Hagsmunir fjármálavaldsins settir oftar réttlætinu

Sumir tala um að áróðursstríðið varðandi nýja Icesave-samninginn sé hafið og eflaust eru þeir einhverjir sem vilja meina að það sé allt fyrir tilveru þess hóps sem kallar sig Samstöðu þjóðar gegn Icesave. Þetta er auðvitað mikil einföldun og reyndar alls ekki rétt að hópurinn sem slíkur hafi staðið fyrir einhverju sem mætti líkja við stríð.

Sveinn Tryggvason og undirrituð voru í Bítinu á Bylgjunni þriðjudaginn eftir að forsetinn opinberaði þjóðinni þá ákvörðun sína að visa nýja Icesave-samningnum til þjóðarinnar. Þar hvöttum við alla sem hugsa sér að fara í áróðursstríð að skipta um kúrs og sýna væntanlegum kjósendum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá virðingu að leggja áherslu á að upplýsa þá um nýja Icesave-samkomulagið.

Stjórnmálamennirnir ættu að sjálfsögðu að draga sig í hlé. A.m.k. þeir sem hafa sýnt sig í því að fara beinlínis með rangt mál í yfirlýsingum sínum varðandi fyrri samninga en það er hæpið að þeir standist mátið og kannski enn hæpnara að þeir verði látnir í friði. Við eigum færa lögfræðinga og hagfræðinga, við eigum einstaklinga sem hafa fylgst með samningaferlinu frá upphafi. Sumir hafa kynnt sér eðli allra samninganna þriggja og breytingarnar sem hafa orðið á milli þeim. Vonandi munu þessir láta í sér heyra og leggja almenningi lið þannig að hann geti tekið upplýsta ákvörðun.

Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi að kvöldi 21. janúar sl. að þetta mál snerist fyrst og fremst um hagsmuni og eðlilega veltir maður því fyrir sér hverra hagsmunir eru honum efst í huga. Það er fátt sem bendir til annars en að það séu hagsmunir fjármálafyrirtækjanna sem hafa forgang og þeirra sem bera hina raunverulegu ábyrgð á Icesave-reikningunum.

Við í hópnum Samstaða þjóðar gegn Icesave viljum hins vegar verja hagsmuni almennings í þessu máli. Áskorunin um að nýi Icesave-samningurinn færi í þjóðaratkvæðagreiðslu var fyrsti áfanginn í því. Næst viljum við að samingurinn hljóti kynningu. Við ætlum að leggja okkar að mörkum til þess. Við erum með síðu inni á Fésbókinni þar sem við munum setja inn fréttir og greinar um þjóðaratkvæðagreiðsluna og Icesave-samningana. (Sjá hér)

Þessi vefur verður hins vegar nýttur til að birta greinar og önnur skrif sem innihalda upplýsingar um það hvað mælir gegn hinum nýja Icesave-samningi. Þeir sem fylgdust með undirskriftarsöfnuninn hafa sennilega fengið rækilegt veður af því að hópurinn sem stóð að baki henni er afar fjölbreyttur. Við erum þó sammála um það að okkur finnst nýi samningurinn ekki ásættanlegur.

Það er því réttlætismál að þjóðin fái tækifæri til að eiga síðasta orðið um hann. Réttlætið í þessu máli er þó ekki síður nátengt þeirri siðferðislegu kröfu að almenningur eigi ekki að borga skuldir auðmanna.

Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að 8. greinin, sem var í fyrsta Icesave-samkomulaginu, var felld út úr í Icesave II. Þeir sem höfnuðu lögunum um ríkisábyrgð af þeirri ástæðu að þeir gátu ekki sætt sig við að gerendurnir væru þannig firrtir allri lagalegri ábyrgð skal bent á að í Icesave III er heldur ekkert sem kemur í stað hennar en þar stóð:

Endurheimtur á innstæðum

Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.

Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón.

Nýi Icesave-samningurinn tekur af allan vafa varðandi það hvar ríkisstjórnirnar, sem koma að honum, standa í þessu efnum. Í þeirra augum eru það hagsmunir fjármálakerfisins sem ríkja yfir réttlæti almennings. Það er mjög hæpið að breskum og hollenskum almenningi verði neinn greiði gerður með því að íslenskur almenningur fari þannig með tækifærið til að eiga síðasta orðið að hann taki undir þetta sjónarmið!

Opið bréf til Guðbjartar Hannessonar

Reykjavík 23. febrúar 2011

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið. (Sjá hér) Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:

Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.

Virðingarfyllst og með ósk um svör,

Ásta Hafberg
Björk Sigurgeirsdóttir
Gunnar Skúli Ármannsson
Elías Pétursson
Jón Lárusson
Kristbjörg Þórisdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson
Rakel Sigurgeirsdóttir

Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.
Afrit sent á fjölmiðla.

Tilvistarréttur og vopnuð barátta

Þegar zíonistar og aðrir stuðningsmenn Ísraelsstjórnar fjalla um málefni Palestínu og Ísraels, nota þeir oftast sitthvorn mælikvarðann á Palestínumenn og Ísraela, gera fórnarlömb að glæpamönnum, rugla saman þjóðum og stjórnmálastefnum og afflytja málstað andstæðinganna. Með þessum og öðrum mælskubrögðum hafa þeir endaskipti á réttlæti og ranglæti og leiða umræðuna afvega. Sumir eru velmeinandi og hafa sjálfir verið blekktir, aðrir hafa hagsmuni eða vafasamar hugsjónir að verja. Tilgangurinn er að blekkja vestrænan almenning, og hefur það víðast hvar gengið vel hjá þeim lengi vel, en það asnalega við málflutning zíonista er að oft hittir hann þá sjálfa fyrir. Við skulum taka dæmi.

Vinir Palestínumanna eru stundum sakaðir um að vera í raun gyðingahatarar sem noti Palestínudeiluna bara til að koma höggi á gyðinga sem slíka. Það er misjafn sauður í mörgu fé, þannig að það eru varla neinar fréttir að til sé fólk sem hati Ísrael vegna þess að þar séu gyðingar, eða að einhverjir rugli saman gyðingum og zíonistum í hita leiksins, eins og ísraelsk stjórnvöld og stuðningsmenn þeirra gera reyndar iðulega. Það er hægt að skrumskæla jafnvel hinn besta málstað. En þetta er ekki fólkið sem einkennir málstað Palestínumanna. Tilfellið er að zíonismi er kynþáttastefna, snýst um gyðinga og felur í sér misrétti gegn öðrum, einkum Palestínumönnum. Um það hafa meira að segja Sameinuðu þjóðirnar ályktað. Ef menn halda að gyðingar séu pólitísk og lífræn heild og að eitthvert eitt ríki geti verið „fulltrúi“ þeirra, þá er kannski ekki von að menn þekki muninn á gyðingi og zíonista. Þegar zíonisti sakar stuðningsmenn Palestínu um gyðingahatur, er hann þá ekki í raun að segja að gyðingar sem slíkir séu ábyrgir fyrir glæpum ríkisstjórnar Ísraels? Sá sem trúir því er kominn á hála braut – en þarna er kannski komin skýringin á afneitun zíonista á glæpum Ísraelsríkis.

Zíonistar stagast oft á því að hinir og þessir – til dæmis Hamas-samtökin eða forseti Írans – viðurkenni ekki „tilverurétt“ Ísraelsríkis. Það má oft lesa milli línanna að þessir þrjótar ætli að fullnusta andstyggð sína með því að láta eldflaugum rigna yfir Ísrael (svipað og Ísraelar gera stundum sjálfir við Palestínumenn og fleiri nágranna sína). En hver er sannleikurinn á bak við klisjuna? Þrjóturinn Ahmadinejad Íransforseti vitnaði í Khomeini erkiklerk þegar hann kallaði eftir því í ræðunni „Veröld án zíonisma“ árið 2005, að „ríkið sem hersæti Jerúsalem“ yrði „strokað út af síðu tímans“. Hann var að tala um að afnema hinn ríkjandi zíonisma. Hann lét það auk þess fylgja að í staðinn ætti að koma lýðræðisleg stjórn, og að flóttamönnum skyldi hleypt heim aftur. Hvernig komust menn að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið að blása til nýrrar helfarar? Jú, með því dreifa útúrsnúningum í fjölmiðla. Hamas hafa ekki farið varhluta af vandlætingu heldur, þar sem þau viðurkenna Ísrael ekki formlega. En viti menn, þau viðurkenna Ísrael í reynd. Oslóarsamningar PLO og Ísraels eru forsenda Palestínsku heimastjórnarinnar, og það þarf að viðurkenna samningana, og þar með aðilana sem gerðu þá, áður en menn bjóða fram í kosningum heimastjórnarinnar. Já, og hvað svo með zíonista sjálfa, viðurkenna þeir kannski „tilverurétt“ Palestínuríkis? Og viðurkenna þeir „tilverurétt“ Íslands? Eða Mongólíu?

Þjóðréttarlega séð, er svarið við þessu neitandi. Í þjóðarétti er ekkert ríki skuldbundið til þess að viðurkenna „tilverurétt“ neins annars ríkis, enda er hugtakið „tilveruréttur“ ekki til í þjóðarétti. Fólk hefur réttindi, en ríki er ekki fólk heldur pólitísk stofnun og hefur ekki réttindi í sjálfu sér. Réttur ríkis til þess að vera til er með öðrum orðum háður því hvort íbúarnir vilja að það sé til eða ekki. Önnur ríki eru hins vegar skuldbundin til að virða fullveldi og sjálfstæði ríkja, og ríki mega ekki brjóta gegn pólitísku sjálfstæði eða landfræðilegri heild annarra ríkja. Þetta er satt að segja álitamál í tilfelli Ísraels. Ríkið tilheyrir, samkvæmt sinni eigin sjálfstæðisyfirlýsingu, gyðingum heimsins, en ekki íbúunum sem slíkum. Þess vegna er pólitískt sjálfstæði Ísraels lagalegt álitamál. Landfræðileg heild þess er auk þess óskilgreind, vegna þess að Ísrael hefur aldrei fengist til að lýsa því yfir hvar það vill hafa landamæri sín. Það vill það ekki, vegna þess að skilgreind landamæri hindra frekari landvinninga. Spurningin sem stendur eftir er þá þessi: Er verið að ætlast til þess að menn viðurkenni ríki sem er ólýðræðislegt ríki og byggist á ofbeldisfullri útþenslustefnu?

Krafa um þjóðréttarlega „viðurkenningu á tilverurétti“ er áróðursbragð, en hvað með einfalda viðurkenningu? Það er ekki sjálfgefið að ríki viðurkenni hvert annað, og það má minnast þess að Egyptaland og Jórdanía einu arabalöndin sem viðurkenna Ísrael stjórnmálalega. Munum að Ísrael er sköpunarverk þjóðernisstefnu og nýlendustefnu. Það varð til í beinni andstöðu við sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem bjuggu fyrir í landinu. Það skiptir ekki máli hvar gyðingar bjuggu á tímum Rómarveldis, eða hvað þjóðsögur þeirra segja að guð hafi lofað í grárri forneskju. Zíonistar komu undir verndarvæng breska heimsveldisins, tóku sér land, stofnuðu sitt eigið ríki og hafa notað það til að kúga nágranna sína. Að viðurkenna Ísrael er að samþykkja hvernig til þess var stofnað og hvað það hefur gert. Á fólk sem hefur verið landflótta frá 1948 að „viðurkenna“ ofbeldið og yfirganginn sem það flúði undan? Nei, þvert á móti hefur það rétt til þess að berjast fyrir leiðréttingu ranglætisins.

Ég dæsi þegar ofbeldi Palestínumanna gegn Ísraelum er fordæmt einhliða eða vopnuð andspyrna þeirra borin saman við ofbeldi hernámsins. Öllum hernumdum þjóðum er áskilinn réttur til þess í alþjóðalögum, að berjast gegn hernáminu, og það hefur ekki þurft neina sérstaka róttækni til þess hingað til, að dást að hetjudáðum andspyrnu í Síðari heimsstyrjöld, t.d. í Noregi, Frakklandi, Varsjá eða Júgóslavíu. Zíonistar spyrja stundum hvort gyðingar séu eina þjóðin sem megi ekki eiga sitt eigið ríki. Það má spyrja á móti: Eru Palestínumenn eina þjóðin sem má ekki verjast hernámi? Er það ofbeldi, að verjast hernámsliði? Er yfir höfuð hægt að líkja því saman við það ofbeldi sem hernámið er? Zíonistar láta gjarnan eins og mannfall óbreyttra borgara sé óheppileg hliðarverkun af réttlátum hefndarárásum. Þetta rugl hittir þá sjálfa fyrir: Ef líf saklauss fólks eru á annað borð réttlætanlegur fórnarkostnaður í refsihernaði, þá hlýtur það að gilda á báða bóga. Þessi þversagnakenndi málflutningur er útkoman úr því þegar hernámsveldi reynir að líta út fyrir að hafa ekki bara hernaðarlega yfirburði, heldur líka siðferðislega, þótt ofbeldi þess sjálfs yfirskyggi allt annað ofbeldi, og það hundraðfalt.

Sá sem fer fram með ofríki getur ekki krafist þess að vera látinn í friði sjálfur, enda er réttlæti forsenda fyrir friði, eða friður ávöxtur réttlætisins eins og Jesaja spámaður orðaði það. Menn benda oft á Martin Luther King eða Gandhi sem fordæmi, að þetta sé leiðin – jafnvel „eina“ leiðin – til að ná fram réttlátum markmiðum. Því miður er það vitleysa. Ráðandi öflum í Bandaríkjunum fannst bara skárra að gera málamiðlanir við sjónarmið Kings, heldur en að eiga á hættu harðari baráttu við róttækari öfl. Og í tilfelli Gandhis var breska heimsveldið að niðurlotum komið eftir stríðið í Evrópu, og vildi frekar semja við hófsamari öfl en að eiga við róttækari og herskárri öfl. Friðsöm og hófsöm barátta sigrar nefnilega því miður oftast ekki nema þegar hún er háð í samhengi við herskárri og róttækari baráttu. Ofbeldi er hluti af öllum stjórnmálum, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Að því sögðu er auðvitað augljóst að pólitískt ofbeldi er vægast sagt vandmeðfarið, og réttur til vopnaðrar andspyrnu þýðir ekki sjálfkrafa að hún sé viturleg. Það er sjálfsagt – nei, það er skylda okkar, sem styðjum málstað og tilkall Palestínumanna til réttlætis – að gagnrýna alla þá sem fremja heimskupör eða illvirki í þeirra nafni, og spilla fyrir málstaðnum. Stuðningurinn á að vera skilyrðislaus við þá kröfu að Palestínumenn, eins og allt annað fólk, njóti fullra mannréttinda. Strategíska spurningin er þá hvernig sé hægt að ná því markmiði. Þjóðríkið sem módel hefur víða orðið dýrkeypt þar sem margar þjóðir og þjóðabrot hafa búið hver innan um önnur. Ef stefnan á tvö þjóðríki hlið við hlið, Palestínu og Ísrael, var einhvern tímann sniðug, þá virðast Ísraelar hafa gert út um hana. Eitt sameiginlegt ríki, þar sem leiðarstefin væru lýðræði og mannréttindi, gæti hins vegar leyst hnútinn. Þörfin fyrir tvö ríki er líka vandséð, ef menn geta á annað borð lifað í sátt. Raunar fer talsmönnum tveggjaríkja-stefnunnar fækkandi meðal stuðningsmanna frjálsrar Palestínu, á meðan ísraelsk stjórnvöld, heimsvaldasinnaðir stuðningsmenn þeirra og samverkamenn þeirra í forystu Fatah eru helstu talsmenn hennar. Samstaða með Palestínumönnum hlýtur að fela í sér að taka þátt í uppbyggilegri og gagnrýnni samræðu um stefnuna í baráttunni. Þótt vopnuð andspyrna kunni að eiga rétt á sér formlega, grefur hún undan því markmiði að arabar, gyðingar og fleiri geti búið saman í einu ríki í framtíðinni. Sem pólitísk strategía er hún því röng. Og sem hernaðarleg strategía er hún fráleit, í ljósi valdahlutfallanna.

Höldum okkar striki, látum aldrei drepa umræðunni á dreif eða leiða hana afvega. Látum orðræðu hatursfullra afla eða velmeinandi úrtölumanna ekki stjórna hugsun okkar. Stöndum með því sem rétt er: Frjáls Palestína!

— — —

Þessi grein birtist áður í Frjálsri Palestínu, málgagni Félagsins Ísland-Palestína, í desember 2010.

Muslimaplágan

Muslimar eru að yfirtaka heiminn. Í alvöru. Þetta fjölgar sér eins og kanínur og eins og fram kemur hér, má reikna með að fólk, upprunnið í löndum þar sem meirihlutinn játar islam, og afkomendur þeirra, nái meirihluta á nokkrum áratugum.

Jamm. Þeir verða í meirihluta og hvað með það? Er eitthvað verra að vera undir skíthæl Muhammeds en skíthæl Krists? Algengustu rökin fyrir því að þessi þróun sé ‘hættuleg’ eru þau að muslimir séu svo afskaplega grimmt og frumstætt fólk. Æðsta hugsjón þeirra sé sú að fremja sem flest hryðjuverk og sú næstæðsta að útrýma skopmyndateiknurum. Svo láta þeir líka konurnar sínar ganga í búrkum og nauðga þeim (sennilega er það klámvæðingunni ógurlegu að kenna) og grýta þær svo til bana. Nú eða þeir flytja til Vesturlanda og halda áfram að lemja konurnar sínar þar og konurnar neita að læra tungumálið og lemja börnin sín með inniskóm.

Fokk já. Það er margt í menningu muslima sem er verulega ógeðfellt. Kvennakúgun er staðreynd og það þykir ekki bara sjálfsagt heldur nauðsynlegt að berja börn. Og það mun sko ekkert breytast.

Eða hvað? Mun það kannski breytast? Getur kannski verið að til séu Íslendingar sem muna þá tíð þegar þótti bara í góðu lagi að flengja börn? Getur jafnvel verið að það hafi aðeins þurft dálitla upplýsingu til að fá eina kynslóð til að líta á líkamlegar hirtingar sem neyðarúrræði fremur en uppeldisaðferð og þá næstu til að líta á þær sem merki um að eitthvað væri að foreldrunum fremur en börnunum?

Englendingar bönnuðu ekki líkamlegar refsingar í ríkisskólum fyrr en 1987 og þær tíðkuðust í einkaskólum fram til 1999. Samt þekki ég engan sem er haldinn ótta við Breta vegna grimmdar þeirra. Stjórn Bandaríkjanna er ekki alsaklaus af pyndingum á föngum og almenningur í Bandaríkjunum er mun umburðarlyndari gagnvart líkamlegum refsingum á börnum en Norðurlandabúar. Samt þekki ég engan sem óttast Bandaríkjamenn. Ég þekki fólk sem óttast bandarísk stjórnvöld, vissulega, enda ástæða til að óttast heimsvaldastefnu hvort sem það eru Bandaríkjamenn, muslimir eða einhverjir aðrir sem reka hana. Ótti við bandaríska menningu eða nábýli við fólk sem þar er upprunnið er aftur á móti ekki algengur.

Muslimir eru ekkert öðruvísi innréttaðir en Bretar, Bandaríkjamenn eða Íslendingar. Umburðarlyndi gagnvart ofbeldi er meira meðal muslima en Vesturlandabúa, ennþá, en það er ekkert sem bendir til þess að þeirra viðhorf muni þróast á annan hátt en okkar. Það er nefnilega goðsögn að ofbeldi sé að aukast í heiminum. Þvert á móti dregur stöðugt úr því.

Trúarbrögð muslima eru skelfileg. Full af misrétti og ofbeldi. Rétt eins og trúarbrögð kristinna manna. En sem betur fer eru flestir kristnir menn ákaflega illa kristnir og nota trúna fremur sem haldreipi í sálarangist og umgjörð utan um hátíðir en sem siðferðilegan leiðarvísi. Það sama á við um muslimi. Þeir muslimir sem ég þekki sniðganga svínakjöt og halda hátíðir samkvæmt Kóraninum en þegar kemur að siðferðilegum efnum, mótast skoðanir þeirra af heilbrigðri skynsemi, uppeldi og menningu. Neinei, auðvitað myndu þeir ekki viðurkenna að þeir séu illa trúaðir, ekki fremur en kristnir menn en svona er það nú samt. Ég þekki líbýska konu sem býr í Bretlandi. Hún prentar út greinar af netinu, fjölritar feminísk skilaboð og laumar þeim inn á staði þar sem muslimakonur koma saman. Hún staðhæfir að hún sé að gera það sem Gvuð ætlist til af henni, leiðrétta viðhorf sem séu of forneskjuleg og heimskuleg til að geta mögulega verið frá Gvuði komin. Hún fullyrðir að hún sé sannur muslimi, rétt eins og þau þúsund karla og kvenna sem í nafni islam berjast gegn grýtingum og öðrum ódæðisverkum yfirvalda. Muslimir tileinka sér nefnilega siðferðisskoðanir eins og annað fólk; með hugsun sinni, út frá nýjum upplýsingum og út frá þeim viðhorfum sem ríkja í kringum þá. Ekki út frá mörg hundruð ára gömlum ritningargreinum, nema þar sem ritskoðun og önnur kúgun er mikil.

Það er tilgangslaust að reyna að berjast gegn fjölmenningu. Muslimir munu halda áfram að fjölga sér eins og kanínur á meðan þeir sjálfir sjá tilgang með því og ef þeir sjá tilgang í því að berjast gegn vestrænni menningu þá munu þeir gera það. Besta vörnin gegn ‘muslimaplágunni’ er því sú að hætta að líta á innflytjendur sem óvini. Bjóða innflytjendum til umræðunnar, hlusta á þeirra rök og útskýra okkar, í stað þess að reyna að stjórna klæðaburði þeirra. Halda áfram að reka áróður gegn hvers kyns kúgun. Hafna ofbeldi. Styrkja mannréttindi og ganga harðar fram í því að framfylgja þeim, hvar sem er í veröldinni. Framfylgja lögum gegn ofbeldi en láta fólk að öðru leyti í friði með sínar menningartiktúrur.

Við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því að menning okkar deyi út þótt muslimum fjölgi. Hún mun breytast hvort sem muslimum fjölgar eður ei en ekki í þá veru að í stað heróínfíkla í netasokkum (þannig sá margir muslimir vestrænar konur fyrir sér), muni götur stórborganna skarta búrkuklæddum konum, lemjandi börn með inniskóm. Ekki heldur í þá veru að enska verði upprætt, svínakjöt bannað og ærumorð lögleidd. Þótt elsta kynslóð muslimakvenna læri kannski aldrei málið í nýja landinu, munu dætur þeirra læra það og margar þeirra munu aldrei klæðast búrku, nema til að mótmæla trúarbragða- og menningarofsóknum.

Það sem við þurfum að óttast er ofríki yfirvalda, hvar sem er og hvort sem þau skilgreina sig til hægri eða vinstri. Við skulum óttast tilraunir þeirra til að banna búrkuna í stað þess að vantreysta getu búrkukvenna til að tileinka sér kvenfrelsissjónarmið. Við skulum óttast yfirvöld sem handtaka fólk sem segir ‘stríð er glæpur’ en ekki vantreysta arabiskum unglingum til að tileinka sér hugmyndir um tjáningarfrelsi, jafnvel þótt feður þeirra skeggræði sjálfsmorðsárás á Jyllandposten í kaffihlénu. Þróunin er í rétta átt. Umburðarlyndi gagnvart ofbeldi minnkar stöðugt og við færumst æ nær því að ná jafnrétti kynjanna. Okkur finnst ganga hægt á meðan við stöndum í baráttunni og horfum á fólk sem okkur er annt um verða fyrir kúgun og óréttlæti. Þegar við hinsvegar horfum nokkra áratugi aftur í tímann sjáum við að viðhorfsbreytingar eiga sér stað, ekki bara hjá einstaklingum heldur samfélaginu öllu, ekki hægt og bítandi heldur hratt og örugglega. Best gæti ég trúað því að fjölmenning flýti fyrir því ferli.

Níumenningur ákærður á ný – brot gegn lögum um meðferð sakamála

Ríkissaksóknari hefur ákært Snorra Pál Jónsson, einn hinna svokölluðu níumenninga, ásamt Sunnevu Weisshappel. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og krefst Katrín Oddsdóttir, verjandi hinna ákærðu, þess að málinu verði vísað frá sökum þess að það brýtur gegn lögum um meðferð sakamála. Ákæran er dagsett þann 20. janúar 2011 – þriðja og síðasta dag aðalmeðferðarinnar í níumenningamálinu – tæpum tveimur árum eftir að atburðurinn sem ákæran snýr að átti sér stað.

Aðfaranótt hins 21. maí 2009 voru hin ákærðu handtekin við göngu í miðborg Reykjavíkur. Tveir lögreglumenn veittust að Snorra og drógu hann með sér inn í lögreglubíl. Því mótmælti Sunneva og var handtekin í kjölfarið. Annar tveggja lögreglumanna sem að atvikinu komu ritaði frumskýslu málsins um það bil einni klukkustund eftir að handtakan átti sér stað. Auk þess voru hin handteknu yfirheyrð nokkrum klukkutímum síðar og látin laus í kjölfarið. Engin frekari rannsókn á málinu virðist hafa átt sér stað.

Ljóst er að ákvörðun um að kæra hin handteknu var tekin rúmu ári síðar eða í byrjun júlí 2010. Þá gaf hinn lögreglumaðurinn sem kom að handtökunni skýrslu og koma engar nýjar upplýsingar fram í þeirri skýrslu. Hún er einungis örlítið styttri útgáfa af fyrri skýrslunni. Síðari skýrslunni hefur nú verið skotið inn í skjalaskrá ákærunnar og upplýsingar um hana handskrifaðar inn á efnisyfirlit rannsóknargagnanna.

Í 18. grein laga um meðferð sakamála segir að ákærenda beri að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er. Í 143. grein sömu laga segir jafnframt að sé maður saksóttur fyrir fleiri en eitt brot skuli það gert í einu máli eftir því sem við verður komið. Augljóst er að meðferð þessa máls var ekki hraðað eftir því sem kostur er og hafa háttsettir menn innan lögreglunnar staðfest að þetta sé óvanalegt.

Regla 143. greinar sakamálalaga er sett til varnar því að sakborningar þurfi að þola það að mál þeirra séu til meðferðar í dómskerfinu í óhóflegan langan tíma með tilheyrandi kostnaði þeirra og óhagræði. Þar sem reglan er sett til hagsbóta sakborningi hefur ákæruvaldið ekki heimild til að kvika frá reglunni til þess að einfalda eigin störf og ekki verður með nokkru móti séð að réttlætanlegt hafi verið að bíða í um 20 mánuði með að ákæra fyrir þau smávægilegu brot er hér um ræðir. Brotin kröfðust hvorki frekari rannsóknar né eru þau þess eðlis að telja verði að varði almannahagsmuni að ákæra fyrir þau.

Samkvæmt 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga átti ákærði Snorri Páll Jónsson, og þar með ákærða Sunneva Weishappel, rétt á að gegn honum væri rekið eitt mál í stað tveggja til að koma í veg fyrir að málsókn yrði dregin á langinn á meðan fyrra málið gegn honum var til meðferðar.

Á þeim tímapunkti sem málið virðist hafa verið grafið upp úr skjalaskúffum lögreglunnar voru málaferlin yfir svonefndum níumenningum langt á veg komin. Fjöldi fyrirtaka hafði átt sér stað, meint sönnunargögn höfðu ratað í fjölmiðla og í kjölfarið hafði réttmæti ákærunnar verið dregið í efa vítt og breitt í samfélaginu. Einnig hafði það vakið óhug margra hvernig dómari og dómsstjóri afhentu lögreglunni stjórn á réttarhöldunum og meinaði lögregla meðal annars nokkrum sakborningum aðgang að eigin réttarhöldum.

Þessi staðreynd vekur óhjákvæmilega upp spurningar um ástæður þeirra ákæra sem hér um ræðir en þær snúast um meint brot á 106. grein almennra hegningarlaga og 19. grein sbr. 41. gr. lögreglulaga. Ekkert stóð í vegi fyrir kæru í kjölfar atburðarins hins 21. maí 2009 ef ástæða var fyrir henni. Það að málið sé tekið upp að nýju rúmu ári síðar með engum viðbættum upplýsingum, verður að teljast sérkennilegt og lyktar framkvæmdin af ofsóknum.

Einnig er dagsetning ákærunnar sjálfrar þess eðlis að ekki er komist hjá því að spyrja hvort þannig sé verið að reyna að tryggja að möguleg sakfelling í máli níumenninganna komi til með að hafa refsiþyngjandi áhrif á niðurstöðu þessa máls. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála ber ríkissaksóknara að sækja málin saman. Þessum lögum er hér ekki framfylgt og krefjumst við þess að málinu verði samstundis vísað frá.

Stuðningshópur Níumenninganna

– – – –

Þessi frétt er tekin stafrétt af heimasíðu stuðningshóps nímenninganna.

Hræsnisfull háskólapólitík

Það hefur lengi verið augljóst að háskólapólitík er lítið annað en hitakassi fyrir upprennandi stjórnmálastjörnur fjórflokksins. Þar geta þær praktíserað flokksræðistaktana í vernduðu umhverfi. Lítið virðist um róttækni öfugt við það sem búast mætti við. Í kosningunum í ár kom fram veikt háðsframboð Skrökva sem fékk einn kjörinn. Vaka fékk hreinan meirihluta, fimm menn á móti þremur frá Röskvu.  Efst á lista Vöku yfir hagsmunabaráttumálum er „Betra þráðlaust net á háskólasvæðinu“.  En þar með er kannski gert full lítið úr þeirri staðreynd að baráttumálum Vöku er skipt niður í heila átta undirflokka (og nokkuð ljóst að hugmyndafræðingurinn þar á bak við er búinn með markaðsfræðikúrsinn). En skulum ekki gleyma hinum flokknum Rösvku, sem á að heita málsvari félagshyggjufólks í háskólanum. Á forsíðu kosningablaðs framboðsins er stór hópmynd af þeim sem að baki þess standa klæddum í rauðum fötum (rauði liturinn táknar jöfnuð og samstöðu), aftan á baksíðunni er auglýsing frá smálánafyrirtækinu Kredia. Ef þetta er ekki hrópleg mótsögn þá heiti ég hundur.

Hryðjuverkastríð Reagans

Snemma á níunda áratugnum lýsti stjórn Ronalds Reagans því yfir að lykilatriði í utanríkisstefnu Bandaríkjanna væri stríð gegn alþjóðlegum hryðjuverkum. George Schultz sagði að hryðjuverk væru plága, krabbamein sem villimenn dreifa, villimenn sem væru „sjúkir andstæðingar siðmenningarinnar sjálfrar“ (The Boston Globe, 26 Október 1984). Í þessu „stríði gegn hryðjuverkum“ náðu Bandaríkin þeim árangri að fá dóm fyrir hryðjuverk og um leið opinberaðist sú stefna stjórnar hans að fylgja ekki alþjóðalögum. Hér er átt við skítugt stríð Bandaríkjanna í Níkaragúa á árunum á milli 1983 til 1990.

Uppreisnin í Nígaragúa

Somoza fjölskyldan réð í Níkaragúa frá 1936 til 1979 og naut hún umtalsverðs stuðnings frá valdamiklu fólki í Bandaríkjunum. Bandaríska fyrirtækið Nicarguan Long Leaf Pine Company borgaði t.a.m. Somoza fjölskyldunni milljónir dollara á tímabilinu 1945 til 1960 og fékk í staðin hagstæð viðskiptaskilyrði, eins og að þurfa ekki að endurrækta skógarsvæði sem það eyddi. Á sjötta og sjöunda áratugnum náðu slík fyrirtæki að sölsa undir sig bómullarekrur og nautgripabú nærri því óáreitt, en bændur sem fyrir voru flæmdir inn í frumskóginn. Níkaragúa naut sérstakrar stöðu í Bandaríkjunum; landið var einskonar forðakista fyrir þau. Á áttunda áratugnum flutti ekkert ríki meira inn af nautgripaafurðum til Bandaríkjanna en Níkaragúa. Þetta var hreint arðrán; bændur í Níkaragúa fengu ekkert fyrir þessa sölu. Landlausir bændur unnu á stórum búgörðum á meðan uppskerutíma stóð og fengu smánarlaun fyrir, allt niður í 1 bandaríkjadollara á dag.

Aðstæður til starfanna voru ákaflega heilsuspillandi, enda þurftu fyrirtækin ekki að fylgja strangari reglum sem giltu í Bandaríkjunum, og nýttu þau tækifærið að fullnustu. 40 % af öllu skordýraeitri sem flutt var frá Bandaríkjunum endaði í mið-Ameríku, og þá helst í Níkaragúa. Notuð voru ólögleg efni eins og dieldrin og DDT. Landið var mjög mengað og Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) áætlaði að 17% dauðsfalla í Níkaragúa mætti rekja til eitursins.

Uppreisn varð gegn Somoza stjórninni árið 1978 og 19. Júlí 1979 tók flokkur Sandinista svo völd í landinu undir stjórn Daniel Ortega. Háværustu stefnumál þeirra voru verndun umhverfisins og vilji til að þjóðnýta jarðir landsins.

Bandarísk stjórnvöld brugðust fljótt við og hættu að styðja Níkaragúa fjárhagslega. Hin nýja stjórn var álitin of róttæk og hættuleg hagsmunum Bandaríkjanna á svæðinu. Af þessum sökum hófu þeir að þjálfa og fjármagna svokallaða kontraskæruliða sem áttu aðsetur í Hondúras og samanstóð að mestu af fyrrverandi þjóðvarnarliði Somozastjórnarinnar. Í september 1983 hófu Bandaríkin svo loftárásir á Níkaragúa og komu fyrir tundurduflum við innsiglingar þeirra. Íbúar Níkaragúa urðu nú fyrir stöðugum árásum frá kontraskæruliðum.

Bandaríkin sek um að fremja hryðjuverk

Níkaragúa brást við með því að kæra Bandaríkin fyrir alþjóðadómstólnum (international court of justice). Alþjóðadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, 27. júni 1986, að Níkaragúa hefði rétt fyrir sér. Hann fordæmdi það sem hann kallaði „ólögleg ofbeldisverk“ af hálfu Bandaríkjastjórnar og skipaði henni að stöðva árásirnar strax og borga háar skaðabætur.

Bandaríkjastjórn hunsaði ákvörðunina og lýsti því yfir að framvegis myndi hún ekki samþykkja lögmæti Alþjóðadómstólsins (og enn hafa skaðabæturnar ekki verið greiddar). Næst fóru talsmenn Níkaragúa með málið til öryggisráðs SÞ. Í kjölfarið var sett fram ályktun þess eðlis að allar þjóðir skyldu fara eftir alþjóðalögum. Stjórn BNA beitti þá neitunarvaldi sínu. Þá fóru Níkaragúamenn með málið til Allsherjarráðs SÞ. Þar var ályktað að Bandaríkjunum bæri að borga sektina og þrýst var á að árásum á Níkaragúa yrði hætt. Bandaríkin, Ísrael og El Salvador greiddu atkvæði gegn tillögunni. Næsta ár kom málið aftur upp og þá voru einungis Bandaríkin og Ísrael á móti. Þá var endanlega orðið ljóst að Níkaragúa gat ekkert löglegt gert gegn þessari árás. Það eina sem var ljóst er að Bandaríkin voru nú eina ríkið sem hafði verið dæmt fyrir hryðjuverk og á sama tíma beitt neitunarvaldi gegn ályktun um að öll ríki ættu að fara að alþjóðalögum. Árásirnar á Níkaragva áttu einnig eftir að koma sér illa fyrir ýmsa háttsetta embættismenn þegar Íran-Kontrahneykslið var afhjúpað.

Bandaríkjamenn fyrirskipa frekari hryðjuverk

Viðbrögð Bandaríkjamanna við dómum alþjóðasamfélagsins voru þau að árásirnar jukust og í fyrsta skipti skipuðu herforingjar að ráðast skyldi á „mjúk skotmörk“ (soft targets), sem eru óvarin borgaraleg skotmörk. Bandaríski herinn hafði algjöra yfirburði í flughernum og skæruliðaherinn sem barðist gegn stjórn Níkaragúa fékk þannig létt verk til að klára. Eins og svo oft áður var markmiðið að „lama siðferðisþrek“ andstæðinganna með því að ráðast á saklausa borgara og innviði samfélagsins, eins og vegi, samskipta- og framleiðslutæki. Árásum kontraskæruliða var stjórnað frá Hondúras af John Negroponte, sendiherra BNA þar í landi. Seinna, eða árið 2001, var Negroponte skipaður sendiherra í SÞ til að sjá um að stjórna hinu nýja “stríði gegn hryðjuverkum” og 19. apríl s.l. skipaði George W. Bush hann sem sendiherra Bandaríkjanna í Írak.

Áróðurinn á innrásartímabilinu var hlægilegur, en stöðugur. Sandinistastjórnin var úthrópuð sem einræðisstjórn og sagt var að koma ætti á „lýðræði“ í Níkaragúa. Sannleikurinn var sá að 4. Nóvember 1984 voru haldnar kosningar í Níkaragúa. Mikið var gert til að hafa þær algerlega löglegar og fjöldi alþjóðlegra eftirlitsmanna fylgdist með framganginum. Sigur Sandinista var af öllum álitinn sanngjarn og frjáls, nema bandarískum yfirvöldum sem hunsuðu kosningarnar. Árið 1985 settu Bandaríkin svo algert viðskiptabann á Níkaragúa. “Sigur” vannst svo á Sandinistum árið 1990 í öðrum frjálsum kosningum þar sem stjórnarandstöðuflokkar unnu sigur og batt það enda á viðskiptabannið. Enginn efast um að Níkaragúabúar voru orðnir langþreyttir á viðskiptabanninu og gegndarlausum árásum kontraskæruliða og einfaldlega neyðst til að velja þennan kost.

Skilgreining Bandaríkjastjórnar á hryðjuverkum

Bandaríska varnarmálaráðuneytið skilgreinir hryðjuverk sem: “Ólögleg valdbeiting, hótun um valdbeitingu eða ofbeldi gegn einstaklingum eða eigum til að þvinga og ógna ríkisstjórnum eða samfélögum, oft til að ná fram pólitískum, trúarlegum eða hugmyndafræðilegum markmiðum”. (“unlawful use of, or threatened use, of force or violence against individuals or property to coerce and intimidate governments or societies, often to achieve political, religious, or ideological objectives”). Ekkert dæmi gæti fallið betur að þessari skilgreiningu en árásirnar á Níkaragúa.

Annar stuðningur við hryðjuverk

Níkaragúa var ekkert einsdæmi í þessu “stríði gegn hryðjuverkum”. Þannig studdu Bandaríkin til dæmis her Suður-Afríku í árásum hans á nágrannaríkin sem kostaði a.m.k. eina og hálfa milljón mannslífa. Magn hergagna sem flutt voru til Tyrklands jókst umtalsvert árið 1984 og hélst hátt til 1999 á því tímabili sem mest átök voru milli PKK og stjórnvalda í Tyrklandi. Hergagnaflutningur til Tyrklands náði algjöru hámarki árið 1997 þegar milljónir Kúrda voru flæmdir úr bæjum sínum og tugir þúsunda voru myrtir. Talið er að um 3500 þorp hafi verið algerlega lögð í rúst. Eftir 1999 hefur Kólombía tekið þriðja sætið á eftir Ísrael og Egyptalandi í magni hergagna sem þangað eru flutt. http://www.brianwillson.com/awolcounter.html

Það er kaldhæðnislegt að fyrsta ríkið sem dæmt hefur verið fyrir hryðjuverk í alþjóðlegum dómstólum sé nú leiðandi í einhverri baráttu gegn alþjóðlegum hryðjuverkum.

Líffærasmygl Frelsishers Kósóvó

Árið 2000 fór alþjóðlegum sveitum Rauða krossins að berast undarlegar, en óhugnarlegar, frásagnir frá hermönnum Frelsishers Kósóvó (UÇK ). Samkvæmt þessum hermönnum voru margir þeirra sem UÇK  hafði rænt í stríðinu færðir til leynilegra fangabúða í Albaníu og þaðan í heimatilbúnar skurðstofur, þar sem líffæri voru fjarlægð úr þeim og þau seld til útlanda. Carla del Ponte, fyrrverandi yfirdómari ICTY, greindi frá þessu í bók sinni The Hunt: Me and the War Criminals. Samkvæmt heimildum del Pontes hafði hinum óheppnu verið haldið á lífi eins lengi og mögulegt var og oft létust þau ekki fyrr en í annarri aðgerð sinni.

Alþjóðadómstóllinn sýndi ábendingum del Pontes, þessarri fyrrverandi forystukonu sinni, og annarra sem rannsökuðu glæpina, engan áhuga og hún staðhæfði að dómstóllinn hefði beinlínis hindrað teymi, sem átti að rannsaka ásakanirnar, í að vinna vinnu sína. Teyminu hafði tekist að safna saman sönnunargögnum sem sýndu sterklega fram á umfangsmikið líffærasmygl, fjöldamorð og mannrán, auk smygls á fólki, eiturlyfjum og vopnum, í Kósóvó, og að háttsettir aðilar í Frelsisher Kósóvó væru höfuðpaurar þessarrar starfsemi. Þegar þessi gögn voru færð til saksóknara dómstólsins fengust þau svör að ekki væri hægt að fylgja þeim eftir þar sem hinir meintu glæpir hefðu átt sér stað eftir svokölluð stríðslok. Auk þess væru þessar búðir í Albaníu utan lögsögu dómstólsins. Beiðni um frekari eftirgrennslan var neitað. Það sem meira var; sönnunargögnunum sem dómstóllinn hafði fengið frá rannsóknaraðilunum var eytt (Burghardt, 2010).

Þrátt fyrir þessa fáheyrðu tilburði Alþjóðadómstólsins tókst að halda málinu til streitu. Eftirgrennslan blaðamanna breska ríkisútvarpsins sýndi fram á að bærinn Kukes í Albaníu, sem er nærri landamærunum við Kósóvó, var helsta bækistöðin fyrir þessa starfsemi. Fangarnir voru að mestu óbreyttir borgarar og virðast þeir hafa verið valdir af handahófi. Sumir fanganna voru fluttir til húss í úthverfi bæjarins Burrel í miðri Albaníu. Blaðamennirnir höfðu upp á fyrrverandi meðlim UÇK , sem fullyrti að í því húsi hafi líffæri verið fjarlægð úr föngunum sem þangað komu. Þegar lítill hópur eftirlitsmanna frá Sameinuðu þjóðunum athuguðu húsið árið 2004, vegna þrálátrar beiðni frá blaðamanninum Michael Montgomery (2009), kom í ljós að a.m.k. eitt herbergið hafði verið útatað í blóði og þegar grennslast var í garðinum fannst fjöldi læknaverkfæra og lyfja í ruslatunnu. Þar á meðal voru vöðvaslakandi lyf, læknagrímur, sótthreinsilyf og önnur verkfæri.

Síðla árs 2008 skipaði Evrópuráðið eigin nefnd sem hafði það verkefni að rannsaka ásakanirnar um líffærasmygl. Nefndin laut stjórn Dicks Martys, fulltrúa Sviss í þingmannanefnd Evrópuráðsins (PACE). Niðurstaða nefndarinnar, sem var birt snemma í desembermánuði 2010, var sláandi áfellisdómur á forystu ríkisstjórnar Kósóvó og einnig á stuðningsaðila þeirra á Vesturlöndum og sönnunargögn sem nefndin hafði undir sínum höndum sýndu vægast sagt ógeðfellda mynd.

Aðilar í frelsisher Kósóvó starfræktu vissulega leynileg fangelsi og skurðstofur í Norður-Albaníu. Fjöldi fólks, bæði af serbnesku og albönsku þjóðerni frá Kósóvó, var numinn á brott og flutt til þessara staða. Þar þurfti fólkið að þola hryllilegar pyntingar um stund, en svo var það látið „hverfa“ sporlaust. Líffæri voru fjarlægð úr sumum fanganna og þau voru svo seld á svörtum markaði. Þessi starfsemi var stærst í sniðum á meðan á loftárásum Atlantshafsbandalagsins stóð og fyrstu misseri þar á eftir, en hún hélt svo áfram og ekkert bendir til annars en að þessi starfsemi sé enn virk. Skýrslan greinir ennfremur frá því að forystumenn Frelsishersins vissu ekki einungis af þessum glæpum, heldur tóku jafnvel beinan þátt í þeim. Hashim Thaçi , sem var nú orðinn forseti Kósóvó, var sjálfur einn höfuðpauranna.

Lögleysa

Hashim Thaçi hefur maldað í móinn og hótað Dick Marty að fara í meiðyrðamál við hann. Yfirvöld í Kósóvó hafa hinsvegar ekki gengist við boði rannsóknarnefndarinnar að hreinsa orðstír sinn með því að leyfa rannsóknarteymum að starfa óhindrað í Kósóvó. Í raun hafa valdhafar í Kósóvó ekki mikið að óttast. Nærri því vonlaust hefur reynst að sækja fyrrverandi og núverandi yfirmenn í UÇK til saka fyrir glæpi sína, enda hafa þeir öll völd í landinu, bæði í undirheimum og hjá hinu opinbera. Ágætis dæmi um þetta mátti sjá þegar reynt var að sækja Ramusj Haradinaj, einn æðsta herstjóra UÇK, til saka fyrir fjöldamorð og þjóðernishreinsanir. Níu af tíu lykilvitnum saksóknara létu öll lífið á sviplegan hátt áður en réttarhöldin hófust, en sá síðasti dró vitnisburð sinn til baka og því var ekki hægt að halda réttarhöldunum áfram og Haradinaj er því enn frjáls maður. Dómstólar í Kósóvó eru á engan hátt óháð og alþjóðlegi glæpadómstóllinn í Haag var hreinlega hannaður til að sækja til saka ráðamenn í Belgrad, ekki í Pristina. Ráðamenn í Kósóvó geta því líklega haldið áfram að ræna fólki og myrða í náinni framtíð. Við hér heima getum hinsvegar klappað hvort öðru á bakið fyrir að taka þátt í mótun fyrsta mafíuríkis Evrópu.

Heimildir

Marty, D. 2010 (12.12). Inhuman treatment of people and illicit trafficking in human organs in Kosovo. Skýrsla unnin fyrir nefnd Evrópuráðsins fyrir lögræðileg álitamál og mannréttindi (COE, Committee on legal affairs and human rights). Paris: Council of Europe.

Burghardt, T. 2010 (22.12). Kosovo: Europe’s mafia state, hub of the EU-NATO drug trail. Kosovo prime minister accused of running human organ, drug trafficking cartel. Ontario: Global Research.