Ályktun frá Sólunum þremur

Í tilefni af kynningarfundi sem haldinn var í félagsheimilinu Þjórsárveri í gær, þar sem tvær tillögur að deiliskipulagi fyrir Flóahrepp voru kynntar, önnur með Urriðafossvirkjun en hin án hennar, senda Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum eftirfarandi sameiginlega ályktun frá sér:

Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum fagna samþykkt hreppsnefndar Flóahrepps frá þrettánda júní 2007, um að hafa Urriðafossvirkjun ekki inni á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Samþykktin er mikil hvatning til þeirra sem vilja verja náttúruna við Þjórsá og hindra að orka þaðan verði seld til stóriðju.

Sólirnar þrjár telja viðbrögð Landsvirkjunar við ákvörðun hreppsnefndar um drög að skipulagstillögu án virkjunar ámælisverð. Landsvirkjun gat eins og aðrir hagsmunaaðilar komið með athugasemdir sínar við auglýsta tillögu hreppsnefndar og virt um leið lýðræðislegar viðurkenndar aðferðir. Óeðlilegt er að skipulagstillögurnar séu nú orðnar tvær eftir heimsókn Landsvirkjunar í Flóann.

Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum vilja ekki trúa því að hreppsnefnd Flóahrepps sé boðið að selja náttúruperlur á svæðinu fyrir opinberar framkvæmdir eða þjónustu, hvað þá að hreppsnefndin gangi að slíkum afarkostum. Flóamenn eiga rétt á almannaþjónustu án þess að þurfa að greiða hana slíku verði. Landsvirkjun getur varla haft umboð ríkisins til þess að gera Flóamönnum gylliboð um fjármuni almennings.  Við treystum því að hreppsnefnd Flóahrepps standi með þjóðinni í baráttunni fyrir náttúru landsins og jafnræði þegnanna.

Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum

—————————————-

Þessi ályktun er tekin orðrétt af bloggi Sólar í Straumi og birt hér án sérstakrar heimildar.

Hvað er Alþjóða- gjaldeyrissjóðurinn?

Nýlega kom hingað sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) og gaf út skýrslu sína sem birtist í „lauslegri þýðingu” á vefsíðu Seðlabankans og á frummálinu á vefsíðu IMF. Sjálfur varð ég mjög hissa þegar formaður nefndarinnar, Ben Hunt, birtist mér í fréttum RÚV fyrir um tveim vikum síðan, og hófst handa við að útlista niðurstöður nefndarinnar. Hvers vegna kemur þessi sendinefnd núna? Hafa Íslendingar á annað borð einhvern áhuga á að heyra þetta álit IMF? Skiptir þetta einhverju máli?

Það er tæpast ofsögum sagt að verulegur minnihluti Íslendinga viti hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er. Viti þeir á annað borð af tilvist hans er ólíklegt að þeir átti sig á því að hvaða marki hann greinist frá Alþjóðabankanum, systurstofnun hans. Þetta getur verið mjög ruglingslegt fyrir þá sem ekki eru vanir að hugsa mikið um ríkisfjármál eða alþjóðahagkerfið. Báðar þessar alþjóðastofnanir voru settar á laggirnar stuttu eftir seinni heimsstyrjöldina og eru gjarnan kenndar við fundarstaðinn Bretton Woods í Massachusetts í Bandaríkjunum.

Munurinn á stofnunum tveimur er í stuttu máli sá að Alþjóðabankinn er banki sem hefur það hlutverk að lána peninga til uppbyggingarverkefna þróunarlanda1 sbr. enska nafn bankans International Bank for Reconstruction and Development. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði upprunalega það hlutverk að tryggja að greiðslujöfnuður ríkja á milli myndi standast. Í þeim tilvikum þar sem svo væri ekki gat hann lánað fé til aðildarríkjanna á bestu kjörum fáanlegum. Þetta er vissulega í ætt við hefðbundið hlutverk banka en engu að síður er tilgangur IMF ekki að veita lán til uppbyggingar heldur aðeins ef í harðbakkann slær. Stundum er talað um eins konar vítahring eða skuldasúpu í þessu sambandi. Og fólk furðar sig á örlæti vestrænna ríkja sem þrátt fyrir allt eru tilbúin til þess að afskrifa skuldir þróunarlandabúa sem tæpast má telja siðmenntaða.

Þarft er að taka fram að hvorki IMF né Alþjóðabankinn hafa formleg völd. Þær geta ekki skyldað aðildarríki til eins né neins. Hins vegar vita þau það sem kæra sig um að þau lán sem þær veita eru oftar en ekki til komin vegna aðkallandi neyðar. Lánþeginn er þá í þeirri aðstöðu að geta ekki hjá því komist að óska eftir láni. Þá hefur lánveitandinn, hvort sem það er Alþjóðabankinn eða IMF, iðulega veitt lánið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þessi skilyrði eru gjarnan á þá leið að tollamúrar eru felldir, ríkisfyrirtæki einkavædd o.fl. í þeim dúr a la frjálshyggjustefnan. Þetta hefur lengi verið bitbein þeirra sem gagnrýna Washington samkomulagið (e. Washington consensus) sem vísar í slíka meinta stefnu arðráns. Það er ekki á mínu færi að rýna nánar í að hversu miklu leyti sú gagnrýni á rétt á sér en ljóst er að mætir menn, sem hafa haft aðgang að starfsháttum og þeim upplýsingum sem tíðkast innan þessara stofnana, líkt og Joseph Stiglitz, fyrrverandi aðstoðarbankastjóri Alþjóðabankans, hafa ritað heilu bækurnar um það hvað betur má fara í stefnumótun þeirra.

Því furða ég mig á hugarfarinu sem hér ríkir. Aðdragandi umræddrar skýrslu2 sem IMF birti hér á dögunum var enginn. Það var enginn niðurtalning viku eða nokkrum dögum fyrir. Það var næstum því eins og Ben Hunt og ónafngreindir samstarfsmenn hans hefðu stungið upp kollinum undan steini skammt austan við Mývatn og arkað beinustu leið á Nordica Hotel. Þegar þangað var komið áttuðu starfsmenn hótelsins fljótlega á því hverjir þessir framandi menn væru og létu Seðlabankann vita. Í Seðlabankanum klóruðu menn sér í hausnum og hringdu í fréttastofurnar sem í miklu fússi sem sendu menn á staðinn. Allt þetta gerðist á einum degi að ég best veit.

Í umræðunni um þessar miklu stofnanir, og vel flestar stofnanir og fyrirtæki hvort sem þau eru alþjóðleg eða innanríkis, þjóðnýtt (guð hjálpi okkur) eða einkarekin, er gagnsæi tískuorð. Að sjálfsögðu er þessi álitsgerð (ath: ekki skýrsla) birt á heimasíðu Seðlabankans og á heimasíðu IMF. Innihald hennar er ekki merkilegt, efnahagshorfur eru öfundsverðar, ríkið þarf að sýna aðhald í komandi kjarasamningum opinberra starfsmanna (svo hægt sé að flytja inn erlent vinnuafl) og hentugt væri að leggja niður Íbúðarlánasjóð. Ekkert sem kemur á óvart í stuttu máli.

Þegar er búið að gefa það út að Íbúðalánasjóður verði áfram til um sinn. Það þarf varla sendinefnd frá IMF til þess að upplýsa að kjarabætur opinberra starfsmanna í ár verði af skornum skammti. Búið er að fá málamiðlunarfrest á innflutningi á Búlgörum en öðrum ESB-borgurum er hingað frjálst að koma telji þeir hag sínum betur borgið hér.

Það sem stendur eftir er þá að æðsta efnahagsstofnun Íslands sýnir erindrekum vestrænna auðvaldssinna fullkomna samvinnu án þess að nokkur maður hér kippi sér upp við það.

1 – Þetta er nokkuð víð og almenn skilgreining. Bankinn lánar ekki aðeins til s.k. þróunarlanda eða þriðja heims landa, heldur til fátækra landa sem hafa ekki fjármuni til þess að ráðast í stærri verkefni eins og t.d. verksmiðjur, flugvelli, virkjanir, brýr o.fl. þ.h. Íslendingar fengu lán hjá Alþjóðabankanum árið 1965 fyrir byggingu Búrfellsvirkjunnar. Á þeim tíma var Ísland heldur fátækt, á tímabili sem kennt er við efnahagslega viðreisn.

2 – http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=1499

Sjálfstæð þjóð, herlaust land

Um leið og Eggin.is óskar landsmönnum til hamingju með þjóðhátíðardaginn 17. júní, er vert að vekja athygli á því að um leið og þjóðin fagnar sjálfstæði sínu fljóta hér morðtól við festar, til að minna okkur á hvar í línunni við eigum að standa:

NATO-herskipin í Reykjavíkurhöfn verða sýnd almenningi á þjóðhátíðardaginn. Af því tilefni munu félagar úr SHA mæta með dreifirit, þar sem dregnar eru fram ýmsar staðreyndir um NATO og tilgang herskipanna.
Staðið verður við þýska skipið við Miðbakka í gömlu höfninni kl. 12.
(Tekið af póstlista SHA)

Á meðan við höldum upp á þjóðfrelsið erum við minnt á að heimsvaldastefnan er ekki fjarri. Fólk sem er ekki hrifið af hernaði er hér með hvatt til að láta andúð sína í ljós.

Ályktun SHA vegna heimsóknar herskipa til Reykjavíkur

Eftirfarandi yfirlýsing birtist á vef SHA í fyrradag.

Ályktun SHA vegna heimsóknar herskipa til Reykjavíkur
Þrjú herskip á vegum NATO [lögðust] að bryggju í Reykjavíkurhöfn að morgni fimmtudagsins 14. júni. Hér er um að ræða bandaríska skipið USS Normandy, sem kemur að Skarfabakka í Sundahöfn kl. 08:15, spænska skipið SPS Patino, sem kemur að Korngarði í Sundahöfn kl. 08:45 og þýska skipið FGS Sachsen, sem kemur að Miðbakka í gömlu höfninni kl. 09:30. Rúmlega 700 sjóliðar eru um borð í skipunum.

Sérstaklega skal bent á USS Normandy, sem sigldi í jómfrúarferð sinni árið 1990 til stríðs í Persaflóa og skaut þar 26 Tomahawk-flaugum. Fimm árum seinna tók skipið þátt í Bosníustríðinu og skaut þar a.m.k. 13 Tomahawk-flaugum. Árið 2001 tók skipið þátt í aðgerðum við innrásina í Afganistan og árið 2005 tók það síðan aftur þátt í aðgerðum á Persaflóa. Sumar heimildir segja að notað sé rýrt úran í eitthvað af þeim skotfærum sem þetta skip ber.

Ályktun SHA
Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla komu NATO-herskipa til hafnar í Reykjavík. „Kurteisisheimsóknir“ af þessu tagi eru til þess fallnar að draga upp glansmynd af her og hermennsku. Herskipin, sem nú sækja Íslendinga heim, eru byggð með stríðsrekstur í huga og eiga ljóta sögu að baki.

SHA vekja athygli á því að skipið USS Normandy hefur tekið þátt í flestöllum stríðum Bandaríkjahers á síðustu árum. Í fyrra Íraksstríðinu og í styrjöldinni í Bosníu var Tomahawk-flaugum skotið frá herskipinu á skotmörk á landi. Hugsanlegt er að í sprengjur þess sé notað rýrt úran.

Á liðnum árum hefur umfjöllun fjölmiðla um herskipakomur af þessu tagi verið á þeim nótum að í þeim felist fyrst og fremst skemmtileg upplyfting. SHA hvetja íslenska fjölmiðla til að velta fremur upp spurningum um afdrif þess fólks sem orðið hefur fyrir sprengjum þessara vígtóla, og þá einnig þeirri staðreynd að krabbameinstilfellum fjölgar þar sem beitt hefur verið sprengjum með rýrðu úrani.

SHA minna einnig á að borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í mars 2002 að umferð og geymsla kjarnorku-, efna- og sýklavopna verði bönnuð í borgarlandinu. SHA vænta þess að gengið hafi verið úr skugga um að ekkert þessara skipa beri kjarnorkuvopn og hvetja jafnframt borgarstjórn til að ganga skrefinu lengra og hafna komu stríðstækja af öllu tagi.

Flóahreppur hafnar Urriðafossvirkjun

Eftirfarandi frétt birtist á vefsíðu Suðurgluggans þann 14. júní 2007:

Flóahreppur hafnar Urriðafossvirkjun
Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi sínum í gærkvöld að ekki verði gert ráð fyrir fyrirhugaðri Urriðafossvirkjun í drögum að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps sem lögð verða fram til kynningar á íbúafundi í hreppnum mánudaginn 25. júní en í upphaflegri tillögu fyrrverandi hreppsnefndar Villingaholtshrepps var gert ráð fyrir virkjuninni.

Aðalsteinn Sveinsson, oddviti Flóahrepps, sagði í samtali við Gluggann, að sveitarstjórn væri búin að liggja yfir þessu máli í vikur og mánuði og frá þeirra bæjardyrum séð væri spurningin frekar sú af hverju þeir ættu að hafa virkjunina inni á aðalskipulaginu. „Okkur finnast ekki nægileg rök til þess að gera ráð fyrir henni miðað við það sem fórnað er.”

Í bókun sveitarstjórnar með samþykktinni segir: „Megin ástæða þess er að sveitarstjórn telur ekki nægilegan ávinning af slíkri virkjun fyrir Flóahrepp og íbúa hans né að bættur verði sá skaði sem áhrif virkjunar hefði á vatnsverndarsvæði, ferðaþjónustu, lífríki í Þjórsá og landnotkun í nágrenni virkjunarinnar.”

Eftir íbúafundinn verður ákveðið að auglýsa tillögu að aðalskipulaginu, en Aðalsteinn bendir á að tillagan geti tekið breytingum í kjölfar fundarins. Eftir að auglýsingin hefur verið birt tekur við lögformlegt kynningarferli aðalskipulagsins.

Þó að erfitt sé að fullyrða um hug allra sveitunga til þessa má telja það ákveðna vísbendingu um hug þeirra að allir fulltrúar í sveitarstjórn, samþykktu tillöguna, utan einn, Einar Haraldsson bóndi á Urriðafossi, sem sagði sig frá afgreiðslu málsins vegna vanhæfis.

Ljóst er að Landsvirkjun er ekki sátt við þessa ákvörðun sveitarstjórnar og leituðu fulltrúar hennar strax í morgun eftir að fá fund með oddvita og sveitarstjóra og verður hann væntanlega haldinn á morgun.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, sagði í samtali við Gluggann að ákvörðun sveitarstjórnarinnar kæmi Landsvirkjun verulega á óvart. Viðræður hafi verið í gangi að undanförnu og ekkert hafi bent til þess að það yrði vendipunktur núna. „Það er ljóst að við munum óska nánari skýringa á að þeir ákveða að hafa þetta svona,” sagði Þorsteinn. Hann benti á að í samþykkt sveitarstjórnarinnar væri vísað til þess að ekki væri nægilegur ávinningur af virkjuninni fyrir sveitarfélagið en það væri þekkt víða á landinu og lúti að því að fasteignagjöld af stöðvarhúsum renna til þess sveitarfélags sem stöðvarhús standi í, en ekki er gert ráð fyrir stöðvarhúsi í Flóahreppi. „Það er bundið í landslögum og þeim ráðum við ekki.”

Benda má á að Urriðafossvirkjun nær til þriggja sveitarfélaga, Ásahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Flóahrepps. Gert er ráð fyrir virkjuninni á aðalskipulagi tveggja fyrrnefndu sveitarféalganna. Ef misræmi verður á milli aðalskipulaga þessara þriggja sveitarfélaga er það á valdi Skipulagsstofnunar ríkisins að skipa nefnd þar sem meðal sitja fulltrúar viðeigandi sveitarfélaga, um að samræma skipulög svæðisins.

————————————————-

Þessi frétt er tekin orðrétt og stafrétt af vefsíðu Suðurgluggans og það í heimildarleysi, en með von um skilning.

G8: Hvað gengur að þessum glæpamönnum?

Það hefur ekki farið framhjá mörgum sem fylgjast með fréttum, að um þessar mundir stendur fundur G8-ríkjanna yfir í Heiligendamm í Þýskalandi. Samtímis fara fram mikil og á köflum róstusöm mótmæli í Rostock. Hefð hefur skapast fyrir því að þegar mestu valdamenn heims funda, þá komi andstæðingar þeirra saman sem næst þeim til að mótmæla. Óþarft er að rekja sögu þessara mála undanfarin ár, en Seattle, Genóa og Gleneagles hafa verið meðal vígvallanna í þessari baráttu.

Hér á Íslandi sjá felmtri slegnir lesendur Morgunblaðsins uggvænlegar fyrirsagnir um hundruð særðra lögreglumanna og handtekinna mótmælenda, um fljúgandi eldsprengjur, rakettur og grjót. Í stuttu máli, lögregluna slá skjaldborg um friðsamlegan fund stjórnmála- og embættismanna, til að vernda þá fyrir aðsúgi og aðkasti; já, til að vernda fjölskyldufeður (ég reikna með því að fundarmenn séu flestir karlkyns) fyrir óhefluðum óaldarlýð.

Ég reikna með að mörgum komi til hugar samlíking við uppreisn atvinnulausra ungmenna í úthverfum Parísar ekki alls fyrir löngu, götubardagar lögreglu og mótmælenda vegna niðurrifs Ungdómshússins í Kaupmannahöfn – og jafnvel erlendir mótmælendur sem hafa vakið eftirtekt á Íslandi síðastliðin tvö sumur fyrir beinskeyttari mótmælaaðgerðir en Íslendingar eiga að venjast.

Samhljómurinn er ekki alveg fjarri sanni. Þessir blóðheitu mótmælendur eiga sitthvað sameiginlegt – og meira að segja skarast þessir hópar. Fjölmiðlar mála „mótmælendur“ með breiðum pensli. Það eru þeir friðsömu, sem standa með skilti og bíða eftir að tekið verði mark á óskum þeirra, og svo eru það „brjálæðingarnir“ sem kasta grjóti og öðru lauslegu í lögregluna. Þessi tvískipting er jafn einfeldningsleg og hún hljómar; mótmælendur eru af mjög fjölbreyttu tagi. Yfirborðskennd greining hentar yfirborðskenndri umfjöllun, sem er ætluð til annars en að lesendur skilji hvað býr að baki.

Fréttaflutningurinn af óeirðum í Rostock hræðir fólk. Fólk sér anarkista, kommúnista og aðra sem eru ósáttir við ríkjandi skipulag sem ofbeldismenn, óða menn sem svífast einskis. Fyrir vikið skellir fólk skollaeyrum við því sem þessi óþjóðalýður hefur að segja. Eða, það eru áhrifin sem svona fréttaflutningur á væntanlega að hafa í víðara samhengi. Boðskapur þeirra sem mótmæla – hvort sem er með skiltum eða grjóti – er nefnilega oft og tíðum óhagstæður Valdinu. Og það er kunnara en frá þurfi að segja, að ráðandi fjölmiðlar ganga erinda Valdsins.

Strategía og taktík mótmælenda eru ekki umfjöllunarefni þessarar greinar. Þó má hugsa sér að því eftirtektarverðari sem umgjörðin er, þess minna fari fyrir innihaldinu í fréttum. Þegar kvikmyndastjörnur koma naktar fram til að mótmæla meðferð loðdýra, þá er fréttin sjaldnast að aðbúnaður loðrýra sér herfilegur.

Mergurinn málsins er þessi: Þeir sem núna makka um gang heimsmála í Heiligendamm eru ekki saklausir fjölskyldufeður. Þeir eru herforingjar í hnattrænu kerfi kapítalismans, framkvæmdastjórar kerfis sem arðrænir venjulegt fólk sem vill bara um frjálst höfuð strjúka, ráðskast með hagi milljarða manna sem eru fullfærir um að hafa vit fyrir sér sjálfir, stunda rányrkju á náttúruauðlindum og varpa sprengjum í hausinn á saklausu fólki sem er svo óheppið að búa í vitlausu landi. Fréttir af „fundum um loftslagsmál“ eða slíku eru fyrirsláttur. G8 er ein af skipulagsnefndum heimsvaldastefnu og stjórnlyndrar arðránsstefnu, og þar liggur hundurinn grafinn. Er skrítið að þúsundir komi saman til að mótmæla fundi þeirra, þar sem þeir leggja á ráðin um framtíð okkar allra? Er skrítið að fólk sé reitt? Getur verið að þarna sé það á ferðinni, sem spakir góðborgarar kannast ekki við að þekkja – heilög reiði? Getur verið að þarna sé á ferðinni ungt fólk með hreinar hugsjónir um betri heim í stað kerfis sem byggist öðru fremur á óréttlæti, þótt sumir í hópnum séu hvatvísir?

Hvað sem aðferðum mótmælenda líður, þá er málstaðurinn sá sami, hvort sem er í Rostock, á Norðurbrú eða Kárahnjúkum: Þegar Valdið kemur fram af ofríki, og veður yfir fólk, hvort sem er á útsmoginn eða harðneskjulegan hátt, þá er rétt að spyrna við fótum.

Öll höfum við setið á kaffistofunni í vinnunni og talað um hvað kerfið sé spillt og óréttlátt, hvað margir stjórnmálamenn séu lygarar og hræsnarar og hvað einhver þurfi að gera eitthvað. Höfum við, sem sitjum heima í stofu, efni á að fordæma fólk sem lætur sér ekki nægja að gráta ofan í kaffið sitt? Auðvitað ekki – þótt það sé römm slagsíða á fjölmiðlum, þá þykist ég líka vita að margir hugsi með sér að þarna væri réttast að vera, hvað svo sem fólki finnst um aðferðirnar.

Stórtækustu glæpamennirnir brjóta yfirleitt ekki lögin. Þeir þurfa þess ekki vegna þess að það eru þeir sem setja þau. Þeirra er ríkið, en hvorki mátturinn né dýrðin. Valdið, en ekki rétturinn. Glæpamennirnir leika sannarlega lausum hala – jakkafataklæddir á fundum á Hótel Karpinsky í Heiligendamm.

Nýja ríkisstjórnin lofar ekki góðu

Þrátt fyrir að hafa enga trú á ríkisstjórnum til eins eða neins mátti maður aðeins vona að eitthvað kæmi út úr kosningum sem gæti bjargað ám og háhitasvæðum frá græðgi nokkurra aðila sem þegar eiga of mikið af peningum og hafa meiri völd en þeim er hollt.

Vonbrigðin létu ekki á sér standa morguninn eftir kosningadag. Úrslitin voru bara staðfesting á því sem ég hef alltaf vitað; Landinu verður ekki bjargað frá stóriðju nema með samstilltu átaki grasrótarhópa.

Grasrótarhópur er samtök einstaklinga sem bregðast við af sjálfsdáðun og vinna saman á jafnræðisgrundvelli að sameiginlegum markmiðum. Þeir eru þverpólitískir þannig að flokkadrættir koma ekki við sögu og því verður grasrótarstarfsemi mun raunverulegri stjórnmál en flokkapólitík þar sem einstaklingar láta stýrast bæði af flokkslínum og eigin framapoti.

Ég vil því biðja þann „helming“ eyjarskeggja sem hefur andstyggð á virkjunum og álverum í þágu erlendra auðhringja að láta eigin sannfæringu leiða sig í að stofna eigin grasrótarhópa eða ganga til liðs við aðra.

Við sem þegar erum virk fáum allt of oft að heyra að „þið eigið að vera að mótmæla þarna og hérna“ frá fólki sem er sammála okkur en áttar sig ekki á því að það er enginn munur á okkur sem erum virk og þeim sem heima sitja.

Mér finnst ég líka hafa nóg annað að gera en að ganga til liðs við andspyrnuna gegn stóriðjunni. Ég hef bara ekki samvisku í að láta það afskipalaust.