Hvers konar lýðræði er á Ítalíu?

 Í þingkosningunum í apríl síðastliðnum kusu Ítalir hinn óforbetranlega Berlusconi sem forsætisráðherra í þriðja skiptið á ferli hans. Hann tók við af Romano Prodi sem hafði setið í tæp tvö ár. Mikið er gert úr þeirri staðreynd að ríkisstjórn Berlusconis er 62. ríkisstjórn Ítalíu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Manni er spurn: Afhverju eru ítölsk stjórnmál sovna skrautleg? Kíkjum aðeins á tvö atriði: hvernig ástatt er varðandi jafnréttisbaráttuna á Ítalíu og hvernig Berlusconi komst til valda að hluta til vegna loforða um að leysa sorphirðuvandann á Suður-Ítalíu.

Ójafnt jafnrétti?

Í ríkisstjórn Berlusconis eru forvitnilegir ráðherrastólar og enn forvitnilegri ráðherrar. Athyglisverðastur þykir mér jafnréttisráðherra (e. minister of equal opportunity). Hún heitir Mara Carfagna og er 33 ára lögfræðingur frá Salernó á Suður-Ítalíu.

Hún segir hefðbundinn gildi fjölskyldunnar einkenna lífsspeki sína. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að hún hefur gefið út að hún sé antí-feministi og finnist að skera eigi réttindi samkynhneigðra við nögl, t.a.m. eigi rétturinn til þess að giftast að haldast í hendur við æxlun. Ætla mætti að hún væri búin að spila sjálfa sig úr leik sem jafnréttisráðherra, þannig væri það í það minnsta í Skandinavíu þar sem ráðherrar fjúka fyrir það eitt að kaupa sér Toblerone fyrir almannafé.

Mara hefur þó vakið athygli fyrir fleira en skoðanir sínar. Hún er einkar myndarleg kona, lenti í sjötta sæti í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ítalía árið 1997 og starfaði sem léttklædd aðstoðarkona í sjónvarpssal í sjónvarpsþættinum La domenica del villaggio á árunum 2000-2006.

Við opinbert tækifæri lét Berlusconi nýlega hafa það eftir sér að hann myndi giftast Möru ef hann bara væri ekki giftur fyrir. Þegar hún heyrði af þessu birti eiginkonan hans bréf í dagblaði sem keppir við fjölmiðlaveldi Berlusconis og heimtaði afsökunarbeiðni. Hana fékk hún birta fyrir framan alþjóð og þar með lauk sandkassaleik þeirra skötuhjúa.

Þetta hljómar eins og einhverskonar háðsádeila um pópúlista í stjórnmálum en nei, það er ekki svo. Þetta er blákaldur raunveruleikinn þarna fyrir sunnan. (sjá nánari samanburð á jafnrétti í Ítalíu og á Spáni)

Ruslakrísan í Napólí

Það er fleira á Ítalíu sem fær mann til þess að gapa af undrun. Ég er væntanlega ekki sá eini sem hefur fylgst með fréttum af ruslakrísunni í kringum Napolí (ljósmyndasería í Time) og Lazio… Eitthvað hefur verið fjallað um þetta í íslenskum fjölmiðlum, þó með yfirborðskenndum hætti tel ég, þetta er fjarlægt Íslendingum og óskiljanlegt með öllu í öllu falli. Ítalía er jú vestræn þjóð og nútímavædd. Vagga vestrænnar menningar (ætli það geti verið að Íslendingar viti meira um þættina Rome en Ítalíu sjálfa?).

Í klassískri stúdíu í stjórnmálafræði, The Civic Culture (1963) e. Almond & Verba  er m.a. rýnt í viðhorf Ítala gagnvart lýðræði. Þar komust þeir að þeirri niðurstöðu að talsverður munur lægi á milli Norður og Suður Ítalíu. Eftir því sem sunnar drægi því meira rýrnaði traust almennings á opinberar stofnanir og samhliða því jókst tiltrú manna á nánustu fjölskyldu og vini. Það má segja  að því sunnar sem haldið er því fátæklegra verður umhorfs, því meiri áhersla á landbúnað og ferðamannaþjónustu.

Nú er svo komið að ítalska mafían í Kampanía-héraðinu hefur sterk ítök í sorphirðu í þessu héraði og svo virðist sem að hún sé meira en lítið vanhæf til þess að sinna henni. Á þetta atriði er einblínt í umfjöllun um krísuna, máske með réttu.

Sorpurðunarstöðvar hafa verið yfirfullar síðan í desember þannig að sorp er látið standa á götum úti. Á heildina litið er vandamálið margra ára gamalt. Um er að ræða þúsundir tonna sem alvarleg umhverfis- og heilsuvá stafar af. ESB hefur staðið í ströngu við að spýta út úr sér aðvaranir, kröfur um aðgerðaráætlanir og nú síðast hótun um sektir.

Nýjasta þróunin er sú að fyrir nokkrum dögum hélt Berlusconi sérstakan ríkisstjórnarfund í Napolí þar sem hann fyrirskipaði að sorpurðunarstöðvarnar væru hér með sérstök svæði undir hernum og búið er að ráðstafa tímabundna lausn með því að senda sorpið til Þýskalands með lestum.

Niðurlag

Ítalía er framandi fyrir okkur Íslendinga. Þar munu lífsgæði versna töluvert á næstunni vegna lítillar framleiðni á vinnumarkaði, atvinnuleysis, lágs hlutfalls virks vinnuafls á móti ellilífeyrisþegum og umræddu mentalíteti. Skulum ekki gleyma því að lýðræði er ekki það sama og lýðræði.

Rakaskemmdir innanhúss – alvarleg áhrif á heilsufar

Vegna nýlegrar fréttar á mbl.is (Fleiri læknar með einkenni) langar mig til að skrifa smá pistil um rakaskemmdir og myglusveppi í híbýlum. Ég verð að segja að eftir allt sem ég hef kynnt mér um áhrif myglusveppaeiturs á heilsufar er ég ekki hissa á að læknarnir finni fyrir einkennum á heilsu sinni þegar rakaskemmdir eru í húsnæðinu sem þeir vinna. Síþreyta, astmi, húðexem, þrálátar (krónískar) eyrnabólgur og kvef, einbeitingaskortur, minnistap, þunglyndi, þrálátir höfuðverkir, verkir í liðum (gigt), hjartsláttartruflanir, sjóntruflanir (lesblinda?) og fleira og fleira.

Ég velti því fyrir mér hvaða einkenni þeir hafa fundið vegna þess að ekki er minnst á það í þessari frétt. En möguleg einkenni eru mörg þegar kemur að myglusveppum í húsum.

Myglusveppir myndast í húsum ef raki eða leki nær að myndast í lengri tíma en 2 daga. Þeir finnast mjög oft á baðherbergjum og í þvottarhúsum, en einnig er algengt að þeir finnist á bakvið flísar, undir gólfefnum eða inni í veggjum þar sem raki hefur myndast. Þannig eru þeir ekki alltaf sýnilegir, en gefa samt sem áður frá sér hættuleg eiturefni sem kallast á ensku mycotoxins. Myglusveppaeitur, eða mycotoxins er bráðeitrað, ósýnilegt efni sem fólk andar að sér og getur gríðarlega alvarlegar afleiðingar á heilsufar fólks. Þótt margir læknar (á Íslandi) þekki það ekki og þvertaki fyrir að svo geti verið (aðallega vegna vanþekkingar – þetta er ekki innifalið í læknanáminu), þá hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar, sem benda óyggjandi til þess að þegar raki myndast í húsum geti það haft mjög alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks. Einnig eru til rannsóknir sem sýna fram á að sveppaeitrun af þessu tagi getur leitt dýr til dauða eða valdið þeim heilmiklum heilsufarsvandamálum. Hægt er að finna fræðigreinar og rannsóknir þessu tengt víða á internetinu ef fólk vill kynna sér málið. Góð leitarorð eru mycotoxins, mold, mould, health effects, sick building syndrome eða eitthvað slíkt.

Vonandi verður þetta til þess að í það minnsta þessir ákveðnu læknar opni augun fyrir þessum heilsufarsvanda og kynna sér málið gaumgæfilega.

Í raun er það algerlega með ólíkindum að þetta sé svona ótrúlega óþekkt hjá fagaðilum á Íslandi, bæði bygginar- og umsjónaraðilum húsa, sem og hjá heilbrigðisstéttunum. Víðast hvar í Skandínavíu þykir það að fá fagaðila til að taka loftsýni innanhúss vegna gruns um sveppaeitrun helst líkjast því að fá pípara eða rafvirkja, eða annan iðnaðarmann sem annast ákveðið svið innan hússins, til að laga það sem að er. Vissulega er hægt að taka sýni til að athuga þetta. Loftsýni eru tekin inni í húsum og svo borin saman við loftsýni utanhúss til að sjá hvort meiri sveppavöxtur er innanhúss en utan. Eins er algerlega nauðsynlegt að tegundargreina sýnin á rannsóknarstofu til að átta sig á hvort um hættulegustu og skaðlegustu sveppategundirnar sé að ræða.

Á Íslandi er nánast ekki hægt að fá neinn almennilegan fagaðila til að mæla slíkt, að mér vitandi, nema þá Hús og heilsu eða Náttúrufræðistofnun Íslands. En ef fólk hringir í einhvern frá Umhverfisstofnun, Umhverfissviði Reykjavíkurborgar eða Heilbrigðiseftirlitinu, þá er má búast við að svörin verði ekki gefin af upplýstri þekkingu. Svo mikið veit ég af reynslu minni. Umhverfissvið Reykjavíkurborgar gefur sig út fyrir að geta tekið sýni í húsi, en svo taka þeir ekki sýni utanhúss til að bera það saman við vöxt innanhúss. Eins vantar algerlega tegundargreiningu í rannsóknir þeirra, og því er ómögulegt að segja til um, samkvæmt þeirra sýnum, hvort um hættulegustu tegundirnar er að ræða eður ei.

Líffræðinemar á Íslandi læra ekki nema mjög takmarkað um sveppafræði, sem er þó stór grein innan líffræðinnar, vegna þess að það sárvantar sérfræðing til að kenna um það. Það tjáði mér kennari í líffræði innan Háskóla Íslands. Eins læra læknanemar ekkert um þetta og koma því af fjöllum þegar það er nefnt, sem er kannski ekki skrítið því það er mikil vinna að fylgjast náið með öllum nýjustu rannsóknunum á sviði lækna- og lífvísinda. Vonandi verður einhver þekkingarvakning á næstu árum hvað þetta varðar innan lækna- og heilbrigðisstéttarinnar.

Hér má lesa um hvernig áhrif myglusveppaeitur getur haft á heilsuna:

www.husogheilsa.is

http://www.ni.is/grodur/Flora/Sveppir/innanhusssveppir/

www.mold-help.org

www.mold-survivor.com

http://www.mold-survivor.com/submenu1.html

Þeir sem þekkja fleiri en eitt þrálátt einkenni á heilsufari sínu sem nefnt er að ofan, eða á þessum síðum, ættu að kynna sér mjög vel hvað hægt er að gera til að ná aftur bættri heilsu. Lesið ykkur líka til um lyfið CSM (Cholestyramine) eða Questran, sem hefur verið sýnt fram á að hjálpi fólki að hreinsa út sveppaeitur úr líkamanum, ef það á erfitt með að hreinsa sig sjálft eftir að það flytur út úr slíku umhverfi.

Vonandi hjálpa þessi skrif í það minnsta einhverjum sem hefur orðið fyrir slíkum áhrifum og vill kynna sér málið og leita sér hjálpar.

Endir íslamófóbíu

Í Rambo 3 fer Rambo til Afganistan að hlutast þar til um mál. Þar gengur hann til liðs við andspyrnumenn og saman ganga þeir til bardaga við hina illu Sovétmenn. Sjaldan hafa jafn göfugir menn verið kynntir til leiks á hvíta tjaldinu og andspyrnumenn í Afganistan, þeir eru bæði réttlátir menn og heimspekingar. Myndin er gerð árið 1988 og á þeim tíma var okkur ætlað að hafa lítilega aðrar hugmyndir um heiminn en í dag. Í vestrænum fjölmiðlum voru Saddam Hussein, Suharto og Gulbuddin Hekmatyar (stríðsherra í Afganistan) hófsamir meðan Nelson Mandela var hryðjuverkamaður. Í dag er Mandela friðarverðlaunahafi Nóbels meðan hinir eru drullusokkar, og göfugmennin sem Rambó hitti í Afganistan eru mestu ómenni sem gengið hafa á jörðinni.

Fjölmiðlar

Út frá siðferðislegum forsendum kunna þessi umskipti að virðast nokkuð geðklofin, en út frá hagsmunum eru þau það ekki og það eru hagsmunirnir sem ráða. Það þarf ekki að fylgjast lengi með vestrænum fjölmiðlum til að komast að því að þeir eru einkum endurvarpsstöðvar hagsmunaaðila þó svo að þeim sé ekki miðstýrt eða þeir ritskoðaðir af yfirvöldum. Þeir endurspegla pólitíska hagsmuni vegna þess að ritstjórar þurfa að lúta vilja eigenda og auglýsenda og fréttamenn þurfa að lúta vilja ritstjóra, og einnig vegna mannlegra breyskleika sem koma fram í stofnanakúltúr, hjarðhyggju og kokteilboðamennsku. Það má ímynda sér að áróðursmeistarar Sovétríkjanna hafi velt því fyrir sér hvernig vestrænum kollegum þeirra hafi tekist að gera ofstækismenn í Afganistan að baráttumönnum frelsisins, en Sovétmenn höfðu dregist afturúr í áróðurstækni á þessum tíma eins og svo mörgu öðru og héldu sig við ritskoðun sem með tímanum þjálfar fólk í að lesa milli línana og drepur trúverðugleika.

Í vestrænum fjölmiðlum er það ekki sagt berum orðu að múslimar séu vondir, og það er stundum tekið fram að þeir séu það alls ekki. Heldur er er höfðað til tilfinninga ekki ósvipað og í kók-auglýsingu þar sem fallega fólkið hleypur eftir ströndinni og drekkur kók. Þó allir viti að maður verður feitur og bólóttur af því að drekka mikið af sykruðum gosdrykkjum þá skilur auglýsingin eftir þá tilfinningu að gosþamb geri neytandann kynþokkafullan. Á sama hátt búa múslimar í fjölbreytilegum samfélögum sem ná frá Marokkó í vestri til Indónesíu í austri, en þegar við sjáum múslima í sjónvarpinu þá er það yfirleitt vopnaður maður í vígahug frá afmörkuðu átakasvæði.

Áróður

Því hefur verið haldið fram að íslam haldi aftur af efnahagslegri þróun, en er það svo? Ef við skoðum þau ríki Miðausturlanda þar sem íslam hefur takmarkað vægi í stjórnmálum má nefna Sýrland, Jórdaníu, og Egyptaland. Í þessum löndum ríkir efnahagsleg stöðnun og þau komast sjaldan á síður viðskiptablaðanna. Dubai á hinn bóginn er efnahagsundur Miðausturlanda. Katar, þaðan sem Aljazeera kemur, er brautryðjandi frjálsrar fjölmiðlunar í heimshlutanum og Óman hefur byggt efnahaginn á þekkingariðnaði. Í þessum ríkjum við Persaflóa spilar íslam stóra rullu í pólitík, trúboð er bannað og klæðaburður er hefðbundinn. Sú fullyrðing að íslam standi í vegi fyrir efnahagsumbótum er röfl sem stenst ekki skoðun.

Sú hugmynd að múslimar fari illa með konur byggir á því að þeir geri það af íslömskum hvötum. Nýverið var maður handtekinn í Austurríki fyrir að hafa haldið dóttur sinni fanginni í kjallara sínum í aldarfjórðung og átt með henni börn. Í þessu tilfelli var sökinni beint að glæpmanninum sjálfum en ekki þjóðskipulagi Austurríkis eða kirkjunni þar. Glæpir í löndum múslima eru hinsvegar ætíð kynntir okkur sem afleiðing af íslam.

Ástæðan

Hermann Göring sagði eitt sinn: „Það er auðsótt mál að fá hvaða þjóð sem er út í stríð, það eina sem þarf að gera er að benda á utanaðkomandi óvin og saka friðarsinnanana um skort á föðurlandsást.“ Það þætti undrum sæta ef vestrænir herir stæðu í landvinningum í Suður-Ameríku eftir hátt í tvo áratugi af áróðri gegn múslimum. Eiginlega væru það „svik við söguna“. Það er þó ekki ástæða til að örvænta, allt er eftir bókinni.

Í stríðinu gegn hryðjuverkum hafa Vesturlandabúar verið rændir gildum sínum. Sem dæmi má nefna að ríkistjórn Íslands rak lengi flugvöll í Afganistan þaðan sem föngum er flogið til pyntinga út um allan heim, en þegar fangaflugvélarnar svo lenda á Reykjavíkurflugvelli fara ráðamenn að nöldra. Þeim er slétt sama um pyntingar, svo lengi sem þeir þurfa ekki að heyra öskrin. Í samfélagi sem ekki hefur lengur nein gildi grípur um sig óöryggi og menn fara að óttast hópa innan þess sem hafa sterk gildi, ekki ósvipað og maður með litla sjálfsvirðingu óttast umhverfi sitt.

Endirinn

Íslamófóbía er til komin vegna hagsmuna og vegna þeirra mun hún einnig út fara. Pólitísku markmiðin hafa ekki náðst vegna þess að planið var illa útfært og hernaðurinn enn verr. Keppinautarnir hafa eflst og eru farnir að láta til sín taka og verkfærið, íslamófóbía, hefur snúist í höndum eigandans og er nú notað gegn honum.

Keppinautarnir eru fyrst og fremst Rússland og Kína, saman og sitt í hvoru lagi. Þann tíma, sem á Vesturlöndum hefur farið í að tala um „gjá“ milli Vesturlanda og íslams, hafa Rússar nýtt sér til að styrkja stöðu sína í löndum múslima. Rússneska ríkið hefur opnað sjónvarpsstöð á arabísku og sækist eftir sæti í sam-íslömskum samtökum. Rússar halda uppi stjórnmálasambandi við Hamas og Hezbollah til að vinna hug og hjörtu múslima og aðgreina sig frá Vesturlöndum. Frá Kreml koma yfirlýsingar eins og „enginn fær að spilla náinni vináttu Rússa og hins íslamska heims“, til að gera út á vestræna íslamófóbíu og styrkja þannig stöðu sína. Í dag eiga Rússar góð pólitísk samskipti við öll ríki Miðausturlanda, og selja bandamönnum sínum hátæknivopn sem auka pólitískan hreyfanleika þeirra. Rússar eru annar stærsti olíuútflytjandi heims og náin samvinna þeirra við OPEC ríkin þýðir yfirráð yfir mikilvægustu og eftirsóttustu vöru á heimsmarkaði.

Í mörgum ríkjum Miðausturlanda eru ríkisstjórnirnar álitnar leppstjórnir Vesturlanda og náin samvinna við ríki sem álitin eru í krossferð gegn íslam ekki fýsilegur kostur fyrir valdhafana. Þegar nýr kóngur tók við í Sádi-Arabíu var hans fyrsta opinbera heimsókn til Kína. Sádi-Arabía hefur lengi verið einn helsti bandamaður BNA á svæðinu en í dag vinna Kínvarjar olíusamninga þar á kostnað vestrænna fyrirtækja.

Tyrkland gott dæmi um skaðsemi íslamófóbíu fyrir vestræna hagsmuni, því eftir að hún keyrði um þverbak hrundi stuðningur Tyrkja við aðild að Evrópusambandinu, sem lengi hafði verið yfirgnæfandi. Það skal haft í huga að Evrópusambandið hefur m.a. þann tilgang að auka völd lykilríkja þess í heiminum. Tyrkland er gríðarlega mikilvægt í pólitískum skilningi því það liggur á mótum Evrópu, Miðausturlanda og Rússlands, í landinu búa um 80 milljónir manna og það hefur eitthver mestu hernaðarútgjöld í Evrópu. Ríki Mið-Asíu eru menningarlega tengd Tyrklandi og þau hafa sóst þar eftir áhrifum. Ríki Mið-Asíu eru hinsvegar á bandi Rússa og Kínverja og hlaupist Tyrkir undan merkjum er augljóst í fangið á hverjum þeir fara.

Ríki múslima, sem telja um 1500 milljónir manna, eru farin að færast undan áhrifum Vesturlanda til nánari samvinnu við keppinautana. Íslamófóbía er því orðin munaðarvara sem Vesturlönd hafa hvorki pólitískt né efnahagslega efni á. Þegar staðan rennur upp fyrir valdhöfum á Vesturlöndum verður íslamófóbía blásin af, og ef eitthvað er að marka söguna verður nýr óvinur fundinn í staðinn.

BSRB og SGS semja við ríkið

Samningar undirritaðir maí 2008Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) og Starfsgreinasambandið (SGS) sömdu við ríkið nú í nótt, um framlengingu gildandi kjarasamninga með vissum breytingum. Samið var til 11 mánaða, eða til marsloka 2009. Hækkun launataxta nemur 20.300 kr. og ný launatafla tekur gildi frá og með 1. maí sl.

Samið var um 44.100 kr. persónuuppbót og 24.300 kr. orlofsuppbót og réttur foreldra til fjarveru vegna veikinda barna fer úr 10 dögum í 12. Framlag ríkisins til styrktar- og sjúkrasjóða aðildarfélaga BSRB og SGS hækkar upp í 0,75% af heildarlaunum starfsmanns frá 1. janúar 2009.

Í frétt á heimasíðu BSRB er haft eftir Ögmundi Jónassyni að hann sé ánægður með að samningar hafi náðst: „Við lögðum upp með að samið yrði til skamms tíma og það gekk eftir. Væntingar  höfðu kviknað um sérstakt framlag til umönnnunarstétta í samræmi við kröfur BSRB en það var blásið af sem er miður. Á heildina litið tel ég mjög hyggilegt að semja á þeim nótum sem var gert.“

Í frétt á heimasíðu SGS er haft eftir Signýju Jóhannesdóttur, formanni sviðs starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, að hún sé „ánægð með niðurstöðuna miðað við að ekki skuli vera samið til lengri tíma. Vissulega hefði verið ánægjulegt ef að tekist hefði að ná fram sérstakri hækkun til umönnunarstétta og lagfæringum á vaktavinnuumhverfinu. Aðilar eru ásáttir um að ræða vaktavinnu og vaktaumhverfi á samningstímanum, sem vonandi mun leiða til úrbóta síðar.“

Næstu daga verður samningurinn kynntur fyrir félagsmönnum í aðildarfélögum SGS og stefnt er að því að ljúka atkvæðagreiðslu um hann ekki seinna en 20. júní nk.

Samning SGS má lesa hér og samning BSRB má lesa hér.

Trúnaðarmanni Strætó sagt upp

Jóhannesi Gunnarssyni, vagnstjóra hjá Strætó bs. og trúnaðarmanni Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hjá Strætó, hefur verið sagt upp störfum. Mikill styrr hefur staðið innan fyrirtækisins síðan í haust, þegar nýir trúnaðarmenn tóku við. Þeir ætluðu að gera skurk í starfsmannamálum Strætó, en forstjórinn Reynir Jónsson varð fyrri til og ávítti þá fyrir meinta ölvun á vinnustað (þótt þeir hafi verið í fríi). Í gær var Jóhannes kallaður fyrir Reyni, sem sagði honum upp án skýringa og án þess að Jóhannes fengi að hafa fulltrúa St.Rv. eða BSRB með sér. Jóhannesi var ekki leyft að hirða saman persónulegar eigur sínar, hvað þá annað, áður en honum var vísað á dyr.

Það er alvarlegt mál þegar trúnaðarmanni er sagt upp störfum vegna trúnaðarstarfa og ekki við öðru að búast en St.Rv. og BSRB standi þétt með sínum manni. Ætla má að Reynir Jónsson hafi þarna ætlað að losa sig við óþægan ljá í þúfu, en Jóhannes og trúnaðarmennirnir hafa staðið í málaferlum til að fá áminningu Jóhannesar, vegna meintrar ölvunar, dæmda ógilda.
Þessu tengt:
Trúnaðarmenn Strætó draga afsagnir til baka
Málaferli gegn Strætó?
Frá Trúnaðarmönnum Strætó.
Trúnaðarmenn Strætó segja af sér

Sjá nánar á heimasíðu trúnaðarmanna Strætó.

Chomsky for Beginners

Höfundur: David Cogswell (Paul Gordon myndskreytir)
Útgáfuár: 1996
Efni: vinstri-pólitík, málvísindi, fjölmiðlagagnrýni, heimspeki

For Beginners bókaserían er bráðsniðugt fyrirbæri. Stóru nöfn heimspekinnar og annarra vísindagreina eru tekin fyrir (ásamt þessari bók keypti ég Sartre for beginners og Nietzche for beginners) og gerð greinaskil á lífi þeirra og verkum/hugmyndum á einfaldan og aðgengilegan máta auk þess sem myndskreytingar draga fram helstu áherslur textans og undirstrika þær. Útkoman er akkúrat það sem serían gefur sig út fyrir að vera, þ.e. góður inngangur að flóknum mönnum og hugmyndum á aðgengilegan hátt, fyrir byrjendur.

Þessi tiltekna bók er um málvísindamanninn og pólitíska gagnrýnandann Noam Chomsky. Hann er eins konar dýrlingur eða guðfaðir róttækrar vinstrimennsku nútímans og sem dæmi um það þá er hann alúðlega kallaður „Noam frændi“ af ýmsum vinstrimönnum og anarkistum, t.d. gera aðstandendur AK Press bókaforlagsins það reglulega. Sem slíkur þá er hann að sjálfsögðu gríðarlega umdeildur og hægrimenn í Bandaríkjunum keppast um að úthrópa hann sem föðurlandssvikara, stalínista og stuðningsmanns hinna ýmsustu einræðisherra víðsvegar um heiminn (Chomsky er sumsé Bandaríkjamaður af gyðingaættum). Það hefur meira að segja komið út bók sem heitir The Anti-Chomsky Reader sem safnar greinum sem gagnrýna Chomsky.

Noam frændi hafði þegar þessi bók kom út árið 1996 gefið út ríflega 30 bækur, ætli þær séu ekki nær 50 núna og þarmeð er erfitt að gera honum almennilega skil á svona fáum blaðsíðum en höfundur fær svo sannarlega prik fyrir að reyna.

Bókinni (sem er samtals um 140 síður) er skipt í 7 meginkafla: inngang höfundar, kafla um lífshlaup Chomskys, áhrifavalda hans, Chomsky sem málvísindamanns, gagnrýni Chomskys á fjölmiðla, pólitík hans og svo loks heilræði Chomskys um hvað hægt sé að gera við þeim vandamálum sem hann bendir á í ritum sínum.

Mér finnst óþarfi að fara að endursegja mikið úr bókinni eða lýsa skoðunum Chomskys í þaula, vilji fólk fræðast um það getur það orðið sér úti um þessa bók, en ég verð að segja að gagnrýni hans á fjölmiðla og sjálfsritskoðun þeirra í hinum undarlega heimi kapítalismans hittir naglann á höfuðið og er (eða var á sínum tíma) virkilega þörf á. Þar fyrir utan er hreinskilni og rökfesta Chomskys í allri orðræðu sinni um pólitík og ríkisvald hreint afbragð og erfitt að mæla gegn. Krafa hans um að sömu reglur eigi að gilda um alla, og sú gagnrýni hans á bandaríska utanríkisstefnu sem fylgir þeirri kröfu hans, er svo sjálfsögð en að sama skapi svo nauðsynlegt að henni sé haldið frammi og það er það sem gerir Noam Chomsky einn áhrifamesta pólitíska gagnrýnanda síðustu ára.

Hvað varðar þessa bók sem slíka þá mæli ég hiklaust með henni EN eingöngu fyrir byrjendur og þá sem ekkert þekkja til Chomskys og hans stjórnmála því fyrir þá sem þekkja til, eins og mig, er stór hluti þessarar bókar einfaldlega gamlar fréttir. Ég er þó virkilega ánægður með kaflann um Chomsky sem málvísindamann (hann hefur verið kallaður Einstein málvísindanna fyrir rannsóknir sínar og kenningar) því þá hlið hans þekkti ég ekkert til. Semsagt, frábær bók fyrir byrjendur en lengra komnir ættu bara að halda sig við að lesa rit mannsins sjálfs. (en mörg þeirra er hægt að nálgast á www.chomsky.info )

Þessi ritdómur birtist áður á bloggi höfundar.

Spánverjar framar Íslendingum varðandi jafnrétti

Spánverjar virðast vera á góðri leið með að fara langt fram úr Íslendingum hvað varðar jafnrétti kynjanna eftir því sem fram kemur í nýlegri grein af BBC. Í það minnsta er forsætisráðherrann þeirra, Zapatero, tilbúinn til að lýsa því yfir opinberlega að hann sé feministi og er ekki hræddur við að setja lög um kynjakvóta.

Svona til öryggis, fyrir þá sem enn ekki vita hvað orðið femínisti þýðir, þá er skilgreiningin á þessa leið: „Sá (af hvoru kyni sem er) sem gerir sér grein fyrir að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“

Á Spáni eru konur í meirihluta ráðherra ríkisstjórnarinnar, eða 8 af 15 (skv. BBC og Wikipediu (Council of Spanish Ministers)) og nú eru komin lög um að konur verða að vera minnst 40% frambjóðenda í kosningum þar í landi. Zapatero hefur einnig lýst því yfir að hann muni fara norsku leiðina varðandi fyrirtæki, þ.e.a.s. setja lög varðandi kynjahlutföllin í stjórnum fyrirtækja. Þannig munu þau fyrirtæki sem vilja eiga viðskipti við ríkið þurfa að uppfylla þennan 40% kynjakvóta í stjórninni.

Varðandi kynbundið ofbeldi hafa einnig nýlega verið sett lög sem eiga að veita konum meiri vernd og betri þjónustu innan réttarkerfisins, að því er virðist. Þannig hafa þær aðgang að sérhæfðum dómurum og lögfræðiþjónustu, auk þess sem hægt er að fá nálgunarbann á ofbeldisfulla menn innan nokkurra klukkustunda ef þess þarf.

Í greininni kemur einnig fram hversu íhaldsöm karlremba Berlusconi er – en hann lýsti því yfir nýlega að þetta væri nú allt „helst til mikið bleikt“ að hans mati, þarna á Spáni. Í greininni verður hann náttúrulega að athlægi í samanburði við Zapatero. Eins er gefið til kynna að kvenkyns ráðherrar á Ítalíu virðast meira metnar eftir útliti og komast áfram á því heldur en öðrum verðleikum.

Hér er tengill inn á þessa áhugaverðu grein á BBC.

Mismunun eftir lífsskoðunum

Eftirfarandi fréttatilkynning var að berast frá Siðmennt:

Menntamálanefnd Alþingis vill viðhalda mismunun lífsskoðana í skólakerfinu

Menntamálanefnd Alþingis hefur nýlega sent frá sér nýtt nefndarálit vegna frumvarps til laga um leik- og grunnskóla. Fjallaði nefndin m.a. ítarlega um markmiðskafla lagafrumvarpsins. Í rúm þrjátíu ár hefur þar verið að finna ákvæði um “kristilegt siðferði” sem átti að móta starf skóla. Með slíku ákvæði voru aðrar lífsskoðanir en kristnar virtar að vettugi og ein lífsskoðun upphafin yfir aðrar og það látið líðast í veraldlegum skóla. Fyrir þann tíma var markmiðssetning ekki deiluefni eins og orðið hefur öðru hvoru á undanförnum áratugum.

Þróun umræðu í átt til mannréttinda á undanförnum áratug hefur vakið upp spurninguna um réttmæti slíkrar upphafningar útfrá jafnræðissjónarmiði og mannréttindum. Dómur Mannréttindadómstólsins í Strassborg á síðasta ári í sambærilegu máli og athugasemdir Siðmenntar auk fjölda annarra félagasamtaka sem voru bornar fyrir nefnd menntamálaráðherra sem vann frumdrög nýrra frumvarpa varð til þess að ný markmiðssetning leit dagsins ljós. Hún kom til móts við mannréttindasjónarmið og gátu allir óháð lífsskoðunum, samþykkt hið nýja ákvæði. T.d. er lögð áhersla á, í áliti nefndarinnar, að orðalag nýju tillögunar um markmiðssetningu innihaldi það sem er m.a. kjarni kristilegs siðferðis án þess að vera merkt henni berum orðum. Húmanistar geta vel sætt sig við slíka útleggingu enda nefnd siðferðisgildi samrýmanleg húmanisma og almennum siðferðisgildum.

Siðmennt hefur í málflutningi sínum ítrekað bent á þá staðreynd að lög eiga að vera veraldleg og virða rétt ALLRA þjóðfélagsþegna en ekki bara hluta þeirra. Lög verða að túlka hið sammannlega og vera laus við ívilnanir, sérmerkingar eða taumhald einnar lífsskoðunar eða trúar umfram aðrar. Það kemur stjórn Siðmenntar á óvart að enn skuli menntamálanefnd ætla að bæta inn í frumvarpið óljósum hugtökum til þess eins að friða þá sem telja eina lífsskoðun hafna yfir aðra í skjóli meirihlutaraka og langrar sögu. Hér er átt við orðalag að starfshættir skóla skuli mótast af m.a. “kristilegri arfleið íslenskrar menningar”. Vilji menntamálanefndar virðist ekki stefna í átt til mannréttinda heldur viðhalda óeiningu og áframhaldandi átökum um markmið skóla á Íslandi.

Hvar var fólkið?

Á fimmtudaginn var fór ég á Austurvöll, þar sem vörubílstjórar höfðu boðað mótmæli. Mæting var frekar dræm, ekki nema nokkrir tugir fólks. Mótmælin voru að vísu boðuð á þeim tíma þegar flestir eru að vinna, kl. 10:30 að morgni, en það var samt skrítið að ekki skyldu fleiri mæta. Það var varla að lögreglan léti einu sinni sjá sig. Þar sem ekki var nægur mannskapur til að halda kröfufund á Austurvelli, var ákveðið að fara upp á þingpalla í Alþingishúsinu í staðinn. Þangað fóru tæplega 30 manns. Þar á meðal ég. Framan af bar ekki neitt til tíðinda. Alþingi ræddi um viðbrögð við skjálftunum í Kína og hvort senda ætti rústabjörgunarsveit til Sichuan. Sturla Jónsson kallaði fram í að þeim væri nær að hjálpa fólkinu hér á Íslandi heldur en að vera að blanda sér í vandamál erlendis. Síðan gekk hersingin út. Þar á meðal ég.

Vörubílstjórar þyrftu að hugsa taktíkina aðeins betur. Hér eru nokkrir punktar til umhugsunar:

Ríkisstjórnin gæti lækkað einhverjar álögur, en það væri í besta falli skammgóður vermir. Í versta falli mundi það herða hnútana og gera vandamálin ennþá erfiðari en þau eru núna, því olíuverð heldur áfram að hækka og einn daginn munu engar skattalækkanir duga. Nei, það er þörf á nýrri nálgun og hún heitir skömmtun. Já, það er tabú að tala um skömmtun á nauðsynjavörum, en sættum okkur við tilhugsunina. Skömmtun er nefnilega óumflýjanleg: Annað hvort er skammtað eftir þörfum fólks (hefðbundin skömmtun) eða eftir getu þess til að borga (hátt verð = líka skömmtun). Af þeim tveim kostum er aðeins annar sanngjarn. Nánar um skömmtun hér: Vörubílstjóramótmælin: Svarið við spurningunni.

Vörubílstjórarnir eru sterkastir þegar þeir eru um borð í vörubílunum. Fimmtíu manna fundur getur vakið einhverja eftirtekt, en fimmtíu vörubílar sem lötra Ártúnsbrekkuna vekja óneitanlega meiri. Þeir ættu að halda áfram að nota bílana, en reyna að forðast götur sem er hættulegt að loka. Það er ekki í lagi að loka Keflavíkurveginum, en það er allt í lagi að loka Miklubrautinni. Þegar hægt er að hanka menn á því að þeir loki fyrir umferð sjúkrabíla eða slökkviliðs, þá er samúð almennings fljót að minnka.

Það nær engri átt að stilla dæminu þannig upp að vörubílstjórar sitji á hakanum vegna þess að stjórnmálamenn séu of uppteknir við að hugsa um Palestínu eða Kína. Annars vegar er vandamálum Palestínumanna og Kínverja ekki saman að jafna við vandamál vörubílstjóra, hvorki að eðli né umfangi. „En sjáið okkur“-tal er rugl þegar hinir týna lífi í þúsundatali og spillir bara fyrir vörubílstjórunum. Hins vegar er það rugl að þetta sé eitthvað gagnkvæmt útilokandi. Stjórnmálamenn þurfa ekkert að hætta að tala um vandamál erlendis þótt þeir taki vandamál heima fyrir líka á dagskrá. Það er ekki eins og valið standi milli þess að hjálpa annað hvort þeim eða okkur.

Vörubílstjórar eru í slæmri stöðu, því neita fáir. Það á að vera hægt að spila þetta betur. Almenningur er vís til að leggja sitt á vogarskálarnar ef hann sér ástæðuna fyrir því og hefur tækifærin til þess. Vörubílstjórar þurfa því að boða mótmæli sem almenningur getur tekið þátt í, og tengjast náttúrlegum bandamönnum, á borð við t.d. verkalýðshreyfinguna og auðvitað stjórnarandstöðuna. Þessari baráttu er vel hægt að tapa en hana er líka vel hægt að vinna.

Félag Litháena á Íslandi stofnað

Félag Litháena á Íslandi hélt sinn fyrsta fund á laugardaginn 17. maí í húsnæði Alþjóðahússins við Hverfisgötu 18. Markmið félagsins eru að kynna litháenska menningu, vera málsvari Litháena á Íslandi og bæta ímynd þeirra. Stefnt er að því að halda menningarlega atburði, reglulega fundi og stofna til samstarfs við ýmsa aðila og samtök í samfélaginu. Fyrirspurnir berist til formanns félagsins Ingu Minelgaite (inga.minelgaite at gmail.com). <!– document.write( '‘ ); //–> This email address is being protected from spam bots, you need Javascript enabled to view it <!– document.write( '’ ); //–>