11. september: Konformistakórinn

"Osama bin Laden" myndbandið sem notað var til að réttlæta innrás í Afganistan

"Osama bin Laden" myndbandið sem notað var til að réttlæta innrás í Afganistan

Nú er komið að tíu ára afmæli árásanna 11. september 2001. Við munum ekki komast hjá því að heyra eða sjá tilfinningahlaðna sjónvarps- og útvarpsþætti, eða lesa greinar um illgirni hryðjuverkamannanna og hversu mikla þjáningu þeir ollu Bandaríkjamönnum.

Ég hef ekki nennt að taka þátt í umræðum um þetta mál að neinu sérstöku leyti. Þetta er ekki vegna þess að ég líti á þetta sem eitthvert smámál. Þessar árásir eru ástæða þess að ráðist var á Afganistan og Írak og mun vera notað gegn fleiri ríkjum í framtíðinni. Ég hef auk þess fulla samúð með aðstandendum fórnarlamba þessarra árása, eins og þeirra sem myrtir voru af Nató í kjölfarið. Ástæðan er sú að sú saga sem búin hefur verið til í kringum þessar árásir er svo kjánaleg að enginn heilvita maður, a.m.k. enginn heiðarlegur heilvita maður, gæti tekið hana alvarlega.

Ástæðurnar eru mýmargar*. Ég læt mér nægja að telja fram tvær.

Scholars for 9/11 truth and justice eru samtök virtra fræðimanna sem vilja beita vísindalegum vinnubrögðum til að komast til botns um hvað átti sér stað á þessum örlagaríka degi árið 2001. Hópurinn samastendur af um 600 einstaklingum, þar með töldum verkfræðingum, arkitektum, eðlisfræðingum, sálfræðingum og starfsfólki á heilbrigðissviði. Heimasíða hópsins er http://stj911.org/

Til að meta hvort tilgáta standist er hún borin saman við niðurstöður rannsókna eða tilrauna sem taka til grundvallarþátta hennar. Ef niðurstöður tilraunanna koma ekki heim og saman við tilgátuna verður að breyta tilgátunni eða hafna henni og rannsóknir hópsin hafa leitt í ljós að margar af þeim tilgátum sem mynda saman hina opinberu kenningu um atburðarrásina 11.september 2011 standast ekki.

Til dæmis: Rannsókn sem birt var í tímaritinu The Open Chemical Physics Journal sýndi að í rústum turnanna sem féllu á þessum degi var töluvert af svokölluðu þermíti, bæði notuðu og ónotuðu (Harrit et al., 2009)**. Þermít er málmblanda sem framkallar gríðarlega mikinn hita á skömmum tíma og á takmörkuðu svæði. Hvað byggingar varðar er efnið einungis notað til að rífa þær niður af fagfólki. Efninu er þá komið fyrir á burðarstólpum byggingarinnar en bruna er komið af stað á burðarstólpum hverrar hæðar fyrir sig á skipulagðan hátt.

Nú vaknar auðvitað spurningin, hver kom efninu fyrir? Ef það voru hryðjuverkamennirnir sjálfir, þá hefur skipulagning og útfærsla aðgerðanna verið mun flóknari en áður hefur verið haldið fram. Það myndi taka langan tíma og mikla skipulagshæfni, svo ekki sé talað um tækniþekkingu, til þess að koma efninu fyrir á öllum þremur byggingunu (wtc 1, 2 og 7) og svo koma efnabrunanum af stað á réttum tíma. Hópurinn hefur krafið hið opinbera að rannsaka hvernig á því stendur að þermít, þar með talið brunnið þermít, hafi komist í þessar byggingar, en, ótrúlegt en satt, hefur ekki orðið við beiðni þeirra.

Eitt er þó ljóst. Sú tilgáta að turnarnir þrír hafi hrunið til grunna í frjálsu falli (sem einungis er mögulegt með hluti sem fá nærri því enga mótstöðu) vegna flugvélanna og húsbruna í tilfelli turna 1 og 2, og svo einungis vegna bruna í tilfelli byggingar 7, er ekki góður kandídat. Engar aðrar stálbyggingar, nokkursstaðar í heiminum, hafa hrunið á þennan hátt vegna venjulegs bruna.

Annað atriði sem algerlega er nauðsynlegt að athuga er hversvegna fréttastofa BBC greindi frá hruni bygginar 7 áður en hann átti sér stað.

BBC greinir frá falli WTC7 22 mínútum of snemma

Hver sendi BBC fréttirnar, ásamt skýringu á því af hverju turninn féll, til fréttamannanna?

Því hefur verið haldið fram að neyðarteymi hafi látið rífa þessa byggingu á þessum örlagaríka þar sem ekki hafi verið hægt að bjarga henni. En það tekur að jafnaði margar vikur, og þá undir eðliegum kringumstæðum, að koma sprengiefni (þermíti) fyrir á öllum mikilvægustu burðarbitunum, og sprengiefnis í grunninn svo hægt sé að rífa slíka byggingu á þennan hátt. Að halda því fram að þessu hafi verið rumpað af samdægurs, á meðan borgin logaði, er fáránlegt.

Takið eftir einu: Hér er engin kenning eða tilgáta sett fram um hvað raunverulega gerðist. Ég held engri „samsæriskenningu‟ um atburðina 11. september. Áður en slik kenning er sett fram og rannsökuð á skipulagðan hátt verða öll nauðsynleg gögn að liggja fyrir. Þar sem sjálfstæðir rannsóknaraðilar hafa ekki fengið stuðning við að svara spurningum eins og þeim sem liggja fyrir vegna turnanna þriggja liggur sú grunnvinna ekki fyrir.

En ég hef kenningar varðandi það hversvegna kenningu sem stenst ekki er enn haldið á lofti eins og einhverjum heilögum sannleik. Fjölmiðlafólk og stjórnmálamenn sem taka þátt í því tilfinningarunki sem við munum upplifa á 10 ára afmæli atburðarins, en forðast á kerfisbundinn hátt að rannsaka og fjalla um spurningar eins og þær sem Scholars for 911 truth setja fram, eru bleyður; konformistar sem þora ekki öðru en að taka þátt í stórum klappkóri. Ég skil þá sem nenna yfir höfuð ekki að pæla í því sem gerðist á þessum degi. Því miður er heimurinn svo fullur af hörmungum sem þarf að laga að þeir sem eru aktívir í félagslegri baráttu verða að velja úr. Þá er ekki víst að athugun á þessu máli sé efst á forgangslistanum. Fólk hefur svo í nógu að snúast almennt.  En það fjölmiðlafólk sem tekur virkan þátt í að halda þessarri þvælu sem hin opinbera kenning um atburðina er á ekkert annað skilið en fyrirlitningu og hefur afskrifað sig sem trúverðugt.

 

* ég bendi t.d. á eftirfarandi greinasafn um málið http://www.aldeilis.net/english/index.php?option=com_content&view=section&id=10&Itemid=333

** Harrit, N. H., Farrer, J., Jones, S. E., Ryan, K. R., Legge, F. M., Farnsworth, D., Roberts, G., Gourley, J. R., og Larsen, B. R. 2009. Active Thermitic Material Discovered in Dust from the 9/11 World Trade Center Catastrophe. The Open Chemical Physics Journal, 2, bls 7 – 31.

Aldagömul átök krata og framsóknarmanna

Dagurinn kemur! Þið heyrið herbresti nú
af hugsunum þeirra sem boða tíðindin góðu …

Þannig orti Sigurður Einarsson skáldprestur og sósíalisti fyrir næstum öld síðan, og þó víst séu herbrestir í okkar samfélagi dettur mér í hug að sami hefði ort að herbresturinn boði ef til vill ekkert nema örlítið reykspól í upphækkuðum jeppa. En samt:

Í bráðum tvö ár hefur íslenskur almenningur og raunar almenningur um allan hinn vestræna heim verið meðvitaður um það að stéttaskiptingin, þar sem sumir fá þúsund denara en aðrir aðeins einn fyrir sömu vinnu,- verið meðvitaður um að þetta fyrirkomulag er í eðli sínu rangt og óréttlátt.

Eins og hendi sé veifað hafa verðfallið tvö þúsund ára sögur um súrrealískan vínberjabónda sem borgar það sama fyrir klukkustund og vikuvinnu eða þá rökfræðilegar skrýtlur um það að vinnutími eins sé miklu verðmætari en vinnutími annars. Loksins er að skepnan skilur,- þessi sama mannskepna í okkur öllum sem hálfpartinn trúði því fyrir skemmstu að til þess að við fengjum okkar hundrað þúsund kall með refjum og vífillengjum yrðu einhverjir aðrir menn að fá hundrað milljónir sjálfrennandi í sinn vasa. Nú vita það allir að þetta er lygi.

Vei þeim sem láta eins og ekkert hafi skeð og lifa enn í sömu trú fyrir þessa atburði og eftir.

Í hinu algera ábyrgðarleysi Íslandsbersa allra landa, og allra þeirra gæslumanna sem yfir voru settir, var ekkert sem hönd á festi. Dag hvern lásu fjölmiðlar upp fyrir okkur tölur um afkomu, gróða, vexti og vaxtavexti þar sem rekstur hvers dags og hverrar sjoppu og hvers starfsmanns var mældur og brotinn niður í öreindir, krónur og aura. Og allt var með svimandi gróða. Samkeppnin, endurskoðendur, blaðamenn, skattayfirvöld og ótal silkifínar húfur hins hversdagslega lífs yfirfóru allt saman og blessuðu og sögðu rétt. Og hvað?

Jú og ég var þar! Lengst blaðamaður og síðan þingmaður og sá ekkert í þessu frekar en þið eða nokkur annar. Ekki nema síðustu metrana, sumir geta montað sig af að hafa sagt eitthvað 2006, aðrir 2007 en til þess þurfti engan spámannsvöxt.

Það er ekkert auðvelt að draga lærdóma af öðru eins. Ég hef reynt það í mínum litla verslunarrekstri á Selfossi með því að taka þar upp þá hætti að mæla innkomu hvers dags í lengd kassastrimilsins í stað þess að telja krónur. Metrakerfið er mjög gott evrópskt kerfi og nákvæmt Þar kann ég meira að segja nokkurnveginn á undir og yfirstærðirnar, alveg niður í nanó og upp í mega en svimar alltaf hálfvegis af þessum hugtökum sem eru notuð ofan við milljónina í krónum og held raunar að fyrir hrun hafi fæstir gert sér almennilega grein fyrir muninum á billjón og milljarði og þaðan af síður vitað að í einn billjarð þyrfti þúsund billjónir nema í Ameríku sé þar sem ekki eru nema þúsund milljónir í billjóninni sem heitir milljarður hér í gamla heiminum. Já, nei, fyrirgefið ég veit að þetta er hluti af bulli en ekki ljóði.

En í stuttu máli er það sem ég er hér að lýsa birtingarmynd firringarinnar. Heimurinn allur var undirlagður af svindilbraski, lygi og þjófnaði. Og þegar það svo uppgötvast að keisaraskömmin hefur enn einu sinni verið að strippa hér í bæjargiljunum þá er eina ráðið sem okkur dettur í hug að rétta honum sundskýlu svo lýðurinn geti haldið áfram að klappa fyrir strippinu. Og það í landi sem hefur samt bannað strípiklúbba fyrir konur.

Það er ekki nóg að segja að það hafi eitthvað verið að á hinum heimskulega útrásartíma. Það er eitthvað mikið að í dag og ekkert lát á. Þrátt fyrir eina og eina villu eru sömu Íslandsbersarnir á götunum hérna – og í nágrannalöndum eins og Írlandi er ástandið ef eitthvað er verra. Bankaræningjarnir sem hlupu í felur undan okkur í hitteðfyrra eru komnir á kreik aftur, ekki endilega undir nýjum nöfnum heldur þeim sömu. Ganga semsagt bísperrtir og berrassaðir sem keisarar niður bæjargilið og heimta margfalt í tímakaup fyrir ekkert.

Árið 2008 var ég í Perú og las fullur vandlætingar um forsetaframbjóðanda sem stal ríkissjóðnum eitt árið og sat úti í Evrópu í vellystingum um hríð en kom svo aftur heim og lét aftur kjósa sig eins og ekkert hefði í skorist. Ég man ekki alveg hvort hann náði kjöri en það er aukaatriði, ég var jafn hneykslaður fyrir hönd vina minna, hjartahreinna framsóknarindíána í fjöllunum þar.

Núna veit ég afhverju sömu Indíánar glottu svona drýgindalega þegar við ræddum þetta á sólardegi yfir kóka-tei.

En er þá engin leið út? Jú, leiðina finnum við í sögunni og nú er ég kominn að minni uppáhaldssetningu í stjórnmálafræði sem hefur staðist tímans tönn betur allt annað sem ég hef lagt til þeirra mála. Semsagt:

Höfuð átakalínur stjórnmálanna liggja ekki bara um hægri og vinstri og hafa kannski aldrei gert. Þær kristallast í aldagamalli baráttu milli framsóknarmanna og krata. Með öðrum orðum baráttunni milli þess þjóðlega og rótfasta gagnvart hinu rótlausa sem fyrirlítur jafnt uppruna sinn og sitt eigið sjálf. Baráttunni milli kristnidóms og heiðindóms á Alþingi fyrir þúsund árum, baráttunni milli Jóns Arasonar biskups og hins konungholla Skálholtsráðsmanns með öxina fimm öldum síðar, hugmyndafræðilegri togstreitu Magnúsar Stephensen á Leira og Eggerts Ólafssonar, sem illu heilli tafði íslenska sjálfstæðisbaráttu um áratugi með algerlega ótímabærri drukknun, baráttu Hriflu-Jónasar við hálfdanskt afturhald og svo áratugum seinna baráttu þjóðlegra herstöðvaandstæðinga allra flokka við sama Hriflu-Jónas og aðra sem gengu Sámi frænda á hönd.

Semsagt, baráttu þrælsins við hinn feita þjón.

Og ekki láta ykkur detta í hug að þetta sé eitthvert séríslenskt fyrirbrigði. Klofningur í gömlu alþjóðasamböndum sósíalista var meira og minna klofningur um það sama og kristallaðist hvergi betur en í þrætu bolsévika og mensjevika. Semsagt, Trotskýistanna, sem eins og allir hægfara sósíaldemókratar höfnuðu þjóðríkinu en horfðu til byltingar alls heimsins í stjarnfræðilegri framtíð. Þeir voru þar eins og misheppnaðir ídealistar á tíma sjálfstæðisbaráttu Norðurlandanna sem vildu – og vilja jafnvel enn – búa til eitt Skandinavískt stórríki. Nýlendusinnar allra tíma, sem töldu einlæglega að löndum sínum væri betur borgið í sambandi við og undir stjórn evrópskra vina og stóðu þar andspænis misjafnlega gæfulegum  sjálfstæðishetjum eins og Mahatma Gandí, Jóni Sigurðssyni, Kenýatta, Idi Amin og Maó Tsetung.

Semsagt allir þessir sem vildu taka það litla og leggja það undir ok þess stóra, þessir sem sjúga sig fasta við valdið, þessir sem eru hræddir og óöruggir ef þeir fá ekki einhversstaðar skjól af þeim stóra og vita að því nær sæti hans sem þeir hjúfra sig því hlýrra verður. Við alla þá var barist og við þá er barist á Íslandi í dag.

Sá sem fer út í heim fullur af skömm yfir eigin uppruna og dustar í sífellu af sér ímyndaða fjósalykt ber með sér þunga tösku vanmetakenndar og verður aldrei heimsborgari og stundum litlu meira virði en hamborgarinn sem hann étur.

Ég vék að því áðan að það eru byltingartímar og látum ekki telja okkur trú um þá bábilju að byltingar hafi aldrei lukkast. Það var bylting að ná Íslandi undan yfirráðum Dana og margar fleiri farsælar byltingar má nefna. Nú síðast suður við Miðjarðarhaf.

En semsagt, byltingartímar. Þjóðin er reið, hún veit að hún hefur verið svikin og frá henni stolið. Hana vantar ekkert nema að vita hvert eigi að beina þessari reiði og á köflum hefur útrásarvíkingunum sjálfum tekist að virkja hana með sér í göngu sinni inn í Evrópusambandið sem er fyrirheitnaland þeirra sem vilja taka á okkur annan hring.

Hvergi er til annað eins gósenland stórfyrirtækjaspillingar og strákaleikja eins og inni í því skrifræðisbákni. Auðvitað verður þessum strákum ágengt með því að mála upp fyrir almenningi að það séum við, þessir afturhaldsmenn, sem einir tölum gegn hinum samevrópska guðdómi vorra daga. Að það séum við einir sem engu viljum breyta og öllu halda kjurru í landinu. Og þá kem ég nú óðum að því sem ég vildi sagt hafa sem er hvert við eigum að beina umbótamættinum, elfunni þungu sem er í samfélaginu, herbrestinum mikla sem dugar ekkert, óþreyju sinnar vegna, það eitt að bíða eftir að stöðva stórflóð ESB kratanna, heldur vill byggja upp, breyta og bæta svo ekki endurtaki sig það sem endurtekur sig nú á árinu 2011, með fréttum af alltof fáum milljónum í launaumslagi bankastjóra Landsbankans og glaðhlakkalegum útrásarbræðrum, enn á Hummerunum sínum.

Semsagt, veröld vinstri stjórnar sem á stundum líkist mest martröð frá haustdögum 2008. Nú þegar einn fjórflokkurinn hefur tekið við af öðrum, þá vitum við innst inni, sem höfum verið hér á planinu báða dagana, að ekkert hefur skeð. Hugmyndafræðilega endurskoðunin er öll eftir.

Og þegar ég segi „við“, þá á ég við okkur þessi sem lifað höfum í þúsund ára draumi Einars Þveræings og Jóhannesar úr Kötlum um þjóðlegt réttlæti, okkur sem höfum líkt og Halastrákurinn alltaf verið heimsborgarar í hjarta okkar af því að við trúum á túnið heima hjá okkur. Við sem viljum lyfta af okkur klafanum og neitum að taka þátt í að leggja hann að nýju á nýjar kynslóðir til þess að þær geti árum síðar horft á sitt bankahrun og sagt æi afi, var þetta sem þú gafst okkur þá svona!

Við – já, við, þessi sem kusum Nebúkadnesara heimsins í hundrað ár, höfum verið friðarins menn og aldrei viljað breyta of miklu. Ef okkur er boðið upp á nýja afarkosti þá reynum við að móast við og segjum, við skulum hætta að mögla yfir því gamla en leyfið okkur þá að vera í friði og komið ekki með neitt nýtt. Við óttumst ykkar réttlæti en erum vön ykkar ranglæti.

Nú skulum við hætta þessu og vígbúast. Nú skulum við fara fram á að partíliðið, sem rústaði öllum litlu fyrirtækjunum okkar, taki til eftir sig. Við skulum fara fram á að engin af stóru græðgisfyrirtækjunum fái að starfa áfram eins og danskar einokunarbúllur, við getum gert kröfur um að þau verði öll seld í bútum, ekki sem keðjur heldur sem sjálfstæð konungsríki smákapítalista. Ef einhversstaðar slær íslensk þjóðarsál þá er það í brjósti hins smákapítalíska bónda, hvort sem hann býr með kindur eða varadekk.

Hér á Akureyri er stór og myndarleg bókabúð sem ég kann afar vel við að sitja í. En hvar situr sá sem rekur þessa starfssemi, og hvert fer innkoman? Jú, í óræða óstaðsetta höfuðborgarklíku sem gerir slag í slag atlögu að því að eiga allt atvinnulíf í landinu, hversu oft sem hún tapar því í matador. Matador þar sem við borgum tapið, ekki þeir sem valda því. Þeir hinir sömu og eiga nú orðið mjólkurbúið okkar Flóamanna og svo gott sem öll önnur fyrirtæki á Selfossi. Ég þekki ekki eins vel til hér á Akureyri til að taka svo stórt upp í mig í öðrum sóknum. Í þessu firrta umhverfi verður lítil sköpun, lítil hamingja og enn minna réttlæti.

Við skulum ekki heyja varnarstríð við landsölumenn ESB, heldur spyrja þá hvað við höfum grætt á EES samningnum og setja sókn okkar í að fá að greiða atkvæði um hann. Samningur þessi er ekkert nema hluti af evrópsku stórfyrirtækjasvindli. Við höfum val um að halda áfram hlédrægu varnarstríði eða látið það hlutverk eftir róttæklingum á hægri vængnum sem geta þá boðið okkur lista sannra Íslendinga í næstu kosningum, sem kenna almenningi að fyrirlíta blámenn og hræðast hundtyrkja. Látum þá sviðið eftir því fólki sem ekki getur elskað sitt heimatún nema hatast við nágranna sína.

Við skulum taka á leigu lítið félagsheimili suður með sjó hálfa kvöldstund, þar sem svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins geta fært einir upp sín leikrit en hættum að láta nokkra milljón króna menn véla um það hvort launin okkar hækki um 200 krónur eða 600 krónur. Við getum lesið yfir gömlu tillögur Vilmundar um uppbrot á verkalýðshreyfingunni – því vitaskuld hafa kratar átt margan góðan dreng.

Við skulum fylkja okkur um alla þá Kjalnesinga og Svarfdæli þessa lands sem vilja endurheimta hreppinn sinn og gefa öllum hugmyndum um stærri og ólýðræðislegri stjórnsýslueiningar langt nef. Við erum stór þjóð í stóru landi – svona ef við miðum við það hvað hér voru margir fyrir 200 árum – en engu að síður eru allar hugmyndir um að auka hagkvæmni á Íslandi með stærri einingum fals eitt og landvinningastefna þeirra stóru gagnvart þeim litlu.

Í raunveruleikanum er það eins og hver önnur aulafyndni að auka hagkvæmni með því að sameina tvö hundrað manna fyrirtæki eða tvo þúsund manna hreppa og þó að um sé að ræða tvo sem hvor um sig hefði 50 þúsundir. Óhagkvæmni hefur vaxið á Íslandi með stærri einingum og skuldir á hvern íbúa eru hærri í stórum sveitarfélögum en litlum. Svona bara svo dæmi sé tekið.

Við skulum gera kröfu um héraðaþing og þriðju stjórnsýsluna þar sem við svo lýsum yfir sjálfstæði einstakra landshluta og helga Vestfirðingum þeirra eigin innanfjarða landhelgi, Sunnlendingum réttláta hlutdeild í raforkunni sem verður til í ánum þar en Norðlendingum sínar perlur þannig að það verði ekki framar skrifborðsákvörðun fyrir sunnan hvað gert er við fjörð og hól fyrir norðan.

Við skulum samt fyrst og síðast standa upp og mótmæla þeirri reginfirru að við séum öll eitthvert andlag markaðssamfélags, að líkamar okkar séu í umsjá lýðheilsustofnana, að við þurfum vernd samkeppnisyfirvalda og neytendafræða til að komast út í búð. Eða þá að hér sé stéttlaust land viljalausra manna. Allt það regluverk og þau fræði, sem hafa miðað við að hægt sé að beisla kapítalismann með stofnanaumgjörð, eru misskilningur. Sömu stofnanir verða ekki annað en tæki í höndum einokunarinnar, og hugmyndin um að skapa réttlæti samkeppnissamfélagsins eru álíka gáfulegar og að skapa hógværa bankastjóra. Öll þessi kerfi sem við höfum innleitt á undanförnum árum hafa kallað á aukna óhagkvæmni, aukinn útibúarekstur, aukna stórfyrirtækjavæðingu og aukinn milliliðakostnað.

Þegar við horfum á marggjaldþrota stórfyrirtæki í eigu sömu manna, óréttlát undirboð og hreina kúgun sömu fyrirtækja gagnvart framleiðendum, krosseignatengsl fyrirtækja sem eiga að keppa sín í milli og endanlegan dauða hins smáa og heiðarlega þá sér hver sem það vill sjá, að þetta sem kallað er markaðssamfélag er í fæstum tilvikum annað en svindilbrask með opinberu aflátsbréfi.

Og – við skulum vera rótttækust við okkur sjálf og hætta að trúa því að því að það sé okkar hlutverk að heimta alltaf meira og meira, meira í dag en í gær. Það er ekki okkar hlutverk, hinnar hugsandi alþýðu að taka þátt í hugsunarlausri kröfugerð um fjórbreiða vegi og göng í gegnum fjöll.

Jú, jú, frjálshyggjan á sinn þátt í þessu en er samt ekki endilega verst í sinni grímulausu villimennsku. Ódó með grímu eru verri. Þeir sem halda sig vera jafnaðarmenn og telja sig geta upphafið ókosti kapítalismans með afláti hinna ævarandi skýrsluhauga eru hér verri. Það er grátlegt að horfa upp á frjálshyggjukrakkana halda sér fast í trúna, rétt eins og þeirra Berlínarmúr standi enn óhaggaður.

Enn verra er þó að heyra í tæknikrötunum sem bera það á borð fyrir okkur að reglurnar þeirra hafi bara ekki verið nógu margar. Dettur þessu fólki aldrei í hug að það geti hafa haft rangt fyrir sér? Að við höfum kannski öll haft rangt fyrir okkur? Að regluverk hins nútíma óblandaða og einkavædda tæknikratasamfélags hafi einfaldlega verið vitlaust og grundvallarhugsunin tómt moð?

Það mikilvægasta eftir hrunið er ekki að loka nokkra Íslandsbersa inni í fangelsi, þó að það eigi að gera. Það mikilvægasta er að við endurskoðum þann grundvöll sem skapaði hrunið og förum nýjar leiðir. Við þurfum að taka aftur upp blandað hagkerfi,- það hefur enginn tekið almennilega eftir því en með einkavæðingarvitleysu undanfarinna ára hefur því verið útrýmt með sameiginlegu átaki. Við búum ekki í blönduðu hagkerfi lengur heldur a la America dry græðgi.

Og það þarf að ganga lengra. Ég fullyrði að með því að taka upp opinbera verðlagningu á nokkrum grundvallar vörutegundum, og jafnvel lögleiða álagninguna líka, gætum við í hendingskasti innleitt meiri samkeppni inn í þetta land heldur nokkur von er til með káki þeirra stofnana sem nú eiga að stuðla að samkeppni. Við eigum að vera óhrædd við að setja stærðarmörk á fyrirtæki, setja strangar girðingar við eignatengslum.

Við skulum heimta, og þó mest af okkur sjálfum, að við látum aldrei aftur fara með okkur eins og þær gungur og druslur sem aðeins getum verið til skemmtunar í ræðustólum. Látum þá koma og segja að við séum skrumarar af því að við erum róttæk, að við séum ábyrgðarlaus vegna þess að við fylgjum ekki lengur kapítalismanum blint og enn síður þeirri villukenningu að undir eftirliti nokkurra pappírstígrisdýra megi sleppa honum lausum.

Herhvötin, trumbuslátturinn, upphrópanir í bankarústunum og reiði okkar yfir hvernig fór er til einskis ef við í blindni göngum inn í sömu vitleysu aftur.

Um gjafahagkerfi anarkó kommúnismans

Í anarkó-kommúnisma er stefnt að því að afnema peningakerfið og taka þess í stað upp gjafahagkerfi. Markmiðið með því er að þátttakendur geti bæði gefið það sem þeir geta og vilja í hagkerfið og einnig fengið það sem þá vantar. Framleiðsluafurðir í hagkerfinu eru þá bæði í sameign og til frjálsra afnota fyrir hvern sem er. Til að ná þessu fram þarf að hanna sjálft hagkerfið þannig að það sé í hag hvers þátttakanda að deila gæðum sínum og framleiðslu með öðrum í hagkerfinu. Þátttakendur gætu til dæmis ekki fengið úr kerfinu án þess að hafa lagt sitt af mörkum í það.

 

Þetta gæti hljómað eins og óraunhæf útópía, en hafa ber í huga að kerfi sem falla undir þessa hugmyndafræði eru þegar til og í notkun. Þetta er mest áberandi á sviði samskipta- og tölvutækni. Skráaskiptakerfi á netinu eru oft hönnuð einmitt á þann máta að til að geta hlaðið niður gögnum þarf viðkomandi að hafa sent inn gögn sjálfur. Þetta gildir bæði þegar gögnin eru fengin beint frá öðrum tölvum eða í gegnum vefþjón. Hugmyndin er því ekki meiri útópía en svo að þegar nota milljónir manneskja hana um allan heim, í takmörkuðu sniði þó.

 

Eins og öll hagkerfislíkön, byggir hugmyndin um gjafahagkerfi á forsendum sem erfitt er að sanna með óyggjandi hætti að séu réttar, en þó eru nokkur sannfærandi rök fyrir þeim. Í tilfelli gjafahagkerfisins er þannig lagt ákveðið traust á að manneskjur vilji deila með sér því sem þær skapa og framleiða, þó svo að reynt að hanna kerfið á þann hátt að það sé í eigingjörnum hag þátttakandans að deila með sér. Það verður seint hægt að fullyrða að þetta traust á manneskjunni sé á rökum reist. En við vitum þó þegar ýmislegt sem vefengir hina algengu andstæðu sannfæringu um að manneskjan sé í „eðli sínu“ eigingjörn, spillt og gráðug og myndi aldrei deila með sér.

 

Svo við tökum aftur dæmi frá tölvuheiminum, þá vitum við að margir virðast njóta þess að deila með öðrum skrám sínum. Internetið er sneisafullt af ókeypis bókum á tölvutæku formi, kvikmyndum, forritum, tónlist, listaverkum o.s.frv. sem einstaklingar hafa gefið sjálfviljurir, án þess að fá endilega nokkuð haldbært í staðin. Spurningin þar er ekki lengur hvort fólk deili með sér, heldur einungis hversvegna, hversu mikið þeir deila með sér, og svo hverjir deila og hverjir ekki.

 

Við vitum einnig að gerðar hafa verið rannsóknir í sálfræði sem benda einmitt til þess að það sé eðlislægt flestu fólki að deila með sér, hjálpa, sýna náunga sínum hollustu og jafvel að fórna sér fyrir aðra. Fórnfýsi (altruism) og hluttekning eru ekki einungis til, heldur hluti af hugsunarmynstri okkar. Við finnum til og gleðjumst með öðru fólki og það veitir okkur beinlínis gleði að sjá aðra gleðjast, þ.e.a.s. flest okkar gera það. Til eru undantekningartilvik, en þau reiknast sem fötlun. Þessi fötlun, hvort sem það er siðblinda eða eitthvað annað, getur verið þeim sem hana hafa til vansa, enda er hluttekning og hjálpsemi mikilvægur hluti af félagshæfni okkar. Í samfélagi jafningja gengur þeim illa sem aldrei hjálpa öðrum, eða skilja ekki tilfinningar annarra. Það er okkur eðlilegt sem félagsverum að deila og hjálpa.

 

En við vitum einnig að aðstæðurnar og samfélagsgerðin sjálf geta skyggt á jákvæða eiginleika manneskjunnar og dregið fram hliðar sem eru miður geðslegar. Við vitum til dæmis að yfirvaldshlýðni og skortur á samábyrgð, sem kemur fram í kjölfar miðstýrðrar ákvörðunartöku, hefur verið hluti af mörgum verstu glæpum mannkynssögunnar. Yfirvald í samhengi samfélagsgerðarinnar er einfaldlega hlutverk sem staðsett er hærra í samfélagsstigum, en sá sem hlýðir yfirvaldinu. Það virðist vera ákaflega erfitt að neita að gegna jafnvel ömurlegustu skipunum, eins og tilraunir Stanleys Milgrams um hlýðni sýndu á eftirminnilegan hátt.

 

Hvað varðar spurninguna um það hvort og hvernig hægt væri að beita slíku kerfi á önnur svið en tölvutækni, þá er tölvutæknin vissulega sérstök að því leyti „hráefni“ er þar, fræðilega séð, óendanlegt. Við getum afritað sömu skrá nærri því takmarkalaust, en svo er ekki með takmarkaðar auðlindir á borð við fæðu og eldsneyti. Hér skal látið nægja að benda á að slíkar vangaveltur eru tæknilegs eðlis, og þeim ætti að svara með tæknilegum útfærslum sem ekki verður farið í hér. Staðreyndin er sú að ótal stofnanir vinna þegar á þann hátt að líkja má þeim við gjafahagkerfi. Björgunarsveitirnar, ýmis bókasöfn og vinnuhópar, hjálparstofnanir og stuðningshópar, svo eitthvað sé nefnt, starfa öll á grundvelli samhjálpar, gefinnar vinnu og án kröfu um endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt er. Eitthvað er það sem rekur allt það fólk, sem tekur þátt í slíku starfi, til þess að gefa vinnu sína.

Reykjavík Nine: Fjáröflunarkvöldverður/Benefit dinner

Fimmtudaginn 25. Nóv verður Eldhús Fólksins með samsæti til stuðnings
nímenningunum, í Húsinu, Höfðatúni 12 kl. 20:00.

Það þýðir að fólk kemur saman og á saman síðdegi/kvöldstund með góðum mat
og tónlist frá plötusnúðum í góðum félagsskap. Mætið með eigin persónu,
matvæli og þann aukapening sem fólk vill sjá koma nímenningunum að gagni.
Húshópurinn mun sjá fyrir grunni að góðri máltíð, góðu viðmóti, dansgólfi
og tónlist.

Áhugasömum er velkomið að taka þátt í matargerð um og uppúr kl 17. Tónlist
byrjar eftir klukkan 20 þegar réttirnir verða bornir fram. Vilji einhver
koma á óvart með eigin kökugerð er rétt að benda á að það er enginn ofn í
Húsinu, fólk verður því að baka fyrirfram. Hinsvegar er hægt að búa til
salöt, súpur, pönnukökur og fleira í þá áttina á staðnum.

Takið endilega vini með – líka vini sem ösla í seðlum 🙂

Allar nánari upplýsingar: www.rvk9.org

––––––––––––––––––––––––––––––

––––––––

On Thursday, November 25, there will be a people’s picnic at Húsið,
Höfðatún 12, in support of the Reykjavík Nine.

Meaning: sharing food, good company and good music from a DJ team – bring
yourself, food and all the spare money you would like to see in action to
help the Reykjavik Nine. Some basic foods, a cozy atmosphere, space for
dancing and the music will be taken care of by the collective.

People are welcome to join the cooking of some dishes at around 5, music
and serving will start after 8.  There is no oven at Húsið so if you want
to surprise the picnic crowd with cakes, cookies or breads, you’ll have to
do it in advance., but you can make salads, soups, pancakes and the like
right on the spot.

Bring your rich and not-so-rich friends to the solidarity dinner!

If you don’t know who this solidarity event is about, check this:
www.rvk9.org/in-english

Håkon Lie var CIA-njósnari

Haakon LieGögn sem voru tekin af trúnaðarskjalslista í safni bandarískra yfirvalda í vikunni hafa staðfest að Håkon Lie, fyrrum aðalritari norska verkamannaflokksins, var á mála hjá bandarísku leyniþjónustunni, CIA, og veitti henni gríðarlega viðkvæmar upplýsingar um allt starf flokksins og hreyfingarinnar. Þetta kom fram í fréttatíma NRK nú í kvöld. Það hefur ætíð þótt furðu vekja að leyniþjónusta Bandaríkjanna hafði mjög nákvæmar upplýsingar um alla þætti verkalýðshreyfingarinnar í Noregi, jafnvel um litla fundi smárra hópa kommúnista o.s.frv, og þessi uppgötvun virðist varpa ljósi á það hverju þessu sætir. (frh)

Continue reading