Eftir kapítalismann

Plebbar höfða nú, eins og ætíð, til stjórnmálamannanna sinna um að „gera eitthvað“ í fjármálakreppunni svo við getum haldið áfram að spreða, ofneyta og keppa við hvert annað. Þeir vilja vinna meira, fá meiri laun og kaupa meira drasl. Menn leita til Evrópusambandsins og vona að það muni einhvernveginn bjarga þessum lífsstíl.

Þetta fólk er á villigötum. Kapítalisminn mun aldrei ná sér. Hann er í dauðaslitrunum; að minnsta kosti í þeirri mynd sem við erum vön. Fyrir því liggja margar ástæður, ekki síst krafa kapítalismans til fyrirtækja um stöðugan vöxt. Þetta vaxtarkapphlaup getur ekki haldið áfram endalaust, enda reiða leikmenn í kapítalísku hagkerfi sig ekki einungis á vinnuafl og tækniframfarir í leit sinni að gróða og lífi, heldur einnig hráefni. Nú stendur framboð á þessum grundvallarauðlindum á þolmörkum.

Náttúran ræður ekki við meiri kapítalisma. Ekki er hægt að auka framleiðslu að því ráði sem vaxtarkrafa kapítalismans krefur. Ef við tökum einungis kröfur bankanna um vexti á lánum, er heldur ekki nógur möguleiki á framleiðsluaukningu til að fóðra þá holu. Svo að dæmi sé tekið mun fiskframleiðsla ekki aukast á heimsvísu úr þessu. Engin fiskveiðisvæði eru lengur óhreyfð, þökk sé rányrkju frá ríkjum eins og Íslandi. Sama ríkir um landbúnað. Stöðug aukning mannfjölda krefst æ stærri landsvæða sem áður voru notuð í hráefnaframleiðslu. Framleiðsluaukning á slíkum vörum er brátt ekki möguleg heldur. Græna byltingin byggðist á olíu, og framboð hennar fer þverrandi.

Of margt fólk sem keppist um of litlar náttúruauðlindir, og þróunin er ekki í rétta átt. Kapítalisminn hefur engar innbyggðar lausnir á þessu.  Ef við viljum ímynda okkur framtíðina undir kapítalismanum, ekki horfa til Hollywood. Við skulum horfa til pappakassabyggða Sao Paolo, Nýju Delhí og Mexíkóborgar.

Okkar fyrirkomulag gengur í algjörum grundvallaratriðum á náttúruna og hin blákaldi veruleiki er, að haldi það áfram mun það gera líf á hnettinum ómögulegt. En það er svo merkilegt, eins og heimspekingurinn Slavoj Zizek benti á, að við eigum nú auðvelt með að sjá fyrir okkur útrýmingu mannkyns, en við getum ekki ímyndað okkur róttæka breytingu á samfélagskerfinu sem við búum við; að finna aðra leið er óhugsandi, jafnvel þó þessi leiði okkur í gröfina.

Kapítalisminn mun deyja. En það verður ekki sigur fyrir okkur andstæðinga hans. Því mætti líkja við brottför bandaríska hersins á Íslandi. Það var ekki sigur fyrir hernaðarandstæðinga; tilvist þeirra hafði engin áhrif á þá ákvörðun að draga herliðið út. Nei, kapítalisminn deyr algerlega af sjálfum sér.

Hvað er til ráða?
Hvað okkar hlutverk varðar getum við einungis reynt að vera framsækin: Við megum ekki grafa hausinn í sandinn og láta sem allt muni verða eins og áður. Við þurfum að breyta kerfinu frá rótum svo að líf á jörðinni verði þolanlegt. Það er það sem felst í hugtakinu róttækni; að leita að rótum vandans.

Stjórnmálaflokkar eru ekki leiðin. Fólk eyðir of miklum tíma að þræta um stjórnmálaflokka og notar of lítinn tíma í að gera eitthvað í því að bæta samfélagið, almennt.  Eitt stærsta vandamálið hjá róttæklingum er oft það að menn festast gjarnan í þrætum við sína líka, um einhvern tittlingaskít. Öll starfsorka róttæklinganna fer oft í slíkar þrætur, eða væl út í stjórnmálamenn. Ef menn notuðu meiri tíma í að hanna þann veruleika sem menn vilja og nota orkuna á uppbyggilegan hátt væri lítið sem gæti komið í veg fyrir að við myndum bylta auðvaldskerfinu. Auðvaldið, eins og önnur yfirvöld, byggist ætíð á blekkingu, enda er valdið aðeins raunverulegt ef við látum það vera raunverulegt; ef við högum okkur eins og það sé raunverulegt. Auðvaldið kann að spila með fólk, með áróðri og hótunum. Sniðgöngum það.

Núverandi mótafl við kröfur viðskiptanna eru grasrótarsamtök. Róttæk samvinnufélög, peningalaus vöru- og þjónustuskiptakerfi, permakúltúr, sjálfstæðar upplýsingaveitur o.s.frv. Við verðum að byrja nú þegar að móta stofnanir sem gera mögulegt samfélag, þar sem hagsmunir allra sem það mynda koma saman við hagsmuni náttúrunnar í heild. Vissulega er slíkt starf þyrnum stráð á meðan kerfið höktir áfram. En ef við neitum að horfa áfram og höldum kapítalismanum í öndunarvél þá eru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Við þurfum að gera eins og alkarnir, að viðurkenna að við höfum ekki stjórn á kapítalismanum, hann stjórnar okkur. Við þurfum samt ekki að örvænta svo fremi sem við erum vel undirbúin þegar tíminn kemur.

Sýrland og Íran eru peð í tafli um heimsyfirráð

443px-Coat_of_arms_of_Syria.svg_.png

1. Brennuvargar þinga um brunavarnir

Enn og aftur gerist það: Blóðug uppreisn studd af vestrænum stórveldum er notuð af þeim sjálfum sem tilefni til íhlutunar í viðkomandi land. Mikil diplómatísk herferð er nú farin gegn Sýrlandi, afar lík þeirri sem var undanfari árásarinnar á Líbíu í fyrra. Þann 30. júní var ráðstefna í Genf og önnur í París 6. júlí til að beita Sýrlandsstjórn þrýstingi. Frú Clinton beindi spjótum að Rússum og Kínverjum fyrir að vinna gegn herferðinni og hótaði að „þeir muni gjalda fyrir þetta“. Fremstir í flokki á fundum þessum voru fulltrúar þeirra ríkja (einkum vesturvelda og arabískra stuðningsríkja þeirra) sem stutt hafa vopnaða uppreisn í Sýrlandi á annað ár með því m.a. að veita straumi vopna og erlendra leiguhermanna inn í landið. Allan þann tíma hafa vestrænir leiðtogar boðað nauðsyn valdaskipta í Sýrlandi. Að vanda er öllu snúið á haus: fundir til undirbúnings innrás eru kallaðir „friðarráðstefnur“. (heimild)

Boðskapurinn endurómar hér heima: „Rússland og Kína standa í vegi fyrir valdaskiptum í Sýrlandi“ (Ólafur Þ. Stephensen, leiðari Fréttablaðsins 7. júlí).

Aðförin að Sýrlandi fylgir margendurteknu munstri, allt frá falli Múrsins. Sería stríða er háð í Miðausturlöndum og aðliggjandi svæðum (Írak, Bosnía, Kosovo, Afganistan/Pakistan, aftur Írak og Líbía). Fórnarlömbin eru ríki sem á einhvern hátt trufla hnattvæðingarprógramm USA og Vesturveldanna. Árásaraðilinn er í öllum tilfellum Vesturveldin, NATO-veldin. Stórveldi hanna atburðarás í smáríkjum. Atlagan er gerð í skrefum. Fyrst er fórnarlambið (fórnarlandið) útnefnt, svo skapa árásaraðilarnir sér skálkaskjól og tilefni til íhlutunar gegnum herferð fjölmiðla og vestrænt sinnaðra „mannréttindasamtaka“ (innan fórnarlandsins og alþjóðlega), gjarnan er alið á trúar- eða þjóðernasundrungu. Tilgangurinn er annars vegar að grafa undan stjórnvöldum fórnarlandsins, skapa þar upplausn, og hins vegar að skapa herskáa stemmningu í þeim löndum sem standa að herferðinni. Markmiðið er dipómatísk og viðskiptaleg einangrun landsins og ef þetta nægir ekki til að steypa stjórnvöldum er gerð „mannúðarinnrás“.

2. Hnattræn pólitísk og hernaðarleg sókn Vestursins

Í viðbót við framantalin innrásarstríð NATO-veldanna hefur NATO sjálft eftir fall Múrsins þanist gífurlega út: um alla Austur Evrópu og líka inn fyrir mörk gömlu Sovétríkjanna. Árið 1999 afnam NATO sín landfræðilegu mörk og breytti sér í hnattrænt hernaðarbandalag Vesturveldanna með allan heiminn sem starfsvettvang. Í framhaldi af því hefur það boðið ríkjum „samstarfsaðild“ (kallað „partnership“ og „dialogue“) um alla Norður-Afríku (Líbía var þar eina ríkið sem stóð utan við) Miðjarðarhafsbotn (nema Sýrland og Líbanon) og Persaflóa og loks um Asíulýðveldi gömlu Sovétríkjanna allt austur að landamærum Kína. (heimild)

SýrlandSýrland

Í öðrum heimshlutum, eins og Suður Ameríku og Afríku sunnan Sahara, gegnir herafli Bandaríkjanna enn sem komið er þessu hlutverki NATO og bein bandarísk hernaðarsamvinna og „hervernd“ í flestum ríkjum þeirra svæða er stórlega aukin, og NATO sýnist vera á leiðinni þangað. Bandarískar herstöðvar – sumar tengdar NATO, aðrar ekki – spretta upp eins og gorkúlur

Ný og þrengri innikróun Rússlands vekur athygli. Nýtt bandarískt eldflaugavarnarkerfi er nú byggt upp í nýju NATO-ríkjunum Póllandi, Rúmeníu og Tékklandi, kerfi sem Pútin segir að ógni öryggi Rússlands. Og nú hafa Bandaríkin og/eða NATO herstöðvar í flestum nágrannaríkjum Rússlands.

Áherslan á að innikróa Kína er þó enn meiri. Nú í júní lýsti bandaríski varnarmálaráðherrann Leon Panetta yfir á heimasíðu Pentagon að jafnvel áherslan á Miðausturlönd félli í skuggann af hinu rísandi verkefni: „Washington þyngir nú áhersluna á Asíu og Kyrrahafið á kostnað Evrópu og Miðausturlanda“ og „Bandaríkin ætla að auka hernaðarstarf sitt á því svæði, heræfingar og hernaðarsamvinnu með þáttöku fleiri ríkja, þ.á.m. Ástralíu, Filipseyjum, Singapore og Tælands, og meiri herútbúnaði, þ.m.t. að minsta kosti 40 nýjum skipum.“ (www.eurasiareview.com 11. júní: „Southeast Asia: US Revives And Expands Cold War Military Alliances Against China“). Bandaríski Kyrrahafsheraflinn var þó fyrirfram öflugasta herstjórnareining heims.

Þann 4. júlí sl. hélt Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, ræðu hjá Konunglegu stofnuninni um alþjóðamál í London. Hann ræddi hlutverk og framtíðaráform NATO: „Við sjáum ólgu og óöryggi í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Við sjáum ný stóveldi koma fram – efnahagsleg, stjórnmálaleg og hernaðarleg. Og við heyrum marga fréttaskýrendur spá undanhaldi Vestursins eins og við þekkjum það…“ En NATO-Rasmussen telur að svar sé til við þessum áskorunum: „Skilaboð mín hér og nú eru að NATO sé lykillinn að svarinu. Á þessum tímum óöryggis er NATO uppspretta öryggis. Framlag bandalagsins er meginþáttur í alþjóðlegu öryggi og stöðugleika. Í krafti þess getum við mætt áskorunum samtímans af styrk.“ (heimild)

3. Efnahagslegar rætur stríðsins

Það er augljóst þeim sem sjá á annað borð að ófriðlegt er í heiminum. Sérstaklega eru það Bandaríkin og Vesturblokkin sem sýna fádæma árásargirni og útþensluhneigð. Gamall marxisti spyr sig hvort finna megi kenningar og hugtök í verkfærabúri marxismans sem skýri þá þróun sem hér var lýst. Til þess þarf að taka ofurlítinn krók yfir í þjóðhagfræði.

Þegar Marx skrifaði Auðmagnið setti hann fram nokkrar tesur um „hreyfilögmál“ kapítalískra framleiðsluhátta. Hér skulu nefnd tvö slík lögmál: Eitt þeirra, það sem Marx hafði fremst, er lögmálsbundin þörf auðmagnsins til að hlaðast upp. Það lögmál leiðir beint af gróðasókninni. Auðmagn er peningahaugur sem verður að stækka í framleiðsluferlinu, annars er framleiðslan tilgangslaus fyrir auðherrann. Upphleðsla auðmagnsins veldur líka vaxandi þörf þess fyrir bæði auðlindir og markaðssvæði. Af því leiðir að kapítalisminn hefur innbyggða útþensluhneigð. Annað lögmál er tilhneiging auðmagnsins til samþjöppunar. Áðurnefnd þensluhneigð leiðir af sér samkeppni og í henni vinna sumir en aðrir tapa og hrapa niður um stétt. Einingum fjármagns og framleiðslu fækkar og þær stækka. Það lögmál er sívirkt síðan og afleiðingin er heimur einokunar, risaauðhringa, hlutabréfamarkaða og fjármálafáveldis. Í þeim heimi er trú hægri manna á séreignarréttinn út frá hugmyndum um framtak einstaklinganna og hugguleg fjölskyldufyrirtæki fjarstæðukenndur draumur úr fortíðinni. Að lýsa arðránskerfi sem frelsi kostar lygar. Að lýsa afætukapítalisma nútímans sem kerfi lýðræðis og framfara kostar tröllaukinn hugmyndafræðiiðnað og heimsmyndarsmíði sem afbakar veruleikann ofan í okkur án afláts.

Lenín bætti við nokkrum lögmálsbundnum þróunareinkennum kapítalisma á stigi einokunar og heimsvaldastefnu, þegar „drottinvald einokunar og fjármálaauðvalds festir sig í sessi, þegar fjármagnsútflutingur hefur fengið áberandi áhrif, þegar hafin er skipting heimsins milli alþjóðlegra hringa og lokið er skiptingu á öllum löndum jarðarinnar milli voldugustu auðvaldsríkjanna.“ (Heimsvaldastefnan, hæsta stig auðvaldsins, bls. 117). Lenín sagði ójafna þróun efnahagseininga vera lögmál undir kapítalismanum vegna samkeppni og stjórnleysis markaðarins, og á skeiði einokunar og heimsvaldastefnu væri sú ójafna þróun sterkari og leiddi af sér átök milli landa og blokka. Sérstakt efni í jarðskjálfta sé það þegar upp komi óhjákvæmilegt misræmi á milli efnahagslegs styrks og yfirráðasvæðis: „Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluafla og samsöfunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendna og „áhrifasvæða“ fjármálaauðmagnsins hins vegar?“ (sama heimild, bls. 130) Til dæmis hafði Þýskaland þá meiri efnahagsstyrk en sem nam áhrifasvæðum þess og þær aðstæður voru eldsmatur, efni í jarðskjálfta.

4. Straumhvörfin eftir fall Múrsins

Heimurinn einkennist af þverstæðu: annars vegar af gífurlegu valdi Bandaríkjanna og nánustu bandamanna þeirra (USA + ESB = NATO-veldin = Vesturblokkin) og hins vegar af harðnandi samkeppni efnahagsblokka um áhrifasvæði og markaðshlutdeild þar sem nýir aðilar sækja fram á kostnað Vesturblokkarinnar.

Á tíma Kalda stríðsins var heimurinn „tvípóla“, hann skiptist í grófum dráttum í tvær herbúðir (seinna raunar þrjár vegna sérþróunar Kína). Keppni risaveldanna gaf samt ákveðið svigrúm fyrir lönd sem kusu að vera óháð. Óhægt var um vik fyrir heimsvaldasinna að gleypa óháð smærri ríki án þess að raska með því valdajafnvægi og friði (það er ekki endilega nauðsynlegt hér að ræða eðli Sovétríkjanna svo ég sleppi því).

Eftir fall Múrsins og niðurlægingu Rússlands á 10. áratug varð heimurinn „einpóla“ (hugtak sem m.a. Pútin hefur notað). Efnahagslegir, pólitískir og hernaðarlegir yfirburðir USA voru gífurlegir. Sovétríkin skildu eftir tómarúm og afbrigðilegt ástand skapaðist á vettvangi heimsvaldastefnunnar. Greið leið opnaðist fyrir bandaríska og vestræna auðhringa að sækja fram. Hernaðarlegri sókn USA var sérstaklega beint til hinna olíuauðugu Miðausturlanda. Nokkur lönd þar höfðu áður hallað sér að Sovétríkjunum og önnur reyndu að standa upprétt. Slík hegðun var ekki lengur líðandi. Eftir brotthvarf kommagrýlu settu hugmyndafræðingar heimsvaldasinna á flot kenningar um „átök menningarheima“ og „alþjóðlegt samsæri íslamista“ og USA gat aftur þétt net herstöðva sinna og leppstjórna og hóf síðan nokkur stríð á þessu dýrmæta svæði (tvö stríð í Írak, 1991 og 2003, eitt í Sómalíu 1992-3, eitt í Líbíu 2011 auk stríða gegnum staðgengla). Vestrænir heimsvaldasinnar tóku einnig að grafa undan hugmyndinni um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og fóru að boða „skylduna til að vernda“ borgara í vandræðaríkjum. Beindu þeirri herferð ekki síst inn í SÞ. Hugmyndin um „mannúðarinnrásir“ var í þróun.

Sókn heimsvaldasinna fór ekki síður fram með efnahagslegum aðferðum. Á 10. áratugnum þrýstu auðhringarnir mjög á um „hnattvæðingu“ efnahagslífsins til að tryggja frjálst flæði hins vestræna fjármagns um allan heim, og beittu fyrir sig yfirþjóðlegum stofnunum eins og og AGS, GATT og Heimsviðskiptastofnuninni. Helsta verkefni þeirra stofnana var að brjóta niður efnahagslegt fullveldi þjóðríkja. Pólitískt og diplómatískt vald Bandaríkjanna varð meira á heimsvísu en dæmi eru um áður – gegnum stöðu dollarans, net af bandamönnum og skjólstæðingum, vald innan SÞ m.m. – svo ekki sé talað um hernaðarmáttinn.

5. Taflið um heimsyfirráð

Þrátt fyrir arðrán USA og Vestursins á öðrum heimshlutum gegnum háþróað heimsvaldakerfi sitt fékk Adam ekki langan frið í Eden. Aðrir fóru að banka á garðshliðin. Síðar fór Vesturblokkin að mæta hindrunum og nýrri samkeppni frá öðrum heimsvaldasinnuðum ríkjum og blokkum. Hin ójafna þróun kapítalismans gerði sig gildandi. Gamalt auðvald hefur sterkari tilhneigingu til stöðnunar, afætumeina og kreppu en yngri keppinautar. Allt er það eftir bókinni, og gömlum marxista sýnist kapítalisminn haga sér kórrétt eftir hinum kerfislægu hreyfilögmálum. Greining Leníns á heimsvaldastefnunni hefur aldrei átt betur við.

Fremsti áskorandi Vestursins er Kína eftir að landið gekk á braut kapítalisma og hóf fulla samkeppni um heimsmarkaðinn. Á síðasta áratug fór Kína fram úr Japan sem næststærsta hagkerfi heims. Landið komst í fyrsta sætið sem iðnaðarframleiðandi og dregur ört á Bandaríkin í þjóðarframleiðslu. Ekki síst er Kína nú orðinn stærsti útflytjandi heims og næststærsti innflytjandinn. (heimild)

Kína hefur getað notað sér það opna umhverfi um viðskiptin sem vestrænu auðhringarnir höfðu komið á í „hnattvæðingar“-kappi sínu. Framsókn Kína er eðlilega á kostnað keppinauta eins og Bandaríkjanna og ESB-ríkja.

En efnahagsstyrkur er ekki allt. Pólitískur, diplómatískur og hernaðarlegur styrkur Kína er langt í frá í samræmi við hinn efnahagslega. Eins er um hernaðarmáttinn. Hernaðarlegir yfirburðir Bandaríkjanna eru óskertir. Þróun Kína er reyndar hliðstæð þróun Bandaríkjanna áður fyrr. Þau fóru fram úr öllum í efnahagsstyrk um aldamótin 1900 en ekki pólitískt og hernaðarlega fyrr en í seinni heimsstyrjöld. Samkvæmt Lenín var það misræmið milli efnahagsstyrks og áhrifasvæðis sem var efni í stórstyrjaldir. Og aðstæður nútímans eru mjög hliðstæðar. Pólitískur styrkur Vesturblokkarinnar annars vegar og hins vegar hlutfallslegt undanhald hennar á efnahagssviði er efni í landskjálfta. Stríðin eru eins og áður um áhrifasvæði þótt formleg skiptingin í yfirráðasvæði sé ekki með sama hætti og á nýlendutímanum. Annað sem er ólíkt er það að framan af 20. öld var það „nýja ljónið“ í skóginum, Þýskaland, sem sýndi mesta árásarhneigð og sárvantaði áhrifasvæði. Nú eru „gömlu ljónin“ herskáust en Kína byggir sókn sína á markaðslegum aðferðum.

Kína er ekki eitt og stakt. Fleiri iðnveldi sækja fram – Indland, Rússland, Brasilía – og hafa áhrif í sömu átt. Bandaríkin hafa m.a. brugðist við hinum nýju áskorunum, sem að miklu leyti koma frá Asíu, með því að byggja upp Kyrrahafsheraflann. Auk þess bregðast þau við með því að tengjast Evrópuveldunum nánari böndum. Það kemur fram í endursköpuðu NATO. Það kemur ekki síður fram í nýju stríðunum sem áður voru nefnd. Þar eru ESB-ríkin „Björn að baki Kára“ og eru miklu meira innblönduð í þau stríð en þau voru í hernaðarbrölt Bandaríkjanna fram að því. EES-ríkið Ísland styður líka öll þessi stríð óháð stjórnarmunstri. Þjóðin er reyndar ekki spurð, hvorki í ESB-löndum né á Íslandi.

Eftir uppgangstíma eftirstríðsáranna hefur kapítalisminn sýnt vaxandi merki stöðnunar frá og með 8. áratug og dýpkandi kreppur sækja á hann reglulega. Dýpsta kreppan stendur yfir og dýpkar enn. Eitt þeirra lögmála sem Marx skilgreindi á kapítalismanum var að kreppur væru þar óhjákvæmilegar. Ekki skal ég útlista það lögmál hér en af því leiðir eðlilega af að kreppa eykur á árásrgirni. Fyrir því er líka söguleg reynsla, og síðari heimsstyrjöld var skilgetið afkvæmi kreppunnar miklu á 4. áratug. Reyndar var það ekkert annað en hervæðing og síðan styrjöld sem þá náði að leysa kapítalismann úr kreppunni. Kapítalisminn minnir á sturlaðan fjárhættuspilara. Kannski er stríð eina lausn kapítalismans á vandamálum sínum. En það er ekki lausn fyrir mannkynið.

6. Djöfullinn við stýrið

Herferðin gegn Sýrlandsstjórn hefur ekkert með mannréttindi í Sýrlandi að gera. Liðssafnaðurinn gegn Íran hefur ekkert með gjöreyðingarvopn að gera. En í báðum löndum eru þjóðernissinnaðar stjórnir, andsnúnar vestrænum heimsvaldasinnum og hnattvæðingarprógrammi þeirra. Enn fremur eru þetta nú einu löndin í Miðausturlöndum sem eru í bandalagi við helstu keppinautana, Kínverja og Rússa. Búið er að reka Kínverja út úr Líbíu eftir Líbíustríðið og olíuviðskipti þeirra við Íran eru þeim lífsspursmál. Ef Vesturblokkin nær fram sínum valdaskiptum í Íran hefur hún kverkatak á Kína. Íran og Sýrland eru peð í baráttunni um heimsyfirráð. Stefna USA og Vesturblokkarinnar undanfarin 20 ár er ekki skiljanleg nema sem sókn að fullum heimsyfirráðum.

Ef einhverjum finnst þetta vera samsærishugsun er það líklega af því hann/hún skilur ekki að heimsvaldasinnar geta ekki farið í stríð undir formerkjum sannleikans. Ef þeir segja hreinskilnislega t.d. „við þurfum í stríð til að viðhalda forræði Vesturlanda“ eru þeir kjánar. Þeir verða að ljúga. Því meiri lygi því skynsamari eru þeir. Þeir þurfa á öllum sínum fréttastofum að halda og láta blekkingavaðalinn ganga linnulaust.

Kapítalisminn stefnir með okkur lengra út í voða og villimennsku. Næsti voði sýnist nú vera meiri háttar styrjöld í Miðausturlöndum. Djöfullinn er við stýrið. Djöfullinn heitir „gróðasókn“. Það er naumur tími til að koma í veg fyrir þessi ósköp. Þeir friðarsinnar sem halda að ófriðarhættan stafi af illsku, þröngsýni eða fordómum fólks eða þá þjóðernishyggju og ofstæki einhverra smákónga á ófriðarsvæðum eru því miður nytsamir sakleysingjar í neti heimsvaldasinna.

– – – –

Þessi grein birtist áður á heimasíðu Attac þann 12. júlí 2012.

Hlýðnisskilyrðing í Bandaríkjunum

Flugvallaverðir í Bandaríkjunum eru nú farnir að sýna enn ýktari valdatilburði. Nýjasti siðurinn þarlendis er á þá leið að hrópa “freeze” (frjósið) yfir mannhafið á flugvellinum. Þeir sem ekki hlýða og standa grafkjurrir eiga í hættu á að vera teknir frá í yfirheyrslur.

Hér má sjá umfjöllun um þessa nýjung í hlýðnisskilyrðingu hjá New York Times.

Hér má sjá ágætis myndblogg um hvaða þýðingu þessi siður hefur.

 

Berjumst gegn áróðri

„Að gróðareknum áróðri hafi tekist, í svo langan tíma, að sannfæra okkur um það að við séum laus við áróður í okkar samfélagi, er hugsanlega eitthvert mesta afrek fortölulistarinnar á tuttugustu öldinni.“[1]

Ef einhver heldur að áróður sé eitthvað sem er stundað Norður-Kóreu, eða eigi heima í sögum um Þýskaland nasismans, er það ekki rétt. Hvergi í heiminum starfa fleiri við, né er meira fé varið í, áróður en hér á Vesturlöndum. Það þarf ekki annað en að skoða nokkrar helstu tegundir áróðursstofanna til að sjá að áróður er ekki einungis á uppleið, megnið af þeim upplýsingum sem berast almenningi í gegnum fjölmiðlana á rætur sínar að rekja til áróðursfyrirtækja.

Almannatengsl eru ein stærsta uppspretta áróðurs í samfélaginu. Þetta fyrirbæri er uppfinning Edwards Bernays. Orðið, public relations, fann hann einfaldlega upp þegar orðið propaganda var orðið óvinsælt, en merkingin var sú sama. Almannatengsl var, og er, iðnaður sem snýst um að beita áróðri í gróðaskyni á friðartímum. Tilgangur þeirra er að dreifa áróðri sem hentar skjólstæðingi almannatengslafyrirtækisins. Öllum brögðum er þar beitt og höfuðáherslan er engin sannleiksmiðlun. Þetta er gríðarlega ört vaxandi iðnaður; samkvæmt heimasíðu vinnumálastofnunar Bandaríkjanna störfuðu um 320 þúsund manns í almannatengslageiranum árið 2010 og reiknað var með 21% vexti næstu tíu árin. Til samanburðar unnu á þeim tíma 58.500 sem blaðamenn og fréttarýnar, og áætlað var að þeim myndi fækka um 6% næstu tíu árin. Almannatengslasérfræðingar skrifa nú fréttirnar, annað hvort í formi fréttatilkynninga, sem eru sendar sem tilbúnar fréttir, eða einfaldlega með því að vinna hlutavinnu á fréttastofunum. Þetta eru pennar sem eru á leigu hjá fjársterkum aðilum, við að koma þeim upplýsingum á framfæri sem hentar þeim aðilum, og það eru nú þeir sem skrifa fréttirnar sem við neytum daglega.

Akademían skipar stóran sess í þróun áróðurs. Umfangsmiklar fræðigreinar fjalla um áróður eftir mismunandi nálgun. Samskiptafræði (communication studies), markaðsfræði, auglýsingar og almannatengsl, fortölufræði og rannsóknir á almannaáliti (public opinion) eru allt afsprengi rannsókna á áróðri. Þetta er heill heimur af rannsóknum, sem er fyrst og fremst notaður til að finna bestu aðferðirnar við að möndla með hugmyndir, álit, skoðanir og hegðun fólks, án þess að það geri sér grein fyrir því.

Eins og ætíð er það samt stríðslistin sem er fánaberi áróðurs. Herir Natóríkjanna, þá ekki síst Bandaríkjanna, ráða yfir sínu eigin áróðursbatteríi. Því er skipt upp í margar einingar. PsyOps, eða sálfræðiaðgerðir, felast í tækni til að dreifa áróðri til óvina til að lama siðferðisþrek þeirra; Public Affairs er deildin sem sér um að réttar upplýsingar rati í fjölmiðlana (innlenda og erlenda); deildin um Information Warfare sérhæfir sig í áróðri sem notast beint í hernaðarskyni. Ríkið bætir stöðugt við sig og í júní voru ný lög skráð í Bandaríkjunum, The National Defence Authorization Act (NDAA) sem einfalda lagaflækjur sem tengjast stórfelldum ríkisáróðuri sem beint er gegn Bandaríkjamönnum sjálfum (og öllum öðrum). Rúsínan í pylsuendanum er CIA. Sú stofnun starfar langt fyrir utan ramma nokkurra laga, einnig á sviði áróðurs. Oft hefur komist upp um CIA starfsmenn sem starfa sem blaðamenn, í rannsóknarstofnunum og í leynilegum plottum um að steypa ríkisstjórnum af stóli. Enginn kemst með hælana þar sem Bandaríkin hafa hælana, á sviði áróðurs, enda nota þeir meira fé í her sinn en öll önnur ríki til samans.

Flest ríki beita slíkum brögðum, en því ríkari og valdameiri sem þau eru, þeim meiri mátt hafa þau á sviði áróðurs. En þó að erlendar stofnanir hafi meiru úr að moða til að dreifa áróðri, eru innlendar áróðursstofnanir einnig öflugar. Almannatengslaiðnaðinum vex ásmegin og stærstu fyrirtæki og stofnanir landsins reka umfangsmikinn áróður fyrir sinni starfsemi. Þeim mun ríkari og valdameiri sem stofnunin er, þess betur er hún í stakk búin að stunda áróður. Starfsemi áróðursdeildanna er svo umfangsmikil að nærri ómögulegt er að ná yfir hana. Hverjir standa svo andspænis þessum gríðarlega her áróðursmeistara? Nokkrir illa launaðir blaðamenn, einstaka fræðimenn og áhugamenn, og svo einstaklingar sem reka blogg og heimasíður. Hið almenna skólakerfi kennir ekki hvernig má bera kennsl á áróður, engin stofnun hefur eftirlit með áróðursiðnaðinum.

Lykilatriðið er þetta: Það er einkum á færi hinna fjársterku að halda uppi öflugum áróðri. Það má halda því fram að lítil vefrit eins og Eggin séu áróðursrit, en það er ónákvæmt. Það er munur á áliti, skoðun eða áherslum annarsvegar og áróðri hinsvegar. Áróður er skipulögð og kerfisbundin herferð til að hafa áhrif á skoðanir, hugmyndaheim og hegðun fólks í ákveðnum pólitískum og efnahagslegum tilgangi og til þess að falla undir algengustu skilgreiningar á áróðri þarf ákveðin leynd að ríkja yfir tilgangi þeirra. Það er stór munur á nýjustu herferð Evrópusambandsins um að sannfæra Íslendinga og fleiri Evrópubúa um að ganga í sambandið, með verkefnum á borð við „Enlargement and Integration Action 2013“ sem veitir tugum, ef ekki hundruðum félagsvísindamanna atvinnu við áróðursstörf, og sjálfstæðum skrifum áhugamanna.

Eina mótvægið við þessum yfirgangi áróðursfyrirtækjanna er grasrótarvinna. Við verðum að halda uppi sjálfstæðum upplýsingaveitum, vera dugleg við að láta í okkur heyra og, ekki síst, að ljóstra upp um áróðursherferðir og fræða hvert annað. Sniðgöngum stóru fjölmiðlana og verum okkar eigin upplýsingaveitur.


[1] Alex Carey, úr bókinni Taking the risk out of Democracy: Corporate Propaganda versus Freedom and Liberty.

Sýrland og vestræn heimsvaldastefna

Afmælisdagar kjarnorkusprenginganna í Hírosíma og Nagasaki eru okkur tilefni til að koma saman, minnast þess sem þar gerðist, heita því að slíkt gerist aldrei aftur – og setja fram óskir og kröfur um frið.

Ekki þarf þó djúpa greiningu á erlendum fréttum til að sjá að það er allt annað en friðvænlegt í heiminum nú um stundir. Enn eitt stríð í Miðausturlöndum sýnist vera í uppsiglingu, líklega það stærsta og versta.

Undanfarin 20 ár hefur stríðum í heiminum fjölgað mjög, æ styttra verður  á milli þeirra. Um hvað snúast þessi stríð? Ríkjandi fréttamiðlar á Vesturlöndum gefa okkur þá mynd að stríðin séu háð til að koma böndum á „vonda kalla“, rudda sem vanvirði lýðræði og mannéttindi og ógni líka öryggi nágranna sinna.

Þegar ég var ungur voru „vondu kallarnir“ sem útvarpið talaði um nær alltaf sk. „kommúnistar“. Heitasta stríðið í þá daga var stríðið í Víetnam og öllu Indó-Kína. Eftir að kommúnisminn í Sovétríkjunum og Kína féll, tóku „NÝJU STRÍÐIN“ við, í fyrsta lagi hið undarlega stríð sem George Bush setti á dagskrá – heimsstríð við hryðjuverkamenn – og einnig var hafin sería af stríðum við „vonda kalla“ meðal þjóðhöfðingja: Milosévits, Saddam, Talíbana, Gaddafí, Bashar Al-Assad. Þetta eru sk. „mannúðarstríð“ til að vernda þegna þessara landa gegn vondu körlunum sem þar stjórna.

Ef segja skal hvað þessir „vondu kallar“ eigi sameiginlegt vandast málið. Það er raunar erfitt að halda því fram að þeir séu merktir af meiri ruddaskap en fjöldinn allur af þjóðhöfðingjum heimsins sem fær þó að sitja í friði.

Ef nánar er að gáð koma þó sameiginlegir þættir í ljós. Þessir aðilar sitja eða sátu á svæðum sem eru EFNAHAGSLEG OG HERNAÐARLEG LYKILSVÆÐI, ekki síst hvað snertir vinnslu og flutning á jarðolíu. Ennfremur eiga þessir aðilar gjarnan vingott við önnur stórveldi en þau vestrænu. Þeir eru sem sagt ekki í RÉTTU LIÐI.

Það getur skýrt það að það eru einmitt VESTRÆN STÓRVELDI sem standa á bak við ÖLL ÞESSI NÝJU STRÍÐ. Alla mína 60 ára löngu ævi hefur sama blokkin ráðið mestu á vettvangi alþjóðamála: sú ensk-ameríska með evrópsku bandamönnum sínum, sameinuð í NATO. Um 1990 féll helsti andstæðingur Vesturblokkarinnar, Sovétríkin, og þá fékk hún yfirþyrmandi vald á heimsvísu, bæði pólitískt og hernaðarlegt. Síðan þá hafa valdbeiting hennar og hernaðarumsvif aukist stig af stigi gegnum NATO, og hún setur vægðarlaust á dagskrá VALDASKIPTI í löndum þar sem stjórnvöld eru henni ekki að skapi.

Hins vegar hafa NÝJAR valdablokkir vaxið fram eftir aldamótin 2000 með tilkomu nýrra efnahagsstórvelda sem sækja hart að Vesturlöndum og taka af þeim stækkandi sneiðar af heimsmarkaðnum. Helstu keppinautar Vesturblokkarinnar, Kína og Rússland, mynda jafnframt pólitíska mótstöðublokk eða mótstöðumöndul gegn forræði vesturblokkarinnar á vettvangi alþjóðamála. Skyldi nú ekki þetta tvennt vera samtengt: Annars vegar sívaxandi hernaðarstefna vesturveldanna og hins vegar undanhald þeirra á efnahagassviðinu fyrir skæðum keppinautum? Ég bara spyr. Alla vega er þetta staðreynd: Vesturblokkin hefur hernmaðaryfirburði og hún BRÚKAR þá. Það er hún sem undanfarna tvo áratugi hefur staðið afyrir öllum meiri háttar styrjöldum í heiminum. Í Miðausturlöndum eru liðsmenn í mótstöðublokkinni nú tveir: Íran og Sýrland. Vesturveldin hafa báða í sikti

Um hvað er barist? Mannréttindi og mannréttindabrot segja vestrænar fréttastofur? Hver sem vill má trúa því. Ég segi: Eins og 1914, eins og 1939 takast nú stóru auðvaldsblokkirnar á um áhrifasvæði, auðlindir og markaði. Stríðin snúast EKKERT um „Vonda kalla“ sem vanvirða mannréttindi. Af hverju er okkur þá sagt að þau snúist um „vonda kalla“ og mannréttindi? Jú, fyrsta regla þess sem vill hefja stríð er að gefa því göfuga yfirskrift til að vinna því fylgi meðal almennings. Og svo heppilega vill til að það eru sömu auðvaldseiningar sem STANDA Á BAK VIÐ helstu stríðin og eiga stóru sjónvarpsstöðvarnar sem ÚTSKÝRA stríðin.

Stríðin eru nauðsynlegur hluti af gangverki auðvaldsmaskínunnar, þessu efnahagskerfi sem hefur gróðasóknina sem drifkraft. Stríðin eru ekki knúin fram af sérstökum illmennum, þau eru knúin fram af venjulegum gróðapungum – og framkvæmdastjórum þeirra.

SÁL kapítalismans er gróðasóknin. En VERÖLD hans er frumskógurinn, veröld vægðarlausrar samkeppni milli efnahagseininga, ríkja og ríkjablokka. Þetta tvennt – gróðasóknin og samkeppnin – skapar stríðin. Það er hin einfaldi sannleikur um stríðin. Sagan um vondu kallana er hins vegar skáldskapur, ætlaður almenningi sem er annars frábitinn stríði..

Hvers eðlis eru átökin í Sýrlandi? Ráðandi fjölmiðlar Vesturlanda hafa gert sitt besta til að lýsa þeim sem slátrun stjórnvalda á saklausum mótmælendum. Það hefur þó smám saman komið í ljós, jafnvel í mörgum þeim fjölmiðlum sem venjulega fylgja meginstraumnum, að sú mynd hangir ekki saman. Inn á milli hafa alltaf heyrst fréttir sem sýna t.d. að uppreisnaröflin, hinn sk. Frjálsi sýrlenski her, hefur frá upphafi átaka í mars 2011, verið þungvopnaður. Suðningur Vessturveldanna við hann er ennþá aðallega gegnum leyniþjónustur, en Saudi Arabía og Qatar – traustustu vinir Vesturveldanna í Arabalöndum – hafa vopnað hann opinskátt, og herbækistöðvar á hann í Tyrklandi. Enda kemur fram hjá uppreisnaröflunum sjálfum að um fjórðungur fallinna í stríðinu, yfir 5000 manns, eru sýrlenskir stjórnarhermenn.

Inn á milli meginstraumsfréttanna heyrum við líka um voðaverk – svo sem fjöldamorð í borgunum Homs og Aleppo –sem framin eru af uppreisnarmönnum. Hinir svokölluðu uppreisnarhópar eru að uppistöðu íslamistar enda er ríkisstjórn Assads ein fárra austur þar sem starfar á veraldlegum grundvelli. Þessir vopnuðu íslamistar eru að verulegu leyti komnir frá öðrum araba- og múslimalöndum, en hins vegar ber mjög lítið fjöldamótmælum meðal almennings í Sýrlandi, nema þá helst til stuðnings stjórnvöldum. Það hljómar líka undarlega að heyra um al-Kaídasveitir í fremstu röð þeirrar uppreisnar sem studd er af Vesturlöndum. Hins vegar ná vestrænir leiðtogar og fréttastofur jafnan að snúa því þannig að öll voðaverk í Sýrlandi sýni fram á nauðsyn utanaðkomandi íhlutunar – í nafni mannúðar.

Stríðið í Sýrlandi er ekki valdbeiting stjórnvalda gegn mótmælahreyfingu, Það er ekki heldur hefðbundin borgarastyrjöld. Þetta er UTANAÐKOMANDI ÍHLUTUN og FORLEIKUR AÐ INNRÁSARSTRÍÐI sem stutt er af vestrænum stórveldum og bandamönnum þeirra í arabaheiminum. Þetta er endurtekning á dæminu frá Líbíu, Írak og Afganistan með lítillega breyttum leikurum og  leiktjöldum.

Ísland tilheyrir Vesturblokkinni. Ísland hefur stutt öll stríð hennar eftir fall Múrsins: Írak 1, Bosníustríð, í Kosovo, Afganistan, Írak 2, Líbíu. Og Össur okkar Skarphéðinsson hefur fyrirfram óskað eftir aðgerðum svokallaðs „alþjóðasamfélags“ í Sýrlandi – eins og hann studdi þær í Líbíu í fyrra. Það er línan frá NATO.

Össur er þó engin sérstakur hernaðarsinni, og hann hefur m.a.s sýnt réttlætiskennd og visst sjálfstæði í stuðningi við málstað Palestínu.

Nú er þó miklu meira í húfi að sýnt sé sjálfstæði – og línunni frá NATO hafnað. Ef það gerist ekki munu átökin í Sýrlandi þróast stig af stigi yfir í nýtt stríð í Miðausturlöndum – stríð sem tekur a.m.k. til Írans og verður þar með að miklum hildarleik. Aðgerðarleysi fjölmargra friðarhreyfinga og vinstri stjórnmálasamtaka varðandi átökin í Líbíu og nú Sýrland benda til að þau hafi, illu heilli, innbyrt hugmyndafræðina um ÍHLUTANIR Í NAFNI MANNÚÐAR.

En verkefni okkar er að skapa þrýsting á íslensk stjórnvöld að þau HAFNI STRÍÐSLEIÐINNI, að skapa þrýsting sem er meiri en þrýstingurinn frá NATO. Með því mundum við líka minnast fórnarlambanna í Hirosima og Nagasaki á verðugan hátt. Stríðsöflin sækja fram. Stríðsandstæðingar: Heyrið þið hverjum klukkan glymur?

Pistillinn var upphaflega fluttur við kertafleytingu á Akureyri þann 9. ágúst og birtist jafnframt á Smugunni þann 13. ágúst.

Hvað veistu virkilega um ”sýrlenska uppreisnarherinn”?

Ef þér er virkilega alvara um að þú látir þér þig varða um þjáningar Sýrlendinga, þá er það skylda þín að kynna þér gaumgæfilega hvað er þar á seyði. Ef þú hefur látið þér nægja að sjá fyrirsagnir íslenskra fjölmiðla, hefurðu ekki fengið hlutlægar fréttir og ekki fengið rétta mynd af því sem á sér stað. Ef þú hefur ekki áhuga á því að kynna þér til hlýtar það sem stendur hér ættirðu ekki að styðja loftárásir gegn Sýrlandi. Eftirfarandi samantekt, sem er einungis sýnishorn, er unnið af sjálfstæðum íslenskum friðarsinnum og er ekki unnin á vegum nokkurra samtaka eða stofnanna.

 

Vissir þú..

 

að sýrlenski uppreisnarherinn er fjármagnaður, þjálfaður og jafnvel búin til af erlendum leyniþjónustum?

Skjöl sem lekið hefur verið í gegnum Wikileaks sýna að starfsmenn bandaríska hernaðarráðgjafafyrirtækisins Stratfor[1], einkahernaðarfyrirtækisins Blackwater, auk starfsmanna bandarísku og ísraelsku leyniþjónustanna hafa verið í fremstu víglínu ”uppreisnarmanna” frá upphafi stríðs í Sýrlandi.[2] Breskir sérsveitarmenn þjálfa einnig uppreisnarhópana í Sýrlandi.[3] Wikileaks ljóstruðu upp um kennsluefni frá Bandaríska varnarmálaráðuneytinu í ”óhefðbundnum hernaði”, sem felst í því að þjálfa, fjármagna, vopna og nota innlenda ofbeldishópa til að vinna verkið fyrir sig. Það er mjög ljóst að Sýrland glímir nú við slíkan óhefðbundinn hernað.[4]

Breska dagblaðið the Guardian hefur sýnt að pólitísk forysta ”Sýrlenska þjóðarráðsins” (Bassma Kodami, Radwan Ziadeh, Ausama Monajed, Hamza Fakher) hefur árum saman verið viðriðin við stofnanir á borð við Council on Foreign Relations (CFR), leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), the Democratic Council (hluti af bandaríska varnarmálaráðuneytinu), og Henry Jackson Society Strategy Briefing (þrýstihópur á vegum bandarískra ný-íhaldsmanna.[5] Bandaríska varnarmálaráðuneytið fjármagnaði öfgahópa í Sýrlandi í að minnsta kosti 6 ár áður en uppreisn hófst.[6] Bandaríski herforinginn Wesley Clark viðurkenndi árið 2007 að ákveðið hafi verið árið 2001 að binda endi á ríkisstjórnirnar í Írak, Sómalíu, Súdan, Líbýu, Sýrlandi, Líbanon og Íran með opnum og leynilegum hernaði.[7]

 

að konungsfjölskyldur Katar og Sádí Arabíu fjármagna erlenda hryðjuverkamenn til að berjast í Sýrlandi?

Konungsfjölskyldurnar í Katar og Sádí Arabíu hafa fjármagnað erlenda hryðjuverkamenn til að berjast gegn Sýrlandsstjórn.[8] Bandarískir hershöfðingjar hafa viðurkennt að Al Kaída berjist meðal uppreisnarmanna. Sádí Arabía greiðir uppreisnarmönnum laun.[9]

 

að sýrlenskir uppreisnarmenn bera ábyrgð á flestum dauðsföllum í borgarastyrjöldinni?

Samkvæmt Wikipedia hafa sýrlenskir uppreisnarmenn myrt um 5000 her- og lögreglumenn í Sýrlandi, sem eru fleiri en fjöldi uppreisnarmanna sem hafa verið myrtir. Margt bendir til að megnið af þeim 9000 almennu borgurum sem hafa fallið hafi verið myrt af uppreisnarmönnum, þrátt fyrir að ætíð sé gefið í skyn að stjórnarherinn hafi verið að verki. Það voru til dæmis uppreisnarmenn sem rufu vopnahléið með því að myrða 80 Sýrlendinga í skipulögðum árásum.[10]

 

að skipulögð áróðursherferð hefur verið sett af stað gegn Sýrlandsstjórn

Fjöldi blaðamanna hefur sagt upp störfum hjá sjónvarpsstöðinni Al Jazeera í mótmælaskyni við að konungsfjölskyldan í Katar noti stöðina í áróðursskyni gegn Sýrlandi.[11] Breski blaðamaðurinn Alex Thompson hjá Channel 4 hefur sakað uppreisnarmenn um að hafa reynt að myrða sig, svo hægt væri að kenna sýrlenskum stjórnvöldum um ódæðið sem svo myndi auka þrýsting fyrir loftárásir frá NATO.[12] Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemein Zeitung komst að þeirri niðurstöðu að fjöldamorðin í Homs, þar sem 108 stuðningsmenn sýrlenskra stjórnvalda voru myrt með köldu blóði, hafi verið framin í þeim sama tilgangi: Að kenna Sýrlenskum stjórnvöldum um og þrýsta á alþjóðasamfélagið að hefja loftárásir.[13]

 

að loftárásir gegn Sýrlandi hafar þegar verið skipulagðar

Breskir, franskir og Bandarískir leyniþjónustumenn hafa búið sýrlenska uppreisnarherinn undir loftárásarhernað frá Atlantshafsbandalaginu.[14] Innanbúðarmenn hjá breska varnarmálaráðherranum reikna með að Sýrland verði ”eins og Líbýa… en stærri og blóðugri”.[15]

 

Niðurlag

Það væru eðlileg viðbrögð að efast um blöðunga sem þennan og réttmæti þeirra upplýsinga sem koma fram í honum. Hið sama ætti að gilda um þær upplýsingar sem þú færð frá íslenskum fréttamiðlum. Kynntu þér báðar hliðar málsins og taktu upplýsta ákvörðun. Þér er velkomið að hrekja þær heimildir sem fylgja þessarri samantekt.

 


[2] Nelson, S. C. 07.03.2012. Syria uprising: Mossad, Blackwater and CIA ‘led operation in Homs’. UK: The Huffington Post, http://www.huffingtonpost.co.uk/2012/03/07/syria-uprising-mossad-blackwater-and-cia-led-operations-in-homs_n_1326121.html

 

[3] ”Elite UK Forces”. 5. januar 2012. British special forces training Syrian rebels? Hentet fra http://www.eliteukforces.info/uk-military-news/0501012-british-special-forces-syria.php

[4] Department of the Army (US). September 2008. Army Special Operations Forces: Unconventional Warfare. Washington DC: Headquarters, Department of the Army. Hægt er að nálgast skjalið á http://www.fas.org/irp/doddir/army/fm3-05-130.pdf

 

[5] Skelton, C. 12. júlí 2012. The Syrian opposition: Who’s doing the talking? London: The Guardian. Á netinu á http://www.guardian.co.uk/commentisfree/2012/jul/12/syrian-opposition-doing-the-talking.

 

[6] Whitlock, C. 18. april 2011. U.S. secretly backed Syrian opposition groups, cables released by WikiLeaks show. Washington DC: The Post. http://www.washingtonpost.com/world/us-secretly-backed-syrian-opposition-groups-cables-released-by-wikileaks-show/2011/04/14/AF1p9hwD_story.html

[7] Yfirlýsingu hans má sjá á http://www.youtube.com/watch?v=9RC1Mepk_Sw

[8] AP. 21. mars 2012. Syria crisis a threat to region and world, UN chief says. http://www.cbc.ca/news/world/story/2012/03/21/syria-un-violence.html

 

[9] Chulov, M. og MacAskill, E. 22. júní 2012. Saudi Arabia plans to fund Syria rebel army. London: The Guardian. Hægt er að nálgast fréttina á http://www.guardian.co.uk/world/2012/jun/22/saudi-arabia-syria-rebel-army

[10] BBC World Service. 4. juni 2012. Syria rebels ‘kill 80 soldiers’ in weekend clashes. http://www.bbc.co.uk/news/world-middle-east-18322412

 

[11] Hashem, A. 20. mars 2012. Al Jazeera journalist explains resignation over Syria and Bahrain coverage. The Real News: http://therealnews.com/t2/index.php?option=com_content&task=view&id=31&Itemid=74&jumival=8106

[12] Thompson, A. 8.juni 2012. Set up to be shot in Syria’s no-mans land. London: Channel 4 News. http://blogs.channel4.com/alex-thomsons-view/hostile-territory/1863.

[13] Hermann, R. 7.juli 2012. Abermals massaker in Syrien. Frankfurter Allgemein Zeitung. http://www.faz.net/aktuell/politik/neue-erkenntnisse-zu-getoeteten-von-hula-abermals-massaker-in-syrien-11776496.html

[14] ”Elite UK Forces”. 5. januar 2012. British special forces training Syrian rebels? Greinina er hægt að nálgast á http://www.eliteukforces.info/uk-military-news/0501012-british-special-forces-syria.php

[15] Sherwood, D. 1. januar 2012. Syria will be bloodiest yet. London: The Sun. http://www.dailystar.co.uk/news/view/227911/Syria-will-be-bloodiest-yet/

Síaukin barátta í Noregi fyrir afnámi EES samningsins

Samtökin Nei til EU, ásamt verkalýðsfélögum í Noregi,krefja norsk stjórnvöld að veita nákvæmar upplýsingar um það hvaða áhrif EES samningurinn hefur haft í raun og veru fyrir Noreg. Í ítarlegri skýrslu, sem unnin var af Dag Seierstad, kemur fram að EES samningurinn hefur veikt lýðræði í Noregi, verið langstærsti áhrifavaldurinn fyrir innleiðingu hættulegrar markaðsvæðingar á kostnað samvinnuhreyfinga, velferðarkerfisins og réttinda launþega, gert Noreg þátttakanda í ótal mislukkuðum verkefnum Evrópusambandsins, og skapað einskonar skuggastjórn skriffinna, svo eitthvað sé nefnt. Skýrsluna má nálgast á http://www.de-facto.no/bilder/121500Rapport2-2012.pdf. Verkalýðsfélög, ásamt Nei til Eu beita sér nú í auknu mæli fyrir afnámi EES samningsins í Noregi.

Sálfræðingar í APA aðstoða við pyntingar

Samtökin Coalition for an Ethical Psychology berjast nú fyrir því að samtök sálfræðinga í Bandaríkjunum (APA), sem eru langstærstu og valdamestu samtök innan sálfræðinnar, beiti sér gegn því að meðlimir samtakanna noti þekkingu sína við ýmsa siðlausa iðju. Það hefur komið á daginn að fjöldi sálfræðinga vinnur með Bandaríkjaher og leyniþjónustu Bandaríkjanna við sálfræðihernað (psychological warfare), pyntingar (sem kallaðar eru “óhefðbundnar yfirheyrsluaðferðir”) og áróður í hernaðarskyni. APA hefur ekki orðið við kröfunni og hefur þess í stað hafið upplýsingabaráttu til þess að réttlæta iðju sína.

Frekari upplýsingar má nálgast á www.ethicalpsychology.org/pens

Nýju stríðin sýna endurkomu nýlendustefnunnar

Í október horfðum við á þjóðarleiðtoga eltan uppi og drepinn í beinni útsendingu. „Við komum, sáum og – hann dó!“ sagði Hillary Clinton skellihlæjandi við sjónvarpið þegar hún hafði horft á slátrunina. Hinn formlegi farvegur árásar á Líbíu lá gegnum samþykkt Öryggisráðs SÞ nr. 1973 frá í mars í vor um flugbann yfir Líbíu og „verndun borgaranna“ út frá óstaðfestum fréttum um fjöldamorð Gaddafís á eigin þegnum. Skömmu síðar sendu leiðtogar helstu árásarveldanna, Bandaríkjanna Breta og Frakka, frá sér yfirlýsingu og sögðu „ómögulegt að ímynda sér framtíð Líbíu með Gaddafí við völd“ (International Herald Tribune, 14. Apríl).

Svipaða aftöku þjóðhöfðingja eftir innrás sáum við áður í Írak þar sem innrásarherirnir og þjónar þeirra eltu uppi Saddam Hússein og hengdu hann eftir skyndimeðferð í götudómstól. Afgreiðslan á Milosévic fyrrum forseta Júgóslavíu var náskyld: Vesturveldin og NATO gerðu hernaðarinnrás, steyptu „óæskilegum“ þjóðarleiðtoga, drógu hann svo fyrir eigin dómstól þar sem hann dó í fangelsi meðan á réttarhöldunum stóð. Allir þessir þjóðarleitogar dæmdu sig til dauða með því að vera Vesturveldunum óþjálir. Aftakan var í tveimur áföngum: fyrst áróðursleg þar sem fjölmiðlar heimsvaldasinna breyttu mönnunum í skrýmsli og síðan var gerð hernaðarleg „mannúðarinnrás“ til að frelsa þjóðirnar undan skrýmslinu, skrýmslið drepið – og æði margir aðrir.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki verið að flækja málin eða gera sér lífið erfitt. Þau hafa stutt allar þessar innrásir. Enda er komið upp sjálfvirkt kerfi þar sem öll Vesturlönd eru komin inn í NATO, hernaðarbandalag USA og ESB, ýmist með beinni aðild eða aukaaðild og löndin fara nánast sjálfkrafa í stríð hvar og hvenær sem herforingjarnir stökkva til. Vinstri stjórn, hægri stjórn, NATO-þjónkunin óbreytt. Steingrímur og Ögmundur halda að vísu friðarræður og eru á móti stríðinu, en þeir marsera samt með á vígvöllinn. Annað myndi bara kosta veruleg óþægindi gagnvart NATO.

Hættuleg þjóðréttarþróun
Í tveimur fyrstu greinum í sáttmála Sameinuðu þjóðanna  frá 1945 koma fram þau prinsipp sem síðan urðu mikilvægustu atriðin í þjóðarrétti, og voru rökréttur lærdómur af nýliðinni styrjöld. Í fyrstu grein er talað um að virða skuli „grundvallaratriðin um jafnan rétt og sjálfsákvörðunarrétt þjóða“. Í samningi SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi stendur ennfremur: „Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar…“ Önnur grein sáttmálans frá 1945 bannar ríkjum að beita aðrar þjóðir vopnavaldi. Undantekning er aðeins beiting þess í sjálfsvörn.

Undanfarna tvo áratugi hefur markvisst verið grafið undan þessum  þjóðréttarreglum. Þær hafa ekki verið numdar úr gildi formlega en að miklu leyti í reynd: a) Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er mjög gengisfelldur. b) Bann við árásarstríðum er í upplausn. c) Stórveldin beita  hernaðaraðgerðum gegn smærri ríkjum  hvort sem SÞ leggur stimpil sinn við þær eða ekki.

Eftir 11. sept. 2001 héldu Bandaríkin fram rétti sínum til „fyrirbyggjandi stríðs“ með eða án samþykkis SÞ, og komust upp með það sem eina risaveldið. Mikilvægt skref í þessari þjóðréttarþróun var svo ályktun Allsherjarþings SÞ árið 2005 um „skyldu til að vernda“ borgarana. Í framhaldinu hafa þeir sem nefna sig „alþjóðasamfélgið“ – í reynd fyrst og fremst USA og NATO – ýmist hótað löndum hernaðaraðgerðum eða, eins og í Líbíu, beinlínis gert innrás með tilvísun til „skyldunnar til að vernda“. Vísað er til þess að stjórnvöld í viðkomandi löndum brjóti „mannéttindi“ sem þarf að hindra ef og aðeins ef stjórnvöld eru ekki þóknanleg USA og NATO-veldunum. Vesturveldin hafa því komið á breyttum alþjóðasamskiptum og réttarreglum í þá átt sem hentar best þeirra landvinningabrölt, enda er „verndun borgaranna“ alveg kjörið yfirvarp til innrásar í lönd, og réttlætir „mannúðaríhlutun“. Réttur til íhlutunar er alltaf réttur hins sterka og þegar afnumin er virðing fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða gengur frumskógarlögmálið í gildi.

Þeir stóru og sterku grafa undan sjálfsákvörðunarréttinum. Það birtist ekki aðeins í formi hernaðarafskipta. Á tímum hnattvæðingar fjandskapast fjölþjóðlegt auðmagn og stórveldi við efnahagslegum sjálfsákvörðunarrétti (smærri) þjóða. Það viðhorf birtist m.a. í Evrópusamrunanum, og í sama  anda starfa AGS, Alþjóðabanki, WTO, ASEAN, NAFTA sem öll hafa frjálst flæði fjármagnsins sem sitt meginboðorð. Þegar svo hernaðarlega ógnunin frá USA og NATO bætist við efnahagslegar fyrirskipanir ofannefndra samtaka er erfitt fyrir einstök ríki að reka sjálfstæða efnahagsstjórn.

Nýja NATO og Sameinuðu þjóðirnar
Afgerandi í þessari þróun var sú breyting sem gerð var á stefnugrundvelli NATO 1999. Þá var opnað fyrir hernað bandalagsins „out of area“, s.s. utan svæðis aðildarlandanna, til að berjast fyrir grunngildum NATO (skilgreind sem mannéttindi, lýðræði, frjáls markaður). Sama ár réðist NATO á Júgóslavíu, án samþykktar frá SÞ. Nýja NATO er hernaðarhlið tvíeykisins USA/ESB og er megingerandi í tveimur heitustu styrjöldum samtímans: í Afganistan og Líbíu.

Í „nýju stríðunum“, þ.e. eftir fall Sovétríkjanna um 1990, hafa SÞ annars vegar orðið verkfæri Vesturveldanna í alþjóðapólitík og hins vegar hafa þau hætt beinum afskiptum á deilu- og átakasvæðum. Gerendurnir sem koma í staðinn eru annars vegar risaveldið eina, Bandaríkin – í Sómalíu, Írak, Afganistan – og hins vegar NATO – í Júgóslavíu, Afganistan, Líbíu. NATO kemur þar fram sem allt í senn a) löggjafi (skilgreinir hver er óvinur), b) gerðadómari,  c) hervald. Bandalagið kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og gefur sig út fyrir að vera „yfirþjóðlegt“ og hlutlaust afl, en gætir eingöngu hagsmuna vestrænna heimsvelda og sýnir æ herskárri hegðun.

Dæmið um Líbíu er ekki flókið
Hvers eðlis var og er innrásin í Líbíu? Sumum finnst dæmið flókið og trúa Össuri sem talar um „mannúðaríhlutun“. Málið er samt alveg jafn einfalt og í Afganistan og Írak. Líbía er olíuauðugasta land í Afríku en auðhringarnir hafa ekki fengið ótakmarkað aðgengi að lindunum. Þetta er einfaldur olíuimperíalismi.

Það er auðvelt að setja slíkan stimpil á Bandaríkin enda er komin hefð á blóði drifna utanríkisstefnu þeirra. En nú voru það Evrópuríki, Bretar og sérstaklega Frakkar, sem tóku frumkvæði, jafnvel umfram Bandaríkin. Hvað voru þau að gera? Útbeiða evrópsk gildi? Já, Vestur-Evrópa er vagga nýlendu- og heimsvaldastefnu og kynþáttahyggju. En eftir seinna stríð urðu gömlu nýlenduveldin að draga sig til baka, bæði vegna frelsisbaráttu nýlendna og vegna yfirburða Bandaríkjanna. En samhliða þeirri þróun þjóðréttarmála sem rædd var hér að ofan taka þessi sömu ríki, ESB-stórveldin, aftur upp opnari nýlendustefnu. Frakkar kepptu öðrum lengur við Bandaríkin um gömlu svæðin sín í Vestur-Afríku, jafnvel gegnum leiguheri (t.d. í Kongó, Rúanda..). Eftir að Sarkozy kom til valda hafa þeir hins vegar tekið upp fulla samvinnu við Bandaríkin – og innan NATO – og ætla sér þannig stærri skerf en áður. Í kosningabaráttunni árið 2007 lagði Sarcozy upp hina endurbættu utanríkisstefnu og sagði þá í ræðu: „Ég vil vera forseti yfir Frakklandi sem kemur Miðjarðarhafssvæðinu í ferli endursameiningar eftir tólf alda klofning og sársaukafull átök… Ameríka og Kína hafa nú þegar hafið landvinninga í Afríku. Hversu lengi ætlar Evrópa að bíða með að byggja Afríku morgundagsins? Meðan Evrópumenn hika sækja aðrir fram.“ Og fimm dögum eftir að loftárásirnar hófust á Líbíu í mars í vor sagði Sarkozy á leiðtogafundi ESB: „Þetta er sögulegt augnablik… það sem gerist í Líbíu mótar réttarfarið… það eru meiri háttar straumhvörf í utanríkisstefnu Frakklands, Evrópu og alls heimsins.“ („Libya: NATO provides the Bombs; the French “Left”  provides the Ideology“ eftir Pierre Lévy, sjá Google). Um líkt leyti birti franska blaðið Libération bréf þar sem Líbíska þjóðarráðið („uppreisnarmenn“) lofaði að tryggja franska olíurisanum Total 35% af öllum vinnsluheimildum á líbískri olíu „í skiptum fyrir“ fullan hernaðarlegan stuðning Frakka við Líbíska þjóðarráðið.

Þetta er jafn einfalt og ógeðslegt og það hljómar. „Mannúðaríhlutunin“ er gamaldags ræningjaleiðangur. Gömlu nýlenduveldin renna nú aftur á lyktina af blóði og olíu, og bandalagsríki þeirra koma í halarófu á eftir, óháð því hvort þar sitja hægri eða vinstri stjórnir.

Endurkoma nýlendustefnunnar
Heimsvaldastefnan hefur tekið nokkrum breytingum í tímans rás m.t.t. beinnar pólitískrar undirokunar þeirra landa sem verða fyrir henni. Seinni hluti nítjándu aldar var saga um útrás og nýlendusamkeppni Evrópuríkja sem er vel kunn úr skólabókum – saga um hernaðarinnrásir, fallbyssudiplómatí, uppkaup á nokkrum ættbálkahöfðingjum og síðan beina evrópska stjórn á viðkomandi landi. Á tuttugustu öld (einkum eftir seinna stríð) hörfaði nýlendustefnan um skeið vegna frelsisbaráttu nýlendna. Samhliða því tóku nokkur svæði upp sósíalisma og studdu þjóðfrelsisbaráttuna. Heimsvaldasinnar tóku þá upp „nýnýlendustefnu“, nýlendur fengu formlegt pólitískt sjálfstæði án þess þó að losna undan efnahagslegu ofurvaldi heimsvaldasinna. Eftir að sósíalsiminn beið aftur ósigur á sínum svæðum þrengdi mjög að fyrrverandi nýlendum á ný.

Tuttugasta og fyrsta öldin: Heimsvaldasinnar hafa snúið sér aftur að því að vinna beina stjórnun á hinum vanþróaðri jaðarsvæðum og/eða koma sér þar upp leppríkjum – umfram allt í efnahagslega mikilvægum löndum. Til þess þarf m.a. að veikja og beygja í duftið ríki sem á einhvern hátt hindra fullt markaðsfrelsi og hnattvæðingu á forsendum auðhringanna og ekki síður ríki sem mynda öflug sjálfstæð hagkerfi og bjóða vestrænum heimsvaldasinnum upp á efnahagslega samkeppni. Hnattvæðing auðhringanna er ótrygg ef henni er ekki fylgt eftir með hervaldi. Ríki eins og Íran og Líbía (og fáein önnur) hafa verið Vesturveldunum óþjál og ósamvinnuþýð. Auk þess bjóða ríki eins og Rússland og sérstaklega Kína upp á alvarlega efnahagslega samkeppni í Asíu og Afríku. Vesturveldin reiknuðu sem svo: Það þarf stríð til að reka Kína út úr Líbíu. Það er að takast, og sýnir það sem koma skal.

Vellyktandi heimsvaldahyggja
Málstaður heimsvaldasinna er vondur. Öll stríð þeirra eru til að byggja upp og verja arðránskerfi þeirra á heimsvísu. Slíkt er óheppilegt að segja upphátt svo stríðin verður óhjákvæmilega að heyja undir fösku flaggi. Svo einfalt er það. Yfirskin allra heimsvaldastríða er einhver stórfelld lygi – vegna þess að nauðsynlegt er að vinna stuðning almennings svo hann sé reiðubúinn að leggja fram bæði skattpeninga og syni sína til stríðsins. Þáttur fjölmiðla heimsvaldasinna er því algjört grundvallaratriði í sjálfum stríðsrekstrinum. Yfirskrift stríðsins verður að hljóma vel. Á 19. öld voru þessar ofbeldisfullu ránsferðir kallaðar kristnun, siðvæðing villtra og ósiðaðra þjóða, jafnvel afnám þrælahalds o.fl. Í þá daga keypti almenningur heimsvaldaríkjanna kynþáttahyggjuna og át hana hráa. Á 20. öld var kommúnisminn helsti óvinur heimsvaldastefnunnar og taktíkin var þá að beita fjölmiðlunum til að gera kommúnismann að grýlu sem æti börn og þvæði heila. Í upphafi 21. aldar er kommúnisminn horfinn um sinn sem ógn, og hrá kynþáttahyggjan dugar heldur ekki lengur sem stríðshugmyndafræði. Það verður að tilreiða heimsvaldahugmyndafræðina ögn betur og teikna betur myndina af óvininum. Yfirskriftir hernaðaraðgerða sem nú eru vinsælastar eru einkum tvær: a) „stríð gegn hryðjuverkum“ og b) „mannúðaríhlutun“.

„Stríð gegn hryðjuverkum“
Þann 11. september 2001 kvað við startskot stórfelldrar hernaðarútrásar, þegar Bandaríkin og NATO settu „stríð gegn hryðjuverkum“ á fána sinn sem stríðshugmyndafræði. Hin heimatilbúnu hryðjuverk á Manhattan og heimatilbúna hugmyndafræði dugðu vel til innrása í Afganistan, Írak, Pakistan m.m. og eru enn megingrundvöllur undir vestrænni hernaðarútrás. Blekkingarleikurinn kringum 11. september og Afganistan- og Íraksstríðin er fyrir löngu afhjúpaður. Það vissu hinir voldugu bakmenn að myndi gerast, en þeir tóku óhræddir þá áhættu af því þeir vita að völd þeirra yfir ríkjandi og tóngefandi fjölmiðlakerfi eru slík að það skaðar þá ekki að marki þótt þeir séu afhjúpaðir af einhverjum einstaklingum og smáfjölmiðlum. Á Íslandi er vinsælt að tala um innrásirnar sem „misheppnaðar“ tilraunir til að „frelsa“ þessi lönd. Stríðin eru sem sagt „klúður“ en tilgangurinn góður. Þetta er bara ein útgáfan af blekkingunni miklu.

Tveimur mánuðum eða svo eftir 11. september, þegar innrás í Afganistan var hafin, var Wesley Clark, fyrrum yfirhershöfðingi NATO í Kosovo, staddur í hermálaráðuneytinu í Washington. Hann skrifar:

„…í Pentagon í nóvember 2001 hafði einn af yfirhershöfðingjunum tíma fyrir spjall. Undirbúningur fyrir innrás í Írak var í fullum gangi, sagði hann. En það var fleira í gangi en hún. Hún var rædd, sagði hann, sem liður í fimm ára hernaðaráætlun, og alls var um sjö lönd að ræða, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbíu, Íran, Sómalíu og Súdan.“ (Wesley Clark, Winning Modern Wars, bls. 130)

Al-Kaida gegnir lykilhlutverki í “stríði gegn hryðjuverkum”. Þetta eru óskilgreindir hópar íslamista sem hafa verið gegnumsmognir af flugumönnum tengdum CIA allt frá stríði Afgana við Sovétmenn. Það sérkennilegasta við þessa hópa  er að þeir ýmist ganga beint erinda USA og Vesturveldanna í því að grafa undan „óæskilegum” stjórnvöldum (í Afganistan á 9. áratug, í Bosníu, Kosovo, Tsétsníu, Líbíu) eða þeir birtast sem svarnir óvinir Vesturlanda og eru þá réttlæting fyrir vestrænni íhlutun (í Afganistan frá 2001, í Írak, Pakistan, Sómalíu og víðar). Þeir þjóna sem sagt vestrænum hagsmunum með breytilegum hætti.

„Mannúðaríhlutanir“
Eftir umbreytingu NATO frá 1999 og sérstaklega eftir samþykkt SÞ árið 2005 um „skyldu til að vernda“ hafa heimsvaldasinnar skipulega unnið fylgi hugmyndum sínum um íhlutunarrétt „alþjóðasamfélagsins” á grundvelli  „mannúðar“. Óæskileg stjórnvöld eru í fjölmiðlum útmáluð sem skrýmsli, sem er undirbúningur íhlutunar.  En vestrænir heimsvaldasinnar láta ekki þar við sitja. Þáttur vestrænnar leyniþjónustu á efnahagslega og hernaðarlega mikilvægum svæðum verður sífellt fyrirferðarmeiri. CIA og breska BI6 fara þar fyrir. Leyniþjónusturnar eru sífellt reiðubúnar að nýta sér og ýta undir pólitíska ólgu til að koma ár sinni betur fyrir borð og steypa óæskilegum stjórnvöldum og koma æskilegum að í staðinn.

Júgóslavía var prófsteinn nýrrar herskárrar stefnu USA og NATO, og Kosovo-stríðið 1999 var gott dæmi um „mannúðaríhlutun”. Loftárásir NATO á Serbíu hófust eftir að bandarískir ráðherrar og fréttastofur höfðu óskapast yfir serbneskum fjöldamorðum á 100 þúsund eða 250 þúsund Kosovoalbönum og yfir serbneskum „nauðgunarbúðum” o.s.frv. Eftir uppgjöf Serbíu fundust fjöldagrafirnar aldrei og þeir sem féllu höfðu fallið í átökum serbneska hersins og Frelsishers Kosovo.

Fyrsta „litabyltingin” kom í kjölfarið gegnum kosningar í Serbíu árið 2000 með miklum vestrænum afskiptum. Forustuafl í þeirri byltingu voru serbnesku stúdentasamtökin Otpor. Vestrænum, fyrst og fremst bandarískum, stuðningi við þau var einkum beint gegnum frjáls „mannréttindasamtök” eins og National Democratic Institute (tengd Demókrataflokknum) og International Republican Institute (tengd Repúblíkanaflokknum) og einnig hin ríkisreknu National Endowment for Democracy, og stuðningurinn var pólitískur, fjárhagslegur, faglegur og tæknilegur.  Niðurstaðan var fall Milosévic og sigur „hófsamra”, vestrænt sinnaðra afla, bygging stærstu bandarísku herstöðvar í Evrópu í Kosovo m.m.

Serbneska dæmið lagði línuna fyrir þær „litabyltingar” sem urðu á svæði fyrrum Sovétríkjanna, svo sem í Georgíu  2003, Úkraínu 2004 og Kyrgistan 2005. Afskipti  vestrænna stjórnvalda og leyniþjónusta voru bein og óbein, leynd eða ljós, ekki síst gegnum frjáls vestræn „mannréttindasamtök” og samtök frá Serbíu, ennfremur með pólitískum ráðgjöfum, flugumönnum, fjölmiðlafári, nethernaði, opnun sjónvarpsstöðva og miklum peningastraumi. Ekki skal því haldið fram að þessar byltingar eigi sér engra rætur í raunverulegri ólgu heima fyrir, en málið er að heimsvaldasinnar spila á þá ólgu og geta haft úrslitaáhrif á stefnu hennar og útkomu. „Litabylingarnar“ skiluðu í öllum tilfellum bandarískum herstöðvum í viðkomandi löndum. Það gat heldur ekki hjá því farið að vestræn afskipti léku stórt hlutverk í hinu svokallaða „arabíska vori” á þessu ári enda eru þar meiri heimsvaldahagsmunir í húfi en annars staðar og vestræn (númer eitt bandarísk) viðvera er þar leynd og ljós á öllum sviðum.

Vesturveldin og NATO („alþjóðasamfélagið”) blanda sér svo með beinni hernaðaríhlutun í innri átök landa og borgarastríð, kynda undir ættbálka- og þjóðernaátök til þess að brjóta niður eða veikja viðkomandi lönd, þ.e.a.s. ef þau eru of sjálfráða, hlýða illa hnattvæðingarreglunum, neita vesturveldunum um herstöðvar, eiga of mikil viðskipti við Kína o.s.frv. Þannig hefur verið í pottinn búið í öllum helstu styrjöldum eftir lok kalda stríðsins, í Júgóslavíu, Afganistan, Írak og nú síðast í  Líbíu. Næsta land í þessari röð sýnist vera Sýrland og herkvíin um Íran þrengist stöðugt.

Í aðdraganda Líbíustríðs voru spunavélar ráðandi vestrænna fréttastofa á yfirsnúning að mála myndina af Gaddafí og básúna um „fjöldamorð á eigin þegnum” (netsíðan Gagnauga.is hefur gert því lygamoldroki góð skil). Afgerandi fyrir samþykkt Öryggisráðsins nr. 1973 (um flugbann yfir Líbíu) var ennfremur undirskriftalisti 70 mannréttindasamtaka, langflestra vestrænna, m.a. þeirra sem virkust voru í áðurnefndum „litabyltingum”, en formlegt frumkvæði að listanum tóku líbísk samtök sem nefna sig Libyan League for Human Rights (LLHR). Þar var farið fram á íhlutun alþjóðasamfélagsins í Líbíu og vísað til áðurnefndrar „skyldu til að vernda” borgarana. Bænaskráin var m.a. send Obama forseta og Ban-ki Moon. Sýnt hefur verið fram á náin tengsl samtakanna LLHR og Líbíska þjóðarráðsins. (Mahdi Darius Nazemroaya, „Libya and the Big Lie: Using Human Rights Organizations to Launch Wars“). Þetta meðal annars bendir til að ákveðið úrval mannréttindasamtaka sé orðið eitt meginvopn vestrænnar heimsvaldastefnu í hernaðarlegri útrás hennar.

Nýtt amerísk-evrópskt hernám Afríku er aftur komið í gang. Í vor sendu Frakkar herafla til Fílabeinsstrandarinnar. Bandaríkin hafa undanfarið stóraukið hernaðarsamvinnu við nær öll ríki Afríku gegnum Afríkuherstjórn sína (AFRICOM) og munu ekki lýða það að þau halli sér í neinar aðrar áttir. Nýlega sendi Obama herlið til Uganda og á næstunni fara bandarískar hersveitir til Suður-Súdan, Kongó og Miðafríkulýðveldisins. Líbíustríðið er ekki lokaþáttur hernaðaraðgerða heldur bera þau flest merki þess að vera upphafsþáttur.

Alhliða barátta – sálmasöngur nægir ekki
Við Vesturlandabúar lifum í miklum lygaheimi. Okkur mun farnast illa nema við hættum að blekkja okkur sjálf og nefnum hlutina réttum nöfnum. Það bjargar okkur ekki þótt friðarsinnar syngi sálma um frið. Vandamálið er stærra en svo. Sem stendur er baráttan gegn heimsvaldastefnunni sorglega veik. Á Íslandi þurfum við öflug samtök heimsvaldaandstæðinga. Heimsvaldastefnan er ríkjandi form kapítalismans, og það er mikilvægt að fólk greini ráns- og mannætueðli hennar. Við þurfum að berjast gegn henni í öllum myndum hennar, efnahagslegum, pólitískum og hernaðarlegum. Við verðum að stuðla að því að Íslendingar verji eigin sjálfsákvörðunarrétt, og einnig að þeir styðji heimsvaldaandstöðu hvar sem er í heiminum. Sérstaklega er brýnt að berjast gegn hinni ríkjandi heimsvaldablokk USA/ESB – sem sameinuð er í NATO – og hinni herskáu og stórhættulegu sókn hennar að heimsyfirráðum. Því lengra sem hún kemst í þeirri sókn þeim mun ófriðvænlegra og ógæfulegra er framundan.

— — — —

Þessi grein birtist áður í Dagfara, tímariti Samtaka hernaðarandstæðinga, í desember 2011.