Þverpólitísk blindgata

Miðað við stöðu mála er útlit fyrir það að nú eigi að binda öll sitjandi stjórnmálaöfl saman í einum samsektarpytti. Það á með öðrum orðum að múlbinda stjórnarandstöðuna við samning sem gerir ráð fyrir að íslenskur almenningur skuli greiða upp skuldir einkarekinna fyrirtækja. Þetta er auðvitað alveg eitursnjallt útspil, hver sem á hugmyndina, enda veikir það alla von um að það verði nokkuð hægt að hrófla við Icesave-málinu eftir að slíkur samningur er kominn í höfn.
Continue reading

Aðstæður fátækra launþega í Bandaríkjunum skelfilegar

Eins og flestum er ferskt í minni greiddi hið opinbera í Bandaríkjunum gríðarlegar fjárhæðir beint banka og annarra fyririrtækja þegar kreppan komst á fullt skrið þarlendis. Launþegar í þessu risahagkerfi hafa hinsvegar fengið að finna afleiðingar kreppunnar með fullum styrk og nú fjölgar þeim stöðugt sem vinna að öllu afli en hafa samt ekki ofan í sig og á. Hér getur að líta 12 mínútna langa heimildarmynd þar sem skyggnst er inn í heim fátækra launþega í New York.

Meiri háttar utanríkismál

Smánarbletturinn sem stuðningur Íslands við innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak er verður ekki þveginn af. Sú hneisa bætist á lista sem hefur lengst óþægilega mikið undanfarið. Rannsókn á aðdraganda og kringumstæður þess að ákveðið var að styðja innrásina, í anda þeirrar sem staðið er að varðandi hrunið, verður til þess að auka gegnsæi og vonandi koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig að þessu leyti.

Um miðjan mars 2003 réðust Bandaríkjamenn og Bretar á Írak í ólöglegu árásarstríði. Til þess fengu þeir margvíslegan stuðning alls 43 ríkja áður en yfir leið – auk alþjóðastofnunarinnar NATO.  Á bilinu 2-3 hundrað þúsund hermenn, og líklega fleiri, hafa barist á vegum þessara ríkja og stofnunar. [1] Færri en fimm þúsund hermenn hafa látið lífið í bardögum í Írak. [2]  Hins vegar áætla samtökin Iraq Body Count að um 100 þúsund borgarar hafi látið lífið vegna ofbeldis síðan að stríðið hófst. Ofbeldisaldan náði hápunkti 2006-2007 og hefur rénað síðan.[3]

Önnur hlið á Íraksstríðinu er aukin notkun hernaðarverktaka. (Málaliðar eða öryggisverktakar er líka notað. Mismunandi fréttamiðlar lýsa þessu með mismunandi hætti) Sú þróun hófst í fyrra Persaflóastríðinu að bandaríski herinn notaðist við einkaaðila til að sýsla í ýmsu viðhaldi, reisa bragga, sjá um mat og viðhald á vélum. Þessi þróun hefur tekið mikinn kipp. Ímynd þessarar þróunar er Blackwater fyrirtækið sem hefur sérhæft sig í öryggi á átakasvæðum.[4] Starfsmenn Blackwater hafa endurtekið komist í fréttirnar, síðast fyrir að skjóta á óvopnaða borgara í miðborg Bagdad og myrða þannig 17 saklausa vegfarendur.[5] Segja sumir að starfsemi verktaka á borð við Blackwater sé síst minni í sniðum en umsvif bandaríska innrásarhersins þótt ótrúlegt megi virðast. Svo mikill er eðlismunurinn á sem felst í þeirri breytingu sem er að verða á nútímahernaði og verið er að gera tilraunir með í Írak.

Allt tal um framfarir, lýðræði eða lífsgæði hverfur í hinum þunga nið hernaðarvélarinnar. Írak er ekki einsleitt land, klofningslínurnar eru mjög skýrar og djúpar. Súnnítar og shítar berjast um yfirráð, kúrdar ota sínum tota. Vanhæfni ríkisstjórnar sem á sér enga lögmæta sögu en nóg af olíu sem selst dýrum dómi á sér grátlegar birtingarmyndir.[6] Lýðræði gat ekki komið í veg fyrir spillingu á Íslandi og hefur litlu breytt öðru en titlinum á stjórnarformi í Írak.

Um þær mundir sem íslenska efnahagsundrið var að fæðast tóku Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson þá ákvörðun að styðja stríðið í Írak. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að renna í gegnum þær staðleysur sem settar voru fram því til stuðnings. Það hefur lengi legið fyrir að það voru tómar spekúlasjónir, og ekki stæði steinn yfir steini yfir þeim fullyrðingum sem settar voru fram um ásælni Husseins í úraníumnámur í Níger eða meintar birgðir hans af framandlegum efnavopnum. Það er löngu búið að afgreiða þetta. Það vita það allir. Þetta var rangt.

Skulum athuga heldur hvort þetta var löglegt. 24 gr. þingskaparlaga les „Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á.” Samkvæmt áliti Eiríks Tómassonar lögfræðiprófessors hefur ekki myndast hefð fyrir því við hvað er átt með „meiri háttar mál” og ekki er lögskýringargögnum til að dreifa sem varpa frekari ljósi á það. Hann benti á að „Íraksmálið“ sem slíkt hefði oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið rætt á Alþingi innan utanríkismálanefndar enda stæði í lögunum meiri háttar mál en ekki meiri háttar ákvarðanir.[7]

Í fræðigrein sinni tekur lögfræðingurinn Bjarni Már Magnússon undir túlkun Eiríks og segir „Þó svo að ákvæði  24. gr. þingskaparlaga hafi verið túlkað með rúmum hætti og ekki hafi verið talið skylt að bera meiri háttar mál fyrir fram fyrir utanríkismálanefnd, jafnvel þegar Ísland hefur lýst yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir, hlýtur slíkt þó að teljast þingræðislegra. Einnig má gagnrýna að Eiríkur fjallar ekki um hvort þær hernaðaraðgerðir sem Ísland hafi lýst yfir stuðningi við og ekki hafi verið fjallað um í nefndinni fyrir fram hafi verið í samræmi við reglur þjóðaréttarins eður ei. Þrátt fyrir þessar athugasemdir er tekið undir með Eiríki Tómassyni. Niðurstaðan er því sú að ekki hafi verið farið á svig við þingsköp í Íraksmálinu og jafnframt að „[…] umrætt ákvæði í þingsköpum [24. gr.], eins og það er úr garði gert, hróflar ekki við þeirri skipan, sem ráð er fyrir gert í stjórnarskránni […], að utanríkisráðherra og eftir atvikum ráðherrar fari með óskorað vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, hver á sínu sviði, nema því valdi séu sett skýr takmörk í stjórnarskránni eða settum lögum.“ [8, vísar hann þar í álit Eiríks]  Í bloggi sínu, sem hann skrifaði í júní 2004 eftir orðaskipti við Björn Inga Hrafnsson á málþingi um umsókn Íslands í öryggisráð S.þ., sagði Bjarni „að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra gerðust sekir um glæp allra glæpa, eins og Nürnbergdómstóllinn orðaði það, árásarstríð og maðurinn sem Björn Ingi aðstoðar, studdi það.”[9] Það er því augljóst að honum finnst stríðið engu að síður hafa verið ólöglegt.

Þá er komin upp sérkennileg mótsögn. Það er löglegt að tveir menn, æðstu handhafar framkvæmdarvalds, taki ákvörðun um stuðning við ólöglegt árásarstríð, að því gefnu að búið sé að ræða á almennum nótum um ástand mála í umræddu landi að ákvörðuninni undangenginni. Jafnvel þó við gefum okkur að rengja megi túlkun Eiríks Tómassonar á þessari loðnu 24. gr. þingskaparlaga sem engin lögskýringahefð getur varpað frekari ljósi á og engin hefð veitir manni vísbendingu um rétta túlkun er ekki hægt að sækja þá Davíð eða Halldór til saka. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð segir „Málshöfðun eftir lögum þessum getur eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.”[10] Samkvæmt því fyrntist ákvörðunin þann 8. nóvember 2007.

Tvær þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fram tengdar ákvörðuninni um að styðja ólöglegt árásarstríð. Það er um skipan rannsóknarnefndar um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak[11] og um birtingu skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.[12] Í fyrri þingsályktunartillögunni er farið þess á leit við Alþingi að skipuð verði sex manna þingnefnd til þess að rannsaka aðstæður og ástæður þess að Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak án nokkurs samráðs við Alþingi. Seinni þingsályktunartillagan útskýrir sig sjálf.

Samtök hernaðarandstæðinga efna til félagsfundar í Friðarhúsi mánudagskvöldið 1. mars n.k. kl. 20. Gestir fundarins verða alþingismennirnir Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ögmundur Jónasson. Þau eru fyrstu flutningsmenn tillögu sem liggur fyrir Alþingi um að efnt verði til rannsóknar á aðdraganda stuðnings Íslands við stríðið í Írak.

Hernaðarandstæðingar eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðum um mögulegt fyrirkomulag slíkrar rannsóknar og hvaða spurninga mikilvægast sé að leita svara við.

Barátta heimilanna

Ræða frá fundi Hagsmunasamtaka Heimilanna sem fram fór í Iðnó þann 18. febrúar s.l.

Félagar.

Fyrir rúmu ári, þegar Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð, voru nokkrar vangaveltur um hvort vandinn vegna húsnæðislánanna yrði leystur fljótt og vel og hægt yrði að leggja samtökin niður að svo búnu eða hvort þetta yrðu varanleg samtök um hagsmunamál sem kannski verða aldrei fullleyst.

Continue reading

Mælikvarði menningar

Á vormánuðum stendur til að loka deild 14 á Kleppi,  þar sem ég hef starfað sem stuðningsfulltrúi frá 2007. Öllu starfsfólki á deildinni, 27 manns, hefur verið sagt upp frá og með 1. maí. Ástæðan fyrir þessu er sögð sparnaður og endurskipulagning á heilbrigðisþjónustu geðsjúkra. Fólki sem hefur jafnvel unnið við geðsvið árum saman við góðan orðstír býðst nú að vera inni í 5% starfsmannaveltu og eiga forgang með sumarafleysingar. Hin og þessi störf eru nefnd sem fræðilegur möguleiki en það er ekkert tryggt. Eins og ástandið er, er ekki auðvelt að ætla sér að vera vandlátur og sjálfsvirðing og stolt eru samningsatriði.

Continue reading