Steingrími bolað út: Pólitísk eftirmæli

Þann 13. febrúar síðastliðinn greindi Sandkorn í DV frá því að mjög væri þrýst á Steingrím J. Sigfússon að víkja sem formaður VG, til þess að minnka skaðann í komandi kosningum. Fram kom að jafnframt væri þrýst á Katrínu Jakobsdóttur að gefa kost á sér í hans stað, en hún hefði tekið dræmt í það.

Þann 14. febrúar reyndi Steingrímur að bera sig vel í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins: „Ég hef ekkert annað gefið í skyn en það standi til. Ég er formaður og var kosinn á landsfundi 2011 og ég veit ekki til þess að ég hafi gefið mönnum tilefni til vangaveltna um neitt annað.“

Þann 15. febrúar fjallaði DV aftur um að reynt væri að fá Steingrím til að víkja og Katrínu til að taka sæti hans.

Þann 16. febrúar tilkynnir Steingrímur loks að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Auðvitað sagðist hann ekki vera að bregðast við minnkandi fylgi í skoðanakönnunum – hverjum hefði nú getað dottið það í hug? – en hann trúði því samt að ákvörðun hans yrði til góðs fyrir flokkinn. Ansi er ég hræddur um að það sé of seint í rassinn gripið. Og auðvitað sagði hann, eins og hann hefur svo oft orðað það áður, að hann hefði nú aldrei ætlað að verða eilífur augnakarl í þessum stóli. Þvert á móti þætti honum vera kominn tími fyrir kynslóðaskipti.

Þá gaf Steingrímur þeim vangaveltum, að hann væri með messíasarkomplex, undir fótinn með því að viðurkenna, eins og svo oft áður, að vissulega hefði baráttan tekið sinn toll og markað sig og aðra sem hefðu staðið í henni. Þá eru þeir til sem eiga erfitt með að treysta orðum hans, og hann gaf þeim líka undir fótinn með því að segjast hafa tekið ákvörðunina hálfum mánuði fyrr. Þótt hann hefði daginn þar áður gefið í skyn að hann væri nú að hugsa um að halda áfram. Og að það hefði alls ekki verið þrýst á hann að víkja, frekar að halda áfram. Trúi hver sem vill þeim skýringum. Fyrir landsfundinum liggur annars lagabreytingartillaga frá UVG um að leggja formannsembætti niður og hafa í staðinn tvo „talsmenn“, einn af hvoru kyni. Það er varla hægt að skilja þá tillögu öðruvísi en tilboð til Steingríms um að hætta með reisn, eða hvað?

Steingrímur kveðst stoltur af verkum ríkisstjórnarinnar – og á þá væntanlega við t.d. hina ofurábyrgu og ofurlýðræðislegu ESB-umsókn, nýundirritaðan samning um stóriðju á Bakka við Húsavík, áform um þúsund milljarða króna sæstreng til rafmagnssölu til Skotlands og gjöfult og innilegt samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, svo fátt eitt sé nefnt. Hann er stoltur af þeirri ábyrgð og því raunsæi sem hann telur sig og flokk sinn hafa sýnt á ögurstund.

Það sem á hans tungumáli heitir „ábyrgð“ og „raunsæi“ er það sama og á mínu tungumáli heitir „tækifærisstefna“. Fyrir stjórnmálamann sem fylgir skýrri stefnu og hefur skýr markmið, eru völd verkfærið til ná markmiðunum. Fyrir tækifærissinnann eru völdin markmiðið. Steingrímur umhverfðist í tali, svotil á einni nóttu, þegar hann komst til valda. Áður fyrr sögðu menn að VG í stjórnarandstöðu væru bara „á móti öllu“, það væri stefnan þeirra, en það var fljótt að breytast þegar komið var í hásætið. Hvar var þá andstaðan við stóriðjustefnuna? Eða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Eða staðfestan í IceSave-málinu? Eða varðstaðan um fullveldið? Öll vikin fyrir „raunsæi“ og „ábyrgð“. Steingrímur sagði það sjálfur strax árið 2009 (ég hef heimildina því miður ekki tiltæka en það kveður við svipaðan tón í setningarræðu hans frá í gær) að nú væri „ekki tími hugsjónasigra“. Þessi sakleysislegu orð segja margt og þau gáfu tóninn fyrir það sem koma skyldi hjá ríkisstjórn sem hefur gefið sig út fyrir að vera hrein en er það ekki.

Steingrímur kveður það lítt til vinsælda fallið, að vera fjármálaráðherra lands á barmi gjaldþrots. Það er allavega rétt hjá honum, að minnsta kosti ef maður, sem fjármálaráðherra, gerir annað en kjósendur manns væntu.

Hér er sannleikskorn sem ekki allir vita: Vinstrihreyfingin – grænt framboð er alls ekki á móti öllu. Hún er ekki á móti kapítalismanum. Í stefnuyfirlýsingu flokksins segir skýrum stöfum að „hreyfingin hafnar alræði markaðshyggjunnar“. Hvað segir þetta? Þetta segir ekki neitt. Þetta er vísvitandi loðið orðalag, hannað til þess að hljóma róttækt en skilur eftir nægar undankomuleiðir, svo menn geti verið „raunsæir“ og „ábyrgir“ þegar tækifærið kemur.

Steingrímur kennir græðgi, spillingu, sjúski, stráksskap og auðvitað frjálshyggjunni um kreppuna, hefur jafnvel nefnt „nýkapítalisma“ (hvað sem það nú er), en hann virðist ekki skilja að rót vandamála Íslands er kapítalisminn sjálfur, sem slíkur. Kreppan og ójöfnuðurinn eru innbyggð í hann. Kapítalisminn ber í sér böl. En Steingrímur trúir á kapítalismann, vegna þess að hann skilur hann ekki og hann er of raunsær og ábyrgur til þess að sjá að önnur hagkerfi séu möguleg. Í þessu ljósi þarf að skoða allt sem hann hefur sagt og gert. Meint endurreisn Íslands er fyrst og fremst endurreisn fjármálakerfisins. Að einhverjir fjármálamarkaðir fari að snúast aftur. Að einhver lánshæfisfyrirtæki (sem gáfu bönkunum mjög jákvæða dóma fram á haust 2008) hækki lánshæfismat Íslands. Að auka hagvöxt – sem rímar illa saman við umhverfisverndina sem hann telur sig aðhyllast. Steingrími finnst hann hafa gert það sem þurfti að gera – vegna þess að hann hreinlega veit ekki betur, sér ekki aðrar leiðir.

Ég get eiginlega ekki sleppt því að taka hér eina tilvitnun úr setningarræðu hans í gær: „Siðlaus græðgishyggja … sem einkavæðir gróðann … en vill svo þjóðnýta tapið þegar allt fer á hliðina, þá á ríkið, þá eigum við að borga. Þetta er versta hagkerfi, versta hugmyndafræði sem hefur verið fundin upp á jörðinni, sannkallaður kapítalismi andskotans.“ – Jæja, ekki andmæli ég því, en spyr um leið, ef Steingrími finnst þetta svona afleitt, hvers vegna hefur hann þá sjálfur í grófum dráttum fylgt þessari stefnu, sem hann talar svo mjög gegn? Hvers vegna hefur hann þá endurreist einkarekið fjármálakerfi, sem gengur ekki út á neitt annað en að einkavæða gróðann? Hvers vegna barðist hann á hæl og hnakka fyrir IceSave-samningum, sem eru ekkert annað en þjóðnýting á tapi?

Rétt er að það komi fram, að þótt Steingrímur sé persónugervingur sinna eigin sjónarmiða í þessum pistli, þá gildir sama gagnrýnin um fleiri, raunar um mjög stóran hluta vinstrihreyfingarinnar í heild undanfarna áratugi, hvorki meira né minna. Þegar vinstrihreyfingin hefur ekki skýra sýn á annars konar þjóðskipulag, ekki skýra stefnu, þá er hún eins og stýrislaust skip. Steingrími verður víst ekki kennt um allar pólitískar hrakfarir vinstrimanna – en þetta eru skilyrðin sem skapa leiðtoga eins og Steingrím. Leiðtoga sem leiða vinstrihreyfinguna í varnarbaráttu fyrir gömlum sigrum og í tiltekt í mesta róðaríinu sem auðvaldið kemur sér í. Krataleiðtoga sem styðja auðvaldið þegar á reynir og gera allt til að bjarga því.

Stimpillinn „á móti öllu“ (nema kapítalismanum) er, því miður, nærri lagi. Flokkurinn var hannaður fyrir varnarbaráttu gegn ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og í þeirri varnarbaráttu var auðvelt að sameina marga. En til að sameina sem flesta þarf að hafa samnefnarann sem lægstan – með öðrum orðum, stefnuna óskýra. Þegar reynir á, er það brothætt hreyfing sem er ekki skýr um það hvað hún vill eða hvert hún ætlar. Undanfarin ár bera því sorglegt vitni.

Á blaðamannafundinum um síðustu helgi sagði Steingrímur að VG hefði „miklu hlutverki að gegna … sem merkisberi róttækrar vinstristefnu, umhverfisverndar, kvenfrelsis og félagslegrar alþjóðahyggju.“ Róttækir vinstrimenn eiga ekki gjöfult samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Umhverfisverndarsinnar boða ekki rafmagnssölusæstrent til Skotlands. Kvenfrelsissinnar svelta ekki kvennastéttir, eins og í heilbrigðiskerfinu. Og félagslegir alþjóðasinnar sækja ekki um aðild að heimsvaldasinnuðu ríkjasambandi eins og Evrópusambandinu.

Í ljósi þess sem orðið er, lætur Katrín svo til leiðast að bjóða sig fram, en með blendnum tilfinningum þó. Hún er greinilega með betri athyglisgáfu, því hún dregur ekki dul á að samstarfið í flokknum hafi gengið misjafnlega, þótt Steingrímur hafi ekki orðið var við neinn klofning. Það er ekki öfundsvert að taka við formennsku í VG eins og flokkurinn er á sig kominn, en formannsefnið reynir (eins og eðlilegt er) að bera höfuðið hátt og tala um baráttugleði. Ekki lái ég henni það, en ég hef reyndar heyrt að baráttugleði sé alls ekki það sem einkenni andann í flokknum.

Ekki eru margar vikur síðan Steingrímur sagði (ég hef heimildina ekki handbæra) að það væri nauðsynlegt að hér væri róttækur vinstriflokkur, sem ég er hjartanlega sammála – og að það væri enginn annar valkostur á vinstrivængnum – hann orðaði það þannig í viðtali við Mogga við gær, að flokkinn sé „eini handhafi svona róttækrar vinstri stefnu“

Það eru ósannindi og Steingrímur veit það vel. Hann veit vel að nú er kominn fram valkostur: Alþýðufylkingin er mætt, til að reisa við merkið sem hefur legið á jörðinni frá því áður en ég man eftir mér. Öfugt við VG hefur Alþýðufylkingin einfalda og skýra stefnu, þar sem efnahagsmál eru í fókus, aðild að Evrópusambandinu er hafnað á fortakslausan, afdráttarlausan hátt, og þar sem við gefum tóninn með sýn á félagsvæðingu í fjármálakerfinu og í öðrum innviðum samfélagsins.

Leave a comment