Af fulltrúaþingi SLFÍ

15. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands fór fram í BSRB-húsinu í dag. Þar voru niðurstöður formannskjörs kynntar, en kosningarnar fóru fram í pósti. Sitjandi formaður, Kristín Á. Guðmundsdóttir, hélt velli með 928 atkvæðum, sem voru 64% greiddra atkvæða. Hún mun því sitja áfram sem formaður til 2010. Mótframbjóðandinn Helga Dögg Sverrisdóttir fékk 492 atkvæði, eða 34%. Auðir seðlar voru 29, eða 2%. Dræm þátttaka vekur athygli – 2204 voru á kjörskrá en aðeins 1449 kusu, eða 66%. Í ljósi undangenginna deilna hefði mátt búast við meiri þátttöku.

Brugðið gat til beggja vona í formannskjörinu. Kristín hefur gegnt embætti formanns í um tvo áratugi og hefur verið skotspónn mikillar gagnrýni í vetur, vegna svonefndrar Sjúkraliðabrúar. Brúin gengur í stuttu máli út á að ófaglært heilbrigðisstarfsfólk með mikla reynslu geti fengið reynsluna metna og lært til sjúkraliða með dálítið minni fyrirhöfn en það sem litla reynslu hefur. Þannig mætti hækka hlutfall sjúkraliða í röðum heilbrigðisstarfsfólks, og um leið yngja hlutfallslega upp í félaginu, sem ekki er vanþörf á. Út af fyrir sig er ekkert nema gott um það að segja að reynsla sé metin, en brúin hefur sætt mikilli og harðri gagnrýni.

Í ársskýrslu SLFÍ er farið hörðum orðum um gagnrýnendur brúarinnar. Meðal annars er rætt um „ranghugmyndir“ og „aðför“ að forystu félagsins. Gagnrýnendurnir gætu án efa valið einhver álíka orð um forystuna. Er ekki mál að linni? Væri ekki við hæfi að slíðra sverðin og leita sátta í þessu stóra og mikilvæga stéttarfélagi? Umræðan um brúna var að sönnu óvægin – en hún var það á báða bóga. Gagnrýnin datt auk þess ekki af himnum ofan. Ástæðan fyrir deilunum var auðvitað ekki að dvergvaxinn hópur af þrjótum hefði ætlað að ráðast á forystuna fyrir engar sakir.

Hvernig stendur á því að „ranghugmyndir“ komust af stað til að byrja með? Hefðu þær gert það ef kynning á brúnni hefði verið sem skyldi? Ætli friður hefði ekki haldist innan félagsins ef málsatriði hefðu verið almennilega kynnt frá upphafi? Hér verður ekki farið út í ásakanir, né afstaða tekin með annarri fylkingunni og á móti hinni. Hinu verður ekki litið framhjá, að stór hluti félagsmanna SLFÍ skrifaði ritaði nafn sitt í undirskriftasöfnun gegn brúnni. Því verður ekki á móti mælt, hvað sem fólki annars finnst um brúna, að drjúgur hluti sjúkraliða er á móti henni – og þriðjungur greiddra atkvæða var á móti sitjandi formanni.

Sjúkraliðafélag Íslands hefur ekki efni á meiri deilum. Það þarf að gróa sára sinna og sættast. Það verður óþægileg staða fyrir félagið ef það logar í innri illdeilum í næstu lotu kjarabaráttunnar. Kjarabarátta sjúkraliða er meira en barátta einnar stéttar. Það er leitun að stéttarfélagi með eins ójöfn kynjahlutföll – þann 23. maí sl. voru 2416 konur í félaginu en aðeins 46 karlar. Það er því varla annað hægt en að kalla sjúkraliða kvennastétt, og er ekki vanþörf á að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Kjarabarátta félags eins og SLFÍ er því nátengd baráttu kvenna fyrir jafnrétti, og ótækt að fylkingin sé klofin ef hjá því verður komist.

Í vetur var vinnuhópur skipaður, sem tekur við athugasemdum og erindum tengdum sjúkraliðabrú. Hann hefur skilað þeim til fræðslunefndar SLFÍ, sem aftur hefur skilað breytingatillögum til starfsgreinaráðs heilbrigðis- og félagsgreina. Með haustinu ætti árangurinn af vinnuhópnum, og af fundaherferð formanns, að koma í ljós, hvort eldana lægir eða ekki.

Kristín Á. Guðmundsdóttir var endurkjörin. Nú bíður hennar það mikilvæga og erfiða verk að sætta félagið sitt á nýjan leik. Það er kominn tími til að hefja umræðuna upp á hærra plan, og frumkvæðið að því kemur tæpast frá öðrum en henni.

Reykingabannið og samvinnurekstur

Nú fyrsta júní gengur í gildi reykingabann á börum og veitingastöðum. Skiptar skoðanir eru á þessu máli, en nokkuð ljóst er að sjónarmið þeirra sem eru fylgjandi banninu eru ráðandi í samfélaginu. Þau eru afar skiljanleg og ganga út á eftirfarandi atriði að mestu: Fólk hefur rétt á því að starfsumhverfi þeirra sé reyklaust, þ.e. fólk á ekki að þurfa að anda að sér krabbameinsvaldandi tóbaksreyk fyrir það eitt að vera í vinnu sinni. Margir tala líka um þann létti sem verður af því að geta farið á skemmtistaði án þess að þurfa að þrífa fötin sín eftir kvöldið; án þess að þurfa að vaða reykinn hóstandi og grenjandi. Ég er mjög hlynntur því að starfsumhverfi fólk sé ekki mengað og að réttindi þeirra séu höfð í hávegum. En það eru nokkur atriði sem gera það að verkum að okkur ætti að stafa uggur af þessum lögum.

Í fyrsta lagi opinberar þetta slappa stöðu þjóðfélagsins í stéttamálum. Með þessum lögum er gert ráð fyrir að aðeins séu til tvennskonar fyrirtæki; einkafyrirtæki og fyrirtæki í eigu og rekstri hins opinbera. Starfsfólk í íslenskum fyrirtækjum þurfi að vernda með allsherjarlögum sem ákveðin eru af miðstjórnarvaldinu. Þátttakendur í þeim sárafáu samvinnureknu fyrirtækjum sem hér eru skynja hinsvegar þetta bann á annan hátt; þ.e. að með þessu sé verið að grípa inn í mál sem þeir ættu að ákveða sjálfir. Í samvinnureknum fyrirtækjum getur einn starfsmaður lagt bann á reykingar í fyrirtækinu og aðrir verða að hlýða því. Ef allir vilja að reykingar séu leyfðar á vinnustaðnum gildir það. Þessi inngrip ríkisins í einkamál starfsmanna eru óþolandi afskiptasemi í þeirra augum. Ef fleiri myndu skilja hversu mikilvægt er auka þátt samvinnurekstrar væru slík lög algjörlega óþörf. Ekki þyrfti að verja stétt starfsmanna frá ægivaldi eignafólks ef stéttaandstæðurnar hyrfu.

Annað sem veldur ugg er sú staðreynd að með þessu er verið að grípa í persónulega ósiði fólks. Reyktóbak er lögleg vara og það er furðulegt að verið sé að reyna að hálf banna neyslu þess. Neyslubann á borð við þetta hefur verið notað á miður geðslegan hátt ( http://www.prisonplanet.com/articles/april2007/250407antismoking.htm ). Það væri óskandi að fólk reyndi frekar að taka völdin í starfsumhverfi sínu en að leita á náðir hins opinbera. Hvað sem öllu öðru líður er ljóst að þessi lög  eru ekki til marks um aukið frjálsræði í samfélaginu.

Sjálfboðaliði frá Íslandi varð fyrir barsmíðum í Palestínu

Eftirfarandi fréttatilkynning er frá Félaginu Ísland-Palestína:
——————————

Sjálfboðaliði frá Íslandi varð fyrir barsmíðum í Palestínu

Ortrud Gessler Guðnason, sjálfboðaliði á vegum Félagsins Ísland-Palestína, varð fyrir barsmíðum í árás landtökumanna á alþjóðlega sjálfboðaliða í hertekinni Palestínu í fyrradag. Árásin átti sér stað í Hebron, þar sem Ortrud hefur starfað við mannúðarmál síðustu vikur, m.a. við að fylgja börnum í skólan gegnum vegatálma og hindranir landtökufólks og ísraelska hernámsliðsins.

Unglingar úr röðum landtökufólks spörkuðu í maga Ortdrud í árásinni á meðan grískur félagi hennar fékk grauthnullung í höfuðið og heilahristing.

Í Hebron búa um 6-700 ísraelskir landtökumenn, innan um 120.000 palestínska íbúa borgarinnar, í trássi við alþjóðalög og Genfar sáttmálan sem bannar það að hernámslið flytji eigin ríkisborgara á hertekin svæði.

Ástandið Í Hebron er oft eldfimt. Íbúar borgarinnar hafa orðið fyrir stöðugum árásum og áreiti frá landtökumönnunum, sem orðið hefur til þess að samtök á borð við Christian Monitor Team og International Solidarity Movement hafa skipulagt alþjóðlega vernd og aðstoð við palestínska íbúa borgarinnar. Landtökubyggðirnar hafa líka orðið fyrir árásum palestínskra andspyrnu- og vígahópa. Lega byggðarinnar í miðborginni gerir þúsundum Palestínumanna erfitt að komast til skóla, vinnu og ættingja – þar sem hernámsliðið hefur lokað af ákveðinn hverfi og vegi sem aðeins ísraelskir landtökumenn mega nota.

Ortrud, er þýskur ríkisborgari en búsett hér á landi og kann ágætis íslensku.

Hægt er að ná í Ortrud í síma: 00972 544938992

Áskorun frá Femínistafélagi Íslands

Í tilefni af stjórnarmyndunarviðræðum skorar Femínistafélag Íslands á þá stjórnmálaflokka sem mynda með sér stjórnarsáttmála að leggja áherslu á jafnréttismál.

Grípa þarf til aðgerða og fylgja þeim eftir.  Samþykkja þarf ný lög um jafnan rétt og stöðu karla og kvenna, sporna gegn klámvæðingunni, kynbundnu ofbeldi og vændi, þ.m.t. að samþykkja sænsku leiðina. Það þarf að stórefla Jafnréttisstofu og veita fjármagni í málaflokkinn svo hægt sé að stuðla að framförum. Útrýma þarf kynbundnum launamun með virkum aðgerðum og jafna laun á milli hefðbundinna kvenna- og karlastarfa.

Femínistafélagið bendir á að Ísland er eftirbátur allra Norðurlandaþjóða hvað varðar jöfn kynjahlutföll á þingi. Lýðræði er ekki einkamál karla og nauðsynlegt að bæði kyn komi jafnt að ákvörðunartöku. Við skorum því á nýja ríkisstjórn að sýna jafnrétti í verki með því að hafa jöfn kynjahlutföll í ráðherraliði. Einnig er mikilvægt að viðurkenna og nýta betur þá þekkingu og fræði sem til eru í jafnréttismálum kynjanna.

Hvað og í hvers nafni?

Þegar Þjóðarhreyfingin safnaði fé fyrir birtingu auglýsingar í New York Times á sínum tíma, þar sem íraska þjóðin var beðin afsökunar og veröldinni skýrt frá því sem var, að stuðningur Íslands við Íraksstríðið væri stuðningur ríkisins en ekki þjóðarinnar, þá fylltust stuðningsmenn stríðsins skyndilega áhuga á því hvað væri í nafni hvers. „Þessi afsökunarbeiðni er ekki í mínu nafni,“ sögðu þeir, hver í kapp við annan, „hver kaus annars þessa svokölluðu Þjóðarhreyfingu?“

Án þess að ég svari fyrir hönd Þjóðarhreyfingarinnar, þá held ég að ríkisstjórn Íslands hafi, með óbeinum hætti, búið hana til. Það er að segja, skapað þörfina fyrir viðbrögð af þessu tagi.

En áhugaverðari fannst mér skyndilegur lýðræðisáhugi stríðsæsingamanna. Um 80% landsmanna voru á móti því að styðja glæp gegn mannkyni, árás á írösku þjóðina sem aldrei hefur gert okkur neitt og við áttum ekkert sökótt við. Samt studdi okkar kæra ríkisstjórn stríðið. Í okkar nafni. Spyrja má hvort sé alvarlegra, að fremja glæp í nafni hóps, eða að biðjast afsökunar á glæp í nafni hóps. Já, hvort ætli sé nú? Hvar var lýðræðisáhuginn þá?

Stuðningurinn við Íraksstríðið var þvert á eindreginn vilja þjóðarinnar. Stjórnin hélt samt velli, en síðan þá hefur komið í ljós í hvað stefndi allan tímann í Írak. Hafi einhver verið í vafa þá, ætti sá vafi að vera horfinn núna. Við sem vorum á móti stríðinu frá upphafi vorum sökuð um stuðning við Saddam, um bölsýni, um að vera sama um írösku þjóðina og ég veit ekki hvað. Sannleikurinn hefur komið í ljós. Íraksstríðið var eitthvað það alversta sem við gátum stutt. Verkið lofar meistarann.

Þeir sem kusu stjórnarflokkana fyrir fjórum árum geta borið því við að hafa ekki órað fyrir þessum hörmungum í Írak þá. Því verður ekki borið við lengur. Eftir því sem djöfulgangurinn ágerist, þess verra er til þess að vita að íslenska ríkið styðji þetta. Athugið – ég segi ríkið. Þjóðin styður stríðið ekki og hefur aldrei gert.

En í kosningunum mun reyna á lýðræðið. Það mun reyna á hvort þjóðin samþykkir þennan stuðning, hvort hún samþykkir þátttöku í þessum hrunadansi. Ef ríkisstjórnin heldur velli, þá einskorðast sökin varla lengur við ríkið. Það væri dapurlegt til þess að vita, ef við bærum ekki þá gæfu til, að láta ríkisstjórnina taka pokann sinn. Það væri dapurlegt að veita stríðsflokkunum áframhaldandi umboð.

Íraksstríðið: Mistök?

Í umræðunni um Íraksstríðið er gjarnan sagt að stuðningur Íslands við það hafi verið „mistök.“ Ef það er réttnefni er brýnt að greina í hverju þau mistök lágu, hver ber ábyrgð á þeim og hvernig verður komið í veg fyrir að svipuð mistök endurtaki sig.

Opinber klisja Sjálfstæðisflokksins er á þá leið að ákvörðunin hafi verið „rétt, miðað við þær forsendur sem lágu fyrir á þeim tíma.“ Heyr á endemi – forsendurnar voru haugalygi og það vissu allir sem voru ekki því áfjáðari í að trúa henni. (Já, það var reynt að segja þeim það en þeir vildu ekki hlusta.) En jafnvel þótt forsendurnar hefðu verið sannar, hefðu þær samt ekki dugað til að réttlæta stuðning við stríðið! Árásarstríð er ekki bara brot á alþjóðalögum, heldur er það glæpur gegn mannkyni og gerast þeir ekki alvarlegri. Óhætt er að minna á þá Göring og Ribbentrop, sem voru dæmdir til dauða fyrir undirbúning og framkvæmd árásarstríðs.

Það var aumkvunarvert að hlusta á æsingatal Bush og Blair gegn Írak, hvernig þeir fundu nýjar og nýjar ástæður fyrir stríði – hröktust, með öðrum orðum, af einu víginu í annað. Með því að þýða þennan málflutning yfir á íslensku og flytja hann hér, misbuðu innlendir stjórnarherrar dómgreind almennings.

Stjórnarfarið í Írak var auðvitað ekki til eftirbreytni. Saddam var vinur vina sinna og óvinur óvina sinna, en allir vissu hvað til þeirra friðar heyrði. Það er reyndar meira en nú verður sagt. Slæmt stjórnarfar getur kannski réttlætt byltingu, en það réttlætir ekki árásarstríð.

Gereyðingarvopnaeign réttlætir það ekki heldur. (Ætli Bandaríkjamenn hefðu annars ráðist á Írak ef þeir hefðu í alvöru talið Saddam eiga slík vopn?) Á endanum hefur Bandaríkjastjórn síðan sjálf kallað það yfir Íraka sem hún sakaði Saddam um – algeran glundroða, skálmöld, holskeflu hryðjuverka og meira að segja efnavopn. Það var nefnilega ekki Bandaríkjunum sem stafaði ógn af Írak, heldur öfugt.

Ásetningur árásarmanna var alveg hafinn yfir vafa. Það er því ekki hægt að kalla mistök. Þeir hafa eflaust talið að þeir kæmust upp með þetta, að syndaflóðið kæmi eftir þeirra daga. Ætli það hafi ekki líka verið rétt mat? Ætli Bush og Blair muni nokkurn tímann sitja á sakamannabekk hjá stríðsglæpadómstól? Nei, það voru engin mistök sem réðu því að ásakanirnar voru byggðar á upplýsingum sem höfðu verið matreiddar handa nytsömum sakleysingjum (og öðrum, ekki jafn saklausum).

Voru mistökin ríkisstjórnarinnar, að fylgja okkar góðu bandamönnum í blindni? Íslenskir hægrimenn hafa langa reynslu af því að fylgja Bandaríkjastjórn að málum. Hvernig hefði þeim átt að detta annað í hug í þetta sinn? (Okkar eina vörn gegn Sovétríkjunum var auk þess í húfi.) Gleyptu þeir við gabbi sem 80% þjóðarinnar sá í gegn um?

Ég veit ekki hvað þeir trúðu miklu í alvörunni. Hitt veit ég, að þessar forsendur voru ekki annað en yfirskin. Aðalástæðan fyrir innrásinni var að Bandaríkin gætu náð yfirráðum yfir olíulindum Íraks. Fyrir það þýðir ekki að þræta. Þessar olíulindir verða ómetanlegar þegar hin yfirvofandi olíukreppa skellur á. Þetta var með öðrum orðum spurning um pólitík og hagsmuni, þótt ótrúlegt megi virðast. Það verður líka að viðurkennast, að þær forsendur standast alveg, þótt færri séu tilbúnir að verja þær opinberlega.

Það er kunnara en frá þurfi að segja hvernig ákvörðunin um stuðning íslenska ríkisins var tekin. Þaulreyndir atvinnumenn í stjórnmálum vita betur hvernig hlutirnir ganga fyrir sig en svo, að hægt sé að kalla það mistök.

Það er freistandi að kenna tveim ólánsmönnum um og fría okkur hin sök. En það er ekki svo einfalt. Mistökin voru okkar. Flokkar þeirra sátu nefnilega – og sitja víst enn – með umboði þjóðarinnar. Vera kann að við síðustu kosningar hafi margir verið bjartsýnir um að Íraksstríðið tæki fljótt af. Nú hefur annað komið á daginn. Við getum ekki lengur borið við vanþekkingu. Við erum flækt í martröð, og henni er hvergi nærri lokið.

Íslenskir kjósendur, sem fyrir fjórum árum létu blekkjast til að styðja óafsakanlegt árásarstríð, verða nú að velja hvað hið ábyrga er í stöðunni. Viljum við kjósa stjórnarflokkana og samþykkja þannig stuðning við stríðið, eða viljum við hafna herskárri utanríkisstefnu og má þennan skammarblett af æru þjóðarinnar? Nú höfum við tækifæri til að bæta fyrir mistökin – eða endurtaka þau.

Kjósandi, blóð bróður þíns hrópar til þín af jörðinni.

————————————————————
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu, s. 45, 11. maí 2007.

Tíu ástæður til að skila auðu á kjördag

1. Ertu lýðræðissinni?
Lýðræði er fólgið í því að „lýðurinn“ (fólkið) ráði högum sínum en að ekki kóngurinn, einræðisherrann eða hópur manna (hvað þá menn á erlendri grund) ákveði hagi lýðsins.  Þingræði er takmarkað lýðræði, ef nokkuð.  Í lýðræðinu kemur valdið að neðan.  Í þingræðinu og annarri ráðstjórn kemur valdið að ofan.  Í þingræðinu úthluta stjórnmálamenn lýðnum aðeins einu hlutverki, þ.e. að kjósa sig á 4ja ára fresti.  Þess á milli verður lýðurinn að hafa sig hægan.  Stjórnmálamenn allra flokka standa saman um að einoka ráðstjórn.  Þeir óttast að almennir borgarar geti sjálfir tekið ákvarðanir um framtíð samfélagsins án milligöngu þeirra, t.d. með beinum kosningum – því þá myndu þeir missa atvinnu sína, völd og fríðindi.  Lýðræðissinnar geta ekki treyst flokksræðinu.

2. Ertu friðarsinni?
1. Frá því 1999 hafa íslensk stjórnvöld stutt þrjú árásarstríð: Stríð NATÓ gegn Serbíu; stríð Bandaríkjanna gegn Afganistan og stríð Bandaríkjanna gegn Írak.  Þessi þrjú stríð voru alvarleg brot á þjóðarétti og á sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ekkert þeirra var lögmætt.  Árásarstríð eru auk þess refsiverð.

Enginn flokkanna á Alþingi hefur mótmælt þessum stríðum á grundvelli þjóðaréttar. Enginn þeirra hefur óskað eftir að sjá forsendurnar sem stjórnvöld notuðu til að réttlæta stríðssstuðning sinn.  Enginn þeirra hefur lagt til að alþjóðasamfélagið tryggi fórnarlömbum þessara árásastríða réttarbætur og lögsæki árásaraðila.

2. Ísland er aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaréttindi.  Samkvæmt þessum samningi ber aðildarríkjum að banna stríðsáróður.  Ísland taldi að það gæti ekki framfylgt þessu ákvæði vegna þess að það myndi stangast á við tjáningarfrelsið.  Í bókun sinni var ekki minnst á það að íslensk yfirvöld hafa oft skert tjáningarfrelsið, t.d. með banni á klámi, áfengisauglýsingum og fleiru.  Enginn stjórnmálaflokkur hefur lagt til að stríðsáróður (öðru nafni hvatning til fjöldamorða) verði bannaður eins og Íslandi er skylt að gera.

3.  Flestir Íslendingar eru mótfallnir kjarnorkuvígbúnaði.  Alþjóðadómstóllinn taldi, í úrskurði sínum frá 1996, að hann gæti ekki bent á neinar aðstæður þar sem notkun kjarnorkuvopna gæti verið lögleg.  Þorri aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna hefur lagt til að kjarnorkuvopn verði alfarið bönnuð með alþjóðlegum samningi.  Ísland vill ekki láta banna kjarnorkuvopn vegna þess að þá yrðu NATÓ-ríkin Bandaríkin, Bretland og Frakkland einnig að útrýma þessum vopnum. Enginn stjórnmálaflokkur hefur reifað málið á Alþingi þótt meirihluti þjóðarinnar myndi vafalaust vilja að Ísland styddi algert bann á kjarnorkuvopnum.

3. Ertu ósáttur við vaxandi bil milli forríkra og láglaunafólks?
Vel má vera að lífskjör allra hópa á Íslandi hafi batnað á síðasta áratug, þ.m.t. kjör hinna lægstlaunuðu.  En bilið milli auðmanna og almennra borgara á Íslandi hefur aukist verulega á sama tíma.  Ríkidæmi sumra Íslendinga er orðið stjarnfræðilegt.  En hvað hafa alþingismenn gert?

Þeir hafa skammtað sér hærri laun og betri eftirlaunakjör. Þeir hafa ekkert gert til að draga úr bilinu milli hinna forríku og láglaunastétta.  Alþingismenn deila ekki kjörum með lægstlaunuðu. Þeir ferðast ekki með strætó.  Þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af matarverðinu.  Þær tillögur sem eru iðulega til umræðu á Alþingi snerta alls ekki þetta hróplega ranglæti, heldur snúast aðallega um smávægilegar lagfæringar á kjörum einstakra hópa láglaunafólks.  Enginn alþingismaður þorir að hrófla við valdi hinna forríku, þeirra sem hafa efni að kaupa sér lögfræðinga, fjármagna kosningabaráttu vina sinna og kaupa sér heilsíðuauglýsingar í fjölmiðlum.

4. Væntir þú þess að alþingismenn hafi samvisku?
Þann 11. september 2001 voru 3000 manns myrt með köldu blóði í Bandaríkjunum. Flest okkar upplifðu þennan atburð í beinni sjónvarpsútsendingu.  Bandaríkjastjórn staðhæfði að 19 múslímskir hryðjuverkamenn hefðu framið þessi ódæðisverk.  Hún staðhæfði að Ósama bin Laden hefði verið heilinn á bak við þau.  Þessar staðhæfingar voru notaðar til að réttlæta árásir  Bandaríkjanna á Afganistan og Írak og hernám þessara landa.

Þótt atburðurinn hafi átt sér stað í Bandaríkjunum, kom málið til kasta íslenskra yfirvalda á fundi NATÓ-ráðsins 2. október 2001.  Á þeim fundi samþykkti NATÓ-ráðið, með atkvæði Íslands, að styðja hernaðarárás Bandaríkjanna á hvaða ríki sem það kysi.  Í þessu tilfelli var Afganistan fyrir valinu.  Ísland studdi þessa ákvörðun án umræðu á Alþingi.  Enginn stjórnmálaflokkur bað um að Alþingi fjallaði um málið og fengi að sjá forsendurnar fyrir þessu stríði.  Þjóðin var þannig svipt réttinum til að vita á hvaða forsendum Ísland studdi þetta banvæna stríð gegn einu fátækasta ríki veraldar.  Um 3.000 borgarar í Afganistan dóu í þessum árásum.  Þeir voru allir saklausir.  Enginn þeirra var viðriðinn morðin í Bandaríkjunum.

Alþingismenn sýndu enga forvitni um það hvers vegna Ísland studdi ólögmætt árásarstríð Bandaríkjanna á Afganistan og hafa ekki sýnt iðrunarmerki fyrir að hafa gleymt að athuga hvort þetta árásarstríð væri réttmætt.  Getur þú treyst samvísku slíkra frambjóðenda?

5. Ertu barnavinur?
Börn eru yfirleitt viðkvæmustu þegnar samfélagsins.  Þau þurfa vernd fullorðinna til að ná fullum og heilbrigðum þroska.  Þessa vernd veita foreldrar fyrst um sinn, en síðar allir þeir sem standa að barnafræðslu- og uppeldi, sem og allt samfélagið.  Markaðssamfélagið sem nú er ríkjandi býr ekki yfir þeim innri skorðum sem vernda börn.  Samfélagið verður að setja þessar skorður, jafnvel í trássi við reglur markaðarins.  En hefur nokkur stjórnmálaflokkur beitt sér til að verja börn gegn skaðlegum áhrifum markaðshyggjunnar?  Börn verða í auknum mæli skotspónn auglýsenda sem nota trúgirni og veikleika barna í gróðaskyni. Bílar eru ein af alvarlegustu ógnunum fyrir líf og limi barna.  Enginn stjórnmálaflokkur hefur beitt sér fyrir setningu laga gegn þessum ógnunum sem steðja að velferð og öryggi barna.  Enginn stjórnmálaflokkur hefur þorað að standa með börnum gegn gróðafíkn markaðsafla.

6. Er þér annt um mannréttindi?
Veistu að Ísraelsríki er eina ríki í heiminum sem var stofnað á grundvelli kynþáttastefnu og þjóðernishreinsana? Eftir afnám kynþáttaaðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku, er Ísrael eina ríki í heiminum sem grundvallast á kynþáttaaðskilnaði. Meðferð Ísraels á Palestínumönnum er að sumu leyti verri en sú sem blökkumenn urðu fyrir í Suður-Afríku.  Á hinni örmjóu ræmu sem nefnist Gazasvæðið í Palestínu búa 1.5 milljónir Palestínumanna á bak við gaddavír sem ísraelskir hermenn vakta.  Svæðið líkist í raun risastóru fangelsi: Fangaverðirnir (ísraelskir hermenn) ákveða hver fær að komast inn á svæðið og hver fær að fara þaðan út.  Íbúar þessa „fangelsis“ njóta hvergi í heiminum ríkisborgararéttar.  Ekkert ríki verndar rétt þessa fólks.  Evrópuríkin reyna að svelta það fyrir það eitt að hafa kosið „ranga“ flokkinn, Hamas.  Þeir eru berskjaldaðir fyrir loftárásum Ísraelshers þar sem þeir búa ekki yfir neinum vörnum.

Enginn stjórnmálaflokkur hefur fordæmt kynþáttaaðskilnaðarstefnu Ísraels né lagt til að alþjóðasamfélagið einangri þetta ríki, eins og gert var við Suður-Afríku, til þess að það afnemi öll kynþáttalögin, einkum þau lög sem banna palestínskum flóttamönnum að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna.  Alþingismenn og ráðherrar hafa ekki vílað fyrir sér að fara í opinberar heimsóknir til þessa síðasta vígis kynþáttastefnunnar og jafnvel farið um herteknu svæðin í fylgd með hernámsliðinu.

Bandaríkin eru eitt þeirra ríkja sem brjóta grundvallarmannréttindi með kerfisbundnum hætti.  Stjórnvöld Bandaríkjanna eru ein fárra í heiminum sem hafa opinberlega réttlætt pyntingar.  Enginn stjórnmálaflokkur á Alþingi hefur krafist breytinga á samskiptum Íslands við Bandaríkin í ljósi þessara staðreynda.  Enginn þeirra hefur fundið að því að íslensk lögregla eigi náin samskipti við Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI – stofnun sem skipuleggur hryðjuverk.

7. Með lögum skal land byggja
Flestir Íslendingar ætlast til þess að lög séu virt og að lög gangi jafnt yfir alla.  En þetta er víst ekki bonus casino skoðun alþingismanna.  Þeir ætlast til þess að óbreyttir morðingjar verði lögsóttir og dæmdir fyrir verk sín en að „morðingjar í jakkafötum“ verði hafðir til vegs og virðingar hvert sem þeir fara.   Hugtakið „morðingjar í jakkafötum“ á við stjórnmála- og embættismenn sem með verkum sínum stuðla að drápi óbreyttra borgara, m.a. í fjarlægum löndum.

Tveir ráðherrar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, sátu fund NATÓ-ráðherra í Washington 23. apríl 1999, þar sem ákveðið var að heimila herjum NATÓ-ríkja að gera loftárásir á fjölmiðla í Serbíu.  Fjölmiðlar og starfsmenn þeirra njóta verndar alþjóðaréttar.  Þeir eru ekki hernaðarleg skotmörk.  Blaðamenn nota ekki byssur við skriftir sínar.  Árásir á borgaralegar stofnanir og á óbreytta borgara teljast stríðsglæpir.  Íslensku ráðherrarnir samþykktu þessa ákvörðun um að óbreyttir borgarar yrðu myrtir með köldu blóði.  Sama dag og ákvörðunin var tekin var gerð loftárás á sjónvarpsstöðina RTS í Belgrad en í henni dóu 16 manns.  Um 100 særðust í árásinni.  Ráðherrarnir greindu ekki frá aðild sinni að þessari ákvörðun, hvorki við fjölmiðla né við Alþingi. Vitneskja um þessa ákvörðun kom fyrst fram opinberlega á bandaríska þinginu seinna á árinu.  Kæra var lögð fram við ríkissaksóknara um meinta aðild Davíðs og Halldórs að stríðsglæpum.  Hann vísaði kærunni frá án efnislegs eða lagalegs rökstuðnings.  Alþingismönnum var kynnt kæran.  Þeir neituðu að ræða þessa kæru, báðu ekki um skýringar á hlutdeild ráðherranna í þessari ákvörðun, sýndu engan áhuga að vita hvort morð á blaðamönnum væri refsiverð athöfn, og hvort íslenskir ráðherrar hefðu heimild að lögum til að mæla með slíku morði.  Alþingismenn, allir sem einn, vildu ekkert heyra, ekkert vita, ekkert sjá.  Með framferði þeirra hafa alþingismenn grafið undan virðingu þjóðarinnar fyrir lögum og Alþingi.

Á síðasta ári heimsótti George Bush eldri Ísland í boði forseta Íslands.  Meðan hann gegndi embætti forseta Bandaríkjanna hafði hann skipað bandaríska hernum að fremja margvíslega alþjóðaglæpi.  Meðal þessara glæpa var skipun hans um að ræna forseta Panama og færa hann í böndum til réttarhalda í Bandaríkjunum.  Slík aðgerð er saknæm að þjóðarétti.  Hann stóð jafnframt að undirbúningi og skipulagi árásarstríðs gegn Írak sem hófst í janúar 1991.  Áætlanir hans voru ekki takmarkaðar við það að frelsa hernumið Kúvæt heldur gengu út á það að leggja allar borgaralegar undirstöður í Írak í rúst.  Hann  beitti sér jafnframt fyrir því að óbreyttir borgarar í Írak fengju að líða skort með því að fyrirskipa allsherjarviðskiptabann gegn Írak, sem tók upphaflega jafnvel til matvæla. Íslandi er skylt að handtaka og síðan lögsækja eða framselja einstaklinga sem fyrirfinnast innan lögsögu landsins og grunaðir eru um aðild að alþjóðaglæpum á borð við mannrán, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.  Á grundvelli ofangreindra upplýsinga kærði hópur manna George Bush eldri til íslenskra yfirvalda og krafðist þess að hann yrði kyrrsettur á Íslandi á meðan mál hans væri rannsakað á grundvelli alþjóðaréttar.  Íslensk lögregluyfirvöld neituðu að framfylgja lögum gagnvart George Bush.  Þeir leyfðu honum að yfirgefa landið án yfirheyrslu og án réttaraðgerða.  Enginn alþingismaður gerði athugasemd við þessi brot lögregluyfirvalda á þeim reglum sem Ísland hefur heitið að framfylgja gegn stríðsglæpum.  Alþingismenn sem vernda stríðsglæpamenn geta ekki notið trausts.

8. Er þér annt um sjáfstæði þjóðarinnar?
Enginn flokkur hefur gert neina tilraun til að verja sjálfstæði og öryggi Íslands á þeim sviðum sem mesta ógnunin stafar: Á sviði hagstjórnar, peningarstjórnar og á fjarskiptasviðinu.  Þvert á móti hafa flokkarnir ýmist mælt með því að valdið færist enn frekar í hendur erlendra aðila (í Brussel), eða sætt sig við þau boð og bönn sem erlendar valdastofnanir senda hingað.  Alþingismenn tala fjálglega um lýðræði og mæla með því að Vesturlöndin komi upp lýðræði í fjarlægum löndum.  En þegar boð koma frá stofnunum EFTA og EES um innlend málefni, t.d. um rekstur stofnana á borð við Símann eða RÚV, er lýðræðishugsjónin gleymd.  Tal þeirra um lýðræðið er lýðskrum.  Um það hvað lýðræði er í raun, er vísað til inngangsorða að ofan.

9. Er þér annt um umhverfisvernd og heilsu?
Einn mesti umhverfis- og heilsuspillir er einkabíllinn.  Skaðinn af völdum einkabílisma eru ekki bundin við loftmengun og gróðurhúsaáhrifin.  Einkabílismi stuðlar að þenslu borga með tilheyrandi vegaframkvæmdum og lagningu bílastæða.  Einkabílisminn stuðlar að óhollustuháttum.  Einkabílisminn er einn mesti slysavaldurinn.  Enginn stjórnmálaflokkur hefur lýst sig andsnúinn einkabílismanum sem meginferðamáta.  Tal þeirra um umhverfisvernd og sjálfbæra þróun er því innantómt.

10. Viltu útrýma spillingu?
Allir stjórnmálaflokkar taka fegins hendi við fé frá stórfyrirtækjum.  Með slíkum gjöfum kaupa fyrirtæki vinsemd og þögn stjórnmálaflokka.  Stefna stjórnmálaflokks sem tekur við fé frá stórfyrirtækjum tekur óhjákvæmilega mið af óskum slíkra fyrirtækja.

Hefur einhver velt fyrir sér hvers vegna enginn stjórnmálaflokkur hefur látið kanna hvernig eigendur fjármálafyrirtækja hafi komist yfir auðæfum sínum?

Lýsum vantrausti á samtryggingarkerfi flokkanna

Við lýsum vantrausti á þá flokka sem bjóða fram, og á þeirri skipan stjórnmála sem þjóðin hefur verið þvinguð til að búa við: Flokksræði og vald auðmanna.  Við slíkar aðstæður er eini valkostur þjóðarinnar að skila auðu.  Þetta er eina leiðin til að sýna atvinnustjórnmálastéttinni vantraust.  Komi í ljós að marktækur hluti kjósenda vantreysti núverandi stjórnmálakerfi, verður efnt til Stjórnlagaþings, þar sem almenningi verði gefinn kostur að semja nýja, nútíma, stjórnarskrá sem tryggir að á Íslandi ríki alvöru lýðræði.

Elías Davíðsson

edavid@simnet.is

Á vordögum 2007

Viðurkennum þjóðstjórn Palestínumanna

Í ljósi þess að forsætisráðherra hefur ekki viljað viðurkenna þjóðstjórn Palestínumanna, hefur Félagið Ísland-Palestína sent ríkisstjórninni eftirfarandi áskorun:

Áskorun til ríkisstjórnarinnar
Félagið Ísland-Palestína áréttar ályktun aðalfundar félagsins frá 21. mars 2007 og skorar á ríkisstjórnina að viðurkenna þegar í stað þjóðstjórn Palestínumanna á herteknu svæðunum. (sjá ályktunina hér)

Utanríkisráðherra hefur lýst vilja sínum til að taka upp eðlilegt stjórnmálasamband og forsætisráðherra hefur sagt að Íslendingar vilji hjálpa til í Palestínu.

Skoðanir okkar á einstökum flokkum og stjórnmálaöflum í Palestínu geta ekki ráðið því hvort  haft er eðlilegt stjórnmálasamband við löglega og lýðræðislega kjörin stjórnvöld. Slíkt væri alger vanvirðing við sjálfsákvörðunarrétt þjóðar sem okkur ber skilyrðislaust að virða.

Við hljótum að virða niðurstöður frjálsra og lýræðislegra kosninga. Það er í samræmi við samhljóða ályktun Alþingis frá 18. maí 1989, þar sem meðal annars er kveðið á um að virða beri sjálfsákvörðuarrétt palestínsku þjóðarinnar. Ennfremur ber að líta til þess að þjóðstjórnin sem er tekin við forystu palestínsku stjórnvaldanna stendur á mjög breiðum grunni og styðst við öll stjórmálöfl sem kjöri náðu til löggjafarþingsins, stór og smá. Að hafna samskiptum við þjóðstjórnina jafngildir að hafna rétti palestínsku þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar og í raun að hafna  tilverurétti Palestínu.

Með því er líka verið að taka þátt í pólitískri og efnahagslegri einangrun Palestínu og auka enn á áþján og hörmungar íbúa herteknu svæðanna. Slíkt má ekki viðgangast lengur. Utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands verða þegar í stað að fara að fordæmi Norðmanna og viðurkenna þjóðstjórnina og aflétta viðskiptabanni gagnvart Palestínu.

Reykjavík, 7. maí 2007

Fh stjórnar Félagsins Ísland-Palestína,

Sveinn Rúnar Hauksson, formaður

Eftir kosningarnar

Eftir kosningarnar verður annað hvort ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna mynduð, eða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins með öðrum hvorum þeirra. Sama hvað aðdáendur einstakra stjórnmálaflokka segja, þá eru þessi stjórnarmynstur öll möguleg.

Ef Samfylkingin og Vinstri-græn mynda ríkisstjórn, þá er spurning hvort brýtur odd af oflæti – afsakið, metnaði sínum, Ingibjörg eða Steingrímur. Augljóslega hefur það þeirra sem fær meira fylgi sterkara tilkall. Ingibjörg mun ekki hafa efni á að setja úrslitakosti þegar Vinstri-græn geta eins myndað stjórn með Sjálfstæðisflokknum – og það virkar reyndar í hina áttina líka. Það má því búast við helmingaskiptastjórn – á hvern veginn sem fer.

Fólk veit hvar það hefur Sjálfstæðisflokkinn, hann er flokkur náttúruspjalla, einkavæðingar og herskárrar utanríkisstefnu. Fólk veit líka hvar það hefur Vinstri-græn – þau eru andstæðan. Stefna þessara tveggja flokka er þó ekki alveg ólík í eðli sínu. Vinstri-græn mundu seint gangast við auðvaldshyggju, en fylgir henni samt í reyndinni með því að hafna henni ekki og berjast ekki gegn henni sem slíkri. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-græn gætu kannski myndað stjórn sem ætti ýmislegt sameiginlegt með Nýsköpunarstjórninni, og segja má að það sé til ýmislegt verra en það.

Samfylkingin er sama óráðna krossgátan og áður; enginn veit hvar hann hefur hana. Annars vegar mætti segja að það væri verra að hafa slíkan flokk í stjórn, þar sem hann er óútreiknanlegur og þar með óöruggur bandamaður. Hins vegar er það líklega þægilegra að ráðskast með samstarfsflokk sem hefur ekki bein í nefinu. Hún gæti hvort sem er, myndað vinstristjórn með Vinstri-grænum eða hægristjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Hvernig sem fer má reikna með því að margir kjósendur verði vonsviknir. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins gætu líklega best unað við Vinstri-græn sem samstarfsflokk. Þannig gæti Sjálfstæðisflokkurinn rekið af sér slyðruorðið í umhverfismálum í augum margra. Kjósendur Vinstri-grænna yrðu hins vegar án efa fyrir vonbrigðum frá upphafi með samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en ennþá súrari á endanum með frammistöðu Samfylkingarinnar ef sú yrði raunin. Kjósendur Samfylkingarinnar verða líklega súrastir yfir sínum eigin flokki. Galli hans er ekki manneskjurnar sem að honum standa, heldur forsendurnar sem þær sameinuðust á. Margt framáfólk innan Samfylkingarinnar mundi standa í blóma ef það væri í gæfulegri flokki.

Hægri-vinstristjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna væri kannski lífvænlegasta ríkisstjórnin. Vinstri-græn eru fyrir það fyrsta nógu borgaraleg til þess að þau og Sjálfstæðisflokkurinn eigi meiri samhljóm en þau sjálf mundu vilja meðganga. Þau gætu enn fremur temprað stóriðjustefnuna og utanríkisstefnuna til muna, og jafnvel stemmt stigu við einkavæðingunni. Sjálfstæðisflokkurinn ætti annars vegar að geta verið ánægður með það sem hefur áunnist fyrir íslenska auðvaldið undanfarin ár, og hins vegar hlýtur hann að sjá vitið í því að draga úr framkvæmdum og þar með þenslu. Loks gæti hann kannski vel sætt sig við ríkisrekstur á þeim krepputímum sem sjá má fyrir að fari í hönd.

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn væri ákjósanlegt að byrja með Vinstri-grænum og veikja þau í augum kjósenda sinna, segja þeim svo upp á miðju kjörtímabili og byrja með Samfylkingunni í staðinn og reyna að þrauka þannig út kjörtímabilið. Fyrir Vinstri-græn væri betra að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking byrjuðu saman fyrst. Hún gæti þá afhjúpað hentistefnueðli sitt og hann mundi sýna hvers eðlis hann er í fjarveru Framsóknarflokksins. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn dömpaði Samfylkingunni eða hún kiknaði undan eigin hentistefnu gætu VG síðan tekið saman við annað hvort þeirra, í skorti á öðrum betri, og reynt að þrauka út kjörtímabilið. Það kemur í ljós hvort forysta VG hefur ístöðu til að bíða í tvö ár enn ef henni býðst að setjast í ríkisstjórn, eða hvort hún er of gröð í völd til að hafa stjórn á sér. Samfylkingin mundi róa þungan róður hvorum flokknum sem hún ynni með, því hún hefur ekki nógu skýra stefnu til að halda sig við og slíkt er vandasamt að fela.

Hvernig sem fer, þá er ekki sérlega líklegt að næsta ríkisstjórn sitji út kjörtímabilið.

Ósmekkleg auglýsing Nóa Síríus á 1. maí

Útsendarar Nóa-Síríus trufluði 1. maí -gönguna í gær í auglýsingaskynifyrir vöru frá fyrirtækinu, eins og greint hefur verið frá í fréttum. Nóa-mönnum hefur kannski þótt þetta fyndið, en það fannst ekki öllum. Hér er opið bréf sem Eldar Ástþórsson hefur sent forsvarsmönnum fyrirtækisins:

Kæri
Finnur Geirsson, framkvæmdarstjóri Nóa Síríus
Cc Brynja Georgsdóttir vörumerkjastóri og Gunnar G. Sigurgeirsson markaðsstjóri

Ég vil lýsa yfir sárum vonbrigðum og hneykslan yfir því að Nói Síríus hafi misnotað kröfugöngu launþega 1. maí til að markaðssetja vörumerkið Topaz.

Aðilar á launum frá ykkur komu hrópandi inn í gönguna með auglýsingaslagorð og spjöld – sem gerðu ekki aðeins lítið úr göngunni og þeim sem í henni voru, heldur líka þeim baráttumálum sem haldið var á lofti. Komu hópsins inn í gönguna var mótmælt af þeim sem í henni voru og hópurinn beðinn um að yfirgefa gönguna. Það bar ekki árangur. Ykkar aðilar voru hvað eftir annað vinsamlegast beðnir um að hætta hrópum sínum og látum. Það bar ekki árangur. Sem betur fer var Topaz hópnum meinuð aðkoma að ræðuhöldum að Ingólfstorg – þeim tókst ekki að misnota þau í auglýsingaskyni, sem hann hefði annars gert.

Ég hélt, og trúði ekki öðru, en að hér væru á ferðinni smekklaus mistök sem einhver auglýsingastofa hafði séð um að skipuleggja. Að gamalgróið og til þessa pokies for virt fyrirtæki eins og Nói Síríus, sem getur rakið sögu sína aftur til fyrstu 1. maí hátíðarhaldana í Reykjavík, liti á þetta athæfi sem mistök. Gunnar Sigurgeirsson markaðsstjóri ykkar segir hins vegar í Fréttablaðinu í dag (2. maí); „Við gerðum okkur grein fyrir að þetta gæti farið fyrir brjóstið á einhverjum en ég held að það hafi verið smávægilegt“ um leið og hann útskýrir að „þetta hafi átt að vera vörukynning og góðlátlega grín“. Gunnar segir annarstaðar í blaðinu; „Það eru alltaf einhverjir ósáttir með nýjar auglýsingaleiðir, en það verður að koma í ljóst hvort þetta ber árangur“.

„Treystum velferðina og útrýmum fátækt“ voru kjörorð dagsins. Kröfur um baráttuna gegn fátækt barna, launamisrétti kynjanna, jöfn réttindi til menntunar, kjör aldraðra, frið og mannréttindi í heiminum var einnig haldið á lofti. Þessi „vörukynning“ og „góðlátlega grín“ gerði lítið úr þessum kröfum og arfleifð 1. maí í Reykjavík.

Ég og mín fjölskylda munum gera okkar besta til að tryggja það að svona misnotkun beri hvorki árangur né muni endurtaka sig og festa sig í sessi sem ný „auglýsingaleið“. Það er nóg af stöðum og plássi í samfélaginu til að standa fyrir auglýsingum og vörukynningum. Við erum hætt að versla Topaz – og munum reyna eftir fremsta megni forðast allar aðrar  framleiðsluvörur Nóa Síríus.

kveðja,

-Eldar Ástþórsson