, alþjóðlegra stofnanna og annara) sem hafa með eilífri áherslu sinni á og ásókn í hámörkun skammtímahagnaðar, haldið áfram hernaðar- og íhlutunarstefnu sinni, hersetu, svokölluðum þróunarverkefnum, uppbyggingu nýrra herstöðva, botnlausu ráni á náttúruauðlindum, arðráni heillra þjóða, og hugmyndafræðilegri kúgun. Við fordæmum einnig tilraunir þeirra til að nýta og eigna sér fjöldahreyfingar okkar í gegnum fjármögnun á félagslegum geirum sem geta þjónað tilgangi þeirra, og við höfnum aðferðum þeirra við að aðstoða, sem framkalla ósjálfstæði og gera okkur háð fjármögnun þeirra.

Eyðileggjandi afl kapítalismans hefur áhrif á lífið allt, hjá öllum þjóðum veraldar. En þrátt fyrir það sjáum við nýjar hreyfingar verða til á hverjum degi, sem berjast við að snúa við eyðileggingarstarfi nýlendustefnunnar og vinna að virðingu og vellíðan fyrir alla. Við lýsum því yfir að við, almenningur, munum ekki lengur bera kostnaðinn af kreppum kapítalistanna og að innan þjóðfélagskerfis kapítalismans verður ekki komist hjá kreppu. Þetta staðfestir aðeins þörfina fyrir það að við, sem þátttakendur í félagslegum hreyfingum, mótum sameiginlega stefnu til að fylgja í baráttu okkar gegn kapítalismanum.

Við berjumst gegn fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum vegna þess að þau styðja auðvaldskerfið, einkavæða tilveruna alla, opinbera þjónustu og almannagæði eins og vatn, loft, land, fræ og auðlindir í jörðu. Með samningum sínum við einkafyrirtæki og málaliða hvetja fjölþjóðleg stórfyrirtæki til stríðs og átaka; rányrkja þeirra stofnar mannlegu lífi og náttúru í hættu, lönd okkar eru tekin eignarnámi og með því að þróa erfðabreytt fræ og matvöru er réttur fólks til að rækta sinn eigin mat afnuminn og líffræðilegur fjölbreytileiki eyðilagður.

Við krefjumst þess að allur almenningur hafi full yfirráð og stjórn yfir því hvernig fólk hagar lífi sínu. Við krefjumst þess að stefna verði mörkuð og framkvæmd sem ver staðbundna framleiðslu, sýnir landbúnaðarsamfélögum virðingu og verndar forna lífshætti og gildi. Við fordæmum fríverslunarsamninga nýfrjálshyggjunnar og krefjumst fulls ferðafrelsis alls mannkyns.

Við látum ekki af þeirri kröfu okkar að ríkisskuldir landa á suðurhveli jarðar verði felldar niður án skilyrða. Við afneitum því einnig að á norðurhvelinu séu opinberar skuldir og skuldir einkageirans notaðar til þess að innleiða ósanngjarna stefnu sem miðar að niðurrifi velferðarkerfisins.

Þegar G8 og G20 ríkin halda fundi sína, komum þá saman um alla veröldina til að tilkynna þeim: Nei! Við erum ekki varningur! Við látum ekki versla með okkur!

Við berjumst fyrir réttlátum aðgerðum til varnar loftslagsbreytingunum og fæðuöryggi. Hnattrænar loftslagsbreytingar eru afleiðingar hins kapítalíska kerfis framleiðslu, dreifingar og neyslu. Fjölþjóðleg stórfyrirtæki, alþjóðlegar fjármálastofnanir og stjórnvöld í þjónustu þeirra vilja ekki draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við höfnum svokölluðum grænum kapítalisma og frábiðjum okkur falskar lausnir á loftslagsbreytingunum á borð við lífrænt eldsneyti, erfðabreyttar lífverur og verslun með koltvísýringskvóta, eins og REDD (United Nations Collaborative Programme on Reducing Emissions from Deforestation and Forest Degradation in Developing Countries), sem tæla fátækar þjóðir með fölskum loforðum um framþróun á meðan skógar og landsvæði sem þessar þjóðir hafa í árþúsund ræktað eru einka- og markaðsvædd.

Við verjum fæðuöryggi, og samkomulag það sem náðist á Þingi alþýðunnar gegn loftslagsbreytingunum (Peoples’ Summit against Climate Change), sem haldið var í Cochambamba, þar sem raunverulegir valkostir til þess að takast á við loftslagsbreytingarnar voru mótaðir í samvinnu við félagslegar fjöldahreyfingar og samtök hvaðanæva að úr heiminum.

Sameinumst öll, sérstaklega þau okkar á meginlandi Afríku, á meðan COP 17 stendur yfir í Durban í Suður-Afríku, og þegar Rio +20 fundurinn verður haldinn árið 2012, til þess að árétta að bæði alþýðan og náttúran hafa réttindi, og til að koma í veg fyrir að ólögmætum Cancun samningnum verði framfylgt.

Við styðjum sjálfbæran landbúnað bænda; það er hin sanna lausn á matar og loftlagsvandanum og tryggir öllum þeim sem starfa við landbúnað aðgang að landi. Því köllum við eftir fjöldasamstöðu til þess að stöðva landupptöku og til þess að styðja við staðbundna baráttu bænda. Við berjumst gegn ofbeldi gegn konum, sem oft á sér stað á herteknum svæðum, en jafnframt ofbeldi gegn konum sem er refsað fyrir að taka þátt í félagslegri og pólitískri baráttu. Við berjumst gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi sem framið er gagnvart konum vegna þess að þær eru hlutgerðar, vegna þess að algjör yfirráð þeirra yfir eigin líkama og hugsun eru ekki viðurkennd. Við berjumst gegn verslun með konur, stúlkur og drengi. Við skorum á alla að koma saman, allstaðar í veröldinni, og mótmæla kynbundnu ofbeldi. Við verjum kynferðislegann fjölbreytileika, réttinn til að taka sjálfstæða ákvörðun um kynhlutverk, og við erum andsnúin allri hómófóbíu og kynbundnu ofbeldi.

Við berjumst fyrir friði og gegn stríði, nýlendustefnu, hernámi og hernaðarvæðingu jarða okkar.

Heimsvaldasinnar nota herstöðvar til að kveikja átök, til að stjórna og ræna náttúruauðlindum, og til að styðja við andlýðræðislega tilburði eins og gert var með valdaráninu í Hondúras og hersetunni á Haiti. Þau ýta undir og stuðla að stríði í Afganistan, Írak, Lýðveldinu Kongó og víða annars staðar.

Kaupum ekki vörur frá ÍsraelKaupum ekki vörur frá ÍsraelVið verðum að efla baráttuna geng kúgun og gegn glæpavæðingu baráttu almennings fyrir réttlæti, og styrkja samstöðu og frumkvæði á milli þjóða, eins og t.d. Baráttuna fyrir að kaupa ekki ísraelskar vörur og stoppa fjárfestingum þar (Global Boycott Disinvestment og Sanctions Movement against Israel). Barátta okkar beinist einnig gegn NATO og miðar að því að banna öll kjarnorkuvopn.

Í öllum þessum átökum felst orrusta hugmynda, þar sem við getum ekki náð árangri án þess að lýðræðisvæða samskiptin. Við áréttum að hægt er að skapa annars konar hnattvæðingu, gerða af og fyrir almenning, og með nauðsynlegri þátttöku hinna ungu, kvenna, bænda og frumbyggja.

Alþjóðaþing félagslegra hreyfinga kallar á hreyfingar og einstaklinga frá öllum löndum til að skipuleggja tvær meiriháttar herferðir, samræmdar á alþjóðavettvangi, til þess að vinna að frelsun og sjálfsákvörðunarrétti almennings, og til að efla baráttuna gegn kapítalismanum.

Innblásin og hvött til dáða af baráttu almennings í Túnis og Egyptalandi, köllum við eftir því að 20. mars verði dagur alþjóðlegrar samstöðu með uppreisninni í Arabaheiminum og Afríku, þar sem hver sókn og sigur styður við baráttu alls almennings: andspyrnunnar í Palestínu og Sahara; baráttunnar í Evrópu, Asíu og Afríku gegn drápsklyfjum skulda og markaðsvæðingu alls samfélagsins, og öllu breytingarferlinu sem nú á sér stað í Rómönsku-Ameríku.

Við köllum líka eftir því að 12. október verði Alþjóðlegur baráttudagur gegn kapítalisma, þar sem við munum á margvíslegan hátt tjá andúð og andstöðu okkar við það kerfi sem eyðileggur nú allt sem á vegi þess verður.

Félagslegar fjöldahreyfingar veraldarinnar, sækjum fram í átt að alþjóðlegri einingu til að rústa hinu kapítalíska kerfi!

Við munum sigra!

 

Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir

Þessi þýðing er tekin stafrétt af heimasíðu Attac.

Jólaboð Ásdísar Ránar: Piparkökur, Playboy og vændi

Fyrirsögn þessarar fréttar er ein af þeim smekklegu fyrirsögnum sem birtast á Vísi.is. Heimur versnandi fer. Fyrsta lína fréttarinnar er „Ég kem ekki nálægt þessu. Ég get ekkert tjáð mig um þetta. Ég er bara ráðin þarna og mér er borgað fyrir að vera þarna“. Þarna er Ásdís að svara spurningu blaðakonunnar um það hvort Ásdísi finnist viðeigandi að kynna nýja snyrtivörulínu sína í jólaboði á skemmtistaðnum RePlay þar sem saga vændiskonu er einnig á dagskránni. Í svari Ásdísar kristallast hugmyndafræði frjálshyggjunnar, þótt hún verði seint álitinn talsmaður hennar: að varpa siðferðislegri ábyrgð yfir á markaðinn. Sú trú að markaðurinn leiðrétti sjálfan sig réttlætir ósæmilega eða ósiðlega hegðun. Til dæmis að taka út arð þótt að fyrirtæki sé rekið með tapi eða ljá sögu hórmangara spennandi dulúð. Í auglýsingunni fyrir atburðinn segir: „Þá verður lesið upp úr hinni umdeildu og forboðnu bók, Hið dökka man – saga Catalinu. Þetta er sjóðheit lesning um samskipti Miðbaugsmaddömunar Catalinu, sem fólk krossar sig í bak og fyrir eftir að hafa nefnt á nafn.“

Á heimasíðu annars höfunda Hið dökka man, Jakobs Bjarnar Grétarssonar, fyrrverandi blaðamanns DV, er að finna grein um bann við nektardansstöðum – sem einkennist af þráhyggjukenndri áherslu á mjög stuttar setningar. Hann virðist hafa lítið málefnalegt að segja, fer eins og köttur í kringum heitan graut, um þann einfalda punkt sinn að honum finnist þetta óþarfa forsjárhyggja að banna nektardans. Ég hvet lesendur Eggjanna til þess að kaupa ekki bókina.

Kvenréttindi á Íslandi

Það er ekki svo fjarstæðukennt að Kvennafrídagurinn gæti orðið árviss og gleðilegur atburður. Hann yrði að vissu leyti á pari við Gay pride og er það nokkuð umhugsunarefni. Frjálshyggjupenninn trúir því blint að vondu spilltu kerfiskallarnir standi á bak við þetta allt saman. Hjá mér stendur hins vegar tvennt eftir. Annars vegar eru það orð Þórhildar Þorleifsdóttur í Silfri Egils:

Hann sagði (37 mín): „Nú segja kannanir S.þ. að staða kvenna sé hvergi betri en á Íslandi“.

Þórhildur svarar: „Já, það eru sko mælingar sem byggjast á svona lögformlegum útfærslum og þetta er það sem ég hef kallað bjúrókratískt jafnrétti …… það er aðgangur að heilbrigðiskerfi, læsi,  ……… en þetta segir ekkert um breyttar áherslur í samfélaginu og þar erum við komin að einhverjum grundvallaratriðum…“ Því næst setur hún fram myndlíkingu um að samfélagið sé hús sem karlinn hefur byggt og hefur – fram að þessu – einvörðungu boðið konunni að búa með sér í en til þess að raunverulegar breytingar geti átt sér stað þurfi parið að rífa húsið til grunna og byggja nýtt í sameiningu. Ég er sammála öllu sem hún segir en mér finnst það óheppilegt að hún skuli hafa skautað fram hjá því að geta haft einhver fáein orð um stöðu kvenna einmitt í hnattrænu samhengi því orð Egils voru ekki “Nú segja kannanir S.þ. að fullkomið jafnrétti sé á Íslandi” en halda mætti að svo hafi verið af svari hennar að dæma. Ég er síst af öllu að bæta böl með því að benda á annað. Ég vil ekkert heitara en réttlátt samfélag byggt á jafnrétti og bræðralagi, hversu óraunsætt sem það er. Staða kvenna á Íslandi er með þeirri bestu í heiminum í dag og því ber að fagna því hún er vissulega góð, og hefur styrkst ef eitthvað er í kjölfar hrunsins. Konur á þingi eru meira áberandi, 1. janúar á þessu ári voru handhafar forsetavalds allt konur,  fyrst var Elín Sigfúsdóttir bankastjóri Landsbankans og núna er Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, þær fyrstu í sögu landsins. Það eru einnig ástæður til bjartsýni.

Ég deili þó ekki laissez faire-hugmyndafræði Maríu Sigrúnar sem segir í viðtali við Fréttatímann: „Ég hugsa aldrei um mig sem konu þegar ég er að vinna. Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs að konur séu alltaf að velta sér upp úr því að þær séu konur og að þeim sé mismunað af því að þær séu konur. Ég held að það sé orkusuga. Við verðum að gefa okkur það að við stöndum jafnfætis körlum, gera ráð fyrir því og gefa ekki færi á neinu öðru. Ég hef alltaf gert það. Ég hef heldur aldrei upplifað neitt annað.“ Augljóst er að María er algerlega laus við jafnvel yfirborðskenndan skilning á því hvers konar alltumlykjandi gímald feðraveldið er. Þessi “þetta reddast”-afstaða er algjörlega fatal og hefur orðið til þess að undirritaður hefur misst mikið álit á henni. Hún vill þó sjálfsagt vel. Öðru máli gegnir um ritstjórn Fréttatímans sem gerir stóra atlögu að grímulausustu tækisfærismennskunni-verðlaununum á næsta fundi Blaðamannafélags Íslands.

Risastyrkur til jafnrannsókna

Stjórn Vísinda- og tækniráðs Íslands úthlutaði styrkjum úr svonefndri markáætlun um öndvegissetur og – klasa í febrúar sl. Um er að ræða stærstu styrki sem veittir hafa verið hér á landi og eru þeir til sjö ára (2009-2015). Eitt af þremur verkefnum (úr hópi yfir 80 verkefna) sem hlutu styrk er verkefnið Öndvegissetur í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum. Verkefnisstjóri er Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK en Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heimspeki, er formaður stjórnar verkefnisins. Sjá nánar á heimasíðu RIKK: http://www.rikk.hi.is

Continue reading