Eftir kapítalismann

Plebbar höfða nú, eins og ætíð, til stjórnmálamannanna sinna um að „gera eitthvað“ í fjármálakreppunni svo við getum haldið áfram að spreða, ofneyta og keppa við hvert annað. Þeir vilja vinna meira, fá meiri laun og kaupa meira drasl. Menn leita til Evrópusambandsins og vona að það muni einhvernveginn bjarga þessum lífsstíl.

Þetta fólk er á villigötum. Kapítalisminn mun aldrei ná sér. Hann er í dauðaslitrunum; að minnsta kosti í þeirri mynd sem við erum vön. Fyrir því liggja margar ástæður, ekki síst krafa kapítalismans til fyrirtækja um stöðugan vöxt. Þetta vaxtarkapphlaup getur ekki haldið áfram endalaust, enda reiða leikmenn í kapítalísku hagkerfi sig ekki einungis á vinnuafl og tækniframfarir í leit sinni að gróða og lífi, heldur einnig hráefni. Nú stendur framboð á þessum grundvallarauðlindum á þolmörkum.

Náttúran ræður ekki við meiri kapítalisma. Ekki er hægt að auka framleiðslu að því ráði sem vaxtarkrafa kapítalismans krefur. Ef við tökum einungis kröfur bankanna um vexti á lánum, er heldur ekki nógur möguleiki á framleiðsluaukningu til að fóðra þá holu. Svo að dæmi sé tekið mun fiskframleiðsla ekki aukast á heimsvísu úr þessu. Engin fiskveiðisvæði eru lengur óhreyfð, þökk sé rányrkju frá ríkjum eins og Íslandi. Sama ríkir um landbúnað. Stöðug aukning mannfjölda krefst æ stærri landsvæða sem áður voru notuð í hráefnaframleiðslu. Framleiðsluaukning á slíkum vörum er brátt ekki möguleg heldur. Græna byltingin byggðist á olíu, og framboð hennar fer þverrandi.

Of margt fólk sem keppist um of litlar náttúruauðlindir, og þróunin er ekki í rétta átt. Kapítalisminn hefur engar innbyggðar lausnir á þessu.  Ef við viljum ímynda okkur framtíðina undir kapítalismanum, ekki horfa til Hollywood. Við skulum horfa til pappakassabyggða Sao Paolo, Nýju Delhí og Mexíkóborgar.

Okkar fyrirkomulag gengur í algjörum grundvallaratriðum á náttúruna og hin blákaldi veruleiki er, að haldi það áfram mun það gera líf á hnettinum ómögulegt. En það er svo merkilegt, eins og heimspekingurinn Slavoj Zizek benti á, að við eigum nú auðvelt með að sjá fyrir okkur útrýmingu mannkyns, en við getum ekki ímyndað okkur róttæka breytingu á samfélagskerfinu sem við búum við; að finna aðra leið er óhugsandi, jafnvel þó þessi leiði okkur í gröfina.

Kapítalisminn mun deyja. En það verður ekki sigur fyrir okkur andstæðinga hans. Því mætti líkja við brottför bandaríska hersins á Íslandi. Það var ekki sigur fyrir hernaðarandstæðinga; tilvist þeirra hafði engin áhrif á þá ákvörðun að draga herliðið út. Nei, kapítalisminn deyr algerlega af sjálfum sér.

Hvað er til ráða?
Hvað okkar hlutverk varðar getum við einungis reynt að vera framsækin: Við megum ekki grafa hausinn í sandinn og láta sem allt muni verða eins og áður. Við þurfum að breyta kerfinu frá rótum svo að líf á jörðinni verði þolanlegt. Það er það sem felst í hugtakinu róttækni; að leita að rótum vandans.

Stjórnmálaflokkar eru ekki leiðin. Fólk eyðir of miklum tíma að þræta um stjórnmálaflokka og notar of lítinn tíma í að gera eitthvað í því að bæta samfélagið, almennt.  Eitt stærsta vandamálið hjá róttæklingum er oft það að menn festast gjarnan í þrætum við sína líka, um einhvern tittlingaskít. Öll starfsorka róttæklinganna fer oft í slíkar þrætur, eða væl út í stjórnmálamenn. Ef menn notuðu meiri tíma í að hanna þann veruleika sem menn vilja og nota orkuna á uppbyggilegan hátt væri lítið sem gæti komið í veg fyrir að við myndum bylta auðvaldskerfinu. Auðvaldið, eins og önnur yfirvöld, byggist ætíð á blekkingu, enda er valdið aðeins raunverulegt ef við látum það vera raunverulegt; ef við högum okkur eins og það sé raunverulegt. Auðvaldið kann að spila með fólk, með áróðri og hótunum. Sniðgöngum það.

Núverandi mótafl við kröfur viðskiptanna eru grasrótarsamtök. Róttæk samvinnufélög, peningalaus vöru- og þjónustuskiptakerfi, permakúltúr, sjálfstæðar upplýsingaveitur o.s.frv. Við verðum að byrja nú þegar að móta stofnanir sem gera mögulegt samfélag, þar sem hagsmunir allra sem það mynda koma saman við hagsmuni náttúrunnar í heild. Vissulega er slíkt starf þyrnum stráð á meðan kerfið höktir áfram. En ef við neitum að horfa áfram og höldum kapítalismanum í öndunarvél þá eru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Við þurfum að gera eins og alkarnir, að viðurkenna að við höfum ekki stjórn á kapítalismanum, hann stjórnar okkur. Við þurfum samt ekki að örvænta svo fremi sem við erum vel undirbúin þegar tíminn kemur.

3 thoughts on “Eftir kapítalismann

  1. Svo margt gott í þessu að ég veit ekki hvar á að byrja, þó maður sé orðinn svo gamall og latur og þreyttur á öllum nýjum hópum sem ætla að bjarga heiminum >:> , er þetta samt málið:

    Hagvaxtar- og atvinnuskapandi (stríðs)hagfræðin hefur beðið skipbrot, og fólk er að fatta að rányrkjan er að koma aftan að okkur.

    Takk félagi 🙂

    Like

  2. Og tilbreyting að einhver minnist á rányrkju okkar, og líka að þræta um stjórnmálaflokka éti upp alla orku en nýtist glettilega lítið

    Like

  3. Til að gerbreyta samfélaginu þurfum við að nota öll þau tæki sem okkur standa til boða. Það væri glapræði að hafna stjórnmálaflokkum á einu bretti, því hvað er stjórnmálaflokkur annað en samansafn fólks sem nógu líkar stjórnmálahugmyndir til þess að vilja vinna saman? Með hverju öðru en stjórnmálaflokki er hægt að skipuleggja tilraun til að öðlast áhrif í ríkisvaldinu, til þess að nota þau áhrif til breytinga? Það er ekki sama, stjórnmálaflokkur og stjórnmálaflokkur. Brölt innan borgaralegra stjórnmálaflokka mun ekki koma okkur neitt. Verkalýðssinnaður flokkur er hins vegar tæki til að berjast fyrir hagsmunum alþýðunnar og koma í kring breytingum í hennar þágu.

    Like

Leave a comment