Af framhaldsstofnfundi Alþýðufylkingarinnar

Á velheppnuðum framhaldsstofnfundi Alþýðufylkingarinnar sl. laugardag var stefnuskrá samtakanna samþykkt formlega, ásamt fjórum ályktunum.

Í framkvæmdastjórn voru kjörin: Claudia Overesch, Einar Andrésson, Óskar Höskuldsson, Sigríður Kristín Kristjánsdóttir, Tinna Þorvaldsdóttir, Vésteinn Valgarðsson (varaformaður) og Þorvaldur Þorvaldsson (formaður). Auk þeirra voru kjörin í miðstjórn: Björgvin Rúnar Leifsson, Gyða Jónsdóttir, Jóhannes Ragnarsson og Reynir Snær Valdimarsson.

 

Almenn ályktun framhaldsstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16. febrúar 2013

Öll máttarvöld auðvaldsins berjast nú hatrammri baráttu fyrir því að velta oki kreppunnar yfir á alþýðuna. Það er m.a. gert með því að koma tapi banka og stórfyrirtækja yfir á ríkissjóð og lífeyrissjóði, en einnig með beinu arðráni í formi okurlána til heimila og fyrirtækja. Bankarnir og þeirra gæðingar eru þannig á endanum á fæðukeðju auðvaldsins og gleypa allt sem ætilegt er. Til að lífvænlegt verði í landinu er alger stefnubreyting nauðsynleg. Þjóðin hefur fengið forsmekkinn af afleiðingum þess að markaður kapítalismans stjórni samfélaginu. Að óbreyttu heldur kreppan áfram í dýpri og dýpri sveiflum.

Alþýðan hefur átt í vök að verjast en verður að snúa vörn í sókn í stéttabaráttunni. Til að hagkerfið geti náð jafnvægi og þjónað samfélaginu er nauðsynlegt að félagsvæða alla innviði þess og þá ekki síst fjármálakerfið. Þannig skapast mikið svigrúm til að efla velferðina á öllum sviðum og auka jöfnuð og lífsgæði. Þetta er eina leiðin til að leysa vanda þeirra þúsunda fjölskyldna sem eru fastar í skuldafjötrum og leysa úr læðingi þau samfélagslegu gæði sem efni standa til.

 

Ályktun framhaldsstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16.2. 2013 um umhverfis- og auðlindamál

Þrátt fyrir nýsamþykkta rammaáætlun um raforkunýtingu hér á landi og þá almennu skoðun að auðlindir þjóðarinnar skuli vera sameign, hefur Íslandsbanki uppi áform um fjármögnun á tvöföldun raforkuframleiðslu á Íslandi næsta áratuginn. Þar með yrðu tæmdir möguleikar á frekari raforkuvinnslu í landinu. Á sama tíma eru uppi áform um að leggja sæstreng til Skotlands til að flytja út raforku til Evrópu. Allt ber þetta að þeim brunni að gera auðmönnum kleift að taka út gróða af orkuauðlindinni en velta kostnaði af gríðarlegri fjárfestingu yfir á samfélagið ásamt stórhækkun á orkuverði til almennings og framleiðslufyrirtækja. Það er undarleg forgangsröðun að undirbúa lagningu rafstrengs til Skotlands meðan bíða þarf meira en áratug eftir þriggja fasa rafstreng í Meðalland í Skaftafellssýslu.

Tilburðir auðmanna til að braska með auðlindir eru alvarleg ógn við náttúru og umhverfi, við sjálfbæra nýtingu auðlindanna og efnahag þjóðarinnar.

 

Ályktun framhaldsstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16.2. 2013 um friðarmál

Nú þegar 10 ár eru liðin frá innrás Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri ríkja í Írak hafa allar verstu spár komið fram. Íraska samfélagið hefur þurft að líða miklar þjáningar og allir innviðir þess eru í rúst. Fyrir 10 árum reis upp öflug hreyfing um allan heim gegn stríðinu og fyrir friði. Þessi hreyfing hefur síðan látið mikið undan og að sama skapi hafa heimsvaldaríkin farið með vaxandi yfirgangi og ofbeldi með minnkandi mótspyrnu. Þetta á ekki aðeins við í Írak og Afganistan, heldur einnig Líbýu, Sýrland og víðar.

Kreppa kapítalismans skapar vaxandi stríðshættu um allan heim. Það er því nauðsynlegt að efla friðarhreyfinguna svo hún verði fær um að beita sér gegn stríðsátökum á byrjunarstigi.

 

Ályktun framhaldstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16.2. 2013 um ESB

Þegar ríkisstjórnin sótti um aðild Íslands að Evrópusambandinu var látið að því liggja að það væri sakleysisleg athugun á því hvað væri í boði í samningaviðræðum. En síðan hefur milljörðum verið eytt í aðlögun að Evrópusambandsaðildinni og mútur í formi styrkja til að afla málinu fylgis. Hvergi er hins vegar talað um að aðild að sambandinu muni kosta tugi milljarða í aðildargjald.

Svo virðist sem beðið sé eftir hentugu tækifæri til að afgreiða málið þegar þjóðin hefur fengið upp í kok af áróðri og þá verði notað sem rök að svo miklu hafi verið eytt í aðildarundirbúninginn að ekki megi láta það fara til spillis. Einnig talar Samfylkingin um aðild að ESB eins og um sé að ræða lausn á gjaldmiðilsvanda.

Aðild að Evrópusambandinu snýst hins vegar hvorki um gjaldmiðil eða möguleika á styrkjum. Þegar allt kemur til alls snýst hún um sjálfstæði þjóðarinnar og möguleika hennar á að taka lýðræðislegar ákvarðanir um framtíð sína. Kjarninn í regluverki ESB snýst um frjálshyggju og markaðsvæðingu. Allt skal keypt og selt á markaði sem mögulegt er. Þannig vilja auðmenn ESB komast yfir samfélagsleg gæði á Íslandi, auðlindir, vinnuafl og fyrirtæki, eins og í Grikklandi og öðrum ríkjum ESB. Það mun auka enn á ójöfnuð og torvelda okkur sem þjóð að breyta því og vinda ofan af markaðsvæðingunni.

Eftir kapítalismann

Plebbar höfða nú, eins og ætíð, til stjórnmálamannanna sinna um að „gera eitthvað“ í fjármálakreppunni svo við getum haldið áfram að spreða, ofneyta og keppa við hvert annað. Þeir vilja vinna meira, fá meiri laun og kaupa meira drasl. Menn leita til Evrópusambandsins og vona að það muni einhvernveginn bjarga þessum lífsstíl.

Þetta fólk er á villigötum. Kapítalisminn mun aldrei ná sér. Hann er í dauðaslitrunum; að minnsta kosti í þeirri mynd sem við erum vön. Fyrir því liggja margar ástæður, ekki síst krafa kapítalismans til fyrirtækja um stöðugan vöxt. Þetta vaxtarkapphlaup getur ekki haldið áfram endalaust, enda reiða leikmenn í kapítalísku hagkerfi sig ekki einungis á vinnuafl og tækniframfarir í leit sinni að gróða og lífi, heldur einnig hráefni. Nú stendur framboð á þessum grundvallarauðlindum á þolmörkum.

Náttúran ræður ekki við meiri kapítalisma. Ekki er hægt að auka framleiðslu að því ráði sem vaxtarkrafa kapítalismans krefur. Ef við tökum einungis kröfur bankanna um vexti á lánum, er heldur ekki nógur möguleiki á framleiðsluaukningu til að fóðra þá holu. Svo að dæmi sé tekið mun fiskframleiðsla ekki aukast á heimsvísu úr þessu. Engin fiskveiðisvæði eru lengur óhreyfð, þökk sé rányrkju frá ríkjum eins og Íslandi. Sama ríkir um landbúnað. Stöðug aukning mannfjölda krefst æ stærri landsvæða sem áður voru notuð í hráefnaframleiðslu. Framleiðsluaukning á slíkum vörum er brátt ekki möguleg heldur. Græna byltingin byggðist á olíu, og framboð hennar fer þverrandi.

Of margt fólk sem keppist um of litlar náttúruauðlindir, og þróunin er ekki í rétta átt. Kapítalisminn hefur engar innbyggðar lausnir á þessu.  Ef við viljum ímynda okkur framtíðina undir kapítalismanum, ekki horfa til Hollywood. Við skulum horfa til pappakassabyggða Sao Paolo, Nýju Delhí og Mexíkóborgar.

Okkar fyrirkomulag gengur í algjörum grundvallaratriðum á náttúruna og hin blákaldi veruleiki er, að haldi það áfram mun það gera líf á hnettinum ómögulegt. En það er svo merkilegt, eins og heimspekingurinn Slavoj Zizek benti á, að við eigum nú auðvelt með að sjá fyrir okkur útrýmingu mannkyns, en við getum ekki ímyndað okkur róttæka breytingu á samfélagskerfinu sem við búum við; að finna aðra leið er óhugsandi, jafnvel þó þessi leiði okkur í gröfina.

Kapítalisminn mun deyja. En það verður ekki sigur fyrir okkur andstæðinga hans. Því mætti líkja við brottför bandaríska hersins á Íslandi. Það var ekki sigur fyrir hernaðarandstæðinga; tilvist þeirra hafði engin áhrif á þá ákvörðun að draga herliðið út. Nei, kapítalisminn deyr algerlega af sjálfum sér.

Hvað er til ráða?
Hvað okkar hlutverk varðar getum við einungis reynt að vera framsækin: Við megum ekki grafa hausinn í sandinn og láta sem allt muni verða eins og áður. Við þurfum að breyta kerfinu frá rótum svo að líf á jörðinni verði þolanlegt. Það er það sem felst í hugtakinu róttækni; að leita að rótum vandans.

Stjórnmálaflokkar eru ekki leiðin. Fólk eyðir of miklum tíma að þræta um stjórnmálaflokka og notar of lítinn tíma í að gera eitthvað í því að bæta samfélagið, almennt.  Eitt stærsta vandamálið hjá róttæklingum er oft það að menn festast gjarnan í þrætum við sína líka, um einhvern tittlingaskít. Öll starfsorka róttæklinganna fer oft í slíkar þrætur, eða væl út í stjórnmálamenn. Ef menn notuðu meiri tíma í að hanna þann veruleika sem menn vilja og nota orkuna á uppbyggilegan hátt væri lítið sem gæti komið í veg fyrir að við myndum bylta auðvaldskerfinu. Auðvaldið, eins og önnur yfirvöld, byggist ætíð á blekkingu, enda er valdið aðeins raunverulegt ef við látum það vera raunverulegt; ef við högum okkur eins og það sé raunverulegt. Auðvaldið kann að spila með fólk, með áróðri og hótunum. Sniðgöngum það.

Núverandi mótafl við kröfur viðskiptanna eru grasrótarsamtök. Róttæk samvinnufélög, peningalaus vöru- og þjónustuskiptakerfi, permakúltúr, sjálfstæðar upplýsingaveitur o.s.frv. Við verðum að byrja nú þegar að móta stofnanir sem gera mögulegt samfélag, þar sem hagsmunir allra sem það mynda koma saman við hagsmuni náttúrunnar í heild. Vissulega er slíkt starf þyrnum stráð á meðan kerfið höktir áfram. En ef við neitum að horfa áfram og höldum kapítalismanum í öndunarvél þá eru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Við þurfum að gera eins og alkarnir, að viðurkenna að við höfum ekki stjórn á kapítalismanum, hann stjórnar okkur. Við þurfum samt ekki að örvænta svo fremi sem við erum vel undirbúin þegar tíminn kemur.

Útifundur Radda fólksins á morgun laugardag

Fréttatilkynning.

Raddir fólksins boða til útifundar um stjórnarskrármálið næstkomandi laugardag, 19. janúar klukkan 15.00 á Austurvelli.

Alþingi ber að virða skýran vilja kjósenda, eins og hann kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október. Meiri hluta Alþingis ber að láta þann vilja ná fram að ganga.

Ræðumenn:

Illugi Jökulsson, rithöfundur og blaðamaður
Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur

Á undan fundinum mun Svavar Knútur flytja nokkra söngva sinna.

Fundarstjóri: Hörður Torfason

Raddir fólksins

Stofnun Alþýðufylkingarinnar

Laugardaginn 12. janúar 2013 voru stofnuð ný stjórnmálasamtök í Reykjavík undir nafninu Alþýðufylkingin. Alþýðufylkingin ætlar sér fulla þátttöku í íslenskum stjórnmálum á landsvísu og hvetur alþýðufólk til virkrar þátttöku. Á fundinum voru samþykktar stofnsamþykkt og ályktun. Þá voru samþykkt lög samtakanna og drög að stefnuskrá, sem lögð verður fyrir framhaldsstofnfund í febrúar. Á fundinum var kjörin þriggja manna bráðabirgðastjórn en á framhaldsstofnfundi verður kosin forysta í samræmi við lög samtakanna. Opnuð hefur verið bráðabirgðavefsíða og hægt er að hafa samband við samtökin gegnum netfangið althydufylkingin@gmail.com . Í bráðabirgðastjórn Alþýðufylkingarinnar vornu kjörnir Þorvaldur Þorvaldsson, Vésteinn Valgarðsson og Einar Andrésson.

Lög Alþýðufylkingarinnar
Stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar (drög)

Fundur á laugardag um framtíð íslenskrar vinstrihreyfingar

Rauður vettvangur boðar til fundar í Iðnó laugardaginn 6. október kl. 13. Framsögumenn verða Andrés Magnússon geðlæknir, Guðbergur Egill Eyjólfsson bóndi og háskólanemi, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir sagnfræðingur og Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður.

Nú þegar æ fleiri vinstrimenn þykjast sviknir af stefnu núverandi ríkisstjórnar vaknar umræðan um þörf fyrir nýjan, trúverðugan vinstriflokk fyrir næstu kosningar. Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að bjarga einkareknum bönkum og viðhalda aðstöðu þeirra til að féfletta almenning, eða að taka fjármálastofnanir í þjónustu fólksins? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að binda íslenskt samfélag á klafa evrópsks auðvalds til frambúðar, eða styrkja fullveldið þjóðinni til hagsbóta? Á vinstrisinnuð ríkisstjórn að auka ítök auðvaldsins á auðlindum lands og sjávar, eða efla félagsleg yfirráð þjóðarinnar yfir þeim? Þessar og fleiri spurningar þurfa vinstrimenn að ræða af alvöru og finna niðurstöðunni farveg við hæfi.

Berjumst gegn áróðri

„Að gróðareknum áróðri hafi tekist, í svo langan tíma, að sannfæra okkur um það að við séum laus við áróður í okkar samfélagi, er hugsanlega eitthvert mesta afrek fortölulistarinnar á tuttugustu öldinni.“[1]

Ef einhver heldur að áróður sé eitthvað sem er stundað Norður-Kóreu, eða eigi heima í sögum um Þýskaland nasismans, er það ekki rétt. Hvergi í heiminum starfa fleiri við, né er meira fé varið í, áróður en hér á Vesturlöndum. Það þarf ekki annað en að skoða nokkrar helstu tegundir áróðursstofanna til að sjá að áróður er ekki einungis á uppleið, megnið af þeim upplýsingum sem berast almenningi í gegnum fjölmiðlana á rætur sínar að rekja til áróðursfyrirtækja.

Almannatengsl eru ein stærsta uppspretta áróðurs í samfélaginu. Þetta fyrirbæri er uppfinning Edwards Bernays. Orðið, public relations, fann hann einfaldlega upp þegar orðið propaganda var orðið óvinsælt, en merkingin var sú sama. Almannatengsl var, og er, iðnaður sem snýst um að beita áróðri í gróðaskyni á friðartímum. Tilgangur þeirra er að dreifa áróðri sem hentar skjólstæðingi almannatengslafyrirtækisins. Öllum brögðum er þar beitt og höfuðáherslan er engin sannleiksmiðlun. Þetta er gríðarlega ört vaxandi iðnaður; samkvæmt heimasíðu vinnumálastofnunar Bandaríkjanna störfuðu um 320 þúsund manns í almannatengslageiranum árið 2010 og reiknað var með 21% vexti næstu tíu árin. Til samanburðar unnu á þeim tíma 58.500 sem blaðamenn og fréttarýnar, og áætlað var að þeim myndi fækka um 6% næstu tíu árin. Almannatengslasérfræðingar skrifa nú fréttirnar, annað hvort í formi fréttatilkynninga, sem eru sendar sem tilbúnar fréttir, eða einfaldlega með því að vinna hlutavinnu á fréttastofunum. Þetta eru pennar sem eru á leigu hjá fjársterkum aðilum, við að koma þeim upplýsingum á framfæri sem hentar þeim aðilum, og það eru nú þeir sem skrifa fréttirnar sem við neytum daglega.

Akademían skipar stóran sess í þróun áróðurs. Umfangsmiklar fræðigreinar fjalla um áróður eftir mismunandi nálgun. Samskiptafræði (communication studies), markaðsfræði, auglýsingar og almannatengsl, fortölufræði og rannsóknir á almannaáliti (public opinion) eru allt afsprengi rannsókna á áróðri. Þetta er heill heimur af rannsóknum, sem er fyrst og fremst notaður til að finna bestu aðferðirnar við að möndla með hugmyndir, álit, skoðanir og hegðun fólks, án þess að það geri sér grein fyrir því.

Eins og ætíð er það samt stríðslistin sem er fánaberi áróðurs. Herir Natóríkjanna, þá ekki síst Bandaríkjanna, ráða yfir sínu eigin áróðursbatteríi. Því er skipt upp í margar einingar. PsyOps, eða sálfræðiaðgerðir, felast í tækni til að dreifa áróðri til óvina til að lama siðferðisþrek þeirra; Public Affairs er deildin sem sér um að réttar upplýsingar rati í fjölmiðlana (innlenda og erlenda); deildin um Information Warfare sérhæfir sig í áróðri sem notast beint í hernaðarskyni. Ríkið bætir stöðugt við sig og í júní voru ný lög skráð í Bandaríkjunum, The National Defence Authorization Act (NDAA) sem einfalda lagaflækjur sem tengjast stórfelldum ríkisáróðuri sem beint er gegn Bandaríkjamönnum sjálfum (og öllum öðrum). Rúsínan í pylsuendanum er CIA. Sú stofnun starfar langt fyrir utan ramma nokkurra laga, einnig á sviði áróðurs. Oft hefur komist upp um CIA starfsmenn sem starfa sem blaðamenn, í rannsóknarstofnunum og í leynilegum plottum um að steypa ríkisstjórnum af stóli. Enginn kemst með hælana þar sem Bandaríkin hafa hælana, á sviði áróðurs, enda nota þeir meira fé í her sinn en öll önnur ríki til samans.

Flest ríki beita slíkum brögðum, en því ríkari og valdameiri sem þau eru, þeim meiri mátt hafa þau á sviði áróðurs. En þó að erlendar stofnanir hafi meiru úr að moða til að dreifa áróðri, eru innlendar áróðursstofnanir einnig öflugar. Almannatengslaiðnaðinum vex ásmegin og stærstu fyrirtæki og stofnanir landsins reka umfangsmikinn áróður fyrir sinni starfsemi. Þeim mun ríkari og valdameiri sem stofnunin er, þess betur er hún í stakk búin að stunda áróður. Starfsemi áróðursdeildanna er svo umfangsmikil að nærri ómögulegt er að ná yfir hana. Hverjir standa svo andspænis þessum gríðarlega her áróðursmeistara? Nokkrir illa launaðir blaðamenn, einstaka fræðimenn og áhugamenn, og svo einstaklingar sem reka blogg og heimasíður. Hið almenna skólakerfi kennir ekki hvernig má bera kennsl á áróður, engin stofnun hefur eftirlit með áróðursiðnaðinum.

Lykilatriðið er þetta: Það er einkum á færi hinna fjársterku að halda uppi öflugum áróðri. Það má halda því fram að lítil vefrit eins og Eggin séu áróðursrit, en það er ónákvæmt. Það er munur á áliti, skoðun eða áherslum annarsvegar og áróðri hinsvegar. Áróður er skipulögð og kerfisbundin herferð til að hafa áhrif á skoðanir, hugmyndaheim og hegðun fólks í ákveðnum pólitískum og efnahagslegum tilgangi og til þess að falla undir algengustu skilgreiningar á áróðri þarf ákveðin leynd að ríkja yfir tilgangi þeirra. Það er stór munur á nýjustu herferð Evrópusambandsins um að sannfæra Íslendinga og fleiri Evrópubúa um að ganga í sambandið, með verkefnum á borð við „Enlargement and Integration Action 2013“ sem veitir tugum, ef ekki hundruðum félagsvísindamanna atvinnu við áróðursstörf, og sjálfstæðum skrifum áhugamanna.

Eina mótvægið við þessum yfirgangi áróðursfyrirtækjanna er grasrótarvinna. Við verðum að halda uppi sjálfstæðum upplýsingaveitum, vera dugleg við að láta í okkur heyra og, ekki síst, að ljóstra upp um áróðursherferðir og fræða hvert annað. Sniðgöngum stóru fjölmiðlana og verum okkar eigin upplýsingaveitur.


[1] Alex Carey, úr bókinni Taking the risk out of Democracy: Corporate Propaganda versus Freedom and Liberty.

Stéttabaráttuflokkar og blóðsuguflokkar

Nýlega voru nokkrir róttæklingar norðan lands á fundi. Þar kom fram vilji til að hraða sér að stofna flokk, flokk sem gæti boðið fram í vor. Lögð voru fram nokkur stefnumál fyrir vinstri flokk, yfirleitt góð og gild umbótamál og græn mál, málin sem VG sveik og fleira í þeim dúr. Stefnumál sem fara þó ekki út fyrir ramma kapítalismans. Vésteinn Valgarðsson  segir sig úr VG og segir í úrsögninni að Ísland þurfi sósíalískan flokk. Hann útskýrir þó ekki hvað í því felst, enda greinagerðin stutt..

Ég hélt því fram á fundinum að við þyrftum ekki enn einn „vinstri“ flokkinn heldur byltingarsinnaðan flokk sem a) berst fyrir byltingu, afnámi auðvaldskerfisins (þ.e.a.s. afnámi efnahagskerfis einkaeignar á atvinnutækjunum) og b) berst jafnframt fyrir umbótum innan ríkjandi þjóðskipulags en ekki eftir leið þingpallabaráttu og stjórnarþáttöku heldur setur sér það meginverkefni að leiða og skipuleggja fólk í stéttabaráttunni.

Friedrich Engels skrifaði árið 1884 (í Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins) að almennur kosningaréttur gæti aðeins verið mælikvarði á pólitískan þroska verkalýðsstéttarinnar. Það er rétt hjá honum. Borgaralegt þingræði er bærilegra fyrir almenning en nakin kúgun, en þingræðið er dulargerfi, það er hula lýðræðis utan um arðrán og stéttardrottnun. Í því liggur slævandi styrkur þess.

Hugmyndin um þingræðislega leið til alþýðuvalda er blekking. Vald auðstéttarinnar byggist á tvennu: í fyrsta lagi á yfirráðunum yfir auðmagninu og í öðru lagi á yfirráðum yfir ríkisvaldinu – her, lögreglu, embættismannakerfi auk þjóðþings – sem er tæki stéttardrottnunar og samofið eignakerfi atvinnulífsins, en ríkið þykist standa fyrir ofan og utan stéttirnar. Þetta ríkisvald verður aldrei vald í höndum fólksins. Hins vegar býr alþýðan yfir valdi. Það er fólgið í samtakamætti, hinu samstillta átaki, hinni stéttarlegu samþjöppun sem auðvaldsþróunin hefur framkallað. Marx ritaði: „Einu frumskilyrði sigursins ráða verkamennirnir yfir: mannfjöldanum, en fjöldi er því aðeins afl að hann sé sameinaður í samtökum og láti stjórnast af reynslu og þekkingu. (Marx/Engels, Úrvalsrit II, 215) Alþýðuna vantar stjórnmálaafl sem setur sér þetta hlutverk: „að finna, í samfélaginu sem er umhverfis okkur, öflin sem geta – og, vegna félagslegrar stöðu sinnar, verða – að mynda það afl sem getur svipt burt því gamla og skapað það nýja, og að upplýsa og skipuleggja þessi öfl fyrir baráttuna.“ (Lenín: „Þrjár rætur og þrír þættir marxismans“, Eggin, vefrit um samfélagsmál 25. sept)

Þingpallaleiðin er blekking. Í fyrsta lagi er hún hættuleg. Ef róttækir sósíalistar gerast áhrifamiklir og ógna þjóðfélagslegu valdi og eignum borgarastéttarinnar lætur hún af lýðræðistilburðum og beitir valdi miskunnarlaust. Dæmin eru mörg og blóðug: Indónesía 1965, Grikkland 1945-46 og aftur 1967 og Chile 1973 eru nokkur.

Þar að auki er þingpallaleiðin ekki neinum umbótum til framdráttar. Raunar er besta aðferðin til að drepa hreyfingu kringum ákveðið málefni að gera málefnið að framboðsmáli til Alþingis og flokksmáli, eða beinlínis stofna kringum það flokk.

Nokkur dæmi:

  1. Vakning um kvenfrelsun og jafnréttismál. Þar var mikil hreyfing um og upp úr 1980, með miklu grasrótarstarfi. Eftir að Kvennalistinn eignaðist þingmenn yfirtók hann málefnið, gerðist hefðbundinn þingpallaflokkur, og almennar baráttukonur máttu fara heim og leggja sig. Upp á síðkastið hefur þróun til launajafnréttis mjög hægt á sér eða stöðvast, klámvæðing sótt í sig veðrið o.s.frv.
  2. Samtök um þjóðareign var öflug hreyfing byggð á andstöðu við kvótakerfið, framseljanlegan kvóta o.s.frv. Hún hafði með sér sjómenn og minni útgerðarmenn vítt um land. Árið 1998 var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður um málið. Baráttunni var veitt í þingpallafarveg. Þar með varð þessi andspyrna að flokksmáli sem varð smám saman til að drepa eða gera óvirka þá hreyfingu sem var fyrir hendi í þessu risastóra hagsmunamáli alþýðu vítt um land.
  3. Íslandshreyfingin var hreyfing gegn stóriðjustefnunni sem grasseraði á þenslutímanum upp úr 2000, og andstaðan gegn henni óx líka mjög. Hreyfingin átti sinn hápunkt þegar hún safnaði 15.000 manns í mótmælagöngu niður Laugaveg árið 2006. Þessi hreyfing og málefnið var svo gert að flokksmáli. Ómar Ragnarsson stofnaði Íslandshreyfinguna sem flokk og fékk 3% í kosningum 2007. Flokkurinn komst ekki inn á þing og dó þar með. En í raun var það VG sem náði að gera andstöðu við stóriðjustefnuna að flokksmáli sínu. VG var nánast eins máls flokkur þessi ár þegar Kárahnjúkaframkvæmdir voru undirbúnar og framkvæmdar. Flokkurinn tók að sér að stöðva stóriðjustefnu og einkavæðingu í orkugeira m.m. ef hann fengi þingstyrk og kæmist í stjórn – og hann sópaði að  sér fylginu. En var að vanda gagnslaus við að skipuleggja grasrótarbaráttu. Fjöldahreyfingin lognaðist smám saman út af. Síðan fór flokkurinn í ríkisstjórn og stóriðjustefna stjórnvalda hélst lítið breytt.
  4. Í Búsáhaldabyltingunni flæddu íslensk stjórnmál og stéttaátök um stundarsakir út úr hinum löggilta, þingræðislega og snyrtilega farvegi sem valdakerfið hefur veitt þeim í. Almenningur steig fram á sviðið, fólk hegðaði sér allt öðru vísi en venjulega, fór út á götur og torg, fór í samstilltar aðgerðir. Gerði m.a.s. tilkall til valda í landinu. Grasrótarbarátta fór af stað í skuldamálum heimila, Icesave-málum m.m. Enn sem áður vantaði þó stjórnmálaafl sem gat tekið forustu og skipulagt slíka stéttabaráttu fram á við. Það voru hins vegar vinstri kratar og hentistefnumenn sem riðu á bylgjunni í bland við ýmsa aðgerðarsinna sem ekki höfðu neina sameiginlega stefnu. Stjórnmálaflokkurinn Borgarahreyfingin varð til og bauð fram til þings. VG tók Lilju Mósesdóttur í öruggt sæti og fleira búsáhaldafólk neðar. Í komandi kosningabaráttu og áfram færðist öll þungamiðja baráttunnar inn í þingið og almennt búsáhaldalið mátti fara heim og leggja sig.

Þeir þingpallaflokkar sem hér voru nefndir hafa slfsagt talið sig vera í andstöðu við ríkjandi kerfi. En þeir haga sér allir eins. Þeir leiða ekki andstöðuna (hvort sem það er skipuleg hreyfing eða óskipuleg ólga) heldur leggjast á hana og sjúga úr henni blóðið. Af því fitna þeir rétt á meðan viðkomandi andstaða/hreyfing er að  tærast upp. Síðan veslast þeir upp sjálfir nema þeir finni aðra andstöðu til að blóðsjúga. Svona virkar þingræðiskerfið – eins og því er ætlað að virka.

Rétt er að taka fram að VG getur ekki lengur kennt sig við kerfisandstöðu. Enginn flokkur fær að fara í ríkisstjórn nema hann ábyrgist að tryggja auðvaldinu ásættanlega arðsemi. Það hlutverk hefur VG gengist inn á. Bless VG.

Við verðum að viðurkenna að hugmyndin um grasrótarbaráttuna, það að „finna, upplýsa og skipuleggja“ mótaflið í samfélaginu stendur enn veikt á Íslandi. Jafnvel vinstri menn sitja mest og mæna á bramboltið og tilburðina á Alþingi – eins og málin ráðist þar. Þar við bætist að lítið hefur enn gerst í því að endurreisa verkalýðshreyfinguna til baráttu. Á meðan brennur Róm. Kapítalisminn sem á sínum tíma var framfaraskref frá stöðnuðu stigveldi lénskerfis hvílir nú sem ægilegt farg á herðum mannkyns og boðar fyrst og fremst eyðingu. Tíminn æpir á byltingarsinnaðan valkost, á Íslandi sem annars staðar.

Ég mæli ekki gegn þáttöku í þingkosningum. En það getur aldrei verið nema ein hlið starfsins af mörgum og alls ekki sú mikilvægasta. Mér finnst ekki liggja á að stofna flokk, því síður framboðskláran flokk. Eðlilegt milliskref er að stofna hreyfingu eða samtök sem temja sér nýjar aðferðir í pólitísku starfi, í anda þess sem hér hefur verið skrifað. Og eitt verkefni blasir við: Koma verður upp umræðuvettvangi fyrir róttæklinga varðandi það stjórnmálaafl sem beðið er eftir. Þessi grein er lítið innlegg þar í.

Argentíska leiðin – stutt athugasemd og myndband

Þegar kíkt er yfir atvinnuauglýsingarnar í íslenskum fjölmiðlum sést vel hvernig ástatt er og hvert stefnir í samfélagsmálum á Íslandi. Störfin eru fá og margir um þau. Ríkið auglýsir verkefnastjóra fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu og öryggisverði. Fátækt eykst stöðugt á Íslandi, eins og óöryggi á vinnustöðum. Þetta mun ekki breytast að sjálfu sér. Hvorki einkafyrirtæki né hið opinbera mun breyta þessarri þróun. Horfur í efnahagsmálum í okkar heimshluta eru ekki bjartar. Ekkert virðist geta komið í veg fyrir algjört efnahagshrun á Vesturlöndum, enda er skuldasöfnunin löngu orðin stjórnlaus.

Við getum tekið málin í okkar eigin hendur. Ein leiðin felst í því að við, verkafólk, tökum völdin yfir fyrirtækjunum og samfélagsstofnunum með nýrri samvinnuvæðingu. Stofnum samvinnufélag með vinum okkar. Búum til okkar eigin vinnustað í stað þess að fara á hnén eftir starfi frá öðrum. Notaðu hæfileikana sem þú býrð yfir, hvort sem það felst í því að rækta mat, þróa hugbúnað, sauma föt, byggja eða hvað það nú er, ásamt fólki sem þú þekki og treystir. Stefnan er að byggja upp fyrirtæki sem byggir á bræðralagi, lýðræði á vinnustaðnum, samvinnu og trausti. Það er svo skylda hvers samvinnufélags að stunda viðskipti og samstarf við önnur samvinnufélög. Þannig má mynda óformlegt net félaga sem miða að uppbyggingu samfélags sem við erum alvöru þátttakendur í.

Þessi stefna hefur reynst vel í ríkjum sem hafa lent í efnahagshremmingum.