Göngum í leik/skólann/vinnuna

Í ár er fimmta skiptið sem Íslendingar taka þátt í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Bakhjarlar Göngum í skólann-verkefnisins eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands , Umferðarstofa, Ríkislögreglustjórinn, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landlæknisembættið og Heimili og skóli.

Markmið verkefnisins eru meðal annars að:

  • Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.
  • Heilbrigður lífsstíll fyrir alla fjölskylduna: Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.
  • Minni umferð við skóla: Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Betra og hreinna loft og öruggari og friðsælli götur og hverfi.
  • Vitundarvakning um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Samfélagsvitund eykst.
  • Kennir reglur um öryggi á göngu og hjóli.

En það má telja fleira til. Í allsnægtarsamfélögum verða til sérlega úrkynjuð vandamál. Samkvæmt rannsókn sem bílaframleiðandinn Kia Motors lét gera í fyrra keyra sífellt fleiri foreldrar börnin sín í skólann vegna þess að þau hafa áhyggjur af því að börnin gætu lent í umferðarslysi eða þeim gæti staðið hætta af ókunnugum ef þau myndu ganga sjálf. Þannig eru 57% skólabarna í Wales keyrð í skólann. Þetta verður óhjákvæmilega til þess að auka umferðarþunga, neyslu á bensíni, draga úr hreyfingu barnanna og takmarka getu þeirra til þess að staðsetja sig og rata.  (sjá: WalesOnline.CoUk, MailOnline)

Síðan að þéttbýlisvæðingin hófst hefur nærsýni aukist einnig. Fólk þarf ekki lengur að rýna í miklar fjarlægðir, fyrir eru mannvirki ýmiskonar, ekki þarf að líta lengra en yfir götuna eða í besta falli þvert yfir almenningsgarð. Börn þroskast að ýmsu leiti líkamlega en það er einnig ákveðinn þroski sem á sér stað varðandi getu til þess að staðsetja annars vegar sig og hins vegar áfangastað  í rúmi og komast þar á milli. Ef áfangastaðurinn er alltaf bílastæðið verður það sjálfsagt á endanum ákaflega ósjálfstæður einstaklingur. Hugtakið borgarbarn virðist vera að taka á sig nýja og sterkari merkingu.