Lausn fundin á verðtryggingunni: Félagsvæðing

Verðtrygging væri ekki vandamál ef það væru ekki vextir og verðbólga. Vaxta- eða gróðakrafa kapítalísks fjármálakerfis er aðalástæðan fyrir verðbólgunni. Alþýðufylkingin vill félagsvæða fjármálakerfið, reka það sem opinbera þjónustu við fólk og fyrirtæki, sem er ekki rekin í gróðaskyni heldur beinlínis með það markmið að veita hagstæða fjármálaþjónustu. Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, hélt erindi sem tekur vel á þessu: Félagsvæðing fjármálastarfseminnar. Um félagsvæðingu almennt segir í stefnuskránni okkar:

Alþýðufylkingin berst fyrir jöfnuði. Til þess er nauðsynleg umfangsmikil félagsvæðing í hagkerfinu. Með félagsvæðingu er ekki aðeins átt við ríkisrekstur eða annað félagslegt eignarhald heldur verði markmið rekstrarins annað og víðtækara en bókhaldslegur hagnaður: Hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu.

Auk þess:

Lykilatriði er að öll fjármálastarfsemi verði félagslega rekin svo hún hætti að soga til sín stóran hluta verðmæta úr hagkerfinu til ágóða fyrir fámennan minnihluta. Þannig skapast mikið svigrúm til að reisa myndarlega velferðarkerfið við og styrkja alla innviði samfélagsins. Einnig skapast með því færi á að verðmætin skili sér til þeirra sem skapa þau með vinnu sinni, og þannig til samfélagsins. Með því að létta vaxtaklafa af vöruverði og húsnæðisskuldum almennings má bæta lífskjörin og stytta vinnutíma.

Lesið nánar um þetta og fleira í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar

Fréttastofa Ríkisútvarpsins fjallar í dag um ýmis stefnumál Vinstri-grænna. Í fréttinni segir meðal annars þetta:

Katrín segir [þurfa] að skoða verðtrygginguna og hvernig hægt sé að draga úr hennar vægi. Þetta verði hins vegar ekki gert nema að hér verði rekin aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum og mjög skýr stefna í efnahagsmálum. Hún segir það framtíðarstefnumið að hér verði ekki verðtrygging. Það ríki hins vegar ekki nægur stöðugleiki í efnahagsmálum í dag til að hægt sé að afnema verðtryggingu í einum vettvangi. Hún segir flokkana nokkuð sammála um þetta atriði.

Ég er nokkurn veginn sammála því sem Katrín segir. Vil þó bæta við: Auðvaldið hefur aldrei og mun aldrei stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum. Óstöðugleiki er innbyggður í það. Það er hannað til þess að safna saman auði, og þegar gróðinn minnkar verður kreppa. Ef fólk vill út úr kreppunni, og út úr óstöðugleikanum, þarf að minnka vægi auðvaldsins. Þá er hægt af alvöru að minnka vægi verðtryggingarinnar, og svo afnema hana þegar vægi hennar hefur minnkað. Ég er sammála aðhaldi — í efnahagsmálum almennt, í þeim skilningi að ég vil spara samfélaginu hinn ofboðslega kostnað af gróðadrifnu fjármálakerfi. Það hlýtur, fjandakornið, að vera hægt að eignast heimili án þess að þurfa að borga þrefalt verð. Krónuna ber að sama brunni; vandi íslensku krónunnar er að fjármálakerfið stelur annarri hverri krónu af okkur.

Það er augljóst að hér í landinu þarf að vera skýr stefna í efnahagsmálum. Samfylkingin hefur það forskot á aðra flokka, að hafa nokkuð skýra stefnu, sem snýst að miklu leyti um aðild að Evrópusambandinu, með öllu sem því tilheyrir. Ég er ósammála þeirri stefnu, en ég veit ekki til að neinn annar af gömlu flokkunum hafi alvöru efnahagsstefnu. En einn af nýju flokkunum hefur hana. Það er flokkurinn minn, Alþýðufylkingin. Lesið stefnuskrána okkar (óttist ekki, hún er stutt), þar kemur fram skýr og skorinorð stefna: Félagsvæðing, í einu orði sagt. Hún felur í sér að við þurfum að verja fullveldið af mikilli festu, efla innviði samfélagsins og lýðræðið (meðal annars efnahagslegt lýðræði) og setja fjármálaöflum miklar skorður.

Varnarlínur vegna ESB-viðræðna

Það hefur verið útbreidd skoðun að BSRB og aðildarfélög þess eigi ekki að taka afstöðu til aðildar Íslands að ESB. Ég er ósammála því. Ég tel að stéttarsamtök alþýðunnar eigi tvímælalaust að taka afstöðu í málum sem hana varðar, og sérílagi í málum sem varða stöðu stéttarsamtakanna sjálfra.

Á nýliðnu BSRB-þingi lagði ég því fram ályktunartillögu um „varnarlínur“ fyrir BSRB vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB. Fyrirmyndin kemur frá Bændasamtökum Íslands. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, mælti sjálf gegn tillögunni, sem hún kallaði „dulbúna ESB-ályktun“, og hvatti til áframhaldandi hlutleysis BSRB gagnvart ESB-aðild. Tillögunni var vísað frá, nánast einróma. Afstaðan í tillögu minni átti reyndar alls ekki að vera dulin. Hún samanstendur af atriðum sem ESB-aðild mundi ógna og við eigum að standa vörð um, bæði sem málsvarar vinnandi fólks og sem Íslendingar. Við eigum auðvitað að beita okkur gegn aðild ef hún stríðir gegn hagsmunum okkar.

Dæmi: Íslenskum stéttarfélögum þarf að vera tryggður samningsréttur fyrir íslenskan vinnumarkað, til að sporna gegn félagslegum undirboðum. Það er sjálfur grundvöllurinn sem félögin eru byggð á. Ef við verjum ekki samningsréttinn okkar verða íslenskir kjarasamningar marklitlir, stórfyrirtæki flytja inn undirborgaða menn frá verkamannaleigum í fátækum löndum og laun í landinu lækka. Það er gott fyrir auðvaldið en vont fyrir okkur hin.

Í annan stað þarf íslenska ríkið að ráða sjálft hvaða rekstur það stundar og hvernig. Aftur stendur það beint upp á okkur, sem málsvara opinberra starfsmanna, að hindra að vinnustaðirnir okkar séu einkavæddir eða lagðir niður með tilskipunum frá ESB.

Þessir tveir fyrstu punktar snúast um sjálfan tilgang stéttarfélaga opinberra starfsmanna.

Við þurfum sjálf að geta sett reglur um umsvif innlendra og erlendra fjármálaafla, m.a. hvort og með hvaða skilyrðum erlent fjármagn fær að sjúga arð út úr hagkerfinu. Það væri súrt í brotið ef við vildum bæta fjármálakerfið hér með félagslegum lausnum og það strandaði á reglum frá ESB.

Við eigum að hafa peningastefnu sem hentar okkur, og þar virðist evran ekki fýsilegur kostur vegna þess að Ísland hefur ekki sömu hagsveiflu og ESB, eins og Seðlabankinn hefur bent á og Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman líka. Ríki þurfa tæki til að bregðast við hagsveiflum og þegar gengisfelling er útilokuð, eru engin hagvaxtarlyf eftir nema að lækka skatta á fyrirtæki og fækka reglum um þau, m.ö.o. að skerða kaup og réttindi vinnandi fólks. Beiskur bikar gengisfallsins bjargaði því sem bjargað varð í Hruninu. Hinn kosturinn hefði verið gríðarlegt atvinnuleysi, sem er varla hægt að hugsa til enda. Að auki er eigin lánveitandi til þrautavara öryggistæki sem bætir lánshæfismat ríkja, og lækkar þar með vexti af erlendum bankalánum.

Ísland þarf sjálft að ráða sínum ríkisfjármálum. Frændur okkar Írar, Spánverjar og Grikkir eru nú með sín ríkisfjármál í þumalskrúfum ESB. Ef ríki er pínt til að minnka útgjöldin í kreppu, harðnar kreppan því minni peningar fara út í hagkerfið.

Við þurfum sjálf að ráða okkar eigin skatta- og tollamálum. Við þurfum að ráða því hvort við höfum skattþrep eða ekki, hvernig virðisaukaskattur er reiknaður, hvort við viljum vernda einhverjar atvinnugreinar með tollum o.s.frv. Til þess að við getum mótað samfélagið eins og við viljum hafa það, þurfum við að hafa þessi verkfæri í okkar höndum.

Þessi listi er auðvitað hvergi nærri tæmandi.

„Pakkinn“ sem okkur býðst er einfaldlega allur pakkinn. Aðalatriðin liggja þegar fyrir og það eru ekki veittar stórar, varanlegar undanþágur. Það er því ekkert að „kíkja í“ – og raunveruleg áhrif sjáum við auk þess ekki nema eftir margra ára aðild, eins og Írar og Grikkir hafa gert. Þá er erfiðara úr að fara en í að komast.

Um leið og „varnarlínur“ skilgreina lágmarkskröfur fyrir viðræðurnar, skýra þær og undirstrika heilan lista af ástæðum til þess að forðast aðild og hætta aðlögun – auk þess jafnvel að yfirgefa EES-samninginn líka, til að geta endurheimt sumt sem við höfum þegar tapað. Enginn er betur til þess fallinn en við, að taka ákvarðanir um okkar hag. Afstöðuleysi er óábyrgt, því málið kemur okkur við og þess vegna eigum við að taka afstöðu: ESB, nei takk.

Þessi grein birtist upphaflega í janúartölublaði Blaðs stéttarfélaganna.

Nýjar skýrslur ESB boða harkalegan Thatcherisma

Kreppan í Evrópu dýpkar. Skoðum hvernig ESB-valdið bregst við henni. Í áranna rás hafa komið fram tvær meginaðferðir til að fást við auðvaldskreppu. Annars vegar er það aðferð frjálshyggju og nýklassíkur sem vill „spara sig út úr kreppunni“, svara samdrætti í framleiðslu með sparnaði á eftirspurnarhliðinni, þ.e.a.s. með kjaraskerðingum og niðurskurði. Gegn þessu setti Bretinn J.M. Keynes fram stefnu um virkt ríkisvald sem skyldi vinna gegn hagsveiflum: með niðurskurði útgjalda og niðurkælingu hagkerfis á þenslutímum en hallarekstri ríkissjóðs og auknum ríkisumsvifum (skapar aukna eftirspurn) á samdráttartímum og í kreppu.

Þessi seinni stefna er oft kennd við kreppupólitík Roosevelts, en í Evrópu er hún einkum tengd sósíaldemókrötum sem töldu að með hjálp hennar mætti temja óstjórn kapítalísks markaðar og hindra ofþenslu jafnt sem kreppu. Sósíaldemókratar hafa á tímabilum staðið mjög sterkt í ESB. Til dæmis sátu þeir árið 1999  í 13 af 15 ríkisstjórnum sambandsins. Það kom ekki í veg fyrir ofþenslu og svo kreppu í ESB. Ekki nóg með það, nú ber lítið sem ekkert á Keynesisma í kreppuviðbrögðum innan ESB.

Þvert á móti. Þann 2.mars 2012 undirrituðu 25 af 27 leiðtogum ESB-ríkja svokallaðan ríkisfjármálasáttmála. Þar kemur fram að ríkishalli aðildarríkja megi helst ekki fara yfir 0.5%, og fari hann eitthvert ár yfir 3% eru viðlagðar þungar sektir. Þegar sú stefna var samþykkt dró danska Information þessa ályktun: „Leiðtogafundur ESB samþykkti að úthýsa meginþáttum velferðarhagfræði-kenninga breska hagfræðingsins Keynes af evrópska meginlandinu…“ (information.dk 30. jan 2012).  Sáttmáli þessi sem bannar Keynesisma er nú lög í aðildarríkjum ESB.

Vegna áhrifa hægri krata hefur verkalýðshreyfingin lengi stutt samrunaferlið í Evrópu  og stefnuna og stofnanirnar í Brussel. En það er að breytast. Aðgerðir verkalýðssamtakanna gegn hinum blóðuga niðurskurði fara vaxandi, einkum í Suður-Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Sláandi dæmi um breytta tíma er allsherjarverkfall í sex ESB-löndum samtímis – Spáni, Portúgal, Ítalíu, Grikklandi, Kýpur og Möltu – þann 14. nóvember sl.

Ekki sitja menn aðgerðarlausir í hinum herbúðunum. Í september í haust sendi Framkvæmdastjórn ESB frá sér tvær skýrslur sem hafa vakið reiði og óhug í evrópskri verkalýðshreyfingu. Önnur þeirra fjallaði um ástandið á evrópskum vinnumarkaði ásamt tillögum um „skipulagsumbætur“ á honum. Tillögurnar mynda heildstætt kerfi, meðal þess sem lagt er til er að lækka lágmarkslaun, draga úr vægi heildarkjarasamninga, vinnumarkaðurinn verði sveigjanlegri með sveigjanlegri vinnutíma, fyrirtæki geti sagt upp samningum, meira verði um staðbundna samninga, atvinnuleysisbætur verði lækkaðar en eftirlaunaaldur hækkaður. Í skýrslunni er almennt lagt til „almenn takmörkun á áhrifum stéttarfélaganna á ákvörðun launa.“ (sjá hér)

Tillögur Framkvæmdastjórnarinnar varðandi vinnumarkaðinn eru ekki eru misskilin kreppuviðbrögð. Þau eru í anda frjálshyggju, það er rétt. Alveg eins og ríkisfjármálasáttmálinn. En það er meðvitað. Tillögurnar fela einfaldlega í sér stríðsyfirlýsingu gegn verkalýðshreyfingunni í því augnamiði að brjóta hana á bak aftur, í anda Margrétar Thatcher.  Evrópska stórauðvaldið undir forustu „Þríeykisins“ (Troika) Framkvæmdastjórnar, Evrópska seðlabankans og AGS mætir hinni dýpkandi kreppu með stéttastríði. Veður gerast nú válynd.

Að þessu sögðu þarf að geta þess að sk. Keynesismi eftirstríðsáranna – með virku ríkisvaldi, m.a. útgjöldum til velferðarmála – varð ekki til í fílabeinsturni hagspekinnar. Hann var útkoma sterkrar verkalýðshreyfingar, stéttaátaka og síðan málamiðlana. Og aðeins þannig má vænta hans aftur, á Íslandi, í ESB eða annar staðar. Ekkert fæst ókeypis, sérhvern ávinning þarf að knýja fram. En í ESB nú um stundir  ber þó meira á sókn auðvaldsaflanna.

HH krefjast lögbanns á innheimtur Lýsingar

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hefur ákveðið að hefja undirbúning að því að krefjast lögbanns á innheimtur Lýsingar hf. Yfirlýsing Lýsingar um að dómar hafi ekki fordæmisgildi um þeirra útlán eru hið augljósa tilefni. Stjórn HH telur að Lýsing hafi gerst brotleg við neytendur með ólöglegum verðbreytingaákvæðum í samningum og að Lýsing eigi ekki að vera yfir lög hafin frekar en önnur fjármálafyrirtæki. Lýsing hf er jafnframt hvött til að hefja endurútreikning á öllum samningum með ólögmætum gengisbundnum verðbreytingaákvæðum án undanbragða og jafnframt láta viðskiptavini sína njóta vafans í þeim málum í hvívetna.

Stjórn HH

Þessi frétt er tekin af heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna.

Nútíma þrælahald í Qatar

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) hefur hafið herferð gegn nútíma þrælahaldi í Qatar vegna HM í knattspyrnu sem fer fram í landinu 2022. Þó enn séu 10 ár í mótið í Qatar eru framkvæmdir við leikvangana að farnar í gang. Sharan Burrow framkvæmdastjóri ITUC segir allt benda til þess að heimamenn ætli að reisa þessi miklu mannvirki með réttlausum og illa launuðum farandverkamönnum. Slíkt sé ekkert annað en nútíma þrælahald þar sem engin virðing er borin fyrir lífum og limum og aðbúnaði verkamannanna, svo ekki sé talað um launin.

Stærstum hluta verkafólks í Qatar er bannað að ganga í stéttarfélög  en talið er að 94% vinnuafls í landinu sé farandverkafólk án allra réttinda.
Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) hefur þegar beðið stjórnvöld í Qatar að virða réttindi verkafólks en orðið lítið ágengt. Til marks um alvöru málsins hefur ITUC ákveðið að hrinda af stað herferð þar sem fólk um allan heim er hvatt til mótmæla gegn slæmri framkomu Qatarmanna gagnvart farandverkafólki. „Með sterkri samstöðu getum við gert stjórnvöldum í Qatar ljóst að það verði engin HM 2022 í landinu ef traðkað er á réttindum launafólks“, segir Burrows.
Taktu þátt í herferðinni með því að skrá þig hér.
Þessi frétt er tekin stafrétt og í leyfisleysi af heimasíðu Alþýðusambands Íslands.

Evran er mjög árangursrík – án gríns

eftir Greg Palast

Það er hættulega barnaleg hugmynd að evran hafi „brugðist“. Evran er að gera nákvæmlega það sem faðir hennar – og hið ríka 1% sem tók hana upp – spáði og ætlaði henni.

Þessi faðir er Robert Mundell, höfundur „framboðs-hagfræðinnar“ (e. supply-side economics), áður hagfræðingur við Chicago-háskóla, nú prófessor við Columbia-háskóla, sem ég kynntist í gegn um tengsl hans við minn eigin Chicago-prófessor, Milton Friedman, áður en rannsóknir Mundells á gjaldmiðlum og gengi gátu af sér uppdráttinn að myntbandalagi Evrópu og sameiginlegum evrópskum gjaldmiðli.

Í þá daga var Mundell upptekinn af baðherbergisinnréttingunum sínum. Prófessor Mundell, sem á bæði Nóbelsverðlaunapening og fornt setur í Toscana-héraði á Ítalíu, sagði mér, og var mikið niðri fyrir:

„Þeir leyfa mér ekki einu sinni að fá klósett! Þeir eru með reglur sem segja mér að ég megi ekki hafa klósett í þessu herbergi! Geturðu ímyndað þér!?“

Satt að segja á ég erfitt með það. En ég á ekki ítalskt setur, svo ég þekki ekki gremjuna sem fylgir reglugerðum um salernisfyrirkomulag.

En hinn kanadísk-bandaríski Mundell er maður sem leysir málin, og hann ætlaði sér að gera eitthvað í þessu: finna vopn sem gæti rutt burt reglum stjórnvalda og verkalýðsfélaga. (Hann virkilega hataði félagsbundnu pípulagningamennina sem rukkuðu hann um heilt seðlabúnt fyrir að færa hásætið hans til.)

„Það er mjög erfitt að reka verkamenn í Evrópu,“ kvartaði hann. Og svar hans: evran.

Evran mundi í rauninni vinna vinnuna þegar kreppan skylli á, útskýrði Mundell. Með því að svipta ríkisstjórnirnar valdinu yfir gjaldmiðlinum, væri hægt að koma í veg fyrir að litlir, ljótir embættismenn notuðu keynsískar aðferðir í peningastefnu og ríkisfjármálum til að draga þjóðirnar upp úr svaðinu.

„Peningastefnan verður þá komin utan seilingar fyrir stjórnmálamenn,“ sagði hann. „[Og] án peningastefnu, er eina aðferð þjóða til að halda í störfin að keppast um að afnema reglugerðir á fyrirtæki.“

Hann nefndi lög um vinnumarkaðinn, reglugerðir um umhverfismál og, auðvitað, skatta. Öllu þessu mundi evran sturta niður. Lýðræði fengi ekki að skipta sér af markaðnum – og heldur ekki af pípulögnunum.

Eins og annar Nóbelsverðlaunahafi, Paul Krugman, hefur bent á, þá braut stofnun evrusvæðisins hagfræðireglu sem er þekkt sem „hagkvæmasta myntsvæði“. Það var reyndar regla sem Bob Mundell setti sjálfur fram.

Það angrar Mundell ekki. Fyrir honum snerist evran ekki um að breyta Evrópu í þróttmikla, samheldna efnahagslega heild. Hún snerist um Reagan og Thatcher.

„Ronald Reagan hefði ekki verið kjörinn forseti án áhrifa Mundells,“ skrifaði Jude Wanniski einu sinni í Wall Street Journal. Framboðs-hagfræðin, sem Mundell boðaði, varð að kennilegu skapalóni fyrir „reaganomics“ – eða, eins og George Bush eldri kallaði það, „vúdú-hagfræði“: trúin á þær töfralækningar frjáls markaðar, sem einnig veitti frú Thatcher innblástur.

Mundell útskýrði fyrir mér að í raun væri evran af sama toga spunnin og reaganomics: „Agi í peningamálum agar stjórnmálamenn líka í ríkisfjármálum.“

Og þegar koma kreppur, geta efnahagslega afvopnaðar þjóðir fátt gert annað en að sópa burt regluverki stjórnvalda og einkavæða ríkisfyrirtæki í stórum stíl, lækka skatta og horfa á evtir evrópska velferðarríkinu ofan í niðurfallið.

Þannig að við sjáum að forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti (sem enginn kaus), krefst „umbóta“ í vinnulöggjöf, sem mundi auðvelda vinnuveitendum eins og Mundell að reka þessa toskönsku pípulagningamenn. Og forkólfur Seðlabanka Evrópu, Mario Draghi (sem enginn kaus), kallar á „skipulagsbreytingar“ – sem er veigrunarorð fyrir það að kremja verkafólk. Þeir vitna í þá þokukenndu kenningu um að ef laun lækka í hverju einasta landi, þá verði öll löndin samkeppnishæfari.

Monti og Draghi geta ekki útskýrt hvernig nokkurt land bætir samkeppnisstöðu sína með því að þau lækki öll launin. En þeir þurfa ekki að útskýra stefnuna sína; þeir láta markaðina bara vinna á skuldabréfum landanna. Þannig að myntbandalag er stéttastríð, háð með öðrum aðferðum.

Frá kreppunni í Evrópu og eldunum í Grikklandi stafar heitum bjarma þess, sem hugmyndafræðilegur konungur framboðs-hagfræðinganna, Joseph Schumpeter, kallaði „skapandi eyðileggingu“. Lærisveinn Schumpeters og trúvarnarmaður hins frjálsa markaður, Thomas Friedman, flaug til Aþenu og heimsótti „helgan dóm“, brunna bankabyggingu, þar sem þrjár manneskjur biðu bana þegar anarkistar úr röðum mótmælenda köstuðu eldsprengju. Þar notaði hann tækifæri til að messa um hnattvæðingu og „ábyrgðarleysi“ Grikkja.

Eldtungurnar, fjöldaatvinnuleysið, brunaútsalan á opinberum eignum, mundu marka „endurfæðingu“ Grikklands og, á endanum, alls evrusvæðisins. Þannig að Mundell og aðrir sem eiga sín eigin setur geti sett klósettin sín hvar í fjandanum sem þeim sýnist.

Evran, barnið hans Mundells, hefur alls ekki brugðist, heldur hefur náð árangri langt umfram villtustu drauma föður síns.

— — — —

Þessi grein birtist fyrst í bandarísku útgáfu Guardian þann 26. júní 2012 og birtist hér með leyfi höfundar.
Þýðing: Vésteinn Valgarðsson.

Neytendastofa hefur rannsókn á svokölluðu “vaxtagreiðsluþaki” Íslandsbanka

Neytendastofa hefur að beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna hafið rannsókn á viðskiptaháttum Íslandsbanka við markaðssetningu á svokölluðu “vaxtagreiðsluþaki”.

Hagsmunasamtök heimilanna beindu þann 20. ágúst síðastliðinn erindum, m.a. til Neytendastofu, þar sem vakin var athygli á og farið fram á rannsókn á lánveitingum Íslandsbanka og þjónustu þeim tengdum undir heitinu “vaxtagreiðsluþak óverðtryggðra húsnæðislána”. Samtökin álíta að um sé að ræða flókna fjármálaafurð með ófyrirsjáanlegan lántökukostnað, sem illmögulegt sé fyrir almenna neytendur að átta sig á hvernig muni þróast til framtíðar.

Með hækkun vaxta og höfuðstólsfærslu þeirra gætu mögulega komið fram svipuð áhrif og þekkjast af verðtryggingu lána, þegar höfuðstóll fer hækkandi umfram mánaðarlega afborgun og orsakar neikvæða eignamyndun. Samtökin telja að slíkt kunni að stangast á við gildandi lög um neytendalánasamninga og brjóti hugsanlega í bága við stjórnarskrárvarinn eignarrétt veðþola.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna ákvörðun Neytendastofu um viðbrögð við ábendingum samtakanna, en munu að öðru leyti ekki tjá sig frekar um málið á meðan rannsókn stendur yfir.

Þessi frétt er tekin beint og án leyfis af heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna.

1. maí ávarp Rauðs vettvangs 2012

Á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins 2012 boðar Rauður vettvangur nauðsyn markvissrar baráttu gegn auðvaldsskipulaginu og afleiðingum þess.

Kreppan hefur varpað skýru ljósi á innri andstæður auðvaldskerfisins. Það leiðir óhjákvæmilega af sér kreppu vegna þess að það er knúið áfram af gróðafíkn auðmanna en afleiðingum kreppunnar er velt yfir á alþýðuna. Engu breytir þó krataflokkar myndi ríkisstjórn enda hafa þeir ekki beitt sér fyrir neinum breytingum sem skipta máli til hagsbóta fyrir alþýðuna. Einu ráðin sem þeir sjá eru að reyna að knýja fram aukin umsvif með meiri ójöfnuði, auknum skammtímagróða fyrir auðmenn og aukinni skuldsetningu sem lendir á samfélaginu. Áfram er gróðinn einkavæddur en tapinu velt yfir á almenning.

Frjálshyggjan lifir góðu lífi og auðvaldið heldur áfram að sölsa undir sig sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Áform um lagningu rafmagnssæstrengs til Bretlands er stærsta skref til þessa í markaðsvæðngu orkuauðlinda Íslands. Ef hún kemur til framkvæmda mun það leiða af sér aukinn hernað gegn landinu, stórhækkun á orkuverði hér innanlands og mikla skuldsetningu samfélagsins. En gróðinn mun rata í vasa vildarvina Íslandsbanka.

Lykillinn að raunhæfum breytingum á íslensku samfélagi í þágu almenning felst í því að vinda ofan af markaðsvæðingu í lykilgreinum samfélagsins og auka veg hins félagslega að sama skapi.

Rauður vettvangur

188% leiðin – Bréf til þingmanna

Þann 28. júlí síðastliðinn barst undirrituðum bréf frá Íbúðalánasjóði vegna hinnar svokölluðu 110% leiðar og hlýtur það að teljast lokaniðurstaða varðandi skuldamál heimilisins eftir meðferð hjá Umboðsmanni skuldara og lánastofnunum (ef marka má málflutning ríkisstjórnarinnar sem hefur sagt að ekki verði um frekari úrræði að ræða fyrir heimili landsins).  Ég ætla að deila með ykkur alþingismönnum niðurstöðunni af þessum svokölluðu úrræðum sem okkur hefur verið boðið. Til að fjármagna kaupin á 85,5 fermetra blokkaríbúð árið 2008 voru tekin þrjú lán (til stóð að taka aðeins tvö lán en vegna hruns á fasteignamarkaði og ósveigjanleika Glitnis gátum við ekki selt íbúð í eigu sambýliskonu minnar og neyddumst til að taka þriðja lánið). Lánin sem um ræðir eru: Íbúðalánasjóður – upphafleg fjárhæð 16 milljónir, Lífeyrissjóður starfsma sveitarfélaga – upphafleg fjárhæð 3,5 milljónir, Lífeyrissjóður verslunarmanna – upphafleg fjárhæð 4 milljónir – samtals 23,5 milljónir.

Í stuttu máli er staða okkar þessi (eftir meðferð hjá Umboðsmanni skuldara og 110% leiðina):
Lánin standa nú samtals í u.þ.b. 32,7 milljónum en íbúðin var metin á 18,3 milljónir af matsmanni á vegum Íbúðalánasjóðs.  Skuldirnar eru sem sagt u.þ.b. 179% af verðmæti eignarinnar miðað við þetta mat en 188% miðað við fasteignamat.  Lækkun á mánaðarlegum afborgunum nemur líklega um 5000 kr. á mánuði þ.e.a.s. lækkar úr 175.000 kr. í 170.000 kr.  Lækkunin á láninu frá Íbúðalánasjóði, sem nam 911.000 kr., er nú þegar horfin í verðbólguna og rúmlega það þar sem miðað var við stöðuna þann 1. Janúar 2011 en þann 1. ágúst hafði lánið hækkað um 1.298.000 frá áramótum (hin lánin hafa auðvitað hækkað líka á þessu tímabili).

Ég er alvarlega að íhuga að hætta að borga af þessum húsnæðislánum þó að ég geti ennþá (spurning hversu lengi) borgað af þeim og hafi fram að hruni ávallt talið það sjálfsagða skyldu mína að borga upp þau fáu lán sem ég hef tekið um ævina.

Ég er búinn að fá mig fullsaddan af innantómum loforðum og því að vera dreginn á asnaeyrunum af stjórnmálamönnum, lánastofnunum og fyrirbærum eins og Umboðsmanni skuldara (Umboðsmanni kröfuhafa réttara sagt – ég fæ ekki betur séð en starfsemi þessarar stofnunar miði fyrst og fremst að því að lágmarka tap lánastofnanna vegna skuldavanda heimila).

Mér finnst réttast að kalla fjármálakerfið hérna skipulagða glæpastarfsemi þar sem glæpamennirnir stunda iðju sína með vitund, velvilja og undir verndarvæng stjórnmálamanna og dómskerfisins.  Flestir þingmenn fjórflokksins sýnist mér hafa það að keppikefli að blekkja almenning og gefa fölsk loforð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk rísi upp gegn ranglætinu.

Greiðsluverkfall og almenn uppreisn gegn auðvaldinu og strengjabrúðum þess innan ríkisvaldsins eru líklega eini kosturinn í stöðunni til að koma á einhverju réttlæti á þessu landi!

P.S.
Undirritaður hefur sent inn kæru til Úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála vegna 110% leiðarinnar en hefur þó engar væntingar um að það skili árangri.

– – – – –

Þessi grein birtist áður á Svipunni þann 10. ágúst 2011 og er hér endurbirt með leyfi höfundar.

Ameríski draumurinn eða valdaformgerðin

Einhver sterkasta trú borgaralega sinnaðra og íhaldssamra er að það sé í valdi hvers einstaklings fyrir sig, hvernig honum reiðir af fjárhagslega. Þetta er auðvitað að mörgu leyti rétt, en algjör fásinna að öðru leyti. Ein helsta ástæðan er sú að sú samfélagsgerð sem við búum við gefur ekki sjálf mikinn möguleika á tilfærslu.

Grundvallarstrúktúr samfélagsins er stigveldið. Sjálf grundvallarreglan er sú að þeir sem eru ofar í stigveldinu hafa síðasta orðið í ákvörðunartöku, ekki þeir sem undir eru. Það er í valdi hinna sem eru ofar í stigveldinu að ákveða hvaða stefna er tekin. Hversu margir eru í hverju þrepi ræðst svo af því hversu mikið mannaforráð hver stjórnandi hefur. Í fjögurra laga stigveldi þar sem hver stjórnandi ræður yfir 10 undirmönnum og einn er í efsta þrepinu er stéttskiptingin eitthvað á þessa leið:

1 eigandi, 10 forstjórar, 100 millistjórnendur og 1000 almennir starfsmenn. Í allt eru því 1111 manneskjur í þessu stigveldi. 90 prósent eru almennir starfsmenn, 9 prósent eru millistjórnendur, 0,9 prósent eru forstjórar og 0,09 prósent eru eigendur.

Auðurinn seytlar upp á við í þessu kerfi. Þegar þeir sem neðar eru í kerfinu fá ekki greitt eftir vinnuframlagi sínu fer það sem vantar uppá upp á næstu þrep. Því hærra sem eru í kerfinu, þeim mun meira endar hjá þeim. Því minna sem haldið er eftir af hverjum starfsmanni, því meiri auður safnast á hærri þrep. Það er því beint samband á milli fátæktar í neðri þrepunum og auðlegð í hinum efri. Áhrifavaldarnir í kerfinu eru hagsmunir einstaklinganna, völd þeirra og persónulegur fjárhvati. Hærra settir einstaklingar ráða launum undirsetta, hverjir komast ofar í þrepin og hverjir ekki.

Það er ekki í hagsmunum hinna sem eru efra settir að setja sjálfan sig í neðri þrep. Ef þessi efri þrep eru þegar skipuð fólki er enginn hvati hjá þeim sjálfum að breyta því. Það er því einungis ef ný staða í efri þrepunum verður til, ef til vill vegna þess að stjórna þarf 10 nýjum starfsmönnum; ef einhver hverfur frá í efri þrepunum eða þegar einhverir í enn hærri þrepum velja burt einn forstjóra eða millistjórnenda að möguleiki opnast á því að einhverjir af þeim 1000 sem eru í neðsta þrepinu fá möguleika á því að hækka sig um þrep. Það gildir einu hversu gáfaðir, duglegir eða vel menntaðir þessir 1000 eru; völdin og hagsmunirnir eru hjá einstaklingum í efri þrepunum. Persónuleg hæfni einstaklingsins eykur möguleika hans að einhverju leyti þegar velja á einhvern í þessa einu stöðu á efra þrepi, en líkurnar eru þrátt fyrir það um eða yfir 0,1%, þ.e. agnarlitlar. Tækir þú þátt í fjárhættuspili þar sem líkurnar á vinningi væru 1 á móti 1000? Ofan á þetta bætist svo við að enn aðrir þættir, s.s. skyldleiki, geta haft áhrif á valið á hinum heppna í þrepakerfinu. Kerfislega eru líkurnar ekki kræsilegar.

Það er fásinna að halda því fram að í þessu kerfi séu dugnaður og hæfni einstaklinganna stærsti þátturinn í velgengni einstaklingsins. Ef við förum aftur í hinn frumstæða reikning á stéttarstöðu í stigveldi er það einfaldlega þannig að 90 prósentur einstaklinganna eru í stétt almennra starfsmanna en tæp 1 prósentur eru eigendur. Það hefur hverfandi áhrif á sjálfan strúktúrinn hver færist um í þessu. Það væri hinsvegar stór munur á því ef leikreglunum yrði breytt á þá veru að ákvörðunarvald innan samfélagsins dreifðist á fleiri hendur, eða yrði að fullu jafnt.