Fréttatilkynning frá Saving Iceland

Saving Iceland sendu eftirfarandi fréttatilkynningu frá sér í gær:

Alþjóðlegur dagur gegn stóriðju 12. September.
Þann 12. September n.k. verða haldin mótmæli af ýmsum toga gegn útbreiðslu stóriðju, víða um heim. Saving Iceland hreyfingin er hluti af þessu átaki en útfrá baráttunni á Íslandi hafa Saving Iceland liðar lagt sig fram um að mynda tengsl við baráttuhópa gegn stóriðju í öðrum löndum. Fyrirtækin sem barist er gegn er þau sömu í Brasilíu, Trinidad, í S-Afríku og á Íslandi. Útbreiðsla þeirra þekkir engin landamæri, ekki frekar en mengunin sem hlýst af starfsemi þeirra.

Þann 12. September boðar Saving Iceland til mótmælastöðu gegn fyrirhuguðum virkjunum Landsvirkjunar í Þjórsá. Fyrst við stjórnarráðið klukkan 12 á hádegi og síðan við Þjórsá þar sem gengið verður að Urriðafossi klukkan 15.

“Saving Iceland mótmæla þennan dag undir yfirskriftinni “Verjum Þjórsá fyrir Græðgi Landsvirkjunar.” Það er ljóst að landsmenn hafa ekki á nokkurn hátt þörf fyrir hvorki virkjanir né álver, allra síst þegar atvinnuleysi á landinu mælist innan við eitt prósent. Hin eyðileggjandi sókn Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur inn á náttúrusvæði byggir ekki á nokkrum rökum, stjórnarmenn þar á bæ hampa einungis “réttinum til að stækka,” segir Sigurður Harðarson frá Saving Iceland hreyfingunni.

12. September varð til sem alþjóðlegur dagur gegn stóriðju á alþjóðlegri ráðstefnu Saving Iceland um hnattræn áhrif stóriðju, sem haldin var 7. og 8. júlí s.l. M.a. eru það íbúasamtökin Rise Against í Trinidad, Earthlife Africa í S-Afríku, Alcan´t í Indlandi, Movement of Dam Affected People í Brasilíu og Community Alliance for Positive Solutions í Ástralíu, auk Saving Iceland liða, sem standa fyrir mótmælum og aðgerðum í sínum heimalöndum þennan dag.

Hvað viljum við vernda?

Ég kalla eftir stefnu. Alhliða stefnu í verndunar- og varðveislumálum, jafnt á sveitarstjórnar- og landsmálastigi, sem næði til náttúru og mannvirkja, og skýrði hvað við viljum varðveita og hvers vegna. Það er sama hvert litið er, hvarvetna má sjá hártoganir um hvort vegur þyngra, rétturinn til að halda í umhverfið eða rétturinn til að þróa og byggja upp. Gjarnan takast stórfyrirtæki á við almenning, og yfirvöldin draga vanalega taum stórfyrirtækjanna. Það er kominn tími til að hreinsa loftið og leita að sáttum – það er að segja, að koma því á hreint hvað fólkið í landinu vill og hversu langt stórfyrirtækin og stjórnmálamennirnir geta leyft sér að ganga.

Viljum við til dæmis virkja hverja einustu jökulá á landinu? Til hvers? Viljum við að náttúruauðlindir okkar séu beislaðar til þess að selja erlendum auðhringum orku undir kostnaðarverði? Viljum við vera hráefnanýlenda fyrir erlent auðmagn? Hvers virði er það fyrir okkur, að eiga óspjallaða náttúru eða heildstæð vistkerfi? Hvað viljum við hafa að leiðarljósi þegar við græðum land? Hvers vegna er hálendið ekki þjóðgarður í heild sinni?

Sama er uppi á teningnum þegar kemur að varðveislu menningarminja. Hús sem náð hafa ákveðnum aldri ættu einfaldlega að vera friðuð – og sú friðun ætti að hafa nægilegt vægi til þess að halda gegn misjöfnum ásetningi sérhagsmunapúka. Ýmis kennileiti ættu auk þess að hljóta friðun. Hús og mannvirki sem hafa verið umdeild á sinni tíð hafa sum hver verið fljót að ávinna sér fullan þegnrétt. Sú var til dæmis tíðin að ég var allt annað en hrifinn af Ráðhúsi Reykjavíkur, en nú þætti mér sjónarsviptir að því. Svipuðu máli gegnir um Hallgrímskirkju, Perluna, Þjóðminjasafnið og fleiri kennileiti – byggingar sem eru alls ekki gamlar en ættu að vera friðaðar.

Við Laugaveg stendur til að rífa tugi ævagamalla húsa. Það er þyngra en tárum taki. Götumyndin mundi raskast alvarlega og vafamál að mannvistin biði þess bætur í bráð. Það á ekki að láta neanderdalsmenn ráða ferðinni í málum sem þessum. Eiginlega eru tveir kostir í stöðunni – að rífa gömlu húsin og byggja mis-lágkúruleg steypuhús í staðinn, eða að gera gömlu húsin upp, njóta þeirra áfram og að leyfa þeim að bera sögunni vitni. Við ættum að vera vaxin upp úr því að skammast okkar fyrir fortíð okkar. Það er auk þess vel hægt að sætta varðveislu og uppbyggingu; það má bæta við eða breyta en gæta þess um leið að framkvæmdin sé trú húsinu sem á í hlut.

Ekki má gleyma því sem oft vill gleymast – náttúrunni í borginni. Það er grátlega lítið eftir af upprunalegri strandlengju Reykjavíkur, ekki sentimetri eftir frá Seltjarnarnesi til Laugarness. Vatnsmýrin og Öskjuhlíðin fara minnkandi. Væri ekki vit í því að reyna að halda í það sem eftir er af náttúru innan borgarmarkanna?

Okkur vantar heildarstefnu sem skilgreinir hvað það er sem við viljum halda í, hvort sem það eru mannvirki eða náttúra. Það er óþolandi ástand að valdið hegði sér eins og því sýnist og grasrótarsamtök þurfi að berjast um hvert einasta hús og hvert einasta fljót. Unnendur náttúru og mannlífs þurfa að fylkja liði og setja þessa stefnu á dagskrá. Við getum ekki beðið eftir því að frumkvæðið komi frá venjulegum stjórnmálamönnum; við vitum hvað við fáum oftast frá þeim, og auk þess höfum við ekki efni á að bíða. Við þurfum að setja saman skrá þar sem við samhæfum sjónarmið varðveislu og þeirrar þróunar sem er nauðsynleg og borgar sig, og við þurfum að hugsa stórt. Þessi skrá þarf að vera umfangsmikil og metnaðarfull, en umfram allt raunhæf, og það er kominn tími til að hún líti dagsins ljós.

Hitinn og þunginn af þessari eilífu varnarbaráttu hefur hvílt á sjálfboðaliðum í grasrótarsamtökum, á meðan Valdið virðist vera óþreytandi, enda með herskara atvinnufólks í vinnu sín megin víglínunnar. Það má vel lít svo á að fyrirtækin hefðu hag af að þekkja takmörk sín, en frumkvæðið þarf að koma frá grasrótinni, hún þarf að koma saman, leggja drög að skránni og loks þarf hún að þrýsta á ríkisstjórnina að setja hana í lög. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Rífa á Metelkova

Einu mest spennandi aktívistasvæði í evrópu stafar nú hætta af ágangi yfirvalda. Metelkova (sjá heimasíðuna; http://www.metelkova.org), er hálfgert fríríki sem listamenn, anarkistar og annað frjálst þenkjandi fólk yfirtók 1993. Þetta voru fyrrverandi höfuðstöðvar júgóslavneska hersins sem láu yfirgefnar og til stóð að hverfið væri rifið niður. Því afstýrði duglegur hópur aktivsta og á 14 árum hefur þarna blómstrað merkileg menning hústökufólks sem hefur unnið fyrir því að svæðið sé miðstöð listrænnar og pólitískrar sköpunar.
Í dag eru mörg mikilvægustu listagallerí Balkanskagans í Metelkova, auk tónleikastaða þar sem afar fjölbreytt tegund tónlistar glymur úr gluggum. Sjálf húsin eru listaverk og mikil sköpunargáfa hefur farið í að hressa uppá húsin. Auk listasköpunar á sér stað mjög mikilvæg pólitísk starfsemi. Hælisleitendur erlendis frá hafa fengið góðar viðtökur í hverfinu, kvennaathvarf er starfsett, þarna er eini staður Slóveníu þar sem hommar og lesbíur reka samtök, ýmsir hópar sem berjast fyrir anarkisma og svipaðri hugmyndafræði starfa þar, auk and-rasískra hópa o.fl.

En slóvenska ríkið hefur ímugust af hverfinu og þeir sem berjast fyrir að halda því hafa frá því í fyrra setið vaktina við að stöðva yfirvöld sem hyggjast rífa hverfið niður. Talsmenn hverfisins leita nú stuðnings frá öðrum ríkjum.

“We invite all those who wish to support us to come and visit us. If you also have some donations to make we will gladly accept them in Club Gromka or Jalla Jalla.

ACZ Metelkova is under attack. They need support. Please circulate this information. If you want to express your support, please write to the Prime Minister:
Janez.Jansa@gov.si
And to the Minister of Culture:
vasko.simoniti@gov.si

Fréttatilkynning frá Samtökum um betri byggð á Kársnesi

Eftirfarandi fréttatilkynningu sendu Samtök um betri byggð á Kársnesi út á þriðjudaginn var:

Flest andmæli í sögu skipulagsmála í Kópavogi

– Hátt á annað þúsund athugasemdir bárust vegna  hafnarsvæðis á Kársnesi

Betri byggð á Kársnesi afhenti í gær bæjarskipulagi Kópavogs um 800 athugasemdir vegna skipulagstillögu bæjarins á nýju og stærra hafnarsvæði vestast á Kársnesi. Athugasemdirnar höfðu safnast fyrir í þjónustuveri íbúasamtakanna, sem þau opnuðu í síðustu viku, gagngert til að aðstoða þá sem koma vildu formlegri athugasemd við tillögunni á framfæri. Andmælin reyndust margfalt fleiri en samtökin höfðu gert ráð fyrir.

Auk þess sem íbúum gafst kostur á að póstleggja eða afhenda athugasemdir upp á gamla mátann, eru einnig þær athugasemdir teknar gildar sem bárust rafrænt með tölvupósti. Samkvæmt upplýsingum frá bæjarskipulaginu bárust um 700 slíkar athugasemdir.

Engar upplýsingar liggja fyrir um fjölda þeirra athugasemda sem hefur verið ýmist póstlagður eða lagður inn hjá bæjarskipulaginu, en með hliðsjón af ofansögðu má þó ljóst vera að heildarfjöldi athugasemda verður hátt á annað þúsund, ef ekki meiri.  Þar sem fleiri en einn einstaklingur getur undirritað hverja athugasemd, er ekki hægt að segja til um hve margir hafa látið sig málið varða, enda er í málum sem þessum eingöngu litið til fjölda þeirra bréfa   sem berast.

Til samanburðar má nefna, að 82 athugasemdir bárust  í janúar sl. þegar Kópavogsbær kynnti rammaskipulag fyrir Kársnes og vegna einnar umdeildustu skipulagstillögu í Kópavogi síðustu ár, Lundar í Fossvogsdal, bárust um 200 athugasemdir.

Þetta eru flestu andmæli sem Kópavogsbæ hefur borist við nokkurri skipulagstillögu og metfjöldi með hliðsjón af því að á Kársnesi búa um 4.400 manns. Þá er ekki vitað til þess að nokkru sveitarfélagi hafi borist hlutfallslega jafn margar athugasemdir við einni og sömu skipulagstillögunni.

Að mati samtakanna verður þessi gríðarlegi fjöldi athugasemda ekki túlkaður á annan veg, en sem víðtæk andstaða við gerð stærri hafnar og enn stærra atvinnu- og athafnasvæðis vestast á Kársnesi.

Nasistar ráðast á Cafe Oskar

Í fréttatilkynningu sem danski Kommúnistaflokkurinn (Kommunistisk Parti) sendi frá sér í gær, sunnudag, var greint frá því að stór hópur nasista hefði ráðist inn í Cafe Oskar, félagsheimili flokksins í Århus (mynd til hliðar), brotið þar allt og bramlað og valdið skemmdum m.a. á gluggum og dyrum. Árásin var gerð á laugardagskvöldið, þegar ungir félagar í flokknum voru með teiti í félagsheimilinu. Grjóti og flöskum var kastað, og meira að segja reiðhjólum.

Þekktir nasistar tóku þátt í árásinni, þar á meðal nokkrir sem hafa áður tekið þátt í árásum á Cafe Oskar og víðar í bænum. Lögregla var kvödd á vettvang, en handtók engan. Lögreglan í Århus lítur á þetta sem átök milli tveggja hópa.

„Það er kolrangt. Nasistarnir leita uppi og ráðast á anti-rasista, sósíalista og kommúnista, í því skyni að ógna þeim. Cafe Oskar verður oft fyrir árásum seint á kvöldin eða eldsnemma á morgnana, þegar hægriöfgamenn eru á leiðinni heim úr miðbænum og láta grjót og flöskur dynja á húsinu. Ef nasistarnir fá að halda áfram með þessum aðferðum er þeim leyft að verða að ógn fyrir öll lýðræðissinnuð öfl. Því er mikilvægt að standa saman og segja nei við ofbeldinu frá nasistunum,“ segir Per Nielsen, talsmaður Cafe Oskar.

Árásin á laugardag var kærð til lögreglunnar.

Kommunistisk Parti, Århus – www.kommunister.dk
Cafe Oskar – http://www.cafeoskar.dk/
Mejlgade 49
8000 Århus C
aarhus@kommunister.dk

(Þýðing og endursögn upp úr fréttatilkynningu danska Kommúnistaflokksins: Vésteinn Valgarðsson)