Eftir kapítalismann

Plebbar höfða nú, eins og ætíð, til stjórnmálamannanna sinna um að „gera eitthvað“ í fjármálakreppunni svo við getum haldið áfram að spreða, ofneyta og keppa við hvert annað. Þeir vilja vinna meira, fá meiri laun og kaupa meira drasl. Menn leita til Evrópusambandsins og vona að það muni einhvernveginn bjarga þessum lífsstíl.

Þetta fólk er á villigötum. Kapítalisminn mun aldrei ná sér. Hann er í dauðaslitrunum; að minnsta kosti í þeirri mynd sem við erum vön. Fyrir því liggja margar ástæður, ekki síst krafa kapítalismans til fyrirtækja um stöðugan vöxt. Þetta vaxtarkapphlaup getur ekki haldið áfram endalaust, enda reiða leikmenn í kapítalísku hagkerfi sig ekki einungis á vinnuafl og tækniframfarir í leit sinni að gróða og lífi, heldur einnig hráefni. Nú stendur framboð á þessum grundvallarauðlindum á þolmörkum.

Náttúran ræður ekki við meiri kapítalisma. Ekki er hægt að auka framleiðslu að því ráði sem vaxtarkrafa kapítalismans krefur. Ef við tökum einungis kröfur bankanna um vexti á lánum, er heldur ekki nógur möguleiki á framleiðsluaukningu til að fóðra þá holu. Svo að dæmi sé tekið mun fiskframleiðsla ekki aukast á heimsvísu úr þessu. Engin fiskveiðisvæði eru lengur óhreyfð, þökk sé rányrkju frá ríkjum eins og Íslandi. Sama ríkir um landbúnað. Stöðug aukning mannfjölda krefst æ stærri landsvæða sem áður voru notuð í hráefnaframleiðslu. Framleiðsluaukning á slíkum vörum er brátt ekki möguleg heldur. Græna byltingin byggðist á olíu, og framboð hennar fer þverrandi.

Of margt fólk sem keppist um of litlar náttúruauðlindir, og þróunin er ekki í rétta átt. Kapítalisminn hefur engar innbyggðar lausnir á þessu.  Ef við viljum ímynda okkur framtíðina undir kapítalismanum, ekki horfa til Hollywood. Við skulum horfa til pappakassabyggða Sao Paolo, Nýju Delhí og Mexíkóborgar.

Okkar fyrirkomulag gengur í algjörum grundvallaratriðum á náttúruna og hin blákaldi veruleiki er, að haldi það áfram mun það gera líf á hnettinum ómögulegt. En það er svo merkilegt, eins og heimspekingurinn Slavoj Zizek benti á, að við eigum nú auðvelt með að sjá fyrir okkur útrýmingu mannkyns, en við getum ekki ímyndað okkur róttæka breytingu á samfélagskerfinu sem við búum við; að finna aðra leið er óhugsandi, jafnvel þó þessi leiði okkur í gröfina.

Kapítalisminn mun deyja. En það verður ekki sigur fyrir okkur andstæðinga hans. Því mætti líkja við brottför bandaríska hersins á Íslandi. Það var ekki sigur fyrir hernaðarandstæðinga; tilvist þeirra hafði engin áhrif á þá ákvörðun að draga herliðið út. Nei, kapítalisminn deyr algerlega af sjálfum sér.

Hvað er til ráða?
Hvað okkar hlutverk varðar getum við einungis reynt að vera framsækin: Við megum ekki grafa hausinn í sandinn og láta sem allt muni verða eins og áður. Við þurfum að breyta kerfinu frá rótum svo að líf á jörðinni verði þolanlegt. Það er það sem felst í hugtakinu róttækni; að leita að rótum vandans.

Stjórnmálaflokkar eru ekki leiðin. Fólk eyðir of miklum tíma að þræta um stjórnmálaflokka og notar of lítinn tíma í að gera eitthvað í því að bæta samfélagið, almennt.  Eitt stærsta vandamálið hjá róttæklingum er oft það að menn festast gjarnan í þrætum við sína líka, um einhvern tittlingaskít. Öll starfsorka róttæklinganna fer oft í slíkar þrætur, eða væl út í stjórnmálamenn. Ef menn notuðu meiri tíma í að hanna þann veruleika sem menn vilja og nota orkuna á uppbyggilegan hátt væri lítið sem gæti komið í veg fyrir að við myndum bylta auðvaldskerfinu. Auðvaldið, eins og önnur yfirvöld, byggist ætíð á blekkingu, enda er valdið aðeins raunverulegt ef við látum það vera raunverulegt; ef við högum okkur eins og það sé raunverulegt. Auðvaldið kann að spila með fólk, með áróðri og hótunum. Sniðgöngum það.

Núverandi mótafl við kröfur viðskiptanna eru grasrótarsamtök. Róttæk samvinnufélög, peningalaus vöru- og þjónustuskiptakerfi, permakúltúr, sjálfstæðar upplýsingaveitur o.s.frv. Við verðum að byrja nú þegar að móta stofnanir sem gera mögulegt samfélag, þar sem hagsmunir allra sem það mynda koma saman við hagsmuni náttúrunnar í heild. Vissulega er slíkt starf þyrnum stráð á meðan kerfið höktir áfram. En ef við neitum að horfa áfram og höldum kapítalismanum í öndunarvél þá eru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Við þurfum að gera eins og alkarnir, að viðurkenna að við höfum ekki stjórn á kapítalismanum, hann stjórnar okkur. Við þurfum samt ekki að örvænta svo fremi sem við erum vel undirbúin þegar tíminn kemur.

Baráttan um landið

Ný mynd um baráttuna fyrir náttúru Íslands gegn ágangi stórfyrirtækja verður frumsýnd þann 4. apríl n.k. Kvikmyndin er unnin af Helenu Stefánsdóttur og Arnari Steini Friðbjarnarsyni sem reka kvikmyndafyrirtækið Wonderland Films (sjá heimasíðu fyrirtækisins http://www.wonderlandfilms.net/).

“Baráttan um landið segir sögu þeirrar náttúru sem er í hættu vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda fyrir stóriðju á Íslandi. Sagan er sögð af þeim hógværu röddum sem búa á og unna landinu sem er í hættu og hefur verið eyðilagt” segir í lýsingu kvikmyndagerðarmannanna.

 

Neyðarástand í Chad eftir Líbýustríðið

Að minnsta kosti 86000 atvinnuinnflytjendur frá Chad þurftu að flýja frá ofbeldissveitunum sem tóku völdin í Líbýu fyrir skemmstu. Þeirra beið hörmungarástand í heimalandinu, enda hafa þurrkað geysað um hríð og landið var engan vegin í stakk búið að taka á móti svo mörgu flóttafólki. Samkvæmt umsjónarmönnum flóttamannabúðanna í Chad eru einungis eftir vistir til þriggja mánaða, en ekkert útlit er fyrir því að fé eða frekari vistir berist búðunum í bráð. Þegar er hátt á annað hundrað þúsund manns í bráðri hættu á dauða vegna vannæringar. Forstöðumenn flóttamannabúðanna hvetja því þau ríki sem tóku þátt í eyðileggingu Líbýu að sanna að eitthvað sé hæft í þeim fullyrðingum að stríðið hafi verið háð af mannúðarástæðum og koma þessu fólki nú til aðstoðar.

Sjá nánar á http://allafrica.com/stories/201202271223.html

 

Göngum í leik/skólann/vinnuna

Í ár er fimmta skiptið sem Íslendingar taka þátt í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Bakhjarlar Göngum í skólann-verkefnisins eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands , Umferðarstofa, Ríkislögreglustjórinn, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landlæknisembættið og Heimili og skóli.

Markmið verkefnisins eru meðal annars að:

  • Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.
  • Heilbrigður lífsstíll fyrir alla fjölskylduna: Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.
  • Minni umferð við skóla: Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Betra og hreinna loft og öruggari og friðsælli götur og hverfi.
  • Vitundarvakning um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Samfélagsvitund eykst.
  • Kennir reglur um öryggi á göngu og hjóli.

En það má telja fleira til. Í allsnægtarsamfélögum verða til sérlega úrkynjuð vandamál. Samkvæmt rannsókn sem bílaframleiðandinn Kia Motors lét gera í fyrra keyra sífellt fleiri foreldrar börnin sín í skólann vegna þess að þau hafa áhyggjur af því að börnin gætu lent í umferðarslysi eða þeim gæti staðið hætta af ókunnugum ef þau myndu ganga sjálf. Þannig eru 57% skólabarna í Wales keyrð í skólann. Þetta verður óhjákvæmilega til þess að auka umferðarþunga, neyslu á bensíni, draga úr hreyfingu barnanna og takmarka getu þeirra til þess að staðsetja sig og rata.  (sjá: WalesOnline.CoUk, MailOnline)

Síðan að þéttbýlisvæðingin hófst hefur nærsýni aukist einnig. Fólk þarf ekki lengur að rýna í miklar fjarlægðir, fyrir eru mannvirki ýmiskonar, ekki þarf að líta lengra en yfir götuna eða í besta falli þvert yfir almenningsgarð. Börn þroskast að ýmsu leiti líkamlega en það er einnig ákveðinn þroski sem á sér stað varðandi getu til þess að staðsetja annars vegar sig og hins vegar áfangastað  í rúmi og komast þar á milli. Ef áfangastaðurinn er alltaf bílastæðið verður það sjálfsagt á endanum ákaflega ósjálfstæður einstaklingur. Hugtakið borgarbarn virðist vera að taka á sig nýja og sterkari merkingu.

Matvælaverð á heimsvísu hækkar

Matvælaframleiðsla um allan heim er nú í stórkoslegri kreppu, ef marka má leiðara the Economist frá 26. febrúar s.l. Verð á matvælum hefur hækkað hratt og stöðugt og hefur ekki verið hærra að raungildi frá því 1984. Leiðarahöfundur harðneitar því að markaðskerfið hafi nokkuð með þett að gera, en leggur til að lönd sem framleiða lítið af matvælum verði þvinguð til að auka framleiðslu sína.

Leiðarahöfundur kýs að minnast ekki á að hráefnaskortur er óumflýjanlegur með núverandi markaðskerfi og að framleiðniaukning sé til lengri tíma ómöguelg. Stærsta vandamálið er auðvitað minna framboð á olíu, enda er matvælaframleiðsla heimsins mjög háð olíu (sjá nánar hér).  Auk þessa eru takmörk fyrir því hversu mikið ræktar- og beitilönd geta gefið af sér. Sú orka sem býr í jarðveginum brennur smáma saman upp við núvernandi landbúnaðarhætti og verði framleiðsla aukin mjög er hætta á ofrækt, sem breytir landi í auðn. Loks má minnast þess að samkvæmt rannsóknum Sameinuðu þjóðanna leggur sí aukin kjötframleiðsla gríðarlegt álag á náttúruna og að náttúran standi ekki undir meiri aukningu á þeirri iðn (sjá nánar hér).

Kalsíum í jökulám og umhverfismat

Þessa dagana er talað um endalok stóriðjustefnunnar. Nú ætla ég ekki að fullyrða neitt um hvort það er tímabært eða ekki, en hvað sem því líður væri hyggilegt að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja glapræði í framtíðinni eða í það minnsta draga úr skaðanum af þeim. Nú ætti að vera lag, þegar við höfum umhverfisverndarsinna sem umhverfisráðherra.

Fyrir einum fimm árum (3. janúar 2006) ritaði félagi Hjörleifur Guttormsson athyglisverða grein, sem bar titilinn „Áhrif aurburðar í jökulám á kolefnishringrás og loftslagsbreytingar “ en fékk ekki verðskuldaða athygli. Þar fjallaði hann um muninn á stíflum í jökulám og bergvatnsám, en þær fyrrnefndu bera steinefnaríkan jökulaur. Aurburðurinn er því meiri sem bergið er yngra sem hann er úr. Þannig mun aurburður frá Íslandi nema um 0,7% af öllum aurburði á jörðinni. Öll Afríka skilar ekki nema fjórföldum auri á við Ísland.

Kárahnjúkavirkjun átti að framleiða „græna“ orku, samanborið við orku sem er unnin úr jarðefnaeldsneyti. Aurburðurinn – einkum kalsíum í honum – mun hins vegar ekki hafa verið tekinn með í útreikningana á umhverfisáhrifum. Í lóni botnfellur nefnilega aur sem annars mundi renna í haf út, þar sem kalsíumið bindur koltvísýring úr andrúmsloftinu í stórum stíl. Þar sem óbeislaður aurburður jökuláa dregur með þessum hætti verulega úr gróðurhúsaáhrifum, munu áhrif stíflna í jökulám á loftslagið líka vera stórlega vanmetin.

Þegar umhverfisáhrif af mannvirki eru reiknuð út, hlýtur það að skekkja niðurstöðuna verulega ef stórri breytu er sleppt. Áhrif aurburðar á að sjálfsögðu að taka til greina. Hér með legg ég til að umhverfisráðherra sjái til þess að það verði framvegis gert. Eins og dæmin sanna getur það nefnilega verið dýrkeypt að byggja stórar ákvarðanir á lélegum upplýsingum.

– – – – –

Í grein sinni vísar Hjörleifur í rannsóknaniðurstöður Sigurðar R. Gíslasonar í Háskóla Íslands, Erics H. Oelkers í Toulouse-háskóla og Árna Snorrasonar forstöðumanns vatnamælinga Orkustofnunar, í Geology (I, 2006), sem er tímarit bandaríska jarðfræðifélagsins, Geological Society of America.

Vallanes á Fljótsdalshéraði lýst svæði án erfðabreyttra lífvera

Stórum áfanga í umhverfisbaráttunni hefur verið náð, en Vallanes á Fljótsdalshéraði hefur verið lýst svæði án erfðabreyttra lífvera (GMO free region). Þetta er fyrsta landsvæðið á Íslandi sem hefur fengið þennan stimpil og aðstandendur samtakanna “án erfðabreytinga – GMO free Iceland” fagna þessum áfanga og hvetja aðra bændur til að fylgja í kjölfarið.  Í fréttatilkynningu samtakanna segir:

“Það er mikið gleðiefni að segja frá því að Vallanes á Fljótsdalshéraði er fyrsta landsvæðið á íslandi sem er lýst án erfðabreyttra lífvera (GMO free regions). Við óskum ábúendum að Vallanesi til hamingju með árangurinn um leið og við hvetjum aðra bændur, jarðeigendur og bæjarfélög til að fylgja í kjölfarið.

Eins og allir vita þá kemur lífræna byggið frá Vallarnesi og því er öll ræktun á erfðabreyttu lyfjabyggi hrein ógnun við ræktun á íslensku byggi til manneldis. Svo eru kartöflur, gulrætur, grænkál og fullt af öðru góðgæti sem kemur frá Vallanesi sem er leiðandi bú á sviði lífrænnar ræktunnar á Íslandi.

Það má lesa fréttatilkynningu um málið á www.erfdabreytt.net og til að halda uppá viðburðinn þá skora ég á alla lesendur að búa til morgunbygggraut í desembermánuði (það er uppskrift á pökkunum) og nota íslenskt lífrænt bygg í jólamatinn.

Hér á fésinu eru líka Samtök lífrænna neytenda og svo eru vefir eins og www.natturan.is þar sem mikinn fróðleik er að finna svo er líka vefsíða þeirra á Vallanesi www.vallanes.net.

Við bíðum svo með óþreyju eftir að reglugerðin um merkingu erfðabreyttra matvæla taki gildi svo að neytendur geti valið að hafna erfðabreyttum matvælum en munum að örugasta leiðin til að forðast erfðabreytt matvæli er að nota lífræn vottaðan mat.

Svo þarf að benda bændum á hættuna að nota erfðabreytt fóður en bú eru stóru verlsunarkeðjurnar erlendis farnar að auglýsa kjöt sem er ekki alið á erfðabreyttu fóðri (fed without GMO). Það má gera ráð fyrir að allt innflutt fóður á Íslandi sé blandað erfðbreyttum lífverum svo eina ráðið er að kaupa íslenskt lífrænt kjöt.

Og að lokum til hamigju Vallanes :-).”