1. maí-ávarp Rauðs vettvangs

Síðan kreppan byrjaði árið 2008, hefur miklu moldviðri verið þyrlað upp til að breiða yfir þá staðreynd að hún er óhjákvæmilegur fylgifiskur auðvaldskerfisins. Látið er í veðri vaka að kreppan sé senn að baki. Það þurfi bara að örva fjárfestingu og hagvöxt, og þá verði allt eins og fyrir kreppu. En það er engin leið til baka. Eina raunhæfa leiðin út úr kreppunni er aukinn vegur hins félagslega í hagkerfinu og að markaðsvæðingin víki að sama skapi.

Vandi íslensks samfélags er ekki skortur á skuldsetningu eða erlendri fjárfestingu, heldur sá botnlausi ójöfnuður sem stafar af markaðsvæðingunni. Núna reyna SA-sveitir íslenskra atvinnurekenda að knýja fram laga-setningu sem tryggir þeim rýmri yfirráð yfir helstu auðlind þjóðarinnar, til að auka ójöfnuðinn til frambúðar. Þessari valdaránstilraun verður að mæta af fullri hörku.

Kreppan er notuð til að þrengja kost almennings á allan hátt, til hagsbóta fyrir auðvaldið. Það er gert með beinni eignaupptöku í þágu bankanna, með því að láta ríkissjóð borga skuldir bankanna, og loks með niðurskurði í opin-berum rekstri, sem þrýstir á aukna markaðsvæðingu almannaþjónustu. Þá reynir auðvaldið að sverfa svo að þjóðinni að hún fallist á inngöngu í ESB, sem tryggja mun enn frekara alræði markaðshyggjunnar.

Rauður vettvangur hvetur íslenska alþýðu til að snúa vörn í sókn og fylkja sér um breytta stefnu sem felur í sér aukið sjálfstæði þjóðarinnar og aukna félagsvæðingu í efnahagsmálum.

Fimm helstu eigendur vefmiðla heita sama nafninu!

Rannsóknarblaðamennskan hjá Sannleikanum er ekki af lakara taginu.  Og satt best að segja erum við hjá Egginni sannleikanum sárreiðir fyrir að hafa flett ofan af okkur. Það þjónar engum tilgangi að þykjast lengur. Eggin viðurkenna hér með að vera grímulaus áróðursmaskína Björns Inga Hrafnssonar. Í reykfylltu bakherbergi klöktust eggin upphaflega. Markmiðið er að ná gífurlegum undirtökum í allri umræðu á netinu og svo reyna að koma Finni Ingólfs aftur að.

Huglægur höfundarréttur í þekkingarþjóðfélaginu

Nýlega hafa komið upp tvö mál sem lúta að sæmdarrétti höfundarréttar og fengu nokkra umfjöllun í fjölmiðlum. Í fyrra tilvikinu var tónlistarmaðurinn Jóhann G. ekki sáttur við hversu litla spilun tónlistin hans fékk hjá 365. Vildi hann meina að með því væri sæmdarréttur höfunardalaga brotinn, enda má gera sér í hugarlund að það sé persónubundið mat (hvers höfundar) hvort sæmdarréttur sé brotinn í hverju tilviki. 2. málsgrein. 4. greinar. íslensku höfundalaga les: Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Ónóg spilun að mati höfundar uppfyllir tæpast ofangreint skilyrði enda lúffaði Ólafur á endanum fyrir 365. Þess utan hafði Jóhann að einhverju leyti afsalað höfundarrétti sínum til STEFs gegn greiðslu. Með orðum Pálma Guðmundssonar, framkvæmdastjóra dagskrársviðs 365:  „Jóhann hefur leigt höfundarréttinn að sínum lögum til Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), sem við erum með samning við. Því getum við spilað lögin hans áfram.” Það væri áhugavert að skoða nánar hvernig samninga tónskáld og aðrir tónlistarmenn gera við STEF, með hvaða skilmálum þetta afsal á sér stað. Það er þó ekki markmið þessarar greinar.

Ég vík nú stuttlega að hinu málinu sem var öllu nýlegar í fjölmiðlum og snerist um tjáningarfrelsi þeirra sem ötulast vilja beita því, svokallaðra listamanna. Það voru sýningarstjórar sýningarinnar KODDU, þau Hannes Lárusson,  Ásmundur Ásmundsson og Tinna Grétarsdóttir sem unnu verkið Fallegasta bók í heimi með því að setja mark sitt, með matarleifum og fleiru, á bókina Flora Islandica, sem kom út í takmörkuðu upplagi, aðeins 500 tölusettum eintökum. Bókaútgáfan Crymogea kvartaði yfir því, að ekki hefði verið beðið um leyfi að nota bókina til þessa verks og því hefði sæmdarréttur verið brotinn. Eggert Pétursson sem teiknaði myndirnar í Floru Islandicu sagði níðingsverk hafa verið unnið á bók sinni og var hreint ekki kátur. Óljóst er hvernig fer með fallegustu bók í heimi.

Það er ekki algengt að uppi komi svona mál hér á Íslandi sem snerta á sæmdarrétti höfunda. En þetta er til marks um það sem koma skal, ég fullyrði að höfundalöginu eru víglína sem barist verður um á komandi árum. Seinna málið var mun fyrirferðameira, enda meiri hávaði í kringum það og það bitastæðara fyrir fjölmiðla að gera sér mat úr. Í báðum málunum eru höfundar hugverka óánægðir með afnot, eða vöntun á afnotum, og vilja því takmarka þau. Í fyrra málinu hefur höfundurinn ekki skýran rétt til ráðstöfunar á verki sínu, þar sem höfundalög hafa ekki verið brotin, og hann hefur afsalað sér höfundarréttinn til STEFs gegn greiðslu. Í seinna málinu eru höfundar og útgefendur sammála um að banna notkunina á hugverki sínu. Vík ég nú að inntaki höfundarréttar.

Uppruni höfundarréttar

Höfundarréttur á rætur sínar að rekja til tækniframfara á tíma Endurreisnarinnar. Almennt er það viðtekið að miða uppruna höfundarréttar við setningu laga í Bretlandi sem kennd eru við Önnu (e. Statute of Anne) árið 1710. Lög þessi voru sett vegna þrýstings af hálfu gildis útgefenda í Bretlandi (e. Company of Stationers) sem um árabil hafði haft einokun á prentun en máttu ekki lengur við margnum.

Frá upphafi var tilgangur höfundarréttarlaga skýr. Það hefur ríkt skilningur á því að það kosti mikla vinnu að semja upprunalegt verk, og að engin laun berist höfundinum ef hver sem er getur miðlað verkinu og selt öðrum. Í greinargerðum með frumvörpum til höfundalaga er ævinlega tekið fram að tilgangur laganna sé að tryggja að rithöfundar, og seinna meir höfundar efnis á öðrum miðlum, hefðu nægilegan hvata til þess að ljúka verkum sínum og fá birt.1

Íslensku höfundalögin

Íslensku höfundalögin eru að stofninum til frá árinu 1972, sú lagasetning byggði á norrænum höfundalögum frá 1960-1961. Íslensku höfundalögunum hefur oft verið breytt, fyrst árið 1984 en síðast 2010. Á tíunda áratug síðustu aldar voru fjölmargar breytingar gerðar á höfundalögunum til þess að samræma þau við tilskipanir ESB. Þess hefur lengi verið beðið að gerð yrði heildarendurskoðun á íslenskum höfundalögum. Katrín Jakobsdóttir tilkynnti árið 2009 að skipaður yrði starfshópur sem myndi endurskoða höfundalögin í þremur skrefum sem lyki árið 2012 með nýju frumvarpi til höfundalaga. Ólöf Benediktsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur sem fjallað hefur nokkuð um höfundarrétt, lauk erindi sínu um höfundarrétt og bókasöfn á málþingi árið 2007 með orðunum:

Sjálf hef ég trú á því að höfundalögin muni á næstu árum smám saman aðlagast breyttri tækni og koma betur til móts við þarfir bókasafna og hugverkanotenda um leið og þau vernda hagsmuni rétthafa. Of ströng ákvæði munu ekki verða langlíf, því það gengur einfaldlega ekki í upplýsingasamfélaginu.2

Röksemdir Lessigs

Lawrence Lessig er bandarískur lögfræðiprófessor við Harvardháskóla, heimspekingur og pólitískur aðgerðasinni. Hann hefur barist ötullega fyrir róttækum breytingum á höfundarréttarkerfinu í Bandaríkjunum sem hann segir ekki vera raunsætt. Hann hefur m.a. skrifað bækur sem eru aðgengilegar almenningi með takmörkuðum höfundarrétti: Free Culture: How Big Media Uses Technology and the Law to Lock Down Culture and Control Creativity og Remix: Making Art and Commerce Thrive in the Hybrid Economy (2008) sem eru  skemmtilegar til aflesturs.  Lessig vill meina að þessi upplýsingatækni nútímans, sem kalla má tæknibyltingu, eigi sér nokkra hliðstæðu við prentbyltinguna og af henni leiði sú nauðsyn að beita nýrri nálgun í því hvernig við hugsum um höfundarrétt.

Í bók sinni rekur hann t.a.m.  sögu þess að þegar myndbandstækið kom fyrst á markaðinn á áttunda og níunda áratugnum hafi Universal Pictures og Disney lögsótt Sony-fyrirtækiðfyrir að bjóða til sölu Betamax myndbands-upptökutæki sem þau sögðu brjóta gróflega á höfundarrétti með því að gera eigendum þeirra kleyft að fjölfalda efni af sjónvarpsútsendingum.3 Tæknin þótti ógna hagsmunum fjármagnseigenda.

Eins og undirtitill bókar Lessigs minnir okkur á snýst höfundarréttur um fjárhagslegan ávinning. Almennt er það orðið viðurkennt að á Vesturlöndum hafi hugmyndafræði frjálshyggju með áherslu á frjálsan markað verið mjög ráðandi undanfarna tvo til þrjá áratugina. Undirstaða markaðhagkerfisins er eignarétturinn og höfundarréttur, og sér í lagi hinn víðtækari hugverkaréttur, er tilraun til þess að fanga þennan huglæga eignarétt. Lessig bendir þó á að í kringum upplýsingatæknina hefur byggst upp efnahagskerfi sem deilir eða samnýtir frekar en að selja.

Fjöldamörg dæmi um frjálsan hugbúnað er að finna hér um, m.a. Wikipedia, Apache-vefhýsingarforritið, Linux stýrikerfið, Mozilla Firefox vafrinn og svo mætti lengi telja.4 Þessi dæmi eru á skjön við forsendur frjálshyggjunnar að því leitinu til að hér er um að ræða gríðarleg verðmæti  sem ekki er gert tilkall til. (Wikipedia gæti aflað sér mikilla tekna með því að selja auglýsingapláss) En eins og Lessig bendir á liggja verðmæti þessara opnu og frjálsu verkefna í því að stór og fjölbreyttur hópur hefur komið að verkinu ólíkt verkfyrirkomulaginu hjá hefðbundnum fyrirtækjum þar sem mun þrengri hópur er að störfum. Lessig tekur saman fjóra punkta til þess að rökstyðja skoðanir sínar.

1) Yfirvöldum gangi ekkert að stemma stigu við ólöglegt niðurhal á netinu. Þrátt fyrir stór og flókin málaferli gegn einstökum aðilum sem dreifa höfundarréttarvörðu efni þá bendir allt til þess að það sé aðeins toppurinn á ísjakanum,

2) Ef í stað hins þrönga skilnings á höfundarrétti sem nú er hefði skráardeiling verið gerð frjáls og lögleg en álögur á sölu tölvubúnaðs verið hækkaðar og afrakstrinum deilt á milli höfundarrétthafa hefðu þeir borið meira úr býtum en þeir gera í dag,

3) Leiða má líkum að því að lagasetning sem hefði slakað á höfundarrétti hefði leitt til gríðarlegrar nýsköpunar á sviði stafrænnar tækni en engin leið er að spá fyrir um andvirði þess, sem fyrirtæki og einstaklingar forðast að kynna sér í ríkari mæli vegna lagatakmarkana og

4) síðasta atriðið virðist skipta mestu máli en það er sú staðreynd að net-kynslóðin svokallaða hefur alist upp með þá mótsagnakenndu sjálfsmynd að þau brjóti lögin í hvert skipti sem þau ná í tónlist eða mynd á netinu5, en það sé eitthvað sem allir gera hvort eð er:

Ég er ekki að segja að ég vilji lögleiða alla glæpsamlega hegðun í dag. Hvort sem börn ræna banka eða ekki þá ætti það að vera ólöglegt að ræna banka. Rangindi þess að nauðga eykst með hverri nauðgun. Ég er frekar að biðja um að þú vegir og metir þá órétti sem eiga sér stað: opinber stefnumótun síðasta áratugar hefur ekki komið í veg fyrir skráardeilingu, hún hefur ekki hjálpað listamönnum og hefur ekki hvatt til nýsköpunar. Það eina sem hægt er að slá föstu að hún hafi gert er að ala upp kynslóð „sjóræningja”.6

Niðurstaða

Mikið hefur verið rætt um ágæti þekkingarhagkerfisins. Upplýsingatæknibólan var sú bóla sem þandist út og sprakk áður en fjármálabólan blés út með margfalt verri afleiðingum. Á þeim árum þegar frjálshyggjan hafði öll ráð í hendi sér og glutraði því svo niður. Í niðurlagi bókar Stefáns Ólafssonar, félagsfræðiprófessors, Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag (2005) segir:

Tækifæri nútímans eru mikil. Margir geta því haft ástæðu til að vera bjartsýnir […] Sú áeggjan kemur frá aðilum sem eru virkir þáttakendur í byltingarumróti upplýsingatækninnar í Bandaríkjunum. Spá þeirra um væntanlegt langtímagóðæri er í takt við athyglisverðar kenningar um tækninýsköpun og langtímahagvöxt […] En góð og jafnvel betri hagsældartækifæri hafa áður boðist. Það hefur alltaf skipt miklu máli fyrir farsæla nýtingu slíkra tækifæra hvernig þjóðum hefur tekist að haga skipan þjóðmála sinna. Það er að stórum hluta í höndum lýðkjörinna stjórnvalda hvort tækifæri nútímans nýtast í þágu fjöldans eða einungis í þágu fámennrar yfirstéttar.7

Þetta eru vel valin orð, skrifuð fyrir um sex árum síðan. Stefán hefur sterka skoðun á því hvað honum finnist vera sanngjörn skipan þjóðmála, hann er ötull talsmaður velferðarríkisins, þá útgáfu sem hann nefnir íslensku leiðina. Í ljósi þess sem á eftir kom hefði mátt hlusta á varnaðarorð Stefáns.

Um þessar mundir stendur yfir heildarendurskoðun á íslensku höfundalögunum sem lengi hefur staðið til. Talsmaður neytenda hefur ásamt Félagi um stafrænt frelsi á Íslandi óskað eftir jafnvægi í höfundalögum á milli rétti neytenda annars vegar og útgefenda/höfundarrétthafa hins vegar. Það er þó ekki nóg. Hér – eins og svo oft áður – hafa lýðkjörin stjórnvöld mikið um það að segja, til langs tíma litið sérstaklega, hvort að tækifæri nútímans muni nýtast í þágu fjöldans eða einungis í þágu fámennrar yfirstéttar.

Í dag er hið alþjóðlega höfundarréttarkerfi þannig að unglingur sem tekur uppáhalds lagið sitt og  uppáhalds kvikmyndina sína og klippir sundur og saman með aðstoð upplýsingatækninnar og setur á YouTube hefur brotið höfundalög. Hver er hinn fjárhagslegi skaði sem höfundarréttarhafar hafa orðið fyrir? Munu færri kaupa diskinn? Fara á myndina í bíó? Mun þetta ekki frekar auka áhugann? Hvers vegna er höfundarréttur við þessar aðstæður ekki takmarkaður við markmið notkunarinnar? Að það sé óleyfilegt að nýta verk með þessum hætti ef afraksturinn er með einum eða öðrum hætti söluvara. Ástæðan fyrir þessu er sú að fjármagnseigendur eiga lokaorðið og því er kerfið með öllu óraunhæft og úr takti við tæknistig samfélagsins.

Að þessu sögðu er vert að staldra aðeins við og velta því fyrir sér hvenær verk er upprunalegt og hvenær ekki. Á hvaða tímapunkti gætir áhrif á höfunda og innblástur með svo skýrum hætti að fullyrða megi að gjalda eigi höfundalaun til höfunda verkanna sem innblásturinn veittu? Hér er nærtækt að taka Campbellsúpudósaverk Andy Warhols sem dæmi. Annað áhugavert dæmi er hvernig Disneyfyrirtækið hefur eignað sér að nokkru leyti hugverk sem hafa löngum talist almannaeign. Hér á ég við vinsælar teiknimyndaútgáfur á þekktum evrópskum ævintýrum, s.s. Mjallhvít og dvergarnir sjö, Gosi og Öskubuska o.fl. Þá má spyrja hvaða skaði er skeður með verkinu Fallegasta bók í heimi ?


Heimildir

  • 1 – Barron, Anne. (2006). Copyright. Theory Culture Society, 23, 278-282
  • 2 – Leturbreytingar mínar. Ólöf Benediktsdóttir. (2007, apríl). Bókasöfn og höfundaréttur – erindi á málþingi Upplýsingar 17. apríl 2007. Sótt 1. mars 2011: https://uni.hi.is/olofbe/bokasofn-og-hofundarettur-erindi/
  • 3 – Lessig, Lawrence. (2008). Remix. bls 122.
  • 4 – Lessig, Lawrence. (2008). Remix. kafli 6, Two Economies: Commercial and Sharing.
  • 5 – Rán Tryggvadóttir. (2006, desember). Dreifing tónlistar og kvikmynda á netinu: Jafningjanet og skráardeiliforrit. Tímarit lögfræðinga, 56(4), 403-431.
  • 6 – Þýðing höfundar. Lessig, Lawrence. (2008). Remix. bls 111.
  • 7 – Stefán Ólafsson. (2005). Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag. bls 339.

HH: Seðlabanki kanni NISK

Hagsmunasamtök heimilanna skora á Seðlabanka Íslands til að gangast fyrir óháðri rannsókn á kostum og göllum þess að taka upp nýjan íslenskan gjaldmiðil (NISK).

Fram hafa komið hugmyndir í umræðunni um innleiðingu nýrrar íslenskrar krónu til leiðréttingar á innlendum skuldbindingum og til að flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta.  Þær hugmyndir ganga m.a. út á afskriftir á stórum hluta aflandskróna og leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja.

Lesa afganginn.

Afmæli Nellikubyltingarinnar í Portúgal

Í dag eru 37 ár liðin frá falli stjórnar fasista  í Portúgal. Þann 25. apríl 1974 endaði barátta sem hófst með skipulagðri borgaralegri óhlýðni almennra borgara með því að alræðisstjórn fasistaflokksins Estado Novo neyddist til að stíga frá völdum. Um leið var endir bundinn á nýlendustyrjaldir Portúgals og ekki leið á löngu þar til nýlendurnar fengu fullt frelsi. Þessi bylting fólksins var ekki ofbeldisfull, heldur einkenndist hún af samstöðu og friðsamlegri óhlýðni gagnvart ríkisvaldinu. Nafn sitt dregur hún af því að fjöldi mótmælenda bar rauðar nellikur sem að lokum var stungið í byssuhlaup hermanna sem neituðu að hlýða skipunum stjórnvalda. Við óskum Portúgölum  til hamingju með afmælið.

IceSave í stóru samhengi

Ríkjandi blokkir heimsauðvaldsins – Bandaríkin fremst ásamt bandamönnum sínum í ESB – vinna markvisst að miðstýrðum heimsyfirráðum. Vald ríkjandi auðblokka og alþjóðlegra fjármálamarkaða raungerist gegnum „yfirþjóðlegar“ stofnanir eins og AGS og Heimsviðskiptastofnunina, OECD og í æ ríkara mæli einnig SÞ. Hin öra samrunaþróun Evrópu – frá verslunarsamningum og síðan efnahagsbandalagi yfir í sameiginlegan markað (ESB), þá peningamálasamband og loks pólitískt samband með Lissabonsáttmála – sýnir þessa þróun í hnotskurn innan okkar álfu. Valdið flyst frá þjóðkjörnu valdi til skrifræðisstofnana og æ fjarlægari stjórnsýslustiga – og efnahagssamruninn ryður þar brautina. Þessum öflum er mikilvægt að losna við allt sem kalla má lýðræði. Á hernaðarsviðinu birtist þessi þróun fyrst og fremst í hnattrænu valdi NATO sem vaxið hefur í risaskrefum frá aldamótum. Þessar yfirþjóðlegu stofnanir þjarma meira og meira að sjálfsákvörðunarrétti þjóða, sérstaklega minni ríkja. ICESAVE-málið er aðeins eitt dæmi um hinn sívaxandi þrýsting úr þessari átt, óhætt að kalla það fjármálastríð. Líbýustríðið er önnur birtingarmynd hins sama. ICESAVE-kosningin var hins vegar afar merkilegt merki um andspyrnuna gegn þessari ískyggilegu þróun. Hún var lítill en mjög mikilvægur sigur alþýðu og lýðræðisins.

Gjaldmiðlar í vandræðum … framhald

Kerfi sem stenst ekki í grundvallaratriðum er oft eins og skip sem byrjar að taka ranga stefnu. Í byrjun ber ekki mikið á mistökunum, en því lengra sem skipið siglir verður skekkjan augljósari. Evrópusambandið er byggt upp á forsendum sem standast ekki og brotalamir kerfisins verða því augljósari með hverjum deginum sem líður.

Hagkerfi landa Suður-Evrópu og margra ríkja sem hér áður fyrr voru austan járntjaldsins geta ekki keppt við Þýskaland og önnur háþróuð iðnríki á jafnréttisgrundvelli. Evran drepur þau. Þótt við gæfum okkur þá forsendu að þessi ríki borguðu sömu vexti og Þýskaland, þá væru þau samt ekki samkeppnishæf. Þegar okurvextir þyngja stöðuna enn frekar verður dæmið algjörlega vonlaust. Örlög ESB geta ekki verið önnur en þau að liðast í sundur og evran verður fyrir miklum áföllum í kjölfarið. Tölurnar ljúga ekki.

Írsk ríkisskuldabréf bera nú í fyrsta skipti síðan evran var innleidd yfir 10% vexti og atvinnuleysið er, þrátt fyrir mikinn landflótta, 13,5% og fer samkvæmt spám yfir 16% árið 2012. Pólitíkusarnir eru búnir að rétta fólkinu skuldir óreiðumanna í bankakerfinu upp á €46,3 milljarða á s.l. tveimur árum og nú vantar þetta svarthol tugmilljarða til viðbótar. Ofan á allt þetta bætist að írskir bankar eru að gefa út skuldabréf á sjálfa sig sem fólkið (ríkið) gengur í ábyrgð fyrir. Þjóð sem telur ekki nema 4,4 milljónir einstaklinga getur aldrei borgað þennan reikning, sérstaklega núna eftir að svívirðilegur niðurskurður er búinn að rústa hagkerfinu. Írska ríkið verður gjaldþrota og það er aðeins tímaspursmál hvenær það gerist.

Grikkland er í sömu klemmu og Írland. Markaðurinn heimtar okurvexti fyrir ríkisskuldabréf á sama tíma og hagkerfið dregst saman með auknu atvinnuleysi. Tekjumöguleikar Grikklands—svo ekki sé talað um aukna tekjumöguleika til að geta borgað ofurskuldir landsins—eru mjög takmarkaðir. Þjóðin flytur hlutfallslega lítið út og hátt skráð evra hefur stýrt ferðamönnum í vaxandi mæli til Tyrklands. Nú vilja Þjóðverjar „auka lífsrými“ sitt með því að taka grískar eyjar upp í skulir.

Ríkisstjórn Portúgal var að hrökklast frá völdum og það er alveg ljóst að landið biður fljótlega um „björgunarpakka“ (víxil sem fólkið skrifar upp á) sem fer hátt í €100 milljarða. Talan €70 milljarðar hefur verið nefnd, en ef fortíðin er einhver vegvísir hækkar sú tala hratt. Eftir „björgunarstarf“ evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fetar Portúgal væntanlega í fótspor Íra og Grikkja—beint í gjaldþrot. Frá sjónarhóli AGS er það hið besta mál ef bankaelítunni er bjargað.

Á einhverjum tímapunkti snýr markaðurinn sér að Spáni og heimtar hærri áhættuvexti. Það verður úrslitaorrustan. Ef Spánn þarf á björgunarpakka að halda erum við að tala um trilljón evrur eða tíu sinnum hærri upphæð heldur en Portúgal kemur til með að fá. Slík upphæð er einfaldlega ekki fyrir hendi.

Evrópusambandið er að gliðna í sundur á ótrúlegum hraða.

Bandaríski dollarinn gæti hækkað á næstunni, sérstaklega ef flokkur Angela Merkel fer illa út úr kosningunum í Baden-Wuerttemberg á morgun, en hann er fallvaltur gjaldmiðill sem gæti brátt tekið sína síðustu uppsveiflu. Þrátt fyrir fagurgala í fjölmiðlum virðist bandaríska hagkerfið vera staðnað og venjulegt fólk gerir sér fulla grein fyrir því. Tæknilega séð er dollarinn nálægt því að falla niður fyrir mikilvæg stuðningsmörk (línuritið sýnir gengi dollarans miðað við körfu helstu gjaldmiðla). Sennilega á evran þó eftir að blása lífi í dollarann einu sinni enn áður en hann loks hrapar í sögulegar lægðir.

Hagvöxtur í Bandaríkjunum er skelfilega lítill miðað við ofurskuldirnar sem stofnað hefur verið til. Halli ríkisjóðs á þessu ári verður $1,65 trilljónir og minni en trilljón dollara árlegur halli er ekki í sjónmáli næstu árin. Seðlabankinn lætur líka rigna peningum og kaupir um 70% allra ríkisskuldabréfa sem ríkið selur. Peningamagn í umferð æðir upp.

Neysla almennings keyrir áfram 70% bandaríska hagkerfisins og skuldir heimilanna, ekki raunverulegur hagvöxtur, hafa haldið hjólunum gangandi síðasta áratuginn. Hagvöxtur hefur verið kreistur fram með nýjum lánum, tækni- og fasteignabólu. Kaup hefur staðið í stað og skuldir heimilanna eru enn allt of miklar.

Peningakerfi sem byggir á óeðlilegri þenslu bankalána, frekar en raunverulegri verðmætasköpun, gerir gjaldmiðil viðkomandi hagkerfis verðlausan með tímanum. Kaupmáttur dollarans hefur verið á hraðri niðurleið síðan kreppunni miklu lauk 1939 og síðan Nixon tók hann úr sambandi við gull 1971 hefur verðgildið hrapað eins og grjót.

Eins og þessi síða hefur áður bent á þá er nokkuð ljóst að bandaríska hagkerfið tekur ekki almennilegan fjörkipp fyrr en ný íbúðarhverfi byrja aftur að rísa. Þannig hafa allar efnahagslægðir síðustu 66 ára endað og það er erfitt að sjá hvaða önnur starfsemi gæti skapað ámóta keðjuverkun á vinnumarkaði. Þótt íbúafjöld Bandaríkjanna hafi verið 190 milljónir 1963 og hann sé 307 milljónir þessa stundina, þá seljast miklu færri ný hús núna heldur en fyrir 48 árum. Fasteignabólan sem sprakk 2008 er enn að draga hagkerfið niður í skítinn.

Óeðlilega stórtæk peningaframleiðsla seðlabanka Bandaríkjanna er dálítið dularfull og ekki í neinu samræmi við forsendurnar sem bankinn auglýsir opinberlega. Þegar seðlabanastjórinn talar um skort á verðbólgu er það hreinn fyrirsláttur í heimi þar sem nær öll hráefni hafa stórhækkað á skömmum tíma. Atvinnuleysi er annað sem seðlabankinn nefnir, en peningaflóðið skilar sér í mjög takmörkuðu mæli inn á Bandaríkjamarkað. Þessu nýja kapítali er að mestu leyti varið til spákaupmennsku, t.d. á olíu og landbúnaðarafurðum, og stórar upphæðir renna inn á „heita“ markaði á borð við Kína og Brasilíu. Sumir halda því fram að seðlabankinn sé í raun að reyna að lækka gengi dollarans (til þess að auka útflutningstekjur landsins og gera skuldastöðuna bærilegri), en sú athyglisverða hugmynd hefur líka komið fram að bankakerfið fari beint á hausinn ef vaxtastiginu er ekki haldið niðri með handafli.

Í stuttu máli (samkvæmt skýrslu frá Office of the Comptroller of the Currency) þá liggja bandarískir stórbankar með afleiðupappíra upp á $223,4 trilljónir (árframleiðsla Bandaríkjanna er á milli $14 og $15 trilljónir!) og andvirði $188 trilljóna liggja í samningum sem tengjast hugsanlegum vaxtabreytingum. Flest afleiðuviðskipti ganga út á að menn tryggja sig fyrir vaxtasveiflum.

According to the Office of the Comptroller of the Currency’s Quarterly Report on Bank Trading and Derivatives Activities for the Second Quarter 2010 (most recent), the notional value of derivatives held by U.S. commercial banks is around $223.4 TRILLION.

Fjármál bandaríska ríkisins eru komin í nærri óleysanlegan hnút. Þegar ríkið eyðir 100 dollurum þarf það að fá $42 lánaða. Og hvaða aðilar eiga eftir að kaupa ríkisskuldabréf fyrir margar trilljónir á næstu árum? Kínverjar eru hættir að bæta á sig bandarískum ríkisskuldabréfum og Japan neyðist til þess að selja hundruð milljarða á næstunni. Auk seðlabankans, hvaða erlendir aðilar eiga flest bandarísk ríkisskuldabréf í dag?

Enginn á þessu súluriti getur með góðu móti bætt á sig bréfum. Kínverjar eru frekar að selja skuldabréf og hamstra í staðinn olíu, góðmálma og landbúnaðarvörur. Japan vantar hundruð milljarða til þess að endurbyggja eftir náttúruhamfarirnar. Breska hagkerfið er á hraðri niðurleið, olíuríkin í uppnámi og vogunarsjóðir ekki á höttunum eftir ríkisskuldabréfum sem gefa lítið í aðra hönd. Hærri vextir laða ekki einu sinni að meira kapítal vegna þess að fjárfestar vita að bandaríska ríkið getur ekki borgað hærri vexti af þessum fjallháu skuldum. Ef seðlabanki Bandaríkjanna lýsir yfir þörf á frekari peningaprentun í gegnum QE3—$600 milljarða kaup hans á ríkisskuldabréfum sem enda í júní ganga undir nafninu Quantitive Easing 2 eða QE2—þá er nærri víst að markaðurinn flýr dollarann eins og sökkvandi skip. Ekki löngu eftir það fæðist væntanlega nýr viðmiðunargjaldmiðill.

Þessi grein birtist upphaflega á Vald.org þann 26. mars sl.

Í dag: Útifundur gegn Líbíustríði

Óformlegur hópur fólks sem andæft hefur hernaðinum í Líbýu og þátttöku Nató í honum boðar til fundar sem auglýstur er í eftirfarandi tilkynningu:

Gegn stríði – útifundur á Lækjartorgi.

Fimmtudaginn 14. apríl klukkan 17:00 verður útifundur á Lækjartorgi. Látum í ljós óánægju okkar, sökum aðildar Íslands að NATO erum við nú, á vormánuðum árið 2011, þáttakendur í þremur stríðum. Á þessu ári á nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar að skila niðurstöðum um aðdraganda stuðnings Íslands við innrásina í Írak. Krafist er afléttingar leyndar skjala sem leiddu til stuðnings okkar við stríðið og að  þau verði gerð opinber. Krafa okkar fyrir þetta stríð er engu minni: Við krefjumst þess að öll gögn sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og  fulltrúar í utanríkismálanefnd Alþingis höfðu aðgang að og byggðu stuðning sinn við ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á, verði þegar í stað gerð opinber. Geðþóttaákvarðanir stjórnvalda eru brot á mannréttindum og því er áríðandi að almenningur geti lagt sjálfstætt mat á það hvort að nú líkt og áður hafi kjörnir fulltrúar byggt ákvörðun sína um stuðning við loftárásir á einkahagsmunum.

Mælendur verða:
Lárus Páll Birgisson
Sólveig Jónsdóttir
Kristín Ómarsdóttir
María S. Gunnarsdóttir