Um gjafahagkerfi anarkó kommúnismans

Í anarkó-kommúnisma er stefnt að því að afnema peningakerfið og taka þess í stað upp gjafahagkerfi. Markmiðið með því er að þátttakendur geti bæði gefið það sem þeir geta og vilja í hagkerfið og einnig fengið það sem þá vantar. Framleiðsluafurðir í hagkerfinu eru þá bæði í sameign og til frjálsra afnota fyrir hvern sem er. Til að ná þessu fram þarf að hanna sjálft hagkerfið þannig að það sé í hag hvers þátttakanda að deila gæðum sínum og framleiðslu með öðrum í hagkerfinu. Þátttakendur gætu til dæmis ekki fengið úr kerfinu án þess að hafa lagt sitt af mörkum í það.

 

Þetta gæti hljómað eins og óraunhæf útópía, en hafa ber í huga að kerfi sem falla undir þessa hugmyndafræði eru þegar til og í notkun. Þetta er mest áberandi á sviði samskipta- og tölvutækni. Skráaskiptakerfi á netinu eru oft hönnuð einmitt á þann máta að til að geta hlaðið niður gögnum þarf viðkomandi að hafa sent inn gögn sjálfur. Þetta gildir bæði þegar gögnin eru fengin beint frá öðrum tölvum eða í gegnum vefþjón. Hugmyndin er því ekki meiri útópía en svo að þegar nota milljónir manneskja hana um allan heim, í takmörkuðu sniði þó.

 

Eins og öll hagkerfislíkön, byggir hugmyndin um gjafahagkerfi á forsendum sem erfitt er að sanna með óyggjandi hætti að séu réttar, en þó eru nokkur sannfærandi rök fyrir þeim. Í tilfelli gjafahagkerfisins er þannig lagt ákveðið traust á að manneskjur vilji deila með sér því sem þær skapa og framleiða, þó svo að reynt að hanna kerfið á þann hátt að það sé í eigingjörnum hag þátttakandans að deila með sér. Það verður seint hægt að fullyrða að þetta traust á manneskjunni sé á rökum reist. En við vitum þó þegar ýmislegt sem vefengir hina algengu andstæðu sannfæringu um að manneskjan sé í „eðli sínu“ eigingjörn, spillt og gráðug og myndi aldrei deila með sér.

 

Svo við tökum aftur dæmi frá tölvuheiminum, þá vitum við að margir virðast njóta þess að deila með öðrum skrám sínum. Internetið er sneisafullt af ókeypis bókum á tölvutæku formi, kvikmyndum, forritum, tónlist, listaverkum o.s.frv. sem einstaklingar hafa gefið sjálfviljurir, án þess að fá endilega nokkuð haldbært í staðin. Spurningin þar er ekki lengur hvort fólk deili með sér, heldur einungis hversvegna, hversu mikið þeir deila með sér, og svo hverjir deila og hverjir ekki.

 

Við vitum einnig að gerðar hafa verið rannsóknir í sálfræði sem benda einmitt til þess að það sé eðlislægt flestu fólki að deila með sér, hjálpa, sýna náunga sínum hollustu og jafvel að fórna sér fyrir aðra. Fórnfýsi (altruism) og hluttekning eru ekki einungis til, heldur hluti af hugsunarmynstri okkar. Við finnum til og gleðjumst með öðru fólki og það veitir okkur beinlínis gleði að sjá aðra gleðjast, þ.e.a.s. flest okkar gera það. Til eru undantekningartilvik, en þau reiknast sem fötlun. Þessi fötlun, hvort sem það er siðblinda eða eitthvað annað, getur verið þeim sem hana hafa til vansa, enda er hluttekning og hjálpsemi mikilvægur hluti af félagshæfni okkar. Í samfélagi jafningja gengur þeim illa sem aldrei hjálpa öðrum, eða skilja ekki tilfinningar annarra. Það er okkur eðlilegt sem félagsverum að deila og hjálpa.

 

En við vitum einnig að aðstæðurnar og samfélagsgerðin sjálf geta skyggt á jákvæða eiginleika manneskjunnar og dregið fram hliðar sem eru miður geðslegar. Við vitum til dæmis að yfirvaldshlýðni og skortur á samábyrgð, sem kemur fram í kjölfar miðstýrðrar ákvörðunartöku, hefur verið hluti af mörgum verstu glæpum mannkynssögunnar. Yfirvald í samhengi samfélagsgerðarinnar er einfaldlega hlutverk sem staðsett er hærra í samfélagsstigum, en sá sem hlýðir yfirvaldinu. Það virðist vera ákaflega erfitt að neita að gegna jafnvel ömurlegustu skipunum, eins og tilraunir Stanleys Milgrams um hlýðni sýndu á eftirminnilegan hátt.

 

Hvað varðar spurninguna um það hvort og hvernig hægt væri að beita slíku kerfi á önnur svið en tölvutækni, þá er tölvutæknin vissulega sérstök að því leyti „hráefni“ er þar, fræðilega séð, óendanlegt. Við getum afritað sömu skrá nærri því takmarkalaust, en svo er ekki með takmarkaðar auðlindir á borð við fæðu og eldsneyti. Hér skal látið nægja að benda á að slíkar vangaveltur eru tæknilegs eðlis, og þeim ætti að svara með tæknilegum útfærslum sem ekki verður farið í hér. Staðreyndin er sú að ótal stofnanir vinna þegar á þann hátt að líkja má þeim við gjafahagkerfi. Björgunarsveitirnar, ýmis bókasöfn og vinnuhópar, hjálparstofnanir og stuðningshópar, svo eitthvað sé nefnt, starfa öll á grundvelli samhjálpar, gefinnar vinnu og án kröfu um endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt er. Eitthvað er það sem rekur allt það fólk, sem tekur þátt í slíku starfi, til þess að gefa vinnu sína.

Leave a comment